Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju að gefa honum sem á allt?

Af hverju að gefa honum sem á allt?

,Vér þökkum þér, Guð vor. Vér lofum þitt dýrlega nafn.‘ – 1. KRON. 29:13.

SÖNGVAR: 80, 50

1, 2. Hvernig sýnir Jehóva örlæti?

JEHÓVA er örlátur Guð. Allt sem við eigum er frá honum komið. Jehóva á allt gull og silfur og allar aðrar náttúruauðlindir, og hann notar þær til að viðhalda lífinu hér á jörð. (Sálm. 104:13-15; Hag. 2:8) Í Biblíunni er að finna fjölda dæma um það hvernig Jehóva hefur notað auðlindir sínar til að sjá fyrir þjónum sínum á undraverðan hátt.

2 Jehóva sá Ísraelsmönnum fyrir manna og vatni í 40 ár meðan þeir voru í eyðimörkinni. (2. Mós. 16:35) Fyrir vikið ,skorti þá ekkert‘. (Neh. 9:20, 21) Síðar, þegar trúföst ekkja átti aðeins lítið eitt eftir af olíu, gaf Jehóva Elísa spámanni mátt til að margfalda magn olíunnar. Þessi gjöf frá Guði gerði henni kleift að greiða skuldir sínar og eiga nóg eftir til að sjá sér og sonum sínum farborða. (2. Kon. 4:1-7) Með hjálp Jehóva gat Jesús fyrir kraftaverk séð fyrir mat og jafnvel peningum þegar þess var þörf. – Matt. 15:35-38; 17:27.

3. Hvað er til umfjöllunar í þessari grein?

3 Jehóva getur notað hvað sem hann vill til að sjá fyrir sköpunarverki sínu. Samt sem áður býður hann þjónum sínum að nota efnislegar eigur sínar til að styðja starfsemi safnaðarins. (2. Mós. 36:3-7; lestu Orðskviðina 3:9.) Hvers vegna ætlast Jehóva til þess að við gefum honum til baka af eigum okkar? Hvernig studdu þjónar Jehóva til forna starf fulltrúa hans fjárhagslega? Hvernig notar söfnuðurinn þau framlög sem gefin eru nú á dögum? Þessum spurningum er svarað í greininni.

HVERS VEGNA FÆRUM VIÐ JEHÓVA GJAFIR?

4. Hvað sýnum við Jehóva þegar við styðjum verk hans?

4 Við færum Jehóva gjafir af því að við elskum hann. Við fyllumst innilegu þakklæti þegar við hugsum um allt það sem hann hefur gert í okkar þágu. Þegar Davíð konungur útskýrði hvað þyrfti til að byggja musterið viðurkenndi hann að allt sem við fengjum kæmi frá Jehóva og að allt sem við gæfum Jehóva hefði hann þegar gefið okkur. – Lestu 1. Kroníkubók 29:11-14.

5. Hvernig er ljóst af Biblíunni að gjafmildi er mikilvægur þáttur í sannri tilbeiðslu?

5 Það er líka þáttur í tilbeiðslu okkar að færa Jehóva gjafir. Í sýn heyrði Jóhannes postuli þjóna Jehóva á himni segja: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti og að þínum vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ (Opinb. 4:11) Jehóva á sannarlega skilið að fá alla dýrðina og heiðurinn, og þess vegna viljum við gefa honum okkar allra besta. Jehóva sagði Ísraelsmönnum fyrir milligöngu Móse að halda þrjár hátíðir á ári. Tilbeiðslan á þessum hátíðum fólst meðal annars í því að færa Jehóva gjafir. Ísraelsmenn áttu ,ekki að koma tómhentir‘ fram fyrir Jehóva. (5. Mós. 16:16) Gjafmildi er sömuleiðis mikilvægur þáttur í tilbeiðslu okkar nú á dögum. Með því að gefa fúslega sýnum við að við styðjum og kunnum að meta starfsemi safnaðar Jehóva.

6. Af hverju er það gott fyrir okkur að gefa? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

6 Við höfum gott af því að gefa örlátlega en ekki bara þiggja. (Lestu Orðskviðina 29:21.) Ímyndum okkur barn sem kaupir gjöf handa foreldrum sínum fyrir vasapeningana sem þeir hafa gefið því. Foreldrarnir kunna vel að meta þessa gjöf. Eða segjum sem svo að ungur brautryðjandi búi hjá foreldrum sínum og leggi til einhverja peninga fyrir mat og húsnæði. Foreldrarnir ætlast kannski ekki til þess en þeir gætu þegið gjöfina því að þannig getur barnið sýnt þakklæti fyrir allt sem þeir gera fyrir það. Að sama skapi veit Jehóva að það gerir okkur gott að gefa af eigum okkar.

FRAMLÖG Á BIBLÍUTÍMANUM

7, 8. Hvernig settu þjónar Jehóva á biblíutímanum fordæmi um að gefa framlög (a) til sérstakra verkefna? (b) til þjónustunnar almennt?

7 Af Biblíunni sjáum við að þjónar Jehóva gáfu örlátlega af því sem þeir áttu. Í sumum tilfellum gáfu þeir til sérstakra framkvæmda. Móse óskaði til dæmis eftir framlögum til gerðar tjaldbúðarinnar og Davíð konungur gerði slíkt hið sama þegar byggja átti musterið. (2. Mós. 35:5; 1. Kron. 29:5-9) Í stjórnartíð Jóasar söfnuðu prestarnir fé sem var notað til að gera við hús Jehóva. (2. Kon. 12:5, 6) Þegar kristnir menn á fyrstu öld fréttu að trúsystkini sín í Júdeu væru hjálparþurfi vegna hungursneyðar „samþykktu [þeir] ... að hver þeirra skyldi eftir efnum senda nokkuð til hjálpar bræðrunum sem bjuggu í Júdeu“. – Post. 11:27-30, neðanmáls.

8 Þjónar Jehóva gáfu líka framlög til að styðja fjárhagslega þá sem fóru með forystuna í þjónustu hans. Í Móselögunum var kveðið á um að Levítarnir fengju ekki erfðahlut eins og aðrir ættbálkar. Þess í stað gáfu Ísraelsmenn þeim tíund þannig að þeir gætu einbeitt sér að þjónustunni í tjaldbúðinni. (4. Mós. 18:21) Eins nutu Jesús og postularnir góðs af örlæti kvenna sem „hjálpuðu þeim með fjármunum sínum“. – Lúk. 8:1-3.

9. Hvaðan komu verðmætin sem fólk gaf í framlög fyrr á tímum?

9 Eins og gefur að skilja var mismunandi hvernig fólk aflaði sér verðmætanna sem það gaf í framlög. Ísraelsmennirnir, sem gáfu til gerðar tjaldbúðarinnar, gáfu sennilega af því sem þeir tóku með sér frá Egyptalandi. (2. Mós. 3:21, 22; 35:22-24) Á fyrstu öld seldu sumir í kristna söfnuðinum eigur sínar, svo sem akra og hús, og færðu postulunum andvirðið. Postularnir úthlutuðu síðan peningunum til þeirra sem þurftu á þeim að halda. (Post. 4:34, 35) Aðrir studdu starfið með því að leggja fyrir og gefa framlög með reglulegu millibili. (1. Kor. 16:2) Allir gátu því lagt eitthvað af mörkum, hvort sem þeir voru vellauðugir eða bláfátækir. – Lúk. 21:1-4.

FRAMLÖG NÚ TIL DAGS

10, 11. (a) Hvernig getum við líkt eftir örlátum þjónum Jehóva á biblíutímanum? (b) Hvað finnst þér um að mega styðja starfsemi Guðsríkis?

10 Við gætum verið beðin um að gefa framlög í sérstökum tilgangi, rétt eins og þjónar Guðs til forna. Stendur kannski til að byggja nýjan ríkissal fyrir söfnuðinn þinn? Eða er verið að gera núverandi ríkissal safnaðarins upp? Okkur gæti verið tilkynnt um að þörf sé á framlögum vegna endurbóta á deildarskrifstofunni okkar, vegna umdæmismóts sem við sækjum eða til að aðstoða trúsystkini í kjölfar náttúruhamfara. Framlögin eru einnig notuð til að styðja trúboða, sérbrautryðjendur, þá sem eru í farandstarfi og þá sem starfa við aðalstöðvarnar og við deildarskrifstofur víðs vegar um heiminn. Auk þess hefur söfnuðurinn þinn eflaust ákveðið að senda regluleg fjárframlög til að aðstoða við byggingu mótshalla og ríkissala fyrir bræður okkar og systur í öðrum heimshlutum.

11 Við getum öll átt þátt í að styðja starfið sem Jehóva stýrir á þessum síðustu dögum. Flest framlög eru nafnlaus. Við látum ekki aðra vita hve mikið við gefum þegar við leggjum peninga í bauk í ríkissalnum eða gefum framlög með rafrænum hætti. Kannski finnst okkur framlög okkar vera svo lítil að þau skipti ekki máli. En raunin er sú að stærstur hluti þeirra framlaga, sem söfnuðinum berast, samanstendur af mörgum lágum fjárhæðum en ekki fáum háum. Trúsystkini okkar, sem eiga jafnvel lítið handa á milli, líkja eftir fordæmi hinna frumkristnu í Makedóníu. Þeir bjuggu við „sára fátækt“ en vildu samt óðfúsir fá að gefa og gerðu það örlátlega. – 2. Kor. 8:1-4.

12. Hvernig leitast söfnuðurinn við að nýta framlög á sem bestan hátt?

12 Hið stjórnandi ráð gerir sitt ýtrasta til að vera trúfast og hyggið þegar kemur að því að nota fjármuni safnaðarins. (Matt. 24:45) Bræðurnir í ráðinu biðja Jehóva um dómgreind til að geta tekið góðar ákvarðanir, og þeir íhuga vandlega hvernig best sé að ráðstafa peningunum. (Lúk. 14:28) Á biblíutímanum gættu trúfastir menn framlaga og sáu til þess að þau væru notuð aðeins á tilætlaðan hátt. Esra sneri til dæmis aftur til Jerúsalem með framlög frá Persakonungi – gull, silfur og aðra dýrgripi sem samsvöruðu meira en 10 milljörðum króna að núvirði. Esra leit á þessi framlög sem gjafir til Jehóva og gerði ítarlegar ráðstafanir til að þau kæmust örugglega gegnum varasamt svæði. (Esra. 8:24-34) Öldum síðar safnaði Páll postuli fé til að hjálpa trúsystkinum sínum í Júdeu sem liðu skort. Hann gekk úr skugga um að þeir sem fluttu gjöfina gerðu allt á heiðarlegan hátt, „ekki aðeins í augum Drottins heldur og í augum manna“. (Lestu 2. Korintubréf 8:18-21.) Söfnuðurinn nú á dögum líkir eftir fordæmi Esra og Páls með því að fara eftir ströngum verkreglum þegar kemur að því að meðhöndla fjármuni og ráðstafa þeim.

13. Hvernig ættum við að líta á þær breytingar sem söfnuðurinn hefur nýlega gert?

13 Til að fjölskylda eyði ekki um efni fram gæti hún gert breytingar á því hvernig hún ráðstafar peningunum sínum. Eða kannski leitar hún leiða til að einfalda lífið þannig að hún geti gert meira fyrir Jehóva. Hið sama gildir um söfnuð Jehóva. Á síðustu árum hefur mörgum nýjum og spennandi verkefnum verið hleypt af stokkunum. Um tíma voru því notaðir meiri peningar en komu inn. Söfnuðurinn leitar því leiða til að draga úr útgjöldum og einfalda starfsemina til að hægt sé að áorka eins miklu og mögulegt er með framlögunum sem þið gefið svo örlátlega.

ÞAÐ SEM FRAMLÖG OKKAR KOMA TIL LEIÐAR

Framlög þín styðja alþjóðastarfið. (Sjá 14.-16. grein.)

14-16. (a) Í hvað eru framlög þín meðal annars notuð? (b) Hvernig hefur þú notið góðs af þessum ráðstöfunum?

14 Margir gamalreyndir þjónar Jehóva hafa haft á orði að við fáum nú fleiri andlegar gjafir frá söfnuðinum en nokkru sinni fyrr. Hugsaðu þér! Á síðustu árum höfum við fengið jw.org og Sjónvarp Votta Jehóva. Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar hefur verið gefin út á fjölda tungumála. Árið 2014 og 2015 voru þriggja daga alþjóðamótin „Leitið fyrst ríkis Guðs“ haldin í sumum af stærstu leikvöngum 14 borga víðs vegar um heim. Þeir sem sóttu mótin voru yfir sig ánægðir að vera viðstaddir.

15 Margir hafa látið í ljós þakklæti sitt fyrir þessar gjafir frá söfnuði Jehóva. Hjón í Asíu skrifuðu varðandi Sjónvarp safnaðarins: „Við vorum send til að starfa í lítilli borg. Okkur finnst við stundum vera einangruð og eigum það til að gleyma hve umfangsmikið starf Jehóva er. En um leið og við horfum á Sjónvarp Votta Jehóva munum við að við tilheyrum alþjóðlegu bræðralagi. Bræður okkar og systur hér bíða alltaf full eftirvæntingar eftir næsta myndbandi. Eftir að hafa horft á mánaðarþættina segja þau gjarnan að þeim finnist þau náin bræðrunum í stjórnandi ráði. Þau hafa aldrei verið eins stolt af því að tilheyra söfnuði Guðs.“

16 Um þessar mundir er verið að byggja eða gera umfangsmiklar endurbætur á hátt í 2.500 ríkissölum um heim allan. Bræður og systur í söfnuði í Hondúras skrifuðu eftir að hafa loksins eignast ríkissal: „Við erum ákaflega glöð að tilheyra alheimsfjölskyldu Jehóva og þessu dásamlega bræðralagi okkar, en það er því að þakka að draumur okkar um að fá ríkissal í okkar byggðarlagi sé orðinn að veruleika.“ Margir tjá sams konar þakklæti þegar þeir fá Biblíuna og önnur rit þýdd á móðurmál sitt, þegar þeir njóta góðs af hjálparstarfi eða þegar þeir sjá árangurinn af boðuninni við ritatrillur.

17. Hvernig vitum við að Jehóva styður söfnuðinn nú á dögum?

17 Margir sem eru ekki vottar Jehóva skilja ekki hvernig allt þetta er mögulegt aðeins með frjálsum framlögum. Framkvæmdastjóri í stóru fyrirtæki fór í skoðunarferð um eina af prentsmiðjum okkar. Hann var undrandi á því að öll vinnan skyldi vera unnin af sjálfboðaliðum, kostuð með frjálsum framlögum og að aldrei væru skipulagðar fjársafnanir. Hann sagði að það ætti ekki að vera hægt að gera það sem við gerum. Við erum sammála. Við vitum að það er aðeins með hjálp Jehóva sem það er mögulegt. – Job. 42:2.

ÞAÐ VEITIR RÍKULEGA BLESSUN AÐ GEFA JEHÓVA

18. (a) Hvaða blessun hljótum við þegar við gefum í þágu Guðsríkis? (b) Hvernig getum við kennt börnunum og þeim sem eru nýir að leggja sitt af mörkum?

18 Jehóva veitir okkur þann heiður að mega styðja það mikla starf sem fer fram á okkar dögum. Hann fullvissar okkur um að við hljótum blessun þegar við gefum í þágu ríkis hans. (Mal. 3:10) Jehóva lofar að umbuna ríkulega þeim sem gefa örlátlega. (Lestu Orðskviðina 11:24, 25.) Auk þess veitir það okkur gleði að gefa þar sem „sælla er að gefa en þiggja“. (Post. 20:35) Með orðum okkar og verkum getum við kennt börnum okkar og þeim sem eru nýir í trúnni að leggja sitt af mörkum þannig að þau hljóti líka margs konar blessun.

19. Hvernig hefur þessi grein verið þér til hvatningar?

19 Allt sem við eigum er frá Jehóva komið. Með því að endurgjalda honum sýnum við að við elskum hann og kunnum að meta allt sem hann hefur gert fyrir okkur. (1. Kron. 29:17) Þegar Ísraelsmenn gáfu framlög til byggingar musterisins glöddust þeir „því að þeir höfðu fært Drottni gjafirnar fúslega og af heilum hug“. (1. Kron. 29:9) Megum við sömuleiðis gleðjast og hafa unun af að endurgjalda Jehóva fyrir allt það sem hann hefur gefið okkur.