Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 5

Hvað sýnum við með því að mæta á samkomur?

Hvað sýnum við með því að mæta á samkomur?

„Boðið ... dauða Drottins þangað til hann kemur.“ – 1. KOR. 11:26.

SÖNGUR 18 Þakkir fyrir lausnargjaldið

YFIRLIT *

1-2. (a) Hvað sér Jehóva þegar milljónir manna safnast saman til að vera viðstaddar kvöldmáltíð Drottins? (Sjá mynd á forsíðu.) (b) Hvað er rætt í þessari grein?

HUGSAÐU þér hvað Jehóva sér þegar milljónir manna um allan heim koma saman til að vera viðstaddar kvöldmáltíð Drottins. Hann sér meira en stóran hóp manna, hann tekur eftir hverjum og einum sem er viðstaddur. Hann sér til dæmis þá sem koma trúfastlega ár eftir ár. Sumir þeirra þurfa jafnvel að þola miklar ofsóknir. Öðrum finnst það skylda sín að mæta á minningarhátíðina þótt þeir sæki ekki reglulega aðrar samkomur. Jehóva tekur líka eftir þeim sem eru að koma í fyrsta sinn, ef til vill fyrir forvitnissakir.

2 Jehóva er vafalaust glaður að sjá svo marga sækja minningarhátíðina. (Lúk. 22:19) En honum er ekki aðeins umhugað um fjölda þeirra sem mæta. Hann hefur meiri áhuga á ástæðunni fyrir komu þeirra. Hvötin, sem býr að baki, skiptir Jehóva máli. Í þessari grein ræðum við mikilvæga spurningu: Hvers vegna sækjum við ekki bara hina árlegu minningarhátíð heldur líka vikulegu samkomurnar sem Jehóva sér þeim fyrir sem elska hann?

(Sjá 1. og 2. grein) *

AUÐMÝKT ER OKKUR HVATNING TIL AÐ MÆTA

3-4. (a) Hvers vegna sækjum við samkomur? (b) Hvað sýnum við með því að mæta á samkomur? (c) Hvers vegna ættum við ekki að missa af minningarhátíðinni í ljósi þess sem segir í 1. Korintubréfi 11:23-26?

3 Við sækjum samkomur fyrst og fremst vegna þess að þær eru þáttur í tilbeiðslu okkar. Önnur ástæða er sú að þar fáum við fræðslu frá Jehóva. Stoltu fólki finnst það ekki þurfa á neinni kennslu að halda. (3. Jóh. 9) Við viljum hins vegar óðfús fá kennslu frá Jehóva og söfnuðinum sem hann notar. – Jes. 30:20; Jóh. 6:45.

4 Með því að mæta á samkomur sýnum við að við erum auðmjúk og fús til að þiggja kennslu. Við sækjum minningarhátíðina um dauða Jesú ekki aðeins af því að okkur finnst við skyldug til þess heldur líka vegna þess að við hlýðum auðmjúk fyrirmælum Jesú: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lestu 1. Korintubréf 11:23-26.) Þessi mikilvæga samkoma styrkir von okkar og minnir okkur á hversu innilega Jehóva elskar okkur. En Jehóva veit að við þurfum á uppörvun og hvatningu að halda oftar en einu sinni á ári. Hann sér okkur því fyrir samkomum í hverri viku og hvetur okkur til að sækja þær. Auðmýkt er okkur hvatning til að hlýða. Við notum margar klukkustundir á viku til að búa okkur undir samkomurnar og sækja þær.

5. Hvers vegna þiggur auðmjúkt fólk boð Jehóva?

5 Jehóva býðst til að kenna fólki og á hverju ári þiggur margt auðmjúkt fólk boð hans. (Jes. 50:4) Yfirleitt sækir það fyrst minningarhátíðina og fer síðan að sækja aðrar samkomur. (Sak. 8:20-23) Saman höfum við yndi af að hljóta kennslu og leiðsögn Jehóva, bjargvættar okkar og frelsara. (Sálm. 40:18) Er nokkuð ánægjulegra – eða mikilvægara – en að þiggja kennslu frá Jehóva og Jesú, syninum sem hann elskar svo heitt? – Matt. 17:5; 18:20; 28:20.

6. Hvernig varð auðmýkt til þess að maður nokkur kom á minningarhátíðina?

6 Á hverju ári reynum við að bjóða eins mörgum og við getum á minningarhátíðina um dauða Jesú. Margt auðmjúkt fólk hefur notið góðs af því að þiggja boðið. Tökum dæmi. Fyrir nokkrum árum fékk maður boðsmiða á minningarhátíðina en sagði bróðurnum, sem gaf honum miðann, að hann kæmist ekki. Það kom bróðurnum því á óvart að sjá manninn mæta í ríkissalinn kvöldið sem minningarhátíðin var haldin. Maðurinn var svo hrifinn af móttökunum að hann fór að sækja samkomur í hverri viku. Hann missti aðeins af þrem samkomum allt árið. Hvers vegna brást hann svona vel við? Hann var nógu auðmjúkur til að skipta um skoðun. Bróðirinn, sem bauð honum, sagði síðar: „Hann er mjög auðmjúkur maður.“ Jehóva hefur án efa dregið þennan mann til sín, og nú er hann skírður bróðir. – Jóh. 6:44; 1. Pét. 5:5.

7. Hvernig getur það sem við lærum á samkomum og lesum í Biblíunni hjálpað okkur að vera auðmjúk?

7 Það sem við lærum á samkomum og lesum í Biblíunni getur hjálpað okkur að vera auðmjúk. Á samkomum vikurnar fyrir minningarhátíðina er athyglinni yfirleitt beint að fordæmi Jesú og auðmýktinni sem hann sýndi með því að gefa líf sitt sem lausnargjald. Dagana fyrir minningarhátíðina erum við hvött til að lesa í Biblíunni um atburði tengda dauða og upprisu Jesú. Það sem við lærum á þessum samkomum og af frásögum Biblíunnar fyllir okkur enn meira þakklæti fyrir fórnina sem hann færði í okkar þágu. Það er okkur hvatning til að líkja eftir auðmýkt hans og gera vilja Jehóva, líka þegar okkur finnst það erfitt. – Lúk. 22:41, 42.

HUGREKKI HJÁLPAR OKKUR AÐ MÆTA

8. Hvernig sýndi Jesús hugrekki?

8 Við reynum líka að líkja eftir Jesú með því að vera hugrökk. Munum hversu hugrakkur hann var dagana áður en hann dó. Hann gerði sér fulla grein fyrir því að óvinir hans myndu brátt niðurlægja hann og berja og að lokum taka hann af lífi. (Matt. 20:17-19) Samt var hann fús til að deyja. Þegar stundin var runnin upp sagði hann við trúfasta postula sína sem voru með honum í Getsemanegarðinum: „Standið upp, förum! Í nánd er sá er mig svíkur.“ (Matt. 26:36, 46) Og þegar hópur vopnaðra manna kom til að handtaka hann gaf hann sig fram og bað hermennina að leyfa postulunum að fara. (Jóh. 18:3-8) Hvílíkt hugrekki sem Jesús sýndi! Andasmurðir kristnir menn og þeir sem tilheyra öðrum sauðum gera sitt ýtrasta til að líkja eftir Jesú með því að sýna hugrekki. Hvernig?

Þú sýnir hugrekki með því að mæta á samkomur og það er öðrum til hvatningar. (Sjá 9. grein.) *

9. (a) Hvers vegna gætum við þurft að vera hugrökk til að sækja samkomur að staðaldri? (b) Hvernig getur fordæmi okkar haft áhrif á trúsystkini sem eru í fangelsi vegna trúar sinnar?

9 Við gætum þurft að sýna hugrekki í erfiðum aðstæðum til að geta sótt samkomur að staðaldri. Sum trúsystkini okkar sækja samkomur þótt þau séu að kljást við sorg, kjarkleysi eða veikindi. Aðrir sýna hugrekki með því að sækja samkomur þrátt fyrir miklar ofsóknir af hendi fjölskyldu eða yfirvalda. Hugleiðum aðeins hvernig fordæmi okkar hefur áhrif á trúsystkini sem sitja í fangelsi vegna trúar sinnar. (Hebr. 13:3) Þau fá aukinn kraft til að vera trúföst, hugrökk og ráðvönd þegar þau heyra að við höldum áfram að þjóna Jehóva þrátt fyrir erfiðleika. Páll postuli var í sömu sporum. Þegar hann var í fangelsi í Róm gladdist hann í hvert sinn sem hann heyrði að trúsystkini sín þjónuðu Guði trúfastlega. (Fil. 1:3-5, 12-14) Hann skrifaði bréf sitt til Hebrea stuttu áður eða rétt eftir að honum var sleppt úr fangelsi. Í bréfinu hvatti hann þessa trúföstu kristnu menn til að láta ,bróðurkærleikann haldast‘ og vanrækja aldrei samkomur. – Hebr. 10:24, 25; 13:1.

10-11. (a) Hverjum ættum við að bjóða á minningarhátíðina? (b) Hvaða ástæða er gefin í Efesusbréfinu 1:7 fyrir því að bjóða þeim?

10 Við sýnum hugrekki þegar við bjóðum ættingjum, vinnufélögum og nágrönnum á minningarhátíðina. Hvers vegna bjóðum við þeim? Við erum svo þakklát fyrir það sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir okkur að við getum ekki annað en boðið öðrum á minningarhátíðina. Við viljum að þeir læri hvernig þeir geta líka notið góðs af einstakri góðvild Guðs fyrir milligöngu lausnarfórnarinnar. – Lestu Efesusbréfið 1:7; Opinb. 22:17.

11 Við sýnum ekki aðeins hugrekki með því að sækja samkomur heldur líka annan dýrmætan eiginleika, eiginleika sem bæði Guð og sonur hans sýna á einstakan hátt.

KÆRLEIKUR KNÝR OKKUR TIL AÐ MÆTA

12. (a) Hvernig styrkja samkomurnar kærleika okkar til Jehóva og Jesú? (b) Hvernig hvetur 2. Korintubréf 5:14, 15 okkur til að líkja eftir Jesú?

12 Kærleikur okkar til Jehóva og Jesú knýr okkur til að mæta á samkomur. Og það sem við lærum þar styrkir kærleika okkar til þeirra. Á samkomum erum við reglulega minnt á það sem þeir hafa gert fyrir okkur. (Rómv. 5:8) Á minningarhátíðinni erum við sérstaklega minnt á hve heitt þeir elska mannkynið, þar á meðal þá sem kunna ekki enn að meta lausnarfórnina. Við reynum að líkja eftir Jesú alla daga þar sem við erum full þakklætis. (Lestu 2. Korintubréf 5:14, 15.) Auk þess finnum við okkur knúin til að lofa Jehóva fyrir að greiða lausnargjaldið í okkar þágu. Við getum meðal annars gert það með því að gefa einlæg svör á samkomum.

13. Hvernig getum við sýnt hve mikið við elskum Jehóva og son hans? Skýrðu svarið.

13 Við getum sýnt hve mikið við elskum Jehóva og son hans með því að vera fús til að færa fórnir fyrir þá. Oft þurfum við að færa fórnir af ýmsu tagi til að geta sótt samkomur. Í mörgum söfnuðum eru samkomur haldnar eftir vinnudag þegar við erum mjög líklega þreytt. Einnig eru haldnar samkomur um helgar þegar fólk er að hvílast. Tekur Jehóva eftir því að við mætum á samkomur þrátt fyrir að vera þreytt? Það gerir hann svo sannarlega. Því meira sem við leggjum á okkur því betur kann Jehóva að meta kærleikann sem við sýnum honum. – Mark. 12:41-44.

14. Hvernig er Jesús besta fyrirmyndin um að sýna fórnfúsan kærleika?

14 Jesús er besta fyrirmyndin um að sýna fórnfúsan kærleika. Hann var ekki aðeins fús til að deyja fyrir lærisveina sína heldur tók hann líka hag þeirra fram yfir sinn eigin hvern einasta dag. Hann gaf sér til dæmis tíma til að vera með fylgjendum sínum þótt hann væri þreyttur eða undir tilfinningalegu álagi. (Lúk. 22:39-46) Og hann einbeitti sér að því sem hann gat gefið, ekki að því sem hann gat fengið. (Matt. 20:28) Þegar við elskum Jehóva og trúsystkini okkar svona heitt gerum við allt sem við getum til að vera viðstödd bæði kvöldmáltíð Drottins og allar aðrar samkomur.

15. Hverjum er okkur sérstaklega umhugað um að hjálpa?

15 Við tilheyrum hinu eina sanna kristna bræðralagi og höfum ánægju af að nota eins mikinn tíma og hægt er til að bjóða öðrum að slást í lið með okkur. En okkur er sérstaklega umhugað um að hjálpa trúsystkinum okkar sem eru orðin óvirk. (Gal. 6:10) Við sýnum þeim að við elskum þau með því að hvetja þau til að koma á samkomur, ekki síst á minningarhátíðina. Líkt og Jehóva og Jesús gleðjumst við ákaflega þegar óvirkir snúa aftur til Jehóva, ástríks föður okkar og hirðis. – Matt. 18:14.

16. (a) Hvernig getum við verið hvert öðru hvatning og hvaða gagn höfum við af samkomunum? (b) Hvers vegna er gott að minnast orða Jesú í Jóhannesi 3:16 á þessum tíma ársins?

16 Á næstu vikum skulum við bjóða eins mörgum og hægt er á minningarhátíðina föstudagskvöldið 19. apríl 2019. (Sjá rammann „ Munt þú bjóða þeim?“) Leggjum okkur fram um að hvetja hvert annað með því að mæta á allar samkomur sem Jehóva sér okkur fyrir. Við þurfum á þeim að halda til að vera auðmjúk, hugrökk og kærleiksrík þar sem endir þessa heimskerfis færist óðfluga nær. (1. Þess. 5:8-11) Sýnum af öllu hjarta hve þakklát við erum að Jehóva og sonur hans skuli elska okkur svo heitt! – Lestu Jóhannes 3:16.

SÖNGUR 126 Vakið, standið stöðug, verið styrk

^ gr. 5 Minningarhátíðin um dauða Krists verður haldin föstudagskvöldið 19. apríl 2019 og er hún mikilvægasta samkoma ársins. Hvers vegna mætum við á þennan viðburð? Við gerum það auðvitað vegna þess að við viljum þóknast Jehóva. Í þessari grein skoðum við hvað við sýnum með því að mæta á minningarhátíðina og vikulegar samkomur.

^ gr. 50 FORSÍÐUMYND: Milljónir manna um heim allan sækja kvöldmáltíð Drottins.

^ gr. 52 Mynd: Bróðir situr í fangelsi vegna trúar sinnar. Honum finnst uppörvandi að fá bréf að heiman. Hann finnur að hann er ekki gleymdur og gleðst yfir að fjölskylda hans skuli vera Jehóva trúföst þótt ólga ríki í samfélaginu.