Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hann veitir kraft hinum þreytta“

„Hann veitir kraft hinum þreytta“

Árstextinn 2018 er: Þeir sem vona á Jehóva fá nýjan kraft. – JES. 40:31.

SÖNGVAR: 3, 47

1. Við hvaða erfiðleika þurfum við að kljást en hvers vegna er Jehóva ánægður með trúa þjóna sína? (Sjá myndir í upphafi greinar.)

EINS og við vitum er lífið í þessum heimi langt frá því að vera laust við erfiðleika. Mörg ykkar, kæru bræður og systur, glíma við alvarleg veikindi. Sumir þurfa að annast aldraða foreldra eða aðra ættingja jafnvel þó að þeir séu sjálfir komnir á efri ár. Og sumir eiga fullt í fangi með að sjá fjölskyldu sinni fyrir brýnustu nauðsynjum. Við vitum líka að margir glíma ekki aðeins við eitt þessara vandamála heldur mörg þeirra samtímis. Þetta kostar bæði tíma og fjármuni og reynir verulega á tilfinningalega. Þrátt fyrir allt þetta treystið þið algerlega loforðum Guðs. Trú ykkar á betri framtíð er óhagganleg. Jehóva er sannarlega ánægður með það!

2. Hvaða uppörvun fáum við í Jesaja 40:29, en hvaða alvarlegu mistök gætum við gert?

2 Finnst þér samt stundum að þú sért við það að bugast? Ef svo er ertu ekki einn um það. Í Biblíunni kemur fram að trúfastir þjónar Guðs til forna hafi oft verið við það að gefast upp. (1. Kon. 19:4; Job. 7:7) En í stað þess að gera það leituðu þeir til Jehóva til að fá styrk. Þeir urðu ekki fyrir vonbrigðum því að Guð okkar „veitir kraft hinum þreytta“. (Jes. 40:29) Því miður hafa sumir þjónar Guðs nú á dögum ályktað að besta leiðin til að takast á við álag lífsins sé að „taka sér hlé“ frá trúnni eins og þeir orða það, rétt eins og kristin þjónusta okkar væri byrði en ekki blessun. Þeir hætta því að lesa í orði Guðs, mæta á samkomur og taka þátt í boðuninni – einmitt það sem Satan vonast eftir.

3. (a) Hvernig getum við komið í veg fyrir að Satan takist að veikja okkur? (b) Hvað er rætt í þessari grein?

3 Satan veit vel að það getur styrkt okkur að vera önnum kafin í þjónustunni við Jehóva, og hann vill ekki að við séum styrk. Þegar þú ert úrvinda, líkamlega eða tilfinningalega, skaltu því ekki slíta tengslin við Jehóva. Vertu eins nálægt honum og þú getur. ,Hann mun styrkja þig og gera þig öflugan.‘ (1. Pét. 5:10; Jak. 4:8) Í þessari grein ræðum við um tvennar aðstæður sem gætu orðið til þess að við hægðum á okkur í þjónustunni við Guð. Einnig er rætt hvernig meginreglur Biblíunnar geta hjálpað okkur að takast á við þessar aðstæður. En beinum fyrst athyglinni að einstökum hæfileika Jehóva til að styrkja okkur eins og fram kemur í Jesaja 40:26-31.

ÞEIR SEM VONA Á JEHÓVA FÁ NÝJAN KRAFT

4. Hvað getum við lært af Jesaja 40:26?

4 Lestu Jesaja 40:26Enginn hefur getað talið allar stjörnurnar í alheiminum. Vísindamenn telja að í Vetrarbrautinni einni geti verið allt að 400 milljarðar stjarna. Jehóva hefur samt gefið hverri og einni þeirra nafn. Hvað lærum við af því? Fyrst Jehóva sýnir slíkan áhuga á lífvana sköpunarverki sínu geturðu rétt ímyndað þér hvernig hann hugsar til þín sem þjónar honum af kærleika, en ekki af því að þú sért forritaður til þess. (Sálm. 19:2, 4, 15) Kærleiksríkur faðir okkar þekkir þig út og inn. Hann ,hefur jafnvel talið öll höfuðhár þín‘. (Matt. 10:30) Sálmaskáldið skrifaði: „Drottinn hefur gætur á dögum flekklausra.“ (Sálm. 37:18) Já, Jehóva fylgist vel með þér. Hann tekur eftir erfiðleikunum sem þú þarft að kljást við og getur veitt þér styrk til að komast í gegnum þá alla.

5. Hvernig getum við verið viss um að Jehóva geti veitt okkur styrk?

5 Lestu Jesaja 40:28. Jehóva er uppspretta óþrjótandi orku. Hugsaðu til dæmis um hve mikilli orku hann sér sólinni fyrir. Vísindarithöfundurinn David Bodanis sagði: „Efnið, sem sólin okkar breytir í sprengiorku á hverri sekúndu, er á við [milljarða kjarnorkusprengna].“ Annar vísindamaður hefur reiknað út að sem stendur gefi sólin frá sér „næga orku á einni sekúndu til að geta fullnægt orkuþörf mannkyns í 200.000 ár“. Er hægt að draga það í efa að hann sem veitir sólinni orku geti gefið okkur þann styrk sem við þurfum til að takast á við hvaða vandamál sem er?

6. Á hvaða hátt er ok Jesú ljúft og hvaða áhrif ætti sú vitneskja að hafa á okkur?

6 Lestu Jesaja 40:29. Það veitir mikla gleði að þjóna Jehóva. Jesús sagði við lærisveina sína: „Takið á yður mitt ok.“ Og hann bætti við: „Þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt. 11:28-30) Þetta eru orð að sönnu. Af og til erum við kannski úrvinda þegar við förum á samkomu eða út í boðunina. En hvernig líður okkur þegar við komum heim? Við höfum fengið nýjan kraft og erum betur í stakk búin til að takast á við erfiðleika lífsins. Já, ok Jesú er ljúft.

7. Segðu frá dæmi sem lýsir sannleiksgildi orðanna í Matteusi 11:28-30.

7 Systir, sem við skulum kalla Kaylu, glímir við síþreytu, þunglyndi og mígreni. Skiljanlega hefur henni stundum fundist erfitt að mæta á samkomur. En eftir að hafa lagt það á sig að sækja samkomu eitt sinn skrifaði hún: „Ræðan fjallaði um depurð. Efnið var flutt af svo mikilli hluttekningu og umhyggju að ég táraðist. Þetta minnti mig á hve mikilvægt það er að ég mæti á samkomur.“ Hún var mjög ánægð að hafa lagt það á sig að mæta.

8, 9. Hvað átti Páll postuli við þegar hann skrifaði: „Þegar ég er veikur þá er ég máttugur“?

8 Lestu Jesaja 40:30. Sama hve mikla hæfileika við höfum þá er takmarkað sem við getum gert í eigin krafti. Það er nokkuð sem við þurfum öll að átta okkur á. Páll postuli var fær að mörgu leyti en hann hafði samt sín takmörk og gat ekki gert allt sem hann vildi. Þegar hann tjáði Guði áhyggjur sínar var honum sagt: „Mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Páll skildi hvað átt var við. Niðurstaða hans var þessi: „Þegar ég er veikur þá er ég máttugur.“ (2. Kor. 12:7-10) Hvað átti hann við með því?

9 Páli var ljóst að það var takmarkað sem hann gat gert án hjálpar frá æðri mætti. Heilagur andi Guðs gat veitt honum þann kraft sem hann skorti. Þar fyrir utan gat andi Guðs veitt Páli mátt til að vinna verk sem hann hefði aldrei getað unnið í eigin mætti. Hið sama á við um okkur. Ef krafturinn, sem við höfum, kemur frá Jehóva er styrkur okkar mikill.

10. Hvernig hjálpaði Jehóva Davíð að takast á við erfiðleikana sem mættu honum?

10 Sálmaskáldið Davíð fann oft fyrir kraftinum sem heilagur andi Guðs veitir. Hann söng: „Með þinni hjálp brýt ég borgarveggi, með Guði mínum stekk ég yfir múra.“ (Sálm. 18:30) Suma múra – suma erfiðleika – getum við ekki ,stokkið yfir‘ í eigin mætti. Við þurfum að fá kraft frá Jehóva.

11. Lýstu hvernig heilagur andi hjálpar okkur að takast á við vandamál okkar.

11 Lestu Jesaja 40:31. Örninn svífur ekki langar vegalengdir eða hækkar flug í eigin mætti. Uppstreymi af hlýju lofti lyftir honum upp en þannig sparar hann orku. Mundu eftir erninum þegar þú stendur frammi fyrir yfirþyrmandi vandamáli. Biddu Jehóva að veita þér „uppstreymi“ fyrir milligöngu ,hjálparans, andans heilaga‘. (Jóh. 14:26) Sem betur fer höfum við aðgang að honum hvenær sem við þurfum á honum að halda – allan sólarhringinn. Við gætum fundið sérstaklega fyrir þörfinni á hjálp Guðs þegar upp kemur ósætti milli okkar og trúsystkinis í söfnuðinum. En hvers vegna kemur slíkt ósætti upp?

12, 13. (a) Hvers vegna kemur stundum upp ágreiningur milli þjóna Guðs? (b) Hvað lærum við um Jehóva af frásögunni af Jósef?

12 Ágreiningur kemur upp milli fólks vegna þess að við erum öll ófullkomin. Af og til verðum við því pirruð yfir því sem trúsystkini okkar segja eða gera – eða öfugt, þau verða pirruð út í okkur. Þetta getur verið mikil prófraun. En eins og í öðrum prófraunum leyfir Jehóva okkur að sanna trúfesti okkar með því að læra að vinna náið með vígðum körlum og konum sem hann elskar þrátt fyrir ófullkomleika þeirra.

Jehóva yfirgaf ekki Jósef og hann yfirgefur þig ekki heldur. (Sjá 13. grein.)

13 Jehóva kemur ekki í veg fyrir að þjónar sínir verði fyrir prófraunum. Við getum séð það af frásögunni af Jósef. Öfundsjúkir hálfbræður hans seldu hann í þrælkun þegar hann var ungur að árum, og farið var með hann til Egyptalands. (1. Mós. 37:28) Jehóva sá það sem gerðist og án efa sárnaði honum hvernig farið var með Jósef, réttlátan vin hans. Hann gerði samt ekkert í málinu. Hann gerði heldur ekkert þegar Jósef var sakaður um að hafa reynt að nauðga konu Pótífars og var varpað í fangelsi. En yfirgaf hann nokkurn tíma Jósef? Alls ekki. „Allt sem [Jósef] tók sér fyrir hendur lét Drottinn lánast honum.“ – 1. Mós. 39:21-23.

14. Hvernig er það okkur til góðs að láta af reiði?

14 Lítum nú á annað dæmi. Fáir hafa mátt þola eins illa meðferð og Davíð. Þessi vinur Guðs leyfði samt ekki gremju að ná tökum á sér. Hann skrifaði: „Lát af reiði, slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.“ (Sálm. 37:8) Mikilvægasta ástæðan fyrir því að láta af reiði er að við viljum líkja eftir Jehóva sem „hefur eigi breytt við oss eftir syndum vorum“. (Sálm. 103:10) En það er okkur til góðs á fleiri vegu að láta af reiði. Reiði getur valdið líkamlegum kvillum eins og háum blóðþrýstingi og öndunarerfiðleikum. Hún getur haft áhrif á lifrina og brisið og valdið meltingartruflunum. Þegar við reiðumst hugsum við ekki alltaf skýrt. Og reiðiköstum getur stundum fylgt langvarandi þunglyndi. Hins vegar segir í Biblíunni að ,hugarró sé líkamanum líf‘. (Orðskv. 14:30) En hvernig getum við tekist á við sárar tilfinningar og sæst við trúsystkini okkar? Með því að notfæra okkur viturleg ráð Biblíunnar.

ÞEGAR TRÚSYSTKINI VALDA OKKUR VONBRIGÐUM

15, 16. Hvað ættum við að gera ef einhver særir okkur?

15 Lestu Efesusbréfið 4:26Það kemur okkur ekki á óvart þegar fólk í heiminum kemur illa fram við okkur. En þegar trúsystkini eða einhver í fjölskyldunni segir eða gerir eitthvað sem særir okkur djúpt verðum við kannski niðurbrotin. Hvað ef við getum ekki bara gleymt því sem gerst hefur? Látum við gremju grafa um sig hjá okkur, jafnvel svo árum skiptir? Eða fylgjum við skynsamlegum ráðum Biblíunnar um að vera fljót til sátta? Því lengur sem við drögum það að takast á við vandann þeim mun erfiðara verður það fyrir okkur að sættast við trúsystkini okkar.

16 Ímyndum okkur að trúsystkini hafi sært þig og þú getir ekki leitt það hjá þér. Hvað geturðu gert til að ná sáttum? Byrjaðu á að biðja innilega til Jehóva. Biddu hann um hjálp til að geta átt uppbyggilegar samræður við þann sem særði þig. Mundu að hann er vinur Jehóva. (Sálm. 25:14) Jehóva elskar hann. Hann er góður við vini sína og ætlast til hins sama af okkur. (Orðskv. 15:23; Matt. 7:12; Kól. 4:6) Hugsaðu síðan vandlega hvað þú ætlar að segja. Gerðu ekki ráð fyrir að bróðirinn eða systirin hafi sært þig viljandi heldur leyfðu honum eða henni að njóta vafans. Vertu líka opinn fyrir því að þú gætir að einhverju leyti átt sök á ósættinu. Þú gætir byrjað samræðurnar á því að segja eitthvað eins og: „Kannski er það bara ég, en þegar þú talaðir við mig í gær fannst mér ...“ Ef samtalið ber ekki tilætlaðan árangur, leitaðu þá að öðru tækifæri til að ná sáttum. Þangað til skaltu biðja fyrir trúsystkini þínu og biðja Jehóva að blessa það. Biddu hann að hjálpa þér að hugsa um góða eiginleika bróðurins eða systurinnar. Hver sem útkoman verður máttu vera viss um að Jehóva sé ánægður með einlæga viðleitni þína til að sættast við trúsystkini þitt – sem er vinur Jehóva.

ÞEGAR SEKTARKENND HVÍLIR ÞUNGT Á OKKUR

17. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að endurheimta gott samband við sig eftir að við höfum syndgað og hvers vegna ættum við að nýta okkur þá ráðstöfun?

17 Sumum finnst þeir ekki þess verðir að þjóna Jehóva vegna alvarlegrar syndar sem þeir hafa drýgt. Sektarkenndin getur verið harður húsbóndi. Davíð konungur þjáðist af sektarkennd en hann lýsti henni þannig: „Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér.“ Davíð hafði þó hugrekki til að gera það sem Jehóva vill að þjónar sínir geri. Hann skrifaði: „Þá játaði ég synd mína fyrir þér ... Og þú afmáðir syndasekt mína.“ (Sálm. 32:3-5) Ef þú hefur drýgt alvarlega synd er Jehóva tilbúinn til að hjálpa þér að endurheimta gott samband við sig. En þú þarft að þiggja hjálpina sem hann veitir fyrir milligöngu safnaðarins. (Orðskv. 24:16; Jak. 5:13-15) Frestaðu því ekki – eilíf framtíð þín er í húfi! En hvað ef þú ert enn þá með samviskubit út af fyrri mistökum löngu eftir að þú hefur fengið fyrirgefningu?

18. Hvernig getur fordæmi Páls hjálpað þeim sem finnst þeir ekki þess verðir að þjóna Jehóva?

18 Það komu tímabil sem Páli postula leið illa út af gömlum syndum. Hann sagði: „Ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli með því að ég ofsótti söfnuð Guðs.“ Hann bætti þó við: „En af Guðs náð er ég það sem ég er.“ (1. Kor. 15:9, 10) Jehóva tók Páli eins og hann var og hann vildi að Páll skildi það. Ef þú hefur einlæglega iðrast synda þinna og játað þær fyrir Jehóva, og öldungunum ef þörf var á, geturðu verið viss um að Jehóva sýni þér miskunn. Treystu því orðum Jehóva og því að hann hafi fyrirgefið þér. – Jes. 55:6, 7.

19. Hver er árstextinn 2018 og hvers vegna á hann vel við?

19 Núna þegar endalok þessa heims færast nær megum við búast við að álagið aukist. En þú mátt vera viss um að hann sem ,veitir kraft hinum þreytta og eykur þróttlausum mátt‘ getur gefið þér allt sem þú þarft til að geta haldið út. (Jes. 40:29; Sálm. 55:23; 68:20) Á árinu 2018 verðum við minnt á þessi mikilvægu sannindi í hvert sinn sem við sækjum samkomu í ríkissalnum. Þau koma fram í árstextanum sem er þar til sýnis, en hann er: Þeir sem vona á Jehóva fá nýjan kraft. – Jes. 40:31.