Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 23

Þú ert aldrei einn með Jehóva þér við hlið

Þú ert aldrei einn með Jehóva þér við hlið

„Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann.“ – SÁLM. 145:18.

SÖNGUR 28 Hver er þinn vinur, Guð?

YFIRLIT *

1. Hvers vegna geta þjónar Jehóva stundum verið einmana?

FLEST erum við einmana af og til. Hjá sumum líður einmanaleikinn fljótlega hjá. En aðrir eru einmana í lengri tíma. Við getum verið einmana þótt við séum umkringd fólki. Sumir eiga erfitt með að eignast vini í nýjum söfnuði. Aðrir hafa alist upp í samheldinni fjölskyldu og finna fyrir einmanaleika þegar þeir flytja langt burt frá henni. Enn aðrir sakna félagsskaparins við ástvin sem þeir hafa misst. Og sumum þjónum Guðs finnst þeir einir á báti þegar þeir standa andspænis höfnun eða andstöðu frá fyrrverandi vinum og fjölskyldu sem er ekki í trúnni. Þetta á sérstaklega við ef þeir hafa kynnst sannleikanum nýlega.

2. Hvaða spurningum fáum við svör við í þessari grein?

2 Jehóva veit allt um okkur og skilur okkur til fulls. Hann veit af því þegar við erum einmana og hann langar til að hjálpa okkur að takast á við þessar tilfinningar. Hvernig hjálpar hann okkur? Hvað getum við gert sjálf? Og hvernig getum við hjálpað öðrum í söfnuðinum sem eru einmana? Skoðum svörin við þessum spurningum.

JEHÓVA ER ANNT UM OKKUR

Jehóva sendi engil til að fullvissa Elía um að hann væri ekki einn. (Sjá 3. grein.)

3. Hvernig lét Jehóva sér annt um Elía?

3 Það skiptir Jehóva miklu máli að þjónum hans líði vel. Hann er nálægur hverju og einu okkar og tekur eftir því þegar við erum döpur eða kjarklítil. (Sálm. 145:18, 19) Tökum eftir hversu vakandi Jehóva var fyrir tilfinningum Elía spámanns og hvað hann gerði til að hjálpa honum. Þessi trúfasti maður var uppi á erfiðu tímabili í sögu Ísraels. Tilbiðjendur Jehóva voru vægðarlaust ofsóttir og Elía var sérstakur skotspónn voldugra manna sem stóðu gegn Guði. (1. Kon. 19:1, 2) Elía hélt að hann væri eini spámaðurinn eftir sem þjónaði Jehóva og það getur líka hafa dregið úr honum kjark. (1. Kon. 19:10) Jehóva kom honum fljótlega til hjálpar. Hann sendi engil til að fullvissa spámann sinn um að hann væri ekki einn og að margir Ísraelsmenn óttuðust enn Guð. – 1. Kon. 19:5, 18.

4. Hvernig sýnir Markús 10:29, 30 að Jehóva er annt um þjóna sína sem njóta ekki stuðnings fjölskyldu og vina?

4 Jehóva skilur að sum okkar hafa þurft að færa talsverðar fórnir til að geta þjónað honum. Við njótum kannski ekki lengur stuðnings frá fjölskyldu sem er ekki í trúnni og fyrrverandi vinum. Kannski hafði Pétur svolitlar áhyggjur þegar hann spurði Jesú: „Við höfum yfirgefið allt og fylgt þér. Hvað fáum við þá?“ (Matt. 19:27) Jesús fullvissaði lærisveina sína hlýlega um að þeir myndu eignast stóra andlega fjölskyldu. (Lestu Markús 10:29, 30.) Sem höfuð andlegrar fjölskyldu okkar lofar Jehóva að styðja þá sem vilja þjóna honum. (Sálm. 9:11) Athugum hvað við getum gert til að hafa gagn af hjálpinni sem Jehóva veitir þegar við tökumst á við einmanaleika.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT EF ÞÚ FINNUR TIL EINMANALEIKA

5. Hvers vegna er gagnlegt fyrir þig að hugleiða hvernig Jehóva styður þig?

5 Beindu athyglinni að því hvernig Jehóva styður þig. (Sálm. 55:23) Það getur hjálpað þér að sjá að þú ert ekki einn. Einhleyp systir sem heitir Carol * á ekki fjölskyldu í trúnni. Hún segir: „Þegar ég lít til baka og hugleiði hvernig Jehóva hefur stutt mig í gegnum erfiðleika hjálpar það mér að sjá að ég er ekki ein. Og það segir mér að Jehóva muni alltaf vera til staðar fyrir mig.“

6. Hvernig getur það sem segir í 1. Pétursbréfi 5:9, 10 verið uppörvandi fyrir þá sem glíma við einmanaleika?

6 Veltu því fyrir þér hvernig Jehóva hjálpar trúsystkinum þínum sem finna til einmanaleika. (Lestu 1. Pétursbréf 5:9, 10.) Hiroshi, bróðir sem hefur verið eini votturinn í fjölskyldu sinni í mörg ár, segir: „Það er auðséð að enginn í söfnuðinum býr við fullkomnar aðstæður. Við vitum að við gerum öll okkar besta til að þjóna Jehóva og það getur uppörvað okkur sem erum ein í trúnni.

7. Hvernig hjálpar bænin þér?

7 Viðhaltu góðum andlegum venjum. Það felur meðal annars í sér að segja Jehóva opinskátt hvernig þér líður. (1. Pét. 5:7) „Eitt af því sem hjálpaði mér hvað mest að glíma við einmanaleika var að biðja innilega til Jehóva,“ segir Massiel. Þessari ungu systur fannst hún einangrast frá fjölskyldunni þegar hún tók afstöðu með sannleikanum. „Hann var mér góður faðir. Ég bað til hans oft á dag og sagði honum hvernig mér leið.“

Það getur dregið úr einmanaleika að hlusta á hljóðupptökur af biblíulestri og lestri úr biblíutengdum ritum. (Sjá 8. grein. *)

8. Hvernig hjálpar það þér að lesa orð Guðs og hugleiða það?

8 Lestu orð Guðs reglulega og hugleiddu frásögur sem sýna fram á að Jehóva elskar þig. Bianca er systir sem hefur mátt þola neikvæðar athugasemdir frá fjölskyldunni sinni. Hún segir: „Það hefur hjálpað mér mikið að lesa og hugleiða frásögur í Biblíunni og ævisögur þjóna Jehóva sem hafa verið í svipuðum aðstæðum.“ Sumir þjóna Jehóva leggja á minnið biblíuvers sem veita sérstaka huggun eins og Sálm 27:10 og Jesaja 41:10. Öðrum finnst það draga úr einmanaleika að hlusta á hljóðupptökur af námsefninu þegar þeir búa sig undir samkomur eða lesa í Biblíunni.

9. Hvernig hjálpar það þér að sækja samkomur?

9 Leggðu þig fram við að mæta alltaf á samkomur. Hvetjandi dagskráin kemur þér að gagni og þú getur kynnst bræðrum þínum og systrum betur. (Hebr. 10:24, 25) Massiel, sem áður er vitnað í, segir: „Þótt ég væri mjög feimin var ég ákveðin í að mæta á hverja einustu samkomu og taka þátt í samkomunum. Þannig fannst mér ég vera tengdari söfnuðinum.“

10. Hvers vegna er mikilvægt að eignast trúfasta bræður og systur að vinum?

10 Ræktaðu vináttu við trúfasta bræður og systur. Reyndu að eignast vini í söfnuðinum sem þú getur lært af. Þeir geta verið af ólíkum uppruna og þú og á öðrum aldri. Biblían minnir okkur á að visku sé „að finna hjá öldungum“. (Job. 12:12) Þeir sem eldri eru geta líka lært margt af þeim yngri í söfnuðinum. Davíð var langtum yngri en Jónatan en það kom ekki í veg fyrir að þeir yrðu nánir vinir. (1. Sam. 18:1) Davíð og Jónatan hjálpuðu hvor öðrum að þjóna Jehóva við ýmsar erfiðar aðstæður. (1 Sam. 23:16-18) „Bræður okkar og systur geta verið sem foreldrar okkar eða systkini í söfnuðinum,“ segir Irina en hún er eini votturinn í sinni fjölskyldu eins og er. „Jehóva getur gefið okkur þau sem fjölskyldu okkar.“

11. Hvað þurfum við að gera til að eignast nána vini?

11 Það er ekki alltaf auðvelt að eignast vini, sérstaklega ef þú ert feiminn. Ratna er feimin systir sem tók við sannleikanum þrátt fyrir andstöðu. Hún segir: „Ég þurfti að viðurkenna að ég hafði þörf fyrir hjálp og stuðning bræðra og systra í söfnuðinum.“ Það getur verið erfitt að segja öðrum hvernig manni líður en þegar maður gerir það eignast maður náinn vin. Vinir þínir vilja hvetja þig og styðja en þú þarft líka að vera tilbúinn að segja þeim hvernig þeir geta gert það.

12. Hvernig getur boðunin hjálpað þér að eignast góða vini?

12 Ein besta leiðin til að eignast vini er að fara í boðunina með trúsystkinum okkar. Carol, sem minnst er á fyrr í greininni, segir: „Ég hef eignast margar góðar vinkonur í gegnum boðunina og annað sem tengist þjónustu Jehóva. Á liðnum árum hefur Jehóva stutt mig með hjálp þessara trúsystkina.“ Það er þess virði að eignast vini sem þjóna Jehóva trúfastlega. Hann notar slíka vináttu til að hjálpa þér að glíma við erfiðar tilfinningar eins og einmanaleika. – Orðskv. 17:17.

HJÁLPAÐU ÖÐRUM AÐ VERA HLUTI AF FJÖLSKYLDU OKKAR

13. Hvaða ábyrgð hafa allir í söfnuðinum?

13 Allir í söfnuðinum hafa þá ábyrgð að stuðla að kærleiksríku og friðsömu andrúmslofti þar sem engum finnst hann algerlega einn. (Jóh. 13:35) Það sem við gerum og segjum getur gert gæfumuninn. Tökum eftir hvað systir ein sagði: „Söfnuðurinn varð fjölskylda mín þegar ég kynntist sannleikanum. Ég hefði ekki getað orðið vottur Jehóva án stuðnings safnaðarins.“ Hvað geturðu gert til að hjálpa þeim sem eru einir í sannleikanum að finna að bræður og systur elski þá?

14. Hvað geturðu gert til að vingast við þá sem eru nýir?

14 Reyndu að vingast við þá sem eru nýir. Við getum byrjað á því að bjóða nýja hjartanlega velkomna í söfnuðinn. (Rómv. 15:7) En við viljum gera meira en að kasta kveðju á þá. Við viljum smátt og smátt rækta sterk vináttubönd. Sýndu þess vegna nýjum hlýju og einlægan áhuga. Reyndu að skilja erfiðleikana sem þeir ganga í gegnum án þess þó að spyrja spurninga sem gera þá vandræðalega. Sumir eiga ef til vill erfitt með að tjá tilfinningar sínar. Þess vegna skaltu ekki þrýsta á neinn til að tala. Reyndu frekar með háttvísum spurningum að fá þá til að tjá sig og hlustaðu af þolinmæði. Þú gætir til dæmis spurt hvernig þeir kynntust sannleikanum.

15. Hvernig geta þroskaðir þjónar Jehóva hjálpað öðrum í söfnuðinum?

15 Allir í söfnuðinum þroskast í trúnni þegar reyndir þjónar Jehóva, sérstaklega öldungarnir, sýna þeim áhuga. Melissa var alin upp í sannleikanum af mömmu sinni. Hún segir: „Ég get ekki lýst hversu mikils ég met bræðurna sem hafa reynst mér andlegir feður í gegnum árin. Ég gat alltaf leitað til þeirra þegar ég þurfti að tala við einhvern.“ Mauricio er ungur bróðir sem fannst hann yfirgefinn þegar biblíukennari hans varð óvirkur í sannleikanum. Hann segir: „Það hjálpaði mér heilmikið að öldungarnir skyldu sýna mér persónulegan áhuga. Þeir töluðu reglulega við mig. Þeir fóru með mér í boðunina, sögðu mér frá gimsteinum sem þeir höfðu fundið í sjálfsnámi sínu og tóku jafnvel þátt í íþróttum með mér.“ Melissa og Mauricio hófu bæði þjónustu í fullu starfi.

Er einhver í þínum söfnuði sem kynni sérstaklega að meta góðvild þína og félagsskap? (Sjá 16.–19. grein.) *

16, 17. Hvernig gætirðu rétt öðrum hjálparhönd?

16 Réttu öðrum hjálparhönd. (Gal. 6:10) „Oft er lítill vinargreiði á réttum tíma allt sem þarf,“ segir Leo, sem er trúboði í landi langt frá fjölskyldu sinni. „Einu sinni lenti ég í árekstri. Ég fann fyrir mikilli streitu þegar ég var loksins kominn heim. En þá buðu hjón mér heim til sín í snarl. Ég man ekki hvað var í matinn en ég man hvað þau voru vinaleg og hlustuðu á mig. Mér fór að líða miklu betur.“

17 Við kunnum öll að meta viðburði á vegum safnaðarins eins og til dæmis svæðismót og umdæmismót. Það er ekki síst vegna þess að það gefur okkur tækifæri til að njóta samveru og tala saman um dagskrána. En Carol, sem minnst er á áður, segir: „Ég er sérstaklega einmana á svæðismótum og umdæmismótum.“ Hvers vegna? „Jafnvel þótt ég sé umkringd hundruðum eða jafnvel þúsundum bræðra og systra,“ segir hún „eru þau oft með fjölskyldum sínum. Við slík tækifæri er ég sérstaklega einmana.“ Öðrum finnst erfitt að sækja fyrsta mótið eftir að hafa misst ástvin. Þekkir þú einhvern í þannig aðstæðum? Hvers vegna ekki að bjóða honum að vera með þér og fjölskyldu þinni á næsta viðburði á vegum safnaðarins?

18. Hvernig getum við farið eftir 2. Korintubréfi 6:11–13 þegar við sýnum gestrisni?

18 Verðu tíma með öðrum. Bjóddu mismunandi bræðrum og systrum að vera með þér í frístundum, sérstaklega þeim sem eru einmana. Við viljum gera „rúmgott í hjörtum okkar,“ sérstaklega gagnvart þeim. (Lestu 2. Korintubréf 6:11–13.) „Það var frábært þegar trúsystkini buðu okkur að heimsækja sig og fjölskyldur sínar eða ferðast með sér,“ segir Melissa, sem er minnst á áður. Er einhver í þínum söfnuði sem þú gætir sýnt gestrisni?

19. Hvenær getur verið sérstaklega dýrmætt að verja tíma með trúsystkinum?

19 Trúsystkini kunna kannski sérstaklega að meta félagsskap okkar á vissum tímum. Sumum gæti fundist mjög erfitt að umgangast fjölskyldu utan safnaðarins þegar hún heldur upp á veraldlegar hátíðir. Öðrum líður kannski mjög illa á vissum dögum eins og til dæmis á dánarafmæli ástvinar. Þegar við bjóðumst til að vera með bræðrum og systrum sem ganga í gegnum slíka erfiðleika sýnum við þeim að okkur er „einlæglega annt“ um þau. – Fil. 2:20.

20. Hvernig getur það sem Jesús segir í Matteusi 12:48–50 hjálpað okkur þegar við erum einmana?

20 Það er margt sem getur valdið einmanaleika hjá þjónum Jehóva. En við megum aldrei gleyma að Jehóva veit mætavel af slíkum tilfinningum. Hann gefur okkur það sem við þurfum, oft fyrir milligöngu trúsystkina okkar. (Lestu Matteus 12:48–50.) Við getum sýnt Jehóva að við erum þakklát fyrir söfnuðinn með því að gera okkar besta til að hjálpa trúsystkinum okkar. Óháð því hvernig okkur kann að líða erum við aldrei ein vegna þess að Jehóva er alltaf við hlið okkar.

SÖNGUR 46 Við þökkum þér, Jehóva

^ gr. 5 Ertu stundum einmana? Þá máttu vera viss um að Jehóva veit af því og að hann er tilbúinn að hjálpa þér. Í þessari grein skoðum við hvað þú getur gert til að takast á við einmanaleika. Við skoðum líka hvað þú getur gert til að uppörva trúsystkini sem eru einmana.

^ gr. 5 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 60 MYND: Bróðir sem hefur misst eiginkonu sína hefur gagn af því að hlusta á hljóðupptökur af biblíulestri og námsefni.

^ gr. 62 MYND: Bróðir og dóttir hans heimsækja eldri bróður í söfnuðinum og sýna honum góðvild.