Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Við viljum fara með ykkur“

„Við viljum fara með ykkur“

„Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.“ – SAK. 8:23.

SÖNGVAR: 65, 122

1, 2. (a) Hverju spáði Jehóva um okkar daga? (b) Hvaða spurningum verður svarað í þessari grein? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

JEHÓVA sagði um okkar tíma: „Á þeim dögum munu tíu menn af öllum þjóðtungum grípa í kyrtilfald eins Gyðings og segja: ,Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.‘“ (Sak. 8:23) Þeir sem hafa jarðneska von ,hafa gripið í kyrtilfald eins Gyðings‘, líkt og hinir táknrænu tíu menn. Þeir vita að Jehóva blessar hina andasmurðu og eru stoltir að mega tilbiðja hann ásamt „Ísrael Guðs“. – Gal. 6:16.

2 Jesús lagði áherslu á þá yndislegu einingu sem þjónar Guðs njóta, rétt eins og Sakaría gerði. Hann talaði um fylgjendur sína sem tvo hópa, „litla hjörð“ og „aðra sauði“, en sagði að þeir yrðu „ein hjörð“ með ,einn hirði‘. (Lúk. 12:32; Jóh. 10:16) En tengsl þessara tveggja hópa vekja nokkrar spurningar: (1) Þurfa aðrir sauðir að þekkja nöfn allra sem eru andasmurðir núna? (2) Hvernig eiga hinir andasmurðu að líta á sjálfa sig? (3) Hvernig ættirðu að bregðast við ef einhver í söfnuðinum þínum byrjar að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni? (4) Er ástæða til að hafa áhyggjur af því að þeim fjölgar sem neyta brauðsins og vínsins? Leitum svara við þessum spurningum.

ÞURFUM VIÐ AÐ ÞEKKJA NÖFN ALLRA SEM ERU ANDASMURÐIR NÚNA?

3. Hvers vegna er ekki hægt að vita með vissu hverjir eiga eftir að tilheyra hópi hinna 144.000?

3 Þurfa aðrir sauðir að þekkja nöfn allra sem eru andasmurðir núna? Stutta svarið er nei. Af hverju? Þótt einhver hafi fengið himneska köllun er aðeins um boð að ræða en ekki endanlega staðfestingu á því að hann fái launin. Satan veit það og vekur upp ,falsspámenn svo að þeir geti leitt hin útvöldu afvega ef það er unnt‘. (Matt. 24:24) Enginn veit hvort andasmurður kristinn maður fær himnesku launin fyrr en Jehóva úrskurðar að hann verðskuldi þau. Jehóva ákveður þetta og gefur honum lokainnsiglið annaðhvort áður en hann deyr trúfastur eða einhvern tíma eftir að ,þrengingin mikla‘ brýst út. (Opinb. 2:10; 7:3, 14) Það er því tilgangslaust fyrir okkur að reyna að finna út hverjir meðal þjóna Guðs eiga eftir að tilheyra hópi hinna 144.000. [1]

4. Hvernig getum við ,farið með‘ hinum andasmurðu sem eru á jörðinni núna fyrst ekki er hægt að vita nöfn þeirra allra?

4 Hvernig geta aðrir sauðir ,farið með‘ andlegum Ísraelsmönnum sem eru á jörðinni núna fyrst ekki er hægt að vita með vissu nöfn þeirra allra? Taktu eftir hvað spádómur Sakaría segir um hina táknrænu tíu menn. Þeir myndu „grípa í kyrtilfald eins Gyðings og segja: ,Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.‘“ Þótt aðeins sé talað um einn Gyðing er hann ávarpaður í fleirtölu með fornafninu „ykkur“. Þessi andlegi Gyðingur hlýtur því að vera hópur en ekki bara einn einstaklingur. Við þurfum því ekki að þekkja alla hina andasmurðu og fylgja þeim sem einstaklingum. Öllu heldur þurfum við að þekkja þá sem hóp og styðja þá sem hóp. Biblían hvetur okkur aldrei til að fylgja einstaklingum. Jesús er leiðtogi okkar. – Matt. 23:10.

HVERNIG EIGA HINIR ANDASMURÐU AÐ LÍTA Á SJÁLFA SIG?

5. Hvaða viðvörun ættu hinir andasmurðu að hugsa vandlega um og hvers vegna?

5 Þeir sem neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni ættu að hugsa vandlega um viðvörunina í 1. Korintubréfi 11:27-29. (Lestu.) Hvað er Páll postuli að benda á í þessum versum? Andasmurður kristinn maður myndi borða og drekka „á óverðugan hátt“ ef hann varðveitti ekki gott samband við Jehóva. (Hebr. 6:4-6; 10:26-29) Þessi viðvörun minnir hina andasmurðu á að þeir hafa enn ekki fengið launin. Þeir verða að keppa áfram ,að markinu, til verðlaunanna á himnum sem Guð hefur í Kristi kallað þá til‘. – Fil. 3:13-16.

6. Hvernig eiga andasmurðir kristnir menn að líta á sjálfa sig?

6 Páll hvatti andasmurða kristna menn til að ,hegða sér svo sem samboðið væri þeirri köllun sem þeir hefðu hlotið‘. Hvernig gátu þeir gert það? Páll heldur áfram og segir: „Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.“ (Ef. 4:1-3) Andi Jehóva stuðlar að auðmýkt, ekki stolti. (Kól. 3:12) Hinir andasmurðu eru hógværir og viðurkenna að þeir hafi ekki endilega fengið meira af heilögum anda en hinir sem hafa jarðneska von. Þeir halda því ekki fram að þeir hafi fengið sérstaka þekkingu eða opinberanir, né reyna þeir að sanna að þeir séu á einhvern hátt betri en aðrir. Og þeir myndu aldrei stinga því að einhverjum að hann sé líka andasmurður og ætti að byrja að neyta brauðsins og vínsins. Þeir viðurkenna auðmjúklega að það er Jehóva sem kallar hina andasmurðu.

7, 8. Til hvers ætlast hinir andasmurðu ekki og hvers vegna?

7 Það er ólýsanlegur heiður að fá himneska köllun en andasmurðir kristnir menn ætlast þó ekki til að þeim sé sýnd sérstök virðing. (Ef. 1:18, 19; lestu Filippíbréfið 2:2, 3.) Andi Jehóva vitnaði fyrir þeim einum. Umheiminum var ekki tilkynnt um köllun þeirra. Þeir eru því ekkert hissa þótt sumir trúi ekki þegar í stað að þeir hafi í raun og veru fengið himneska köllun. Þeir vita að Biblían varar við því að trúa þeim í fljótfærni sem fullyrða að þeir hafi fengið sérstakt hlutverk frá Guði. (Opinb. 2:2) Þeir myndu aldrei kynna sig fyrir öðrum með þeim orðum að þeir séu andasmurðir, eins og það væri einhvers konar „nafnspjald“. Þeir nefna reyndar sjaldnast að þeir hafi fengið þessa sérstöku köllun því að þeir vilja ekki vekja athygli á sér. Og þeir vilja ekki heldur stæra sig af laununum sem bíða þeirra. – 1. Kor. 1:28, 29; lestu 1. Korintubréf 4:6-8.

8 Auk þess líta hinir andasmurðu ekki á sig sem meðlimi í lokuðum klúbbi. Þeir leita ekki uppi aðra sem telja sig vera andasmurða í von um að tengjast þeim eða til að mynda lokaða biblíunámshópa. (Gal. 1:15-17) Það myndi valda sundrung innan safnaðarins og vinna gegn heilögum anda en hann stuðlar að friði og einingu. – Lestu Rómverjabréfið 16:17, 18.

HVERNIG ÁTTU AÐ KOMA FRAM VIÐ ÞÁ?

9. Hvers vegna þurfum við að gæta að framkomu okkar við þá sem neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni? (Sjá rammann „Kærleikurinn ,hegðar sér ekki ósæmilega‘“.)

9 Hvernig áttu að koma fram við þá sem neyta brauðsins og vínsins? Jesús sagði við lærisveina sína að þeir væru allir bræður og systur. Hann sagði líka: „Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ (Matt. 23:8-12) Þess vegna er rangt að upphefja einstaklinga, jafnvel andasmurða bræður Krists. Biblían hvetur okkur til að líkja eftir trú safnaðaröldunga en hún nefnir hvergi að við eigum að upphefja nokkurn mann sem leiðtoga okkar. (Hebr. 13:7) Vissulega talar Biblían um að sumir skuli hafðir „í tvöföldum metum“. En þeir verðskulda þann heiður vegna þess að þeir „veita góða forstöðu“ og „leggja hart að sér við boðun og fræðslu“ en ekki vegna þess að þeir eru andasmurðir. (1. Tím. 5:17) Það væri því vandræðalegt fyrir hina andasmurðu ef þeir fengju óhóflegt hrós eða athygli. Það sem verra er, andasmurðum gæti fundist erfitt að vera auðmjúkir ef þeim væri hampað sérstaklega. (Rómv. 12:3) Ekki viljum við verða einhverjum bræðra Krists að falli. – Lúk. 17:2.

Hvernig ættirðu að líta á þá sem neyta brauðsins og vínsins? (Sjá 9.-11. grein.)

10. Hvernig geturðu sýnt að þú berir virðingu fyrir hinum andasmurðu?

10 Hvernig getum við sýnt þeim tilhlýðilega virðingu sem Jehóva hefur smurt með anda sínum? Við spyrjum þá ekki persónulegra spurninga varðandi andasmurningu þeirra. Þannig forðumst við að blanda okkur í persónuleg mál annarra. (1. Þess. 4:11; 2. Þess. 3:11) Við ættum ekki að gefa okkur að foreldrar, maki eða aðrir ættingjar hins andasmurða séu það einnig. Erfðir eða hjónaband hafa ekkert með þetta að gera. (1. Þess. 2:12) Við ættum líka að standast freistinguna að forvitnast um hvernig maka hins andasmurða finnist sú tilhugsun að lifa án hans í paradís á jörð. Spyrjum ekki spurninga sem geta valdið sársauka. Við getum treyst fullkomlega að Jehóva ljúki upp hendi sinni í nýja heiminum og ,seðji allt sem lifir með blessun‘. – Sálm. 145:16.

11. Hvers vegna eigum við að varast að ,sýna mönnum lotningu‘?

11 Ef við sjáum hina andasmurðu í réttu ljósi vörumst við annað sem gæti verið lúmsk hætta. Biblían segir að það geti gerst að „falsbræður“ laumist inn í söfnuðinn. (Gal. 2:4, 5; 1. Jóh. 2:19) Þessir svikarar segjast sumir vera andasmurðir. Auk þess getur svo farið að einhver hinna andasmurðu falli frá trúnni. (Matt. 25:10-12; 2. Pét. 2:20, 21) Ef við vörum okkur á því að ,sýna mönnum lotningu‘ látum við þá ekki leiða okkur frá sannleikanum, og við missum ekki fótanna í trúnni þótt einhver falli frá sem hefur tilheyrt söfnuðinum lengi eða er vel þekktur. – Júd. 16, Biblían 1912.

ER ÁSTÆÐA TIL AÐ HAFA ÁHYGGJUR AF ÞVÍ AÐ ÞEIM FJÖLGAR?

12, 13. Af hverju ættum við ekki að hafa áhyggjur því hve margir neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni?

12 Áratugum saman fækkaði þeim sem neyttu brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni um dauða Krists. Á síðustu árum hefur þeim hins vegar fjölgað. Er ástæða til að hafa áhyggjur af því? Nei. Skoðum nokkur atriði sem er gott að hafa í huga.

13 Jehóva „þekkir sína“. (2. Tím. 2:19) Þeir sem sjá um að telja á minningarhátíðinni geta ekki dæmt um það hverjir hafa í raun og veru himneska köllun. Sumir halda ranglega að þeir séu andasmurðir og neyta brauðsins og vínsins. Til dæmis hafa sumir byrjað á því en hætt því síðar. Aðrir eiga kannski við geðræn eða tilfinningaleg vandamál að stríða sem veldur því að þeir halda að þeir eigi að ríkja með Kristi á himnum. Þess vegna er fjöldi þeirra sem neyta brauðsins og vínsins ekki nákvæmur mælikvarði á það hve margir eru eftir á jörðinni af hinum andasmurðu.

14. Hvað segir Biblían um fjölda hinna andasmurðu á jörðinni þegar þrengingin mikla hefst?

14 Hinir andasmurðu búa víða um heim þegar Jesús kemur til að kalla þá til himna. Biblían segir hvað Jesús gerir á þeim tíma: „Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.“ (Matt. 24:31) Af Biblíunni má sjá að aðeins fáir af hinum andasmurðu verða eftir á jörðinni á síðustu dögum. (Opinb. 12:17, NW) Hún lætur hins vegar ósagt hve margir verða eftir þegar þrengingin mikla hefst.

15, 16. Hvað þurfum við að skilja varðandi hina 144.000 sem Jehóva hefur útvalið?

15 Jehóva ákveður hvenær hann velur fólk í hóp hinna andasmurðu. (Rómv. 8:28-30) Jehóva byrjaði að velja hina andasmurðu eftir dauða Jesú og upprisu. Svo virðist sem allir kristnir menn á fyrstu öld hafi verið andasmurðir. Upp úr aldamótunum 200 og fram að síðustu dögum voru það mestmegnis falskristnir menn sem sögðust fylgja Kristi. Jesús líkti þeim við „illgresi“. En Jehóva hélt samt áfram að smyrja allnokkra trúfasta menn á þeim tíma. Þeir voru eins og „hveitið“ sem Jesús talaði um. (Matt. 13:24-30) Á síðustu dögum hefur Jehóva haldið áfram að velja fólk í hóp hinna 144.000. [2] Ef hann ákveður að bíða með að velja suma af hinum andasmurðu þangað til langt er liðið á síðustu daga ættum við tæplega að véfengja visku hans. (Jes. 45:9; Dan. 4:32; lestu Rómverjabréfið 9:11, 16.) [3] Við megum ekki vera eins og verkamennirnir sem voru óánægðir og kvörtuðu yfir því hvernig húsbóndi þeirra réð málum verkamannanna sem byrjuðu að vinna á elleftu stundu. – Lestu Matteus 20:8-15.

16 Aðeins fáeinir þeirra sem hafa himneska von tilheyra ,trúa og hyggna þjóninum‘. (Matt. 24:45-47) Jehóva og Jesús hafa falið fáeinum að næra fjöldann nú á dögum, rétt eins og á fyrstu öld. Fáeinir andasmurðir kristnir menn á fyrstu öld fengu það verkefni að skrifa Grísku ritningarnar. Nú á dögum er aðeins fáeinum andasmurðum kristnum mönnum falið að gefa andlegan „mat á réttum tíma“.

17. Hvað hefurðu lært af þessari grein?

17 Hvað höfum við lært af þessari grein? Jehóva hefur ákveðið að veita andlegum Gyðingum líf á himnum og hinum táknrænu tíu mönnum líf á jörð. Hann ætlast til að allir séu trúfastir og hlýði sömu lögum, hvort sem þeir hafa himneska eða jarðneska von. Báðir hóparnir verða að sýna auðmýkt. Báðir hóparnir verða að vinna saman. Báðir hóparnir verða að stuðla að friði í söfnuðinum. Síðustu dagar eru senn á enda og við skulum því öll vera staðráðin í að þjóna sem ein hjörð undir forystu Krists.

^ [1] (3. grein.) Samkvæmt Sálmi 87:5, 6 má ætla að Jehóva muni í framtíðinni gefa upp nöfn þeirra sem hann hefur reist upp til að ríkja með Jesú á himnum. – Rómv. 8:19.

^ [2] (15. grein.) Þótt það komi fram í Postulasögunni 2:33 að heilögum anda sé úthellt fyrir milligöngu Jesú er það Jehóva sem velur hverjir skuli fá andasmurningu.

^ [3] (15. grein.) Nánari upplýsingar er að finna í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum 1. október 2007, bls. 30-31.