Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Eru eiginleikarnir í Galatabréfinu 5:22, 23 tæmandi listi yfir ,ávöxt andans‘?

Í þessum versum eru taldir upp níu góðir eiginleikar: „Ávöxtur andans er ... kærleikur, gleði, friður, þolinmæði, góðvild, gæska, trú, mildi og sjálfstjórn.“ En þetta eru ekki einu eiginleikarnir sem andi Guðs getur hjálpað okkur að rækta með okkur.

Tökum eftir því sem Páll postuli segir í versunum á undan: „Verk holdsins eru ... kynferðislegt siðleysi, óhreinleiki, blygðunarlaus hegðun, skurðgoðadýrkun, dulspeki, fjandskapur, deilur, afbrýði, reiðiköst, ágreiningur, sundrung, sértrúarklofningur, öfund, ofdrykkja, svallveislur og annað þessu líkt.“ (Gal. 5:19–21) Páll hefði því getað nefnt fleira sem flokkaðist undir „verk holdsins“, eins og það sem nefnt er í Kólossubréfinu 3:5. Og eftir að hafa talið upp níu góða eiginleika sagði hann: „Gegn slíku eru engin lög.“ Páll reyndi sem sagt ekki að nefna alla þá góðu eiginleika sem við getum þroskað með okkur með hjálp heilags anda.

Það er augljóst þegar við berum þennan lista saman við það sem Páll skrifaði söfnuðinum í Efesus: „Ávöxtur ljóssins er hvers kyns góðvild, réttlæti og sannleikur.“ (Ef. 5:8, 9) „Góðvild,“ ásamt réttlæti og sannleika er hluti af ,ávexti ljóssins‘ en þessir eiginleikar eru einnig hluti af ,ávexti andans‘.

Páll hvatti Tímóteus á svipaðan hátt til að ,leggja rækt við réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, þolgæði og mildi‘ – sex góða eiginleika. (1. Tím. 6:11) Aðeins þrír þessara eiginleika (trú, kærleikur og mildi) eru nefndir sem hluti af ,ávexti andans‘. En Tímóteus hefur eflaust líka viljað hjálp heilags anda til að þroska með sér hina eiginleikana sem voru nefndir: réttlæti, guðrækni og þolgæði. – Samanber Kólossubréfið 3:12; 2. Pétursbréf 1:5–7.

Galatabréfið 5:22, 23 er þar af leiðandi ekki tæmandi listi yfir kristna eiginleika. Andi Guðs getur hjálpað okkur að tileinka okkur eiginleikana níu sem eru taldir upp sem „ávöxtur andans“. En við þurfum þó að tileinka okkur fleiri eiginleika til að þroskast sem kristnir menn og „íklæðast hinum nýja manni sem er skapaður samkvæmt vilja Guðs og byggist á sönnu réttlæti og hollustu“. – Ef. 4:24.