Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ánægjuleg eining og minningarhátíðin

Ánægjuleg eining og minningarhátíðin

„Hversu fagurt og yndislegt það er ... [að] búa saman.“ – SÁLM. 133:1.

SÖNGVAR: 18, 14

1, 2. Hvaða viðburður árið 2018 sameinar okkur á einstakan hátt og af hverju? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

SKÖMMU fyrir sólsetur hinn 31. mars 2018 safnast milljónir manna saman um heim allan til að vera viðstaddar hina árlegu kvöldmáltíð Drottins. Eftir því sem jörðin snýst um möndul sinn koma vottar Jehóva saman ásamt fjölda annarra til að minnast dauða Krists í hverju landi á fætur öðru. Á hverju ári sameinar minningarhátíðin fólk á einstakan hátt en enginn annar viðburður á jörð hefur eins sameinandi áhrif.

2 Við getum varla ímyndað okkur hve mikið það hlýtur að gleðja Jehóva og Jesú að fylgjast með milljónum manna sækja þennan sérstaka viðburð klukkustund eftir klukkustund þar til þessum degi lýkur. Í Biblíunni var sagt fyrir að „mikill múgur, sem enginn [gæti] tölu á komið, af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“ myndi hrópa: „Hjálpræðið kemur frá Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinb. 7:9, 10) Það er yndislegt að sjá svo marga heiðra Jehóva og Jesú á hverju ári á minningarhátíðinni.

3. Hvaða spurningum er svarað í þessari grein?

3 Í þessari grein eru fjórar spurningar til umfjöllunar: (1) Hvernig getum við hvert og eitt búið okkur undir minningarhátíðina og notið góðs af henni? (2) Á hvaða hátt hefur minningarhátíðin áhrif á einingu þjóna Guðs? (3) Hvað getum við gert til að stuðla að þessari einingu? (4) Verður minningarhátíðin einhvern tíma haldin í síðasta sinn? Ef svo er, hvenær?

HVERNIG GETUM VIÐ UNDIRBÚIÐ OKKUR OG NOTIÐ GÓÐS AF ÞVÍ AÐ MÆTA?

4. Af hverju er mikilvægt fyrir okkur að vera viðstödd minningarhátíðina ef þess er nokkur kostur?

4 Leiðum hugann að því hve mikilvægt er að sækja minningarhátíðina. Munum að safnaðarsamkomur eru þáttur í tilbeiðslu okkar. Við getum verið viss um að Jehóva og Jesús taka eftir því hverjir leggja það á sig að mæta á þessa mikilvægustu samkomu ársins. Við viljum að þeir sjái okkur á minningarhátíðinni nema það sé ógerlegt fyrir okkur að mæta sökum heilsuleysis eða annarra aðstæðna. Þegar við sýnum í verki að samkomurnar skipta okkur miklu máli gefum við Jehóva enn ríkari ástæðu til að geyma nafn okkar í minnisbók sinni – „lífsins bók“ – en þar standa nöfn þeirra sem Jehóva vill veita eilíft líf. – Mal. 3:16; Opinb. 20:15.

5. Hvernig getum við, dagana fyrir minningarhátíðina, kannað hve sterk trú okkar er?

5 Dagana fyrir minningarhátíðina getum við tekið frá tíma til að biðja og kanna hve sterkt samband okkar við Jehóva er. (Lestu 2. Korintubréf 13:5.) Hvernig getum við gert það? Með því að ,prófa okkur sjálf‘, hvort við séum í trúnni. Við getum velt fyrir okkur spurningum sem þessum: Trúi ég í raun og veru að ég tilheyri eina söfnuðinum sem Jehóva hefur valið til að koma vilja sínum til leiðar? Geri ég mitt besta til að boða og kenna fagnaðarerindið? Bera verk mín vitni um að ég trúi í raun að við lifum á hinum síðustu dögum og að stutt sé eftir af stjórn Satans? Ber ég jafn mikið traust til Jehóva og Jesú núna og þegar ég vígði líf mitt Jehóva? (Matt. 24:14; 2. Tím. 3:1; Hebr. 3:14) Að hugleiða svörin við slíkum spurningum leiðir í ljós hver við erum innst inni.

6. (a) Hver er eina leiðin til að hljóta eilíft líf? (b) Hvað gerir öldungur nokkur á hverju ári til að búa sig undir minningarhátíðina og hvernig gætir þú gert eitthvað svipað?

6 Lestu og hugleiddu efni sem fjallar um mikilvægi minningarhátíðarinnar. (Lestu Jóhannes 3:16; 17:3.) Eina leiðin til að hljóta eilíft líf er að kynnast Jehóva og trúa á Jesú, einkason hans. Til að búa þig undir minningarhátíðina gætirðu tekið fyrir námsverkefni sem hjálpa þér að nálægja þig Jehóva og Jesú. Taktu eftir hvað gamalreyndur öldungur gerir. Í mörg ár hefur hann safnað Varðturnsgreinum sem fjalla sérstaklega um minningarhátíðina og kærleikann sem Jehóva og Jesús hafa sýnt okkur. Vikurnar fyrir minningarhátíðina les hann þessar greinar aftur og hugleiðir hve þýðingarmikill viðburður þetta er. Af og til bætir hann nýjum greinum í safnið. Þessi öldungur hefur komist að raun um að hann lærir eitthvað nýtt á hverju ári þegar hann les þessar greinar og hugleiðir biblíulesefnið fyrir minningarhátíðina. En það sem mestu máli skiptir er að hann finnur hvernig kærleikurinn til Jehóva og Jesú eykst með hverju árinu. Námsverkefni sem þetta getur glætt kærleika þinn og þakklæti til Jehóva og Jesú, og þannig geturðu haft enn meira gagn af minningarhátíðinni.

MINNINGARHÁTÍÐIN HEFUR ÁHRIF Á EININGU OKKAR

7. (a) Um hvað bað Jesús eftir að fyrsta kvöldmáltíðin hafði farið fram? (b) Hvað sýnir að Jehóva hefur svarað bæn Jesú?

7 Eftir að fyrsta kvöldmáltíð Drottins hafði farið fram bað Jesús þess að fylgjendur sínir yrðu allir sameinaðir. Hann bað að þeir nytu sömu dýrmætu einingar og hann og faðir hans njóta. (Lestu Jóhannes 17:20, 21.) Jehóva hefur sannarlega svarað þessari bæn ástkærs sonar síns. Nú trúa milljónir manna að Guð hafi sent son sinn. Framar öllum öðrum samkomum þjóna Guðs er minningarhátíðin óhrekjandi sönnun fyrir þeirri einingu sem vottar Jehóva búa við. Fólk af mörgum þjóðum og með mismunandi hörundslit safnast saman á samkomustöðum um allan heim. Sums staðar er óþekkt að fólk af þessum ólíku kynþáttum komi saman á trúarsamkomur, og ef það gerist er það litið hornauga. En í augum Jehóva og Jesú er þessi eining ákaflega falleg.

8. Hvaða boðskap flutti Jehóva Esekíel?

8 Einingin meðal þjóna Jehóva kemur okkur ekki á óvart. Jehóva spáði henni reyndar fyrir. Hann sagði Esekíel spámanni að taka tvo stafi, annan merktan Júda og hinn Jósef, og sameina þá. (Lestu Esekíel 37:15-17.) Í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum júlí 2016 var útskýrt: „Fyrir milligöngu Esekíels sagði Jehóva fyrir að Ísraelsþjóðin myndi snúa aftur til fyrirheitna landsins og verða sameinuð á ný. Þetta loforð er einnig spádómur um þá sameiningu sem hófst meðal þjóna Guðs á síðustu dögum.“

9. Hvernig sjáum við uppfyllinguna á spádómi Esekíels þegar við sækjum minningarhátíðina ár hvert?

9 Árið 1919 fór Jehóva smám saman að endurskipuleggja og sameina hina andasmurðu, sem voru í táknrænum skilningi eins og stafurinn merktur Júda. Síðan tóku þeir sem hafa jarðneska von að slást í lið með hinum andasmurðu. Þeir eru í táknrænum skilningi eins og stafurinn merktur Jósef. Jehóva lofaði að sameina þessa tvo stafi og gera þá að einum staf í hendi sér. (Esek. 37:19) Hann gerði hina andasmurðu og „aðra sauði“ að ,einni hjörð‘. (Jóh. 10:16; Sak. 8:23) Nú þjóna báðir hóparnir saman í einingu undir einum konungi – hinum dýrlega Jesú Kristi sem er í spádómi Esekíels kallaður ,Davíð, þjónn Guðs‘. (Esek. 37:24, 25) Sú dýrmæta eining, sem lýst er í Esekíel, sést greinilega ár hvert þegar þeir sem eftir eru af hinum andasmurðu og ,aðrir sauðir‘ safnast saman til minningarhátíðarinnar um dauða Krists. En hvað getum við gert hvert og eitt til að varðveita þessa einingu og efla hana?

HVAÐ GETUM VIÐ GERT TIL AÐ EFLA EININGUNA?

10. Hvernig getum við stuðlað að einingu meðal þjóna Guðs?

10 Ein leið til að stuðla að einingu meðal þjóna Guðs er að temja sér auðmýkt. Þegar Jesús var á jörð hvatti hann lærisveina sína til að vera auðmjúkir. (Matt. 23:12) Ef við erum lítillát látum við ekki undan anda heimsins og förum að líta stórt á sjálf okkur. Auðmýkt hjálpar okkur að vera undirgefin þeim sem fara með forystuna og hlýða leiðbeiningum þeirra, en það er alger grundvöllur fyrir einingu safnaðarins. Umfram allt gleðjum við Guð þegar við erum auðmjúk því að hann „stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð“. – 1. Pét. 5:5.

11. Hvernig getur það stuðlað að einingu að hugleiða merkingu brauðsins og vínsins?

11 Annað sem við getum gert til að stuðla að einingu er að íhuga merkingu brauðsins og vínsins sem borið er fram á minningarhátíðinni. Fyrir þetta sérstaka kvöld – og ekki síst á kvöldinu sjálfu – skaltu velta vandlega fyrir þér hvaða þýðingu ósýrða brauðið og rauðvínið hefur. (1. Kor. 11:23-25) Brauðið táknar syndlausan líkama Jesú sem hann fórnaði og vínið táknar úthellt blóð hans. En það er ekki nóg aðeins að skilja hvað brauðið og vínið merkir. Munum að með lausnarfórn Krists voru unnin tvö mestu kærleiksverk allra tíma – Jehóva fórnaði syni sínum í okkar þágu og Jesús lagði líf sitt fúslega í sölurnar fyrir okkur. Þegar við hugleiðum kærleikann, sem þeir hafa sýnt okkur, ætti kærleikur okkar til þeirra að vaxa. Og kærleikurinn, sem bæði við og trúsystkini okkar berum til Jehóva, er eins og band sem bindur okkur saman og styrkir eininguna.

Þegar við fyrirgefum stuðlum við að einingu. (Sjá 12. og 13. grein.)

12. Hvernig sýndi Jesús með dæmisögunni um konunginn, sem gaf upp skuld, að Jehóva ætlast til þess að við fyrirgefum fúslega?

12 Það þriðja, sem við getum gert til að stuðla að einingu, er að fyrirgefa fúslega þeim sem særa okkur. Þannig sýnum við að við kunnum að meta það að Jehóva geti fyrirgefið syndir okkar vegna lausnarfórnar Krists. Veltum fyrir okkur dæmisögu Jesú í Matteusi 18:23-34. Spyrðu þig: Finn ég hvöt hjá mér til að fara eftir því sem Jesús kenndi? Er ég þolinmóður og skilningsríkur við trúsystkini mín? Er ég fús til að fyrirgefa þeim sem gera eitthvað á hlut minn? Syndir geta vissulega verið misalvarlegar og sumar gæti okkur ófullkomnum mönnum þótt mjög erfitt að fyrirgefa. En af dæmisögunni sjáum við hvers Jehóva ætlast til af okkur. (Lestu Matteus 18:35.) Jesús lætur skýrt í ljós að Jehóva fyrirgefur okkur ekki ef við fyrirgefum ekki trúsystkinum okkar þegar ástæða er til. Þetta er umhugsunarvert. Við stöndum vörð um dýrmæta einingu okkar og varðveitum hana þegar við fyrirgefum öðrum eins og Jesús kenndi okkur að gera.

13. Hvernig stuðlum við að einingu með því að leitast við að halda friðinn?

13 Þegar við fyrirgefum stuðlum við að friði. Páll postuli hvetur okkur til að ,kappkosta að varðveita einingu andans í bandi friðarins‘. (Ef. 4:3) Nú þegar líður að minningarhátíðinni, og sérstaklega kvöldið sem hún er haldin, skaltu hugleiða hvernig þú kemur fram við aðra. Spyrðu þig: Sést það skýrt að ég el ekki á gremju þegar aðrir gera á hlut minn? Er ég þekktur fyrir að leggja töluvert á mig til að stuðla að friði og einingu? Þetta eru alvarlegar spurningar sem gott er að velta fyrir sér á þessum árstíma.

14. Hvernig getum við sýnt að við ,umberum hvert annað í kærleika‘?

14 Fjórða leiðin til að stuðla að einingu er að sýna kærleika líkt og Jehóva, Guð kærleikans. (1. Jóh. 4:8) Við viljum aldrei segja um trúsystkini okkar: „Ég þarf kannski að elska þau en mér þarf ekki að líka vel við þau.“ Það gengi í berhögg við leiðbeiningar Páls um að ,umbera hvert annað í kærleika‘. (Ef. 4:2, Biblían 1981) Taktu eftir að hann segir ekki aðeins að við eigum að ,umbera hvert annað‘. Hann bætir við að við eigum að gera það „í kærleika“. Þar er munur á. Í söfnuðinum er alls konar fólk sem Jehóva hefur dregið til sín. (Jóh. 6:44) Þar sem hann hefur gert það hlýtur hann að hafa margar góðar ástæður til að elska það. Hvernig getum við þá ákveðið að trúsystkini okkar verðskuldi ekki að við elskum það? Við ættum ekki að halda aftur af þeim kærleika sem Jehóva segir okkur að sýna. – 1. Jóh. 4:20, 21.

SÍÐASTA MINNINGARHÁTÍÐIN – HVENÆR?

15. Hvernig vitum við að það kemur að því að minningarhátíðin verður haldin í síðasta sinn?

15 Einn daginn kemur að því að minningarhátíðin verður haldin í síðasta sinn. Hvernig vitum við það? Páll skrifaði andasmurðum kristnum mönnum í fyrra innblásna bréfi sínu til Korintumanna að með því að minnast dauða Jesú árlega ,boðuðu þeir dauða Drottins þangað til hann kemur‘. (1. Kor. 11:26) Orðið „kemur“ á hér við um sama atburð og ,koman‘ sem Jesús talaði um í spádómi sínum um endalokatímann. Hann sagði varðandi þrenginguna miklu sem er rétt fram undan: „Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni og allar kynkvíslir jarðar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. [Jesús] mun senda út engla sína með hvellum lúðri og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.“ (Matt. 24:29-31) Þegar Jesús talar um að hann ,safni sínum útvöldu‘ á hann við tímann þegar allir andasmurðir þjónar Guðs, sem þá verða eftir á jörðinni, hljóta laun sín á himni. Það gerist eftir að fyrsti hluti þrengingarinnar miklu er yfirstaðinn en áður en Harmagedónstríðið brýst út. Þá mun Jesús ásamt öllum hinum 144.000 sigra konunga jarðarinnar. (Opinb. 17:12-14) Síðasta minningarhátíðin áður en hinum andasmurðu er safnað til himna verður sú síðasta sem haldin verður því að eftir það verður Jesús ,kominn‘.

16. Hvers vegna ætlarðu þér að mæta á minningarhátíðina í ár?

16 Verum staðráðin í að vera viðstödd minningarhátíðina hinn 31. mars 2018. Og biðjum Jehóva að hjálpa okkur að stuðla að einingu meðal þjóna hans. (Lestu Sálm 133:1.) Munum að einn daginn sækjum við minningarhátíðina í síðasta sinn. Þangað til skulum við gera allt sem við getum til að vera viðstödd minningarhátíðina og njóta þeirrar einingar sem við finnum fyrir þar.