Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 3

Hvernig geturðu varðveitt hjarta þitt?

Hvernig geturðu varðveitt hjarta þitt?

„Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru.“ – ORÐSKV. 4:23.

SÖNGUR 36 Varðveitum hjartað

YFIRLIT *

1-3. (a) Af hverju elskaði Jehóva Salómon, og hvaða blessun hlaut Salómon? (b) Hvaða spurningum er svarað í greininni?

SALÓMON var ungur að árum þegar hann varð konungur Ísraels. Stuttu eftir að hann tók við völdum birtist Jehóva honum í draumi og sagði: „Segðu hvað þú vilt að ég gefi þér.“ Salómon svaraði: „Ég er enn ungur og óreyndur ... Gefðu því þjóni þínum vilja til að hlýða þér svo að ég geti stjórnað þjóð þinni.“ (1. Kon. 3:5-10) Hvílík hógværð! Salómon bað aðeins um „vilja til að hlýða“, eða „hlýðið hjarta“ eins og segir í frumtextanum. Það er engin furða að Jehóva elskaði Salómon. (2. Sam. 12:24) Guð okkar var svo ánægður með svar þessa unga konungs að hann gaf honum „hyggið og skynugt hjarta“. – 1. Kon. 3:12.

2 Salómon naut ríkulegrar blessunar meðan hann var trúfastur. Hann fékk þann heiður að reisa „nafni Drottins, Guðs Ísraels“, musteri. (1. Kon. 8:20) Hann hlaut frægð fyrir viskuna sem Guð gaf honum. Og það sem hann sagði undir innblæstri er skráð í þrem bókum Biblíunnar. Ein þeirra er Orðskviðirnir.

3 Í þeirri biblíubók er hjartað nefnt næstum 70 sinnum. Í Orðskviðunum 4:23 segir til dæmis: „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru.“ Hvað er átt við með orðinu „hjarta“ í þessu versi? Þeirri spurningu er svarað í greininni. Við fáum líka svör við tveim öðrum spurningum: Hvernig reynir Satan að spilla hjarta okkar? Og hvað getum við gert til að varðveita hjartað? Við þurfum að skilja svörin við þessum mikilvægu spurningum til að við hvikum ekki frá trúfesti okkar við Guð.

„HJARTA ÞITT“ – HVAÐ ER ÞAÐ?

4-5. (a) Hvernig hjálpar Sálmur 51:8 okkur að skilja hvað er átt við með orðinu „hjarta“? (b) Hvernig sýnir líkamlegt heilbrigði okkar fram á mikilvægi þess að vera heilbrigð hið innra?

4 Í Orðskviðunum 4:23 er orðið „hjarta“ notað um það sem við erum „hið innra“, það er að segja það sem aðrir menn sjá ekki. (Lestu Sálm 51:8.) Með öðrum orðum vísar „hjarta“ til hugsana okkar, tilfinninga, hvata og langana. Það vísar til þess hver við erum innst inni, ekki aðeins hver við lítum út fyrir að vera.

5 Skoðum hvernig líkamlegt heilbrigði okkar sýnir fram á mikilvægi þess að vera heilbrigð hið innra. Í fyrsta lagi þurfum við að borða næringarríkan mat og hreyfa okkur reglulega til að halda okkur í góðu formi. Eins þurfum við að neyta næringarríkrar andlegrar fæðu og iðka reglulega trúna á Jehóva til að halda táknrænu hjarta okkar í góðu formi. Við iðkum trúna með því að fara eftir því sem við lærum og segja öðrum frá því sem við trúum. (Rómv. 10:8-10; Jak. 2:26) Í öðru lagi gæti litið út fyrir að við séum í góðu formi þó að við séum í raun veik hið innra. Á svipaðan hátt gætum við haldið að trú okkar sé sterk af því að við höfum góða reglu á þjónustunni við Jehóva. Hins vegar gætu rangar langanir verið að skjóta rótum innra með okkur. (1. Kor. 10:12; Jak. 1:14, 15) Við verðum að muna að Satan vill smita okkur af hugsunarhætti sínum. Hvernig reynir hann að gera það? Og hvernig getum við varið okkur?

HVERNIG REYNIR SATAN AÐ SPILLA HJARTA OKKAR?

6. Hvert er markmið Satans og hvernig reynir hann að ná því?

6 Satan vill að við verðum eins og hann – uppreisnarseggir sem hunsa meginreglur Jehóva og láta stjórnast af eigingirni. En Satan getur ekki neytt okkur til að hugsa og hegða okkur eins og hann. Þess vegna reynir hann að ná markmiði sínu með öðrum hætti. Hann hefur séð til þess að við erum umkringd fólki sem hann hefur þegar spillt. (1. Jóh. 5:19) Hann vonar að við verjum tíma með því þótt við vitum að slæmur félagsskapur „spillir“ hegðun okkar og hugarfari. (1. Kor. 15:33) Salómon konungur féll fyrir þessu bragði. Hann kvæntist mörgum heiðnum konum sem tókst smám saman að vefja honum um fingur sér og ,snúa hjarta hans afleiðis‘, burt frá Jehóva. – 1. Kon. 11:3, Biblían 1981.

Hvernig geturðu verndað hjartað svo að Satan nái ekki að smita það af hugsunarhætti sínum? (Sjá 7. grein.) *

7. Hvað annað gerir Satan til að koma hugsunarhætti sínum á framfæri og hvers vegna þurfum við að vera á verði?

7 Satan notar kvikmyndir og sjónvarpsþætti til að koma hugsunarhætti sínum á framfæri. Hann veit að sögur eru mun meira en skemmtun – þær kenna okkur hvernig við eigum að hugsa og hegða okkur og hvernig okkur á að líða. Jesús nýtti sér vel þessa kennsluaðferð. Meðal annars má nefna dæmisöguna um miskunnsama Samverjann og um soninn sem fór að heiman og sólundaði arfi sínum. (Matt. 13:34; Lúk. 10:29-37; 15:11-32) En þeir sem hafa smitast af hugarfari Satans geta notað sögur til að spilla okkur. Við þurfum að gæta jafnvægis. Kvikmyndir og sjónvarpsþættir geta verið skemmtilegir og fræðandi án þess að spilla hugsunarhætti okkar. En við þurfum að vera á verði. Þegar við veljum okkur afþreyingarefni er gott að spyrja sig: Gefur þessi mynd eða þáttur mér þau skilaboð að það sé í lagi að láta undan holdlegum löngunum? (Gal. 5:19-21; Ef. 2:1-3) Hvað ættirðu að gera ef þú verður var við að sjónvarpsefni ýtir undir viðhorf Satans? Forðastu það eins og pestina!

8. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að varðveita hjartað?

8 Foreldrar, Satan reynir að spilla hjörtum barna ykkar og ykkur ber sérstök skylda til að vernda þau. Þið gerið án efa allt sem í ykkar valdi stendur til að vernda þau gegn bókstaflegum sjúkdómum. Þið haldið heimilinu hreinu og hendið öllu sem gæti orðið til þess að þið eða börnin ykkar veikist. Á sama hátt þurfið þið að vernda börnin gegn kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, tölvuleikjum og vefsíðum sem eru líklegar til að smita þau af hugsunarhætti Satans. Jehóva hefur falið ykkur það verkefni að hjálpa börnunum að verða vinir hans. (Orðskv. 1:8; Ef. 6:1, 4) Verið því ekki smeyk við að setja reglur á heimilinu byggðar á meginreglum Biblíunnar. Segið ungum börnum ykkar hvað þau megi horfa á og hvað ekki, og hjálpið þeim að skilja ástæðurnar fyrir ákvörðunum ykkar. (Matt. 5:37) Eftir því sem börnin verða eldri skuluð þið kenna þeim að greina sjálf hvað sé rétt og hvað sé rangt miðað við mælikvarða Jehóva. (Hebr. 5:14) Og munið að börnin læra margt af því sem þið segið en jafnvel meira af því sem þið gerið. – 5. Mós. 6:6, 7; Rómv. 2:21.

9. Hvað er eitt af því sem Satan heldur á lofti og hvers vegna er hættulegt að hugsa þannig?

9 Satan reynir líka að spilla hjörtum okkar með því að fá okkur til að treysta á mannlega visku frekar en visku Jehóva. (Kól. 2:8) Eitt af því sem Satan heldur á lofti er að aðalmarkmiðið í lífinu eigi að vera að eignast peninga og verða ríkur. Þeir sem hugsa þannig gætu orðið ríkir en það er alls ekki víst. Hvort heldur sem er eru þeir í hættu. Hvers vegna? Vegna þess að þeir geta orðið svo uppteknir af því að eignast peninga að þeir fórna heilsunni, sambandinu við fjölskylduna og jafnvel vináttunni við Guð fyrir það eitt að ná markmiði sínu. (1. Tím. 6:10) Við megum vera þakklát fyrir að faðir okkar á himnum hjálpar okkur að hafa rétt viðhorf til peninga. – Préd. 7:12; Lúk. 12:15.

HVERNIG GETUM VIÐ VARÐVEITT HJARTA OKKAR?

Vertu á verði og bregstu við líkt og varðmenn og hliðverðir til forna þannig að spillandi áhrif komist ekki inn í hjarta þitt. (Sjá 10. og 11. grein.) *

10-11. (a) Hvað þurfum við að gera til að verja okkur? (b) Hvað gerðu varðmenn til forna og hvernig getur samviskan verið eins og varðmaður?

10 Til að varðveita hjarta okkar verðum við að geta borið kennsl á hættur og bregðast fljótt við þeim til að verja okkur. Orðið, sem er þýtt „varðveit“ í Orðskviðunum 4:23, mætti einnig þýða „stattu vörð“. Það minnir á hlutverk varðmanna. Á dögum Salómons konungs stóðu þeir vörð á borgarmúrunum og gerðu öðrum viðvart ef þeir komu auga á hættu í aðsigi. Þetta dæmi hjálpar okkur að skilja hvað við þurfum að gera til að koma í veg fyrir að Satan spilli huga okkar.

11 Varðmenn til forna unnu náið með hliðvörðum borgarinnar. (2. Sam. 18:24-26) Þeir hjálpuðust að við að vernda borgina með því að ganga úr skugga um að hliðin væru lokuð þegar óvin bar að garði. (Neh. 7:1-3) Biblíufrædd samviska okkar * getur verið eins og varðmaður og varað okkur við þegar Satan gerir árás á hjarta okkar, það er að segja þegar hann reynir að hafa áhrif á hugsanir okkar, tilfinningar, hvatir eða langanir. Í hvert sinn sem samviskan varar okkur við aðsteðjandi hættu þurfum við að hlusta á hana og loka hliðunum ef svo má að orði komast.

12-13. Hvað gætum við freistast til að gera en hvernig ættum við að bregðast við?

12 Hvernig getum við varast að láta hugarfar Satans hafa áhrif á okkur? Lítum á dæmi. Jehóva hefur kennt okkur að kynferðislegt siðleysi og „óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd [ætti] ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal [okkar]“. (Ef. 5:3) En hvað gerum við ef vinnu- eða skólafélagar fara að tala um eitthvað sem er kynferðislega siðlaust? Við vitum að við eigum að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum“. (Tít. 2:12) Varðmaðurinn, samviska okkar, gæti varað okkur við hættunni. (Rómv. 2:15) En hlustum við á hana? Við gætum freistast til að hlusta á kunningjana eða skoða myndir sem þeir eru að sýna. En þetta er tíminn til að loka borgarhliðunum með því að breyta um umræðuefni eða ganga burt.

13 Við þurfum að sýna hugrekki þegar kunningjar þrýsta á okkur til að hugsa um eða gera það sem er rangt. Við megum vera viss um að Jehóva sér það sem við leggjum á okkur og hann gefur okkur kraft og visku til að standa gegn hugsunarhætti Satans. (2. Kron. 16:9; Jes. 40:29; Jak. 1:5) En hvað annað getum við gert til að varðveita hjartað?

VERUM Á VERÐI

14-15. (a) Fyrir hverju þurfum við að opna hjarta okkar og hvernig getum við gert það? (b) Hvernig getum við haft sem mest gagn af biblíulestri, samanber Orðskviðina 4:20-22? (Sjá einnig rammann „ Hvernig er hægt að hugleiða?“)

14 Til að varðveita hjarta okkar er ekki nóg að loka því fyrir skaðlegum áhrifum. Við þurfum líka að opna það fyrir góðum áhrifum. Hugsum aftur um líkinguna um víggirta borg. Hliðvörður lokaði borgarhliðunum til að koma í veg fyrir innrás óvina. En hann opnaði líka hliðin til að hægt væri að koma inn með mat og aðrar birgðir. Ef hliðin væru aldrei opnuð myndu íbúar borgarinnar svelta. Á svipaðan hátt þurfum við reglulega að opna hjarta okkar til að láta viðhorf Guðs hafa áhrif á okkur.

15 Biblían hefur að geyma hugsanir Jehóva. Í hvert sinn sem við lesum í henni látum við því viðhorf hans hafa áhrif á hugsanir okkar, hegðun og líðan. Hvernig getum við haft sem mest gagn af biblíulestri? Bænin gegnir mikilvægu hlutverki. Systir nokkur segir: „Áður en ég les í Biblíunni bið ég Jehóva að hjálpa mér að sjá skýrt dásemdirnar í orði hans.“ (Sálm. 119:18) Við þurfum líka að hugleiða það sem við lesum. Þegar við biðjum, lesum og hugleiðum nær orð Guðs „innst í hjarta [okkar]“ og við förum að elska viðhorf hans. – Lestu Orðskviðina 4:20-22; Sálm. 119:97.

16. Hvaða gagn hafa margir haft af Sjónvarpi Votta Jehóva?

16 Önnur leið til að láta viðhorf Guðs hafa áhrif á okkur er að horfa á myndbönd í Sjónvarpi Votta Jehóva. Hjón nokkur segja: „Mánaðarþættirnir hafa sannarlega verið svar við bænum okkar! Þeir hafa styrkt okkur og uppörvað þegar við erum leið eða einmana. Og lögin eru mikið spiluð heima hjá okkur. Við hlustum á þau þegar við eldum, tökum til eða bara þegar við drekkum te.“ Þættirnir hjálpa okkur að varðveita hjartað. Þeir kenna okkur að hugsa eins og Jehóva hugsar og að standast þrýstinginn til að tileinka okkur hugarfar Satans.

17-18. (a) Hvað gerist þegar við förum eftir því sem Jehóva kennir okkur, eins og sjá má af 1. Konungabók 8:61? (b) Hvað getum við lært af Hiskía konungi? (c) Um hvað getum við beðið, eins og sjá má af bæn Davíðs í Sálmi 139:23, 24?

17 Trú okkar styrkist í hvert sinn sem við sjáum hve gott það er að gera rétt. (Jak. 1:2, 3) Okkur líður vel þar sem við höfum gert Jehóva stoltan af að kalla okkur börn sín, og löngun okkar til að þóknast honum verður enn sterkari. (Orðskv. 27:11) Hver prófraun verður tækifæri til að sýna að við ,höltrum ekki til beggja hliða‘ þegar kemur að þjónustunni við umhyggjusaman föður okkar. (Sálm. 119:113, Biblían 1981) Við sýnum Jehóva að við elskum hann af öllu hjarta, hjarta sem er staðráðið í að hlýða fyrirmælum hans og gera vilja hans. – Lestu 1. Konungabók 8:61.

18 Eigum við eftir að gera mistök? Já, við erum ófullkomin. Ef okkur verður á skulum við muna eftir Hiskía konungi. Hann gerði mistök. En hann iðraðist og hélt áfram að þjóna Jehóva með „einlægu hjarta“. (Jes. 38:3-6, Biblían 1981; 2. Kron. 29:1, 2; 32:25, 26) Stöndum því gegn tilraunum Satans til að smita okkur af hugsunarhætti sínum. Biðjum Jehóva að gefa okkur „hlýðið hjarta“. (1. Kon. 3:9; lestu Sálm 139:23, 24.) Við getum verið Jehóva trúföst ef við varðveitum hjartað framar öllu öðru.

SÖNGUR 54 „Þetta er vegurinn“

^ gr. 5 Verðum við Jehóva trúföst eða leyfum við Satan að tæla okkur burt frá honum? Svarið ræðst ekki af því hve mikið Satan reynir okkur heldur hversu vel við varðveitum hjartað. Hvað er átt við með orðinu „hjarta“? Hvernig reynir Satan að spilla hjarta okkar? Og hvernig getum við varðveitt það? Þessum mikilvægu spurningum er svarað í greininni.

^ gr. 11 ORÐASKÝRING: Jehóva gaf okkur hæfileikann að geta rannsakað hugsanir okkar, tilfinningar og verk, og að dæma okkur síðan eftir því. Biblían kallar þennan hæfileika samvisku. (Rómv. 2:15; 9:1) Ef við höfum biblíufrædda samvisku notum við mælikvarða Jehóva eins og honum er lýst í Biblíunni til að dæma hvort það sem við hugsum, gerum eða segjum sé gott eða slæmt.

^ gr. 56 Mynd: Skírður bróðir er að horfa á sjónvarpið þegar siðlaust atriði birtist á skjánum. Hann þarf að ákveða hvað hann ætlar að gera.

^ gr. 58 Mynd: Varðmaður til forna sér hættu í aðsigi. Hann kallar til hliðvarðanna fyrir neðan sem bregðast strax við með því að loka hliðunum að innanverðu.