Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvern þurfum við að elska til að hljóta sanna hamingju?

Hvern þurfum við að elska til að hljóta sanna hamingju?

„Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði.“ – SÁLM. 144:15.

SÖNGVAR: 111, 109

1. Hvað er einstakt við okkar tíma?

VIÐ lifum á einstökum tímum í sögu mannkyns. Jehóva er að safna saman ,miklum múgi af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum‘ eins og spáð var í Biblíunni. Þetta eru orðnar meira en átta milljónir manna sem mynda ,volduga þjóð‘ og ,þjóna Guði dag og nótt‘ með gleði. (Opinb. 7:9, 15; Jes. 60:22) Aldrei fyrr hafa jafn margir lært að elska bæði Guð og náungann.

2. Hvað elska þeir sem hafa ekki áhuga á að þjóna Guði? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

2 En í Biblíunni kemur líka fram að á okkar dögum myndu þeir sem hafa ekki áhuga á að þjóna Guði beina kærleika sínum að öðru – þeir yrðu sjálfselskir. Páll postuli skrifaði að á síðustu dögum myndu menn verða „sérgóðir, fégjarnir ... og elska munaðarlífið meira en Guð“. (2. Tím. 3:1-4) Að elska sjálfan sig, peninga og munaðarlíf fer ekki saman við það að elska Guð. Að keppa að eigingjörnum markmiðum veitir fólki ekki þá hamingju og gleði sem það ímyndar sér heldur hefur það skapað harðan og erfiðan heim.

3. Hvað skoðum við í þessari grein og hvers vegna?

3 Páll vissi að kristnum mönnum stafaði hætta af útbreiddri sjálfselsku heimsins. Hann hvatti þá til að forðast fólk sem elskaði ranga hluti. (2. Tím. 3:5) Við komumst þó ekki hjá því að eiga einhver samskipti við þess konar fólk. Hvernig getum við þá komið í veg fyrir að við smitumst af viðhorfum heimsins og hvað getum við gert til að gleðja Jehóva, Guð kærleikans? Við skulum líta nánar á muninn á kærleikanum, sem Guð vill að við sýnum, og því sem lýst er í 2. Tímóteusarbréfi 3:2-4. Það hjálpar okkur að líta í eigin barm og hugleiða hvernig við getum sýnt þann kærleika sem okkur ber og veitir sanna lífsfyllingu og hamingju.

AÐ ELSKA GUÐ EÐA SJÁLFAN SIG?

4. Hvers vegna er ekki rangt að elska sjálfan sig að vissu marki?

4 „Menn verða sérgóðir,“ skrifaði Páll. Er rangt að elska sjálfan sig? Nei, það er eðlilegt og jafnvel nauðsynlegt að elska sjálfan sig á heilbrigðan hátt. Jehóva gerði okkur þannig úr garði. „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig,“ sagði Jesús. (Mark. 12:31) Við þurfum að elska sjálf okkur til að geta elskað náungann. Við lesum líka í Biblíunni: „Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá sem elskar konu sína elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold heldur elur hann það og annast.“ (Ef. 5:28, 29) Það er því ljóst að við eigum að elska sjálf okkur að vissu marki.

5. Lýstu þeim sem elska sjálfa sig úr hófi fram.

5 Sjálfselskan, sem er nefnd í 2. Tímóteusarbréfi 3:2, er ekki eðlileg og heilbrigð heldur eigingjörn. Sá sem elskar sjálfan sig um of hefur of mikið álit á sjálfum sér. (Lestu Rómverjabréfið 12:3.) Hann hugsar meira um sjálfan sig en nokkuð annað og ber takmarkaða umhyggju fyrir öðrum. Ef eitthvað fer úrskeiðis hefur hann tilhneigingu til að kenna öðrum um í stað þess að axla sjálfur ábyrgð á því. Í biblíuskýringariti er sjálfselskum manni líkt við ,broddgölt sem hringar sig saman svo að hann er inni í mjúkum og hlýjum feldinum en beinir hvössum broddunum að öðrum‘. Þess konar maður er ekki hamingjusamur í raun.

6. Hvað gott hlýst af því að elska Guð?

6 Sumir biblíufræðingar telja að Páll postuli nefni sjálfselskuna fyrst vegna þess að hún sé undirrót annarra slæmra eiginleika sem áttu að vera áberandi á síðustu dögum. Þeir sem elska Guð sýna hins vegar af sér allt aðra eiginleika, svo sem gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfsaga. (Gal. 5:22, 23) „Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði,“ orti sálmaskáldið. (Sálm. 144:15) Jehóva er glaður Guð og þjónar hans endurspegla það. Þeir hafa auk þess ánægju af því að gefa af sér í þágu annarra, ólíkt þeim sem elska fyrst og fremst sjálfa sig og það sem þeir geta fengið sjálfir. – Post. 20:35.

Hvað getum við gert til að verða ekki sjálfselsk? (Sjá 7. grein.)

7. Hvaða spurninga getum við spurt okkur til að kanna hve heitt við elskum Guð?

7 Hvernig getum við gengið úr skugga um að kærleikur okkar til Guðs sé ekki farinn að víkja fyrir sjálfselsku? Lítum á hvatninguna í Filippíbréfinu 2:3, 4: „Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ Við gætum spurt okkur hvort við förum eftir þessum leiðbeiningum. Reynum við eftir fremsta megni að gera það sem Guð vill? Leggjum við okkur fram um að hjálpa öðrum, bæði í söfnuðinum og með því að boða fagnaðarerindið? Það er ekki alltaf auðvelt að gefa af sér. Það kostar áreynslu og fórnfýsi. En getur nokkuð glatt okkur meira en sú vitneskja að Drottinn alheims hafi velþóknun á okkur?

8. Hvað gera sumir af því að þeir elska Guð?

8 Sumir þjónar Jehóva hafa sagt skilið við arðvænleg störf til að einbeita sér betur að því að þjóna honum. Þeir gera það af því að þeir elska hann. Ericka er læknir og býr í Bandaríkjunum. En í stað þess að sækjast eftir starfsframa sem læknir gerðist hún brautryðjandi og hefur starfað í ýmsum löndum ásamt eiginmanni sínum. Hún segir: „Það hefur auðgað líf okkar mikið að fá að leggja hönd á plóginn á erlendum málsvæðum og við höfum eignast þar marga vini. Ég starfa enn sem læknir en það veitir mér sanna gleði og lífsfyllingu að geta einbeitt mér fyrst og fremst að því að fræða fólk um Jehóva og styðja bræður og systur í söfnuðinum.“

FJÁRSJÓÐIR Á HIMNI EÐA Á JÖRÐ?

9. Hvers vegna veitir það ekki hamingju að elska peninga?

9 Páll skrifaði að menn yrðu „fégjarnir“. Brautryðjandi ræddi fyrir nokkrum árum um Guð við mann á Írlandi. Maðurinn tók upp veskið sitt, dró fram nokkra peningaseðla, hélt þeim á loft og sagði stoltur í bragði: „Þetta er guðinn minn!“ Það eru ekki allir jafn opinskáir og þessi maður en heimurinn er samt fullur af fólki sem elskar peninga og það sem hægt er að kaupa fyrir þá. Í Biblíunni segir hins vegar: „Sá sem elskar peninga seðst aldrei af peningum og sá sem elskar auðinn hefur ekki gagn af honum.“ (Préd. 5:9) Þeir sem elska peninga vilja sífellt eignast meira og valda sjálfum sér „mörgum harmkvælum“ við það að sanka þeim að sér. – 1. Tím. 6:9, 10.

10. Hvað segir Biblían um fátækt og auðæfi?

10 Allir þurfa auðvitað á peningum að halda enda veita þeir vissa vernd. (Préd. 7:12) En er hægt að vera hamingjusamur ef maður á bara fyrir nauðsynjum? Tvímælalaust. (Lestu Prédikarann 5:11.) Agúr Jakeson skrifaði: „Gef mér hvorki fátækt né auðæfi en veit mér minn deildan verð.“ Við skiljum mætavel af hverju hann vildi ekki vera bláfátækur. Eins og hann nefndi í framhaldinu vildi hann ekki vera svo fátækur að hann freistaðist til að stela því að þá myndi hann kasta rýrð á nafn Guðs. En af hverju bað hann þess að vera ekki auðugur? Hann sagði: „Ég kynni annars að verða of saddur og afneita og segja: ,Hver er Drottinn?‘“ (Orðskv. 30:8, 9) Þú veist sennilega af fólki sem treystir á auðæfi sín frekar en á Guð.

11. Hvað ráðlagði Jesús varðandi peninga?

11 Það er ekki hægt að þóknast Guði ef maður elskar peninga. Jesús sagði: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ Þar á undan sagði hann: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.“ – Matt. 6:19, 20, 24.

12. Af hverju getur verið auðveldara að þjóna Guði ef maður lifir einföldu lífi? Lýstu með dæmi.

12 Margir þjónar Jehóva reyna að lifa einföldu lífi. Þeir hafa komist að raun um að þá hafa þeir meiri tíma til að þjóna Jehóva og eru hamingjusamari. Jack býr í Bandaríkjunum. Hann átti stórt hús og fyrirtæki en seldi hvort tveggja vegna þess að hann vissi að þá gæti hann verið brautryðjandi með konunni sinni. „Það var erfitt að segja skilið við þetta fallega heimili og landareign í sveitinni,“ segir hann þegar hann horfir um öxl. „En árum saman kom ég oft heim í vondu skapi út af erfiðleikum sem við var að glíma í vinnunni. Konan mín var brautryðjandi og var alltaf glöð. ,Ég er með besta yfirmann í heimi!‘ sagði hún oft. Núna er ég líka brautryðjandi og við vinnum bæði hjá sama vinnuveitanda – Jehóva.“

Hvað getum við gert til að elska ekki peninga? (Sjá 13. grein.)

13. Hvernig getum við kannað viðhorf okkar til peninga?

13 Við gætum spurt okkur eftirfarandi spurninga til að kanna viðhorf okkar til peninga: Trúi ég í alvöru því sem Biblían segir um peninga og lifi eftir því? Er það að afla peninga stóra málið í lífi mínu? Legg ég meiri áherslu á efnislega hluti en á sambandið við Jehóva og við fólk? Treysti ég virkilega að Jehóva sjái mér fyrir því sem ég þarf? Við getum verið örugg um að hann bregst þeim aldrei sem treysta á hann. – Matt. 6:33.

AÐ LEITA JEHÓVA EÐA SKEMMTA SÉR?

14. Hvernig eigum við að líta á skemmtun og afþreyingu?

14 Margir nú á tímum „elska munaðarlífið“ eins og spáð var. Það er ekkert rangt við njóta gæða lífsins á heilbrigðan hátt, rétt eins og það er ekkert rangt við að hugsa vel um sjálfan sig og nota peninga á eðlilegan hátt. Jehóva ætlast ekki til að við lifum einhvers konar meinlætalífi eða forðumst alla heilnæma afþreyingu. „Farðu því og et brauð þitt með ánægju og drekktu vín þitt með glöðu hjarta,“ segir í Biblíunni. – Préd. 9:7.

15. Hvað merkir það að „elska munaðarlífið“?

15 Í 2. Tímóteusarbréfi 3:4 er talað um þá sem lifa munaðarlífi en gefa engan gaum að Guði. Samkvæmt frummálinu er talað um að elska munaðarlífið frekar en Guð en ekki meira en Guð, rétt eins og menn elskuðu hann að einhverju marki. Fræðimaður segir: „Í þessu versi er greinilega ekki átt við það að elska Guð líka að einhverju marki. Það merkir að elska Guð alls ekki.“ Það er alvarleg viðvörun til þeirra sem þykir einum of vænt um afþreyingu og skemmtun. Að „elska munaðarlífið“ lýsir vel þeim sem ,kafna undir áhyggjum og nautnum lífsins‘. – Lúk. 8:14.

16, 17. Hvernig leit Jesús á skemmtun og afþreyingu?

16 Jesús varðveitti fullkomið jafnvægi gagnvart skemmtun og afþreyingu. Hann var einu sinni viðstaddur „brúðkaup“ og öðru sinni „veislu mikla“. (Jóh. 2:1-10; Lúk. 5:29) Í brúðkaupsveislunni vann hann það kraftaverk að breyta vatni í vín þegar vínið var á þrotum. Við annað tækifæri lýsti hann yfir vanþóknun sinni á yfirlæti þeirra sem gagnrýndu hann fyrir að neyta matar og drykkjar. – Lúk. 7:33-36.

17 En Jesús var ekki á kafi í skemmtun og afþreyingu. Hann einbeitti sér að því að þjóna Jehóva og var óþreytandi að liðsinna fólki. Hann dó fúslega kvalafullum dauðdaga til að margir aðrir fengju líf. Hann sagði um þá sem áttu eftir að feta í fótspor hans: „Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.“ – Matt. 5:11, 12.

Hvað getum við gert til að elska ekki munaðarlíf? (Sjá 18. grein.)

18. Hvaða spurninga getum við spurt okkur til að kanna hve mikið við leggjum upp úr skemmtun og afþreyingu?

18 Hvernig er hægt að meta hve mikið við leggjum upp úr skemmtun og afþreyingu? Það væri gott að spyrja sig: Læt ég skemmtun og afþreyingu ganga fyrir því að sækja samkomur? Er ég fús til að neita mér um eitt og annað til að þjóna Guði betur? Velti ég fyrir mér hvað Jehóva finnst um það sem ég vel mér til skemmtunar? Þar sem við elskum Guð viljum við gleðja hann og við forðumst vandlega allt sem við vitum að er honum ekki að skapi eða jafnvel grunar að svo sé. – Lestu Matteus 22:37, 38.

AÐ VERA HAMINGJUSAMUR

19. Hverjir geta aldrei verið hamingjusamir?

19 Heimur Satans er í þann mund að líða undir lok eftir að hafa valdið mönnum sorg og þjáningum í heil 6.000 ár. Þar er fullt af fólki sem er upptekið af sjálfu sér, peningum og munaðarlífi. Það hugsar fyrst og fremst um hvað það geti fengið út úr lífinu og þjónar fyrst og síðast eigin löngunum. Þetta fólk getur aldrei verið hamingjusamt. Sálmaskáldið orti hins vegar: „Sæll er sá sem á Jakobs Guð sér til hjálpar og setur von sína á Drottin, Guð sinn.“ – Sálm. 146:5.

20. Hvernig hefur það stuðlað að hamingju þinni að elska Guð?

20 Þjónum Jehóva fjölgar ár frá ári og þeir elska hann innilega. Það er merki þess að ríki hans sé við völd og eigi bráðlega eftir að veita mönnunum ólýsanlega gæfu. Það veitir okkur sanna og varanlega gleði að gera vilja Jehóva og vita að við gleðjum hann. Og þeir sem elska hann verða hamingjusamir um alla eilífð. Í næstu grein ræðum við um nokkra af þeim eiginleikum sem eru sprottnir af sjálfselsku og könnum hvernig þeir stinga í stúf við þá eiginleika sem einkenna þjóna Jehóva.