Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 25

Verðum ekki „þessum minnstu“ til hrösunar

Verðum ekki „þessum minnstu“ til hrösunar

,Fyrirlítið ekki neinn af þessum minnstu.‘ – MATT. 18:10.

SÖNGUR 113 Friðurinn sem við njótum

YFIRLIT *

1. Hvað hefur Jehóva gert fyrir hvert og eitt okkar?

JEHÓVA hefur dregið hvert og eitt okkar til sín. (Jóh. 6:44) Hugleiddu hvað það merkir. Jehóva skoðaði vandlega milljarða manna í heiminum og sá eitthvað dýrmætt í þér – einlægt hjarta sem gæti elskað hann. (1. Kron. 28:9) Jehóva þekkir þig, skilur þig og elskar þig. Það er mjög hughreystandi.

2. Hvernig hjálpar Jesús okkur að skilja hversu annt Jehóva er um hvern og einn sauða sinna?

2 Jehóva er innilega annt um þig og honum er líka annt um alla bræður þína og systur í söfnuðinum. Til að hjálpa okkur að skilja þetta líkti Jesús Jehóva við hirði. Hvað gerir hirðir ef einn sauður af 100 villist frá hjörðinni? „Hann skilur hina 99 eftir á fjallinu og fer að leita að þeim týnda.“ Þegar hirðirinn finnur sauðinn skammar hann ekki sauðinn fyrir að hafa villst. Hann gleðst. Hver er lærdómurinn? Allir sauðir Jehóva eru mikilvægir í augum hans. Jesús sagði: „Faðir minn á himnum vill ekki ... að einn einasti þessara minnstu glatist.“ – Matt. 18:12–14.

3. Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Við myndum sannarlega aldrei vilja draga kjark úr neinum af bræðrum okkar eða systrum. Hvernig getum við forðast að vera öðrum til hrösunar? Og hvað getum við gert ef einhver særir okkur? Þessum spurningum verður svarað í þessari grein. En fyrst fáum við að vita aðeins meira um þá sem eru nefndir ,þessir minnstu‘ í Matteusi 18. kafla.

HVERJIR ERU ,ÞESSIR MINNSTU‘?

4. Hverjir eru ,þessir minnstu‘?

4 ,Þessir minnstu‘ eru lærisveinar Jesú á öllum aldri. Þeir eru allir „eins og börn“ í þeim skilningi að þeir eru fúsir að þiggja kennslu frá Jesú, óháð því á hvaða aldri þeir eru. (Matt. 18:3) Þótt þeir séu af ólíkum uppruna og menningu og hafi mismunandi skoðanir og persónuleika trúa þeir allir á Krist og hann elskar þá innilega. – Matt. 18:6; Jóh. 1:12.

5. Hvernig líður Jehóva þegar einhver særir einn af þjónum hans eða verður til þess að hann hrasi?

5 Allir ,þessir minnstu‘ eru dýrmætir í augum Jehóva. Til að setja okkur í hans spor skulum hugsa um þær tilfinningar sem við berum til barna. Okkur finnst þau mjög dýrmæt. Við viljum vernda þau vegna þess að þau skortir styrk, reynslu og visku sem fullorðnir hafa. Okkur finnst vont að sjá einhvern sem er særður en við komumst sérstaklega í uppnám og verðum jafnvel reið þegar einhver kemur illa fram við barn. Jehóva vill á sama hátt vernda okkur og það særir hann og vekur jafnvel reiði hans þegar einhver særir þjón hans eða verður til þess að hann hrasi. – Jes. 63:9; Mark. 9:42.

6. Hvert er viðhorf heimsins til lærisveina Jesú samkvæmt 1. Korintubréfi 1:26–29?

6 Á hvaða annan hátt eru lærisveinar Jesú eins og ,þessir minnstu‘? Hverjir eru mikilvægir í augum heimsins? Þeir sem eru ríkir, frægir og valdamiklir. Lærisveinar Jesú virðast aftur á móti vera ómerkilegir og lítilfjörlegir, ,þessir minnstu‘. (Lestu 1. Korintubréf 1:26–29.) En þeir eru það ekki í augum Jehóva.

7. Hvaða tilfinningar vill Jehóva að við berum til bræðra okkar og systra?

7 Jehóva elskar alla þjóna sína hvort sem þeir hafa þjónað honum í mörg ár eða eru nýir í trúnni. Öll trúsystkini okkar eru mikilvæg í augum Jehóva þannig að þau ættu líka að vera mikilvæg í okkar augum. Við viljum elska „allt bræðrasamfélagið,“ ekki bara hluta þess. (1. Pét. 2:17) Við ættum að vera fús til að gera hvað sem þarf til að vernda og annast bræður og systur. Ef við komumst að því að við höfum sært eða móðgað einhvern ættum við ekki bara að hunsa það og álykta að viðkomandi sé bara of viðkvæmur og þurfi bara að sætta sig við það. Hvers vegna móðgast sumir? Sumir bræður og systur hafa kannski lágt sjálfsmat vegna uppeldisins sem þau fengu. Aðrir eru nýir í trúnni og hafa ekki lært að bregðast við ófullkomleika annarra. Hver sem ástæðan er ættum við að reyna að semja frið. Sá sem móðgast auðveldlega þarf á hinn bóginn að átta sig á því að það er óæskilegur eiginleiki sem þarf að vinna í. Hann þarf að gera það bæði sjálfs síns vegna og til að eiga góð samskipti við aðra.

ÁLÍTUM AÐRA OKKUR MEIRI

8. Hvaða útbreidda viðhorf hafði áhrif á lærisveina Jesú?

8 Hvað fékk Jesú til að tala um ,þessa minnstu‘? Lærisveinar hans höfðu spurt hann: „Hver er eiginlega mestur í himnaríki?“ (Matt. 18:1) Margir Gyðingar á þeim tíma álitu stöðu og stétt skipta mjög miklu máli. Fræðimaður segir: „Það mikilvægasta í augum fólks var heiður, orðspor, frægð, viðurkenning og virðing.“

9. Hvað þurftu lærisveinar Jesú að gera?

9 Jesús vissi að lærisveinar sínir þyrftu að leggja sig alla fram til að uppræta úr hjarta sér samkeppnisandann sem var svo ríkjandi hjá Gyðingum. Hann sagði við þá: „Sá sem er mestur á meðal ykkar [á] að vera eins og hann sé yngstur og sá sem fer með forystu eins og þjónn.“ (Lúk. 22:26) Við högum okkur eins og ,sá yngsti‘ þegar við lítum á ,aðra sem okkur meiri‘. (Fil. 2:3) Því betur sem við þroskum með okkur þetta viðhorf því minni líkur eru á að við verðum öðrum til hrösunar.

10. Hvaða ráð frá Páli ættum við að taka til okkar?

10 Allir bræður okkar og systur eru okkur meiri á einn eða annan hátt. Við sjáum það vel þegar við horfum á góða eiginleika þeirra. Við ættum að taka til okkar ráðin sem Páll gaf Korintumönnum: „Hvað hefurðu fram yfir aðra? Hvað hefurðu sem þú hefur ekki fengið að gjöf? Og ef þér var gefið það, hvers vegna stærirðu þig eins og þú hafir ekki fengið það að gjöf?“ (1. Kor. 4:7) Við ættum að forðast þá freistingu að draga athygli að okkur sjálfum eða hugsa sem svo að við séum öðrum meiri. Ef bróðir flytur hvetjandi ræður eða systur gengur vel að koma af stað biblíunámskeiðum ættu þau að vera fljót að eigna Jehóva heiðurinn.

FYRIRGEFUM „AF ÖLLU HJARTA“

11. Hvað getum við lært af dæmisögu Jesú um konunginn og þjón hans?

11 Eftir að Jesús hafði varað fylgjendur sína við að verða öðrum til hrösunar sagði hann dæmisögu um konung og þjón hans. Konungurinn gaf upp stóra skuld sem þjónninn hefði aldrei getað borgað. Síðar neitaði þjónninn að gefa samþjóni sínum upp langtum minni skuld. Að lokum lét konungurinn setja þjóninn sem sýndi ekki miskunn í fangelsi. Hver er lærdómurinn? Jesús sagði: „Faðir minn á himnum fer eins með ykkur ef þið fyrirgefið ekki bróður ykkar af öllu hjarta.“ – Matt. 18:21–35.

12. Hvernig sköðum við aðra ef við neitum að fyrirgefa?

12 Það sem þjónninn gerði skaðaði ekki einungis hann sjálfan heldur einnig aðra. Í fyrsta lagi var hann miskunnarlaus við samþjón sinn og „lét varpa honum í fangelsi ... þangað til hann gæti borgað skuldina“. Í öðru lagi bitnaði það á öðrum þjónum sem fylgdust með. „Þegar samþjónar hans sáu hvað hafði gerst urðu þeir miður sín.“ Verk okkar geta á sama hátt haft áhrif á aðra. Hvað getur gerst ef einhver kemur illa fram við okkur og við neitum að fyrirgefa honum? Fyrir það fyrsta særum við hann af því að við neitum að fyrirgefa honum, sniðgöngum hann og sýnum honum ekki kærleika. Við vekjum líka óróa í söfnuðinum því aðrir taka eftir því að við erum ósátt við hann.

Elur þú með þér gremju eða fyrirgefur þú af öllu hjarta? (Sjá 13. og 14. grein.) *

13. Hvað getum við lært af brautryðjandasystur einni?

13 Þegar við fyrirgefum bræðrum okkar og systrum kemur það okkur sjálfum og öðrum til góða. Það var reynsla brautryðjandasystur sem við skulum kalla Crystal. Systir í söfnuðinum særði hana. Crystal segir: „Særandi orð hennar voru stundum eins og hnífsstungur. Í boðuninni vildi ég ekki einu sinni vera í sama bíl og hún. Ég fór að missa áhugann og gleðina.“ Crystal fannst hún hafa ríka ástæðu til að vera sár. En hún lét ekki gremju og sjálfsvorkunn ná tökum á sér. Hún sýndi auðmýkt og fór eftir ráðum Biblíunnar sem komu fram í greininni „Fyrirgefðu af hjarta“ í Varðturninum 1. desember 1999. Hún fyrirgaf systur sinni. Crystal segir: „Ég skil núna að við erum öll að gera okkar besta til að breyta okkur og Jehóva fyrirgefur okkur fúslega og á hverjum degi. Mér finnst þungu fargi af mér létt. Og ég hef endurheimt gleðina.“

14. Hvaða vandamál virðist Pétur postuli hafa glímt við samkvæmt Matteusi 18:21, 22 og hvað lærum við af svari Jesú?

14 Við vitum að við ættum að fyrirgefa, að það er rétt að gera það. En það getur verið erfitt. Pétri postula hefur kannski stundum fundist það. (Lestu Matteus 18:21, 22.) Hvað er til ráða? Fyrst skaltu hugleiða hversu mikið Jehóva hefur fyrirgefið þér. (Matt. 18:32, 33) Við verðskuldum ekki fyrirgefningu hans en hann er fús að veita okkur hana. (Sálm. 103:8–10) Auk þess „er okkur skylt að elska hvert annað“. Fyrirgefning er því ekki val. Við skuldum bræðrum okkar og systrum að fyrirgefa þeim. (1. Jóh. 4:11) Hugleiðum líka hvað það hefur í för með sér að fyrirgefa. Við gætum hjálpað þeim sem hefur komið illa fram við okkur, stuðlað að einingu safnaðarins, varðveitt vináttu okkar við Jehóva og losnað undan íþyngjandi byrði. (2. Kor. 2:7; Kól. 3:14) Síðast en ekki síst skaltu biðja til hans sem biður okkur að fyrirgefa. Leyfðu Satan ekki að spilla góðu sambandi þínu við bræður þína og systur. (Ef. 4:26, 27) Við þurfum á hjálp Jehóva að halda til að falla ekki í gildru Satans.

LÁTTU EKKERT VERÐA ÞÉR TIL HRÖSUNAR

15. Hvað getum við gert ef það sem trúsystkini gerir kemur okkur í uppnám, samanber Kólossubréfið 3:13?

15 En hvað nú ef trúsystkini hefur gert eitthvað sem kemur þér í uppnám? Hvað ættirðu þá að gera? Gerðu þitt ýtrasta til að varðveita friðinn. Leitaðu einlæglega til Jehóva í bæn og biddu hann um að blessa þann sem móðgaði þig og hjálpa þér að koma auga á góða eiginleika hans – eiginleikana sem Jehóva kann að meta í fari hans. (Lúk. 6:28) Ef þú getur ekki leitt hjá þér það sem hann hefur gert skaltu hugleiða hvernig best sé að ræða málin við hann. Það er alltaf best að gera ráð fyrir því að bróðir (eða systir) myndi aldrei vilja særa þig viljandi. (Matt. 5:23, 24; 1. Kor. 13:7) Láttu hann njóta vafans þegar þú talar við hann. Hvað ef hann vill ekki sættast? ,Haltu áfram að umbera‘ hann. Gefstu ekki upp á honum. (Lestu Kólossubréfið 3:13.) Og mikilvægast af öllu er að ala ekki á gremju í garð hans því að það gæti skaðað vináttu þína við Jehóva. Láttu ekkert verða til þess að þú hrasir. Þannig sannarðu að þú elskar Jehóva umfram allt annað. – Sálm. 119:165.

16. Hvaða ábyrgð höfum við hvert og eitt okkar?

16 Við erum innilega þakklát að mega þjóna Jehóva sameinuð sem „ein hjörð“ undir ,einum hirði‘. (Jóh. 10:16) Bókin Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva segir á blaðsíðu 166 og 167: „Þegar þú ... gerðist vottur hans varðstu hluti af sameinuðu bræðrafélagi ... Þú nýtur góðs af því að búa í þessari paradís og þér ber skylda til að leggja þitt af mörkum til að viðhalda henni.“ Við þurfum þess vegna að venja okkur á að „sjá þau [trúsystkini okkar] sömu augum og Jehóva“. Við erum öll í hópi ,þessara minnstu‘ sem eru dýrmætir í augum Jehóva. Er það þannig sem þú lítur á bræður þína og systur? Jehóva tekur eftir og kann að meta allt sem þú gerir til að hjálpa þeim og sinna. – Matt. 10:42.

17. Hvað erum við staðráðin í að gera?

17 Við elskum trúsystkini okkar. Þess vegna erum við „staðráðin í að gera ekkert sem getur orðið til þess að bróðir hrasi eða falli frá trúnni“. (Rómv. 14:13) Við lítum á bræður okkar og systur sem okkur meiri og við viljum fyrirgefa þeim af öllu hjarta. Látum ekkert sem aðrir gera verða okkur til hrösunar. Gerum öllu heldur „allt sem við getum til að stuðla að friði og byggja hvert annað upp“. – Rómv. 14:19.

SÖNGUR 130 Fyrirgefum fúslega

^ gr. 5 Vegna ófullkomleika okkar segjum við eða gerum kannski eitthvað sem særir bræður okkar og systur. Hver eru viðbrögð okkar? Reynum við að endurheimta gott samband við þau? Erum við fljót að biðjast afsökunar? Eða hugsum við sem svo að það sé þeirra vandamál ef þau eru ósátt? Erum við sjálf kannski fljót að móðgast vegna þess sem aðrir segja eða gera? Réttlætum við okkur með því að segja að þannig séum við bara og neitum að breyta okkur? Eða horfumst við í augu við veikleika okkar og skiljum að við þurfum að breyta okkur?

^ gr. 53 MYND: Systir er ósátt við aðra systur í söfnuðinum. Eftir að hafa rætt saman í einrúmi afgreiða þær málið og þjóna Jehóva glaðar.