NÁMSGREIN 24
Jehóva fyrirgefur ríkulega
„Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum sem ákalla þig.“ – SÁLM. 86:5.
SÖNGUR 42 Bæn þjóns Guðs
YFIRLIT *
1. Hvað benti Salómon konungur á í Prédikaranum 7:20?
SALÓMON konungur sagði: „Enginn réttlátur maður er til á jörðinni sem gert hefur gott eitt og aldrei syndgað.“ (Préd. 7:20) Það eru orð að sönnu. Við erum öll syndug. (1. Jóh. 1:8) Við þurfum öll á fyrirgefningu að halda, bæði frá Guði og mönnum.
2. Hvernig líður þér þegar náinn vinur fyrirgefur þér?
2 Þú hefur örugglega einhvern tíma sært náinn vin. Þá hefurðu án efa viljað endurheimta gott samband við hann þannig að þú fórst til hans til að biðjast einlæglega fyrirgefningar. Hvernig leið þér þegar vinur þinn fyrirgaf þér? Það hefur örugglega verið mikill léttir og þú endurheimtir gleðina.
3. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?
3 Við viljum öll eiga eins sterkt samband við Jehóva og mögulegt er. En það er óhjákvæmilegt að við segjum eða gerum eitthvað af og til sem særir hann. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva fyrirgefur okkur? Að hvaða leyti er fyrirgefning hans einstök miðað við þá fyrirgefningu sem við getum veitt? Og hverjum er hann tilbúinn til að fyrirgefa?
JEHÓVA ER FÚS TIL AÐ FYRIRGEFA
4. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva sé fús til að fyrirgefa?
4 Orð Jehóva fullvissar okkur um að hann sé fús til að fyrirgefa. Þegar hann birtist Móse á Sínaífjalli fyrir milligöngu engils sagði hann: „Drottinn, Drottinn er miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur. Hann sýnir þúsundum gæsku, fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“ (2. Mós. 34:6, 7) Jehóva er mjög umhyggjusamur og miskunnsamur og alltaf fús til að fyrirgefa iðrunarfullum syndurum. – Neh. 9:17; Sálm. 86:15.
5. Hvað fær vitneskja Jehóva um mannfólkið hann til að gera samkvæmt Sálmi 103:13, 14?
5 Sem skapari okkar veit Jehóva allt um okkur. Hugsa sér! Hann gerþekkir okkur. Hann veit allt um hverja einustu persónu á jörðinni. (Sálm. 139:15–17) Hann veit að við höfum fengið ófullkomleikann í arf frá foreldrum okkar. Og hann veit að lífsreynsla okkar hefur mótað persónuleika okkar. Hvaða áhrif hefur þessi vitneskja á hann? Hún gerir hann mjög miskunnsaman í okkar garð. – Sálm. 78:39; lestu Sálm 103:13, 14.
6. Hvernig hefur Jehóva sýnt fram á að hann er fús til að fyrirgefa?
6 Jehóva hefur sýnt fram á að hann er fús til að fyrirgefa. Hann skilur þá bölvun sem synd Adams leiddi yfir allt mannkynið. (Rómv. 5:12) Hann veit að við erum ófær um að koma okkur úr þessum aðstæðum sjálf. (Sálm. 49:8–10) En Jehóva er kærleiksríkur og miskunnsamur og hefur þess vegna gert ráðstafanir til að frelsa mannkynið undan synd og dauða. Hvernig? Í Jóhannesi 3:16 kemur fram að Jehóva sendi son sinn til að deyja í okkar þágu. (Matt. 20:28; Rómv. 5:19) Jesús tók á sig dauðadóminn í þágu allra sem trúa á hann. (Hebr. 2:9) Geturðu ímyndað þér hvað Jehóva hefur fundið mikið til þegar hann horfði á son sinn deyja niðurlægjandi og kvalafullum dauða? Myndi Jehóva leggja þetta á sig ef hann væri ekki tilbúinn að fyrirgefa okkur?
7. Nefndu dæmi um fólk í Biblíunni sem Jehóva fyrirgaf fúslega.
7 Í Biblíunni eru mörg dæmi um fólk sem Jehóva fyrirgaf fúslega. (Ef. 4:32) Hver kemur þér í hug? Kannski Manasse konungur? Hann framdi mörg hræðileg illskuverk. Hann var í fararbroddi falskrar tilbeiðslu. Hann drap jafnvel börnin sín með því að færa þau falsguðum að fórn. Hann gekk svo langt að hann kom fyrir skurðgoði í heilögu musteri Jehóva. Biblían segir um hann: „Hann gerði margt sem illt var í augum Drottins og vakti reiði hans.“ (2. Kron. 33:2–7) En vegna þess að hann sýndi einlæga iðrun fyrirgaf Jehóva honum fúslega. Hann gaf honum meira að segja konungdóminn aftur. (2. Kron. 33:12, 13) Davíð konungur drýgði líka alvarlegar syndir. Hann gerðist til dæmis sekur um hjúskaparbrot og morð. En Jehóva fyrirgaf honum vegna þess að hann viðurkenndi syndir sínar og iðraðist í einlægni. (2. Sam. 12:9, 10, 13, 14) Við getum þar af leiðandi verið viss um að Jehóva sé fús til að fyrirgefa, og eins og við munum sjá er fyrirgefning Jehóva einstök í samanburði við fyrirgefningu manna.
FYRIRGEFNING JEHÓVA ER EINSTÖK
8. Hvaða áhrif hefur einstök staða Jehóva sem dómari á það hvernig hann fyrirgefur?
8 Jehóva er „dómari allrar jarðarinnar“. (1. Mós. 18:25) Góður dómari þarf að skilja lögin til hlítar. Það á sannarlega við um Jehóva því að hann er ekki aðeins dómari okkar heldur líka löggjafi. (Jes. 33:22) Enginn hefur jafn næma tilfinningu og hann fyrir því hvað er rétt og rangt. Hvað fleira þarf góður dómari að hafa til að bera? Hann þarf að geta lagt mat á allar staðreyndir máls áður en hann dæmir. Að þessu leyti er Jehóva einstaklega hæfur sem dómari.
9. Á hverju byggir Jehóva ákvörðun sína um hvort hann fyrirgefi?
9 Ólíkt mennskum dómurum þekkir Jehóva alla þætti þeirra mála sem hann skoðar. (1. Mós. 18:20, 21; Sálm. 90:8) Hann takmarkast ekki af því sem menn geta séð og heyrt. Hann skilur allt varðandi uppeldi, umhverfi og skapgerðareinkenni manna. Hann þekkir tilfinningalegt og andlegt ástand hvers og eins. Ekkert dylst augum hans. Hann sér hvað býr í hjarta hvers manns – hvatir hans, langanir og áform. (Hebr. 4:13) Hann byggir alltaf ákvörðun sína um að fyrirgefa á þessari vitneskju.
10. Hvers vegna getum við sagt að dómar Jehóva séu alltaf réttlátir og sanngjarnir? (5. Mósebók 32:4)
10 Jehóva er alltaf réttlátur og sanngjarn þegar hann dæmir. Hann fer aldrei í manngreinarálit. Hann lætur ekki útlit fólks, fjárhag, hæfileika eða stöðu þess í þjóðfélaginu rugla sig í ríminu. (1. Sam. 16:7; Jak. 2:1–4) Það er ekki hægt að beita Jehóva þrýstingi eða múta honum. (2. Kron. 19:7) Pirringur og tilfinningasemi flækjast ekki fyrir honum. (2. Mós. 34:7) Skilningur Jehóva og djúpt innsæi gerir hann sannarlega hæfastan allra dómara. – Lestu 5. Mósebók 32:4.
11. Hvað er einstakt við fyrirgefningu Jehóva?
11 Ritarar Hebresku ritninganna gerðu sér grein fyrir því hve einstök fyrirgefning Jehóva er. Þeir notuðu stundum hebreskt orð sem segir um í skýringarriti að sé „sérstaklega notað til að lýsa því hvernig Guð fyrirgefur. Það er aldrei notað um þá takmörkuðu fyrirgefningu sem menn veita“. Aðeins Jehóva hefur vald til að fyrirgefa iðrunarfullum syndara algerlega. Hvað hefur fyrirgefning Jehóva í för með sér?
12, 13. (a) Hvaða blessunar nýtur sá sem Jehóva fyrirgefur? (b) Hversu lengi varir fyrirgefning Jehóva?
12 Þegar við þiggjum fyrirgefningu Jehóva „koma tímar þar sem Jehóva veitir nýjan kraft“. Við fáum hugarfrið og góða samvisku. (Post. 3:19) Þegar Jehóva fyrirgefur okkur endurheimtum við gott samband við hann. Það er eins og syndin hafi aldrei átt sér stað. Aðeins Jehóva getur veitt slíka fyrirgefningu.
13 Þegar Jehóva hefur fyrirgefið syndir okkar ásakar hann okkur aldrei aftur um þær eða refsar okkur fyrir þær. (Jes. 43:25; Jer. 31:34) Hann fjarlægir syndir okkar jafn langt og „austrið er frá vestrinu“. * (Sálm. 103:12) Við fyllumst þakklæti og lotningu þegar við hugleiðum hversu ríkulega Jehóva fyrirgefur okkur. (Sálm. 130:4) En hverjir fá að njóta fyrirgefningar Jehóva?
HVERJIR FÁ FYRIRGEFNINGU JEHÓVA?
14. Hvað höfum við lært um það hingað til á hvaða grundvelli Jehóva fyrirgefur?
14 Við höfum séð að stærð syndarinnar hefur engin áhrif á ákvörðun Jehóva um að fyrirgefa. Og við höfum lært að hann notar þekkingu sína sem skapari, dómari og löggjafi þegar hann tekur ákvörðun. En hvaða þætti tekur hann til athugunar áður en hann ákveður hvort hann fyrirgefur?
15. Hvað tekur Jehóva til athugunar samkvæmt Lúkasi 12:47, 48?
15 Eitt af því sem Jehóva athugar er hvort syndarinn vissi að það sem hann gerði væri rangt. Jesús tók það skýrt fram eins og greint er frá í Lúkasi 12:47, 48. (Lestu.) Ef einhver leggur á ráðin um að gera rangt, vitandi að það sem hann ætlar að gera særir Jehóva, syndgar hann alvarlega. Þá er hætta á að Jehóva fyrirgefi honum ekki. (Mark. 3:29; Jóh. 9:41) En við verðum að viðurkenna að við gerum öll stundum eitthvað rangt þótt við vitum betur. Er þá von um að fá fyrirgefningu? Já. Þar kemur annar þáttur sem Jehóva skoðar til skjalanna.
16. Hvað er iðrun og hvers vegna er nauðsynlegt að sýna hana til að fá fyrirgefningu Jehóva?
16 Annað sem Jehóva tekur til athugunar er hvort syndarinn iðrist einlæglega. Hvað felur það í sér? Iðrun felur í sér að breyta hugarfari, viðhorfum og áformum. Hún felur í sér að finna til eftirsjár og hryggðar vegna þess sem maður hefur gert eða látið ógert en væri rétt að gera. Ef einhver iðrast í raun er hann hryggur yfir því ranga sem hann gerði en líka yfir því sem leiddi til þess að hann syndgaði – að hann vanrækti sambandið við Jehóva. Manasse og Davíð syndguðu báðir alvarlega en þeim var fyrirgefið vegna þess að þeir sýndu einlæga iðrun. (1. Kon. 14:8) Jehóva vill sjá merki þess að syndari iðrist. Það er ekki nóg að finna til iðrunar, það er nauðsynlegt að sýna hana í verki. * Það leiðir okkur að öðrum þætti sem Jehóva tekur til athugunar.
17. Hvað felst í því að snúa við og hvers vegna er það mikilvægt til að forðast að endurtaka fyrri syndir? (Jesaja 55:7)
17 Annað sem Jehóva tekur til skoðunar er hvort syndarinn vill snúa við blaðinu. Hann þarf að breyta um stefnu og fara að gera það sem Jehóva vill. (Lestu Jesaja 55:7.) Hann þarf að breyta um hugarfar og leyfa Jehóva að leiðbeina sér. (Rómv. 12:2; Ef. 4:23) Þessi viðsnúningur felur því í sér að segja skilið við ranga hugsun og hegðun. (Kól. 3:7–10) Trú okkar á lausnarfórnina er að sjálfsögðu grundvöllur fyrir fyrirgefningu Jehóva. Vegna þessarar fórnar getur Jehóva bæði fyrirgefið okkur og hreinsað okkur af synd. Hann notar verðgildi lausnarfórnarinnar í okkar þágu þegar hann sér að við reynum okkar besta til að breyta um lífsstefnu. – 1. Jóh. 1:7.
TREYSTUM Á FYRIRGEFNINGU JEHÓVA
18. Hvað höfum við skoðað varðandi fyrirgefningu Jehóva?
18 Rifjum upp nokkra þætti sem Jehóva athugar áður en hann veitir fyrirgefningu. Enginn getur fyrirgefið eins og Jehóva. Hvers vegna getum við sagt það? Í fyrsta lagi er hann fús til að fyrirgefa. Í öðru lagi þekkir hann okkur út og inn. Hann veit nákvæmlega hvernig við erum gerð og í bestu aðstöðunni til að meta hvort við iðrumst í einlægni. Í þriðja lagi afmáir hann syndir okkar algerlega þegar hann fyrirgefur. Við getum þar af leiðandi haft hreina samvisku og velþóknun hans.
19. Hvers vegna getum við verið glöð þótt við séum ófullkomin og höldum áfram að syndga?
19 Við syndgum að sjálfsögðu eins lengi og við erum ófullkomin. En það veitir okkur huggun að lesa það sem segir í bókinni Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 771: „Jehóva er miskunnsamur og tekur tillit til veikleika þjóna sinna. Þeir þurfa því ekki að vera með stöðugt samviskubit út af arfgengum ófullkomleika sínum. (Sálm. 103:8–14; 130:3) Ef þeir gera sitt besta til að lifa í samræmi við vilja Guðs geta þeir verið glaðir. (Fil. 4:4–6; 1. Jóh. 3:19–22)“ Það er hughreystandi að vita þetta.
20. Hvað skoðum við í næstu námsgrein?
20 Við erum þakklát að Jehóva skuli vera tilbúinn að fyrirgefa okkur þegar við iðrumst einlæglega þess ranga sem við gerum. En hvernig getum við líkt eftir fyrirgefningu Jehóva? Hvað er líkt og hvað ólíkt með fyrirgefningu okkar og fyrirgefningu Jehóva? Hvers vegna er mikilvægt að skilja muninn? Þessum spurningum er svarað í næstu námsgrein.
SÖNGUR 45 Hugsun hjarta míns
^ Jehóva fullvissar okkur í orði sínu um að hann vilji fyrirgefa þeim sem iðrast synda sinna. Samt gæti okkur stundum fundist við ekki eiga skilið að fá fyrirgefningu hans. Í þessari námsgrein fjöllum við um það hvers vegna við getum verið viss um að Guð okkar sé alltaf tilbúinn að fyrirgefa okkur þegar við sjáum einlæglega eftir að hafa syndgað.
^ Sjá bókina Nálægðu þig Jehóva, 26. kafla, grein 9.
^ ORÐASKÝRING: Iðrun felur í sér breytt hugarfar og einlæga eftirsjá vegna fyrri lífsstefnu, rangrar hegðunar eða vegna þess að einhver vanrækti að gera eitthvað. Sönn iðrun ber ávöxt, hún leiðir til breyttrar lífsstefnu.