Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystu Jehóva og gerðu gott

Treystu Jehóva og gerðu gott

„Treyst Drottni og ger gott.“ – SÁLM. 37:3.

SÖNGVAR: 133, 63

1. Hvaða einstöku hæfni áskapaði Jehóva mönnunum?

JEHÓVA skapaði mennina með einstaka getu og eiginleika. Við erum fær um að hugsa, skipuleggja og leysa vandamál. (Orðskv. 2:11) Við erum fær um að hrinda áformum okkar í framkvæmd og keppa að góðum markmiðum. (Fil. 2:13) Jehóva áskapaði okkur líka samviskuna sem er innri vitund um rétt og rangt. Hún hjálpar okkur að leiðrétta mistök okkar og forðast það að syndga. – Rómv. 2:15.

2. Hvernig vill Jehóva að við notum hæfileika okkar?

2 Jehóva væntir þess að við notum hæfileika okkar til góðra verka. Hvers vegna? Vegna þess að hann elskar okkur og veit að okkur líður vel þegar við notum það sem hann hefur gefið okkur. Jehóva minnir okkur margsinnis á það í Biblíunni að nota hæfileika okkar til góðs. Til dæmis stendur í Hebresku ritningunum: „Áform hins iðjusama færa arð“ og „allt sem hönd þín megnar að gera með kröftum þínum, gerðu það“. (Orðskv. 21:5; Préd. 9:10) Í Grísku ritningunum erum við hvött til að „gera öllum gott“ eftir því sem við höfum færi á. Þar stendur einnig: „Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru.“ (Gal. 6:10; 1. Pét. 4:10) Jehóva vill greinilega að við gerum það sem við getum til að stuðla að hamingju og velferð sjálfra okkar og annarra.

3. Hvaða takmörk eru mönnunum sett?

3 Jehóva veit samt að mönnunum eru takmörk sett. Við getum aldrei losnað við ófullkomleikann, syndina og dauðann af eigin rammleik. Við getum ekki heldur stjórnað því hvað aðrir gera því að öllum er frjálst að haga lífinu eins og þeir vilja. (1. Kon. 8:46) Og óháð reynslu okkar og þekkingu verðum við alltaf eins og börn í samanburði við Jehóva. – Jes. 55:9.

Treystu Jehóva og gerðu gott þegar þú átt við erfiðleika að glíma.

4. Um hvað er rætt í þessari grein?

4 Við þurfum alltaf að reiða okkur á leiðsögn Jehóva og treysta að hann styðji okkur og hjálpi okkur með það sem við getum ekki sjálf. En við þurfum samt sjálf að gera það sem við getum til að leysa vandmál okkar og hjálpa öðrum. (Lestu Sálm 37:3.) Í stuttu máli þurfum við bæði að treysta Jehóva og gera gott. Við skulum kanna í þessu samhengi hvað við getum lært af Nóa, Davíð og fleiri trúum þjónum Jehóva sem reiddu sig á hann og gerðu það sem þeir gátu miðað við aðstæður. Við komumst að raun um að það var ýmislegt sem þeir gátu ekki gert en þeir ákváðu hins vegar að einbeita sér að því sem þeir gátu gert.

ÞEGAR ILLSKAN ER ALLT UM KRING

5. Við hvaða aðstæður bjó Nói?

5 Nói bjó í heimi sem var fullur af ofbeldi og siðleysi. (1. Mós. 6:4, 9-13) Hann vissi að Jehóva ætlaði fyrr eða síðar að útrýma þessum illa heimi. Honum hlýtur samt að hafa þótt ákaflega miður að horfa upp á allt ranglætið sem viðgekkst. Hann gerði sér grein fyrir að hann gat engu breytt þar um. En hann vissi líka að það var ýmislegt sem hann gat gert við þessar aðstæður.

Andstaða við boðunina. (Sjá 6.-9. grein.)

6, 7. (a) Hvað gat Nói ekki gert? (b) Að hvaða leyti erum við í svipaðri aðstöðu og Nói?

6 Það sem Nói gat ekki gert: Nói boðaði viðvörun Jehóva dyggilega en hann gat ekki neytt fólk til að taka mark á henni. Hann gat ekki heldur flýtt flóðinu. Nói varð að treysta að Jehóva myndi standa við það loforð sitt að binda enda á illskuna og trúa að það yrði á réttum tíma. – 1. Mós. 6:17.

7 Heimurinn, sem við búum í, er líka fullur af illsku og við vitum að Jehóva hefur lofað að útrýma honum. (1. Jóh. 2:17) En við getum ekki neytt fólk til að taka við ,fagnaðarerindinu um ríkið‘. Og við höfum engin tök á að flýta fyrir að ,þrengingin mikla‘ hefjist. (Matt. 24:14, 21) Við þurfum að hafa sterka trú líkt og Nói og treysta að Guð skerist bráðlega í leikinn. (Sálm. 37:10, 11) Við erum sannfærð um að Jehóva láti þennan illa heim ekki standa deginum lengur en nauðsyn krefur. – Hab. 2:3.

8. Að hverju einbeitti Nói sér? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

8 Það sem Nói gat gert: Nói hélt ótrauður áfram af því að hann einbeitti sér að því sem hann gat gert í stað þess að hugsa um það sem hann gat ekki gert. Hann var ,boðberi réttlætisins‘ og boðaði dyggilega viðvörunina sem Jehóva hafði falið honum að flytja. (2. Pét. 2:5) Það hefur ábyggilega hjálpað honum að halda sér sterkum í trúnni. Auk þess að vara fólk við vann hann hörðum höndum að því að smíða örkina sem Guð hafði falið honum að gera. – Lestu Hebreabréfið 11:7.

9. Hvernig getum við líkt eftir Nóa?

9 Við reynum að vera önnum kafin í „verki Drottins“ rétt eins og Nói. (1. Kor. 15:58) Við getum tekið þátt í að byggja ríkissali og viðhalda þeim, boðið fram krafta okkar til ýmissa starfa á mótum eða unnið á einni af deildarskrifstofum eða þýðingastofum safnaðarins. Síðast en ekki síst erum við önnum kafin við að boða fagnaðarerindið, vitandi að það styrkir vonina í brjósti okkar. Trúföst systir orðaði það þannig: „Þegar maður segir frá þeirri blessun sem ríki Guðs hefur í för með sér uppgötvar maður að fólk á sér alls enga von og sér ekki fram á að vandamálin leysist nokkurn tíma.“ Með því að boða fagnaðarerindið skerpum við þá fögru framtíðarsýn sem við höfum og verðum enn ákveðnari í að halda áfram að hlaupa þannig að við hljótum eilíft líf. – 1. Kor. 9:24.

ÞEGAR VIÐ SYNDGUM

10. Hvaða stöðu kom Davíð sér í?

10 Jehóva sagði að Davíð konungur væri ,maður eftir sínu hjarta‘. (Post. 13:22) Á heildina litið var Davíð trúfastur þjónn Guðs. Engu að síður er sagt frá dæmum um að hann hafi syndgað alvarlega. Hann framdi hjúskaparbrot með Batsebu. Hann bætti síðan gráu ofan á svart og reyndi að breiða yfir syndina með því að sjá til þess að Úría, eiginmaður hennar, félli í bardaga. Hann sendi Úría meira að segja með bréf þar sem hann gaf fyrirmæli um dauða hans. (2. Sam. 11:1-21) En syndir Davíðs komu fljótlega fram í dagsljósið. (Mark. 4:22) Hvernig brást hann þá við?

Fyrri syndir. (Sjá 11.-14. grein.)

11, 12. (a) Hvað gat Davíð ekki gert eftir að hafa syndgað? (b) Hvað gerir Jehóva fyrir okkur ef við iðrumst?

11 Það sem Davíð gat ekki gert: Davíð gat ekki breytt því sem búið var. Hann gat ekki heldur komist hjá því að taka afleiðingum gerða sinna og sumar þeirra fylgdu honum til æviloka. (2. Sam. 12:10-12, 14) Hann þurfti að hafa trú. Hann varð að treysta að Jehóva fyrirgæfi honum fyrst hann iðraðist í einlægni og hjálpaði honum að þola afleiðingar gerða sinna.

12 Öll erum við ófullkomin og syndgum. Syndirnar eru misalvarlegar. Í sumum tilfellum er óvíst að við getum bætt fyrir þær. Þá þurfum við einfaldlega að búa við afleiðingarnar. (Gal. 6:7) En við tökum Guð á orðinu og treystum að ef við iðrumst styðji hann okkur í erfiðleikunum, jafnvel þótt erfiðleikarnir séu sjálfum okkur að kenna. – Lestu Jesaja 1:18, 19; Postulasöguna 3:19, 20.

13. Hvernig endurheimti Davíð gott samband við Jehóva?

13 Það sem Davíð gat gert: Davíð vildi endurheimta gott samband við Jehóva. Hvernig gerði hann það? Meðal annars með því að taka þeirri leiðréttingu sem hann fékk frá Natan spámanni en hann var fulltrúi Jehóva. (2. Sam. 12:13) Davíð bað líka til Jehóva, játaði syndir sínar og tjáði einlæga löngun sína til að endurheimta velþóknun hans. (Sálm. 51:3-19) Hann lamaðist ekki af sektarkennd heldur lærði af mistökum sínum. Hann syndgaði aldrei framar á sama hátt. Þegar ævi hans lauk löngu síðar var hann trúfastur maður og þannig minnist Jehóva hans. – Hebr. 11:32-34.

14. Hvað getum við lært af Davíð?

14 Hvað getum við lært af Davíð? Ef okkur verður á að syndga alvarlega þurfum við að iðrast í einlægni og biðja Jehóva fyrirgefningar. Við þurfum að játa syndir okkar fyrir honum. (1. Jóh. 1:9) Við þurfum líka að leita til öldunga safnaðarins en þeir geta hjálpað okkur að endurheimta gott samband við Jehóva. (Lestu Jakobsbréfið 5:14-16.) Með því að þiggja hjálp Jehóva sýnum við að við treystum að hann lækni okkur og fyrirgefi eins og hann hefur lofað. Við ættum síðan að læra af mistökum okkar, halda áfram að þjóna Jehóva og horfa með björtum augum fram á veginn. – Hebr. 12:12, 13.

VIÐ AÐRAR AÐSTÆÐUR

Heilsubrestur. (Sjá 15. grein.)

15. Hvað lærum við af Hönnu?

15 Sennilega manstu eftir fleiri trúum þjónum Jehóva til forna sem treystu honum og gerðu það sem þeir gátu þótt aðstæður þeirra væru erfiðar á ýmsan hátt. Hanna er dæmi um það. Hún var ófær um að eignast börn og gat engu um það breytt. Hún leitaði hins vegar hughreystingar hjá Jehóva. Hún hélt áfram að tilbiðja hann við tjaldbúðina og úthellti hjarta sínu fyrir honum í bæn. (1. Sam. 1:9-11) Þar er hún okkur góð fyrirmynd. Þegar við eigum við heilsubrest að stríða eða önnur vandamál sem við fáum engu um ráðið vörpum við áhyggjum okkar á Jehóva og treystum að hann beri umhyggju fyrir okkur. (1. Pét. 5:6, 7) Og við gerum það sem við getum til að sækja samkomur og nýta okkur allt annað sem söfnuðurinn lætur í té. – Hebr. 10:24, 25.

Þegar börnin hætta að þjóna Jehóva. (Sjá 16. grein.)

16. Hvað geta foreldrar lært af Samúel?

16 Hvað um foreldra sem þjóna Jehóva dyggilega en eiga börn sem hafa hætt að þjóna honum? Samúel spámaður gat ekki neytt uppkomna syni sína til að fylgja þeim réttlátu meginreglum sem hann hafði kennt þeim. (1. Sam. 8:1-3) Hann átti ekki um annað að velja en að leggja málið í hendur Jehóva. En sjálfur gat Samúel verið trúr föður sínum á himnum og þóknast honum. (Orðskv. 27:11) Margir kristnir foreldrar standa í svipuðum sporum og Samúel. Þeir treysta að Jehóva sé eins og faðirinn í dæmisögunni um týnda soninn og sé alltaf tilbúinn til að taka á móti iðrandi syndurum sem snúa aftur. (Lúk. 15:20) Sjálfir leggja foreldrarnir sig fram um að vera Jehóva trúir og vona að fordæmi sitt verði börnunum hvatning til að snúa aftur til hjarðarinnar.

Kröpp kjör. (Sjá 17. grein.)

17. Hvers vegna er fátæka ekkjan ágæt fyrirmynd?

17 Fátæka ekkjan á dögum Jesú er líka ágæt fyrirmynd. (Lestu Lúkas 21:1-4.) Hún gat ekki gert nokkurn skapaðan hlut til að stemma stigu við spillingunni sem átti sér stað í musterinu. (Matt. 21:12, 13) Og sennilega gat hún ósköp lítið gert til að bæta kjör sín. Samt sem áður lagði hún „tvo smápeninga“ í baukinn og gaf þar með „alla björg sína“. Þessi trúa ekkja sýndi að hún treysti Jehóva skilyrðislaust. Hún vissi að hann myndi sjá fyrir efnislegum þörfum hennar ef hún einbeitti sér að því að þjóna honum. Hún studdi heils hugar tilbeiðsluna á Jehóva eins og hún fór fram á þeim tíma. Við treystum líka að Jehóva sjái um efnislegar þarfir okkar ef við leitum ríkis hans fyrst. – Matt. 6:33.

18. Segðu stuttlega frá bróður sem sá hlutina í réttu ljósi.

18 Margir bræður og systur á okkar dögum hafa sýnt traust sitt á Jehóva með svipuðum hætti og einbeitt sér að því sem þau gátu gert í þjónustu hans. Tökum Malcolm sem dæmi en hann var Guði trúr allt til dauðadags árið 2015. Þau hjónin þjónuðu Jehóva áratugum saman gegnum súrt og sætt. „Lífið er stundum ófyrirsjáanlegt, óöruggt og jafnvel erfitt,“ sagði hann. „En Jehóva blessar þá sem reiða sig á hann.“ Hvaða ráð gaf Malcolm? „Biddu þess í bænum þínum að þú verðir eins virkur og frekast er kostur í þjónustu Jehóva. Einbeittu þér að því sem þú getur gert en ekki því sem þú ræður ekki við.“ *

19. (a) Hvers vegna er árstextinn fyrir 2017 vel við hæfi? (b) Hvernig geturðu farið eftir árstextanum 2017?

19 Heimurinn, sem við búum í, „magnast í vonskunni“ og við megum búast við að lífið verði æ erfiðara. (2. Tím. 3:1, 13) Það er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að láta ekki erfiðleikana draga úr okkur allan þrótt. Við þurfum að treysta Jehóva óhagganlega og einbeita okkur að því sem við getum gert. Árstextinn fyrir 2017 er því vel við hæfi en hann er: Treystu Jehóva og gerðu gott. – Sálm. 37:3.

Árstextinn 2017: Treystu Jehóva og gerðu gott – Sálm. 37:3.