Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 4

„Sjálfur andinn vitnar með okkar eigin anda“

„Sjálfur andinn vitnar með okkar eigin anda“

„Sjálfur andinn vitnar með okkar eigin anda að við erum börn Guðs.“ – RÓMV. 8:16.

SÖNGUR 25 Einstök eignarþjóð

YFIRLIT *

Á hvítasunnu úthellti Jehóva heilögum anda sínum yfir um 120 lærisveina með stórfenglegum hætti. (Sjá 1. og 2. grein.)

1, 2. Hvaða stórfenglegi atburður átti sér stað á hvítasunnu árið 33?

ÞAÐ er sunnudagsmorgunn í Jerúsalem, nánar til tekið hvítasunnudagur árið 33. Um 120 lærisveinar eru saman komnir í herbergi á efri hæð húss. (Post. 1:13–15; 2:1) Fyrir nokkrum dögum sagði Jesús þeim að halda sig í Jerúsalem vegna þess að þeir ættu að fá sérstaka gjöf. (Post. 1:4, 5) Hvað gerist síðan?

2 ,Skyndilega heyrist gnýr af himni eins og stormur sé skollinn á.‘ Hljóðið fyllir allt húsið. Síðan birtist eitthvað ,sem líkist eldtungum‘ yfir höfðum lærisveinanna og þeir ,fyllast allir heilögum anda‘. (Post. 2:2–4) Með þessum stórfenglega hætti úthellir Jehóva heilögum anda sínum yfir þá. (Post. 1:8) Þeir eru fyrstir til að vera smurðir heilögum anda * og fá von um að ríkja ásamt Jesú á himni.

HVAÐ GERIST ÞEGAR FÓLK ER ANDASMURT?

3. Hvers vegna voru lærisveinar Krists á hvítasunnu ekki í neinum vafa um að þeir væru andasmurðir?

3 Ef þú hefðir verið einn af lærisveinunum á efri hæð hússins þennan dag hefðirðu aldrei gleymt því. Eitthvað sem líktist eldtungum birtist yfir höfði þínu og þú fórst að tala erlent tungumál. (Post. 2:5–12) Þú hefðir ekki verið í neinum vafa um að þú værir smurður heilögum anda. En fá allir þeir sem eru andasmurðir köllun sína með stórbrotnum hætti og á sama tíma í lífinu? Nei. Hvernig vitum við það?

4. Fengu allir andasmurðir menn á fyrstu öld köllun sína á sama tíma í lífinu? Skýrðu svarið.

4 Skoðum tímasetninguna. Þessir lærisveinar Krists sem voru um 120 talsins voru ekki þeir einu sem fengu heilagan anda á hvítasunnu árið 33. Síðar sama dag voru um 3.000 aðrir smurðir heilögum anda þegar þeir létu skírast. (Post. 2:37, 38, 41) En á árunum á eftir fengu ekki allir andasmurðir kristnir menn köllun sína við skírn. Samverjar voru andasmurðir einhvern tíma eftir að þeir skírðust. (Post. 8:14–17) Og það var vissulega óvenjulegt að Kornelíus og heimafólk hans voru andasmurð áður en þau létu skírast. – Post. 10:44–48.

5. Hvað gerist samkvæmt 2. Korintubréfi 1:21, 22 þegar einhver er smurður heilögum anda?

5 Skoðum líka hvað gerist þegar fólk er andasmurt. Sumum sem eru andasmurðir gæti fundist erfitt í fyrstu að viðurkenna að Jehóva hafi valið þá. Þeir spyrja sig kannski: Hvers vegna valdi Guð mig? Aðrir bregðast kannski ekki eins við. Hvað sem því líður sagði Páll postuli hvað gerist hjá öllu andasmurðu fólki: „Eftir að þið tókuð trú voruð þið innsigluð * fyrir milligöngu hans með heilögum anda sem Guð hafði lofað en hann er trygging fyrir arfi okkar.“ (Ef. 1:13, 14, neðanmáls) Jehóva notar sem sagt heilagan anda sinn til að sannfæra þessa kristnu menn um að hann hafi valið þá. Heilagur andi er þannig ,trygging‘, það er pantur eða loforð, sem þeim er gefin til að fullvissa þá um að þeir muni lifa að eilífu á himni en ekki á jörð. – Lestu 2. Korintubréf 1:21, 22.

6. Hvað þarf andasmurður þjónn Guðs að gera til að hljóta laun sín á himni?

6 Er alveg öruggt að þjónn Guðs fari til himna ef hann er andasmurður? Nei. Hann er sannfærður um að hann hafi verið valinn til að fara til himna. En hann þarf að muna þessa viðvörun: „Bræður og systur, leggið ykkur því enn betur fram um að vera trú köllun ykkar og útvalningu því að ef þið haldið áfram að gera þetta munuð þið aldrei nokkurn tíma bregðast.“ (2. Pét. 1:10) Þótt andasmurður þjónn Guðs hafi verið valinn, eða kallaður, til að fara til himna þá fær hann laun sín aðeins ef hann er trúfastur. – Fil. 3:12–14; Hebr. 3:1; Opinb. 2:10.

HVERNIG VEIT FÓLK AÐ ÞAÐ ER ANDASMURT?

7. Hvernig vita þeir sem eru andasmurðir að þeir hafi fengið himneska köllun?

7 En hvernig veit fólk hvort það hafi fengið himneska köllun? Svarið er augljóst af því sem Páll sagði kristnum mönnum í Róm sem voru „kallaðir til að vera heilagir“. Hann sagði þeim: „Þið fenguð ekki anda sem hneppir ykkur í þrældóm og vekur ótta að nýju heldur anda sem Guð gefur til að ættleiða ykkur sem syni, og vegna hans köllum við: ,Abba, faðir!‘ Sjálfur andinn vitnar með okkar eigin anda að við erum börn Guðs.“ (Rómv. 1:7; 8:15, 16) Guð gefur því andasmurðum einstaklingum skýr skilaboð með anda sínum um að þeir hafi fengið himneska köllun. – 1. Þess. 2:12.

8. Hvernig sýnir 1. Jóhannesarbréf 2:20, 27 fram á að andasmurðir kristnir menn þurfa ekki að fá staðfestingu hjá öðrum um köllun sína?

8 Jehóva sér til þess að það sé enginn vafi í huga og hjarta þeirra sem fá boð um að fara til himna. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:20, 27.) Andasmurðir kristnir menn þurfa auðvitað fræðslu frá Jehóva fyrir milligöngu safnaðarins eins og allir aðrir. En þeir þurfa ekki að fá staðfestingu hjá neinum um að þeir séu andasmurðir. Jehóva hefur notað sterkasta aflið í alheiminum, heilagan anda sinn, til að gera þeim algerlega ljóst að þeir séu andasmurðir.

ÞAÐ „FÆÐIST AÐ NÝJU“

9. Hvaða breytingar eiga sér stað þegar einhver er andasmurður eins og lýst er í Efesusbréfinu 1:18?

9 Flestum þjóna Guðs gæti fundist erfitt að skilja hvað gerist þegar Guð smyr einhvern heilögum anda. Það er eðlilegt vegna þess að þeir hafa ekki sjálfir verið andasmurðir. Guð skapaði mennina til að lifa að eilífu á jörð en ekki á himni. (1. Mós. 1:28; Sálm. 37:29) En Jehóva hefur útvalið suma til að lifa á himni. Hann gerbreytir því von þeirra og hugsunarhætti þegar hann smyr þá svo að þeir hlakki til lífsins á himni. – Lestu Efesusbréfið 1:18.

10. Hvað merkir að ,fæðast að nýju‘? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

10 Þegar þjónar Guðs eru smurðir heilögum anda ,fæðast þeir að nýju‘, eða ,fæðast að ofan‘. * Og Jesús gaf til kynna að það væri ómögulegt að útskýra nákvæmlega fyrir einhverjum sem er ekki andasmurður hvernig það er að ,fæðast að nýju‘, það er að segja að ,fæðast af andanum‘. – Jóh. 3:3–8, neðanmáls.

11. Útskýrðu hugarfarsbreytinguna sem á sér stað þegar fólk er andasmurt.

11 Hvaða breyting á hugsun á sér stað þegar þjónar Guðs eru smurðir heilögum anda? Áður en Jehóva smurði þá höfðu þeir von um að lifa að eilífu á jörð. Þeir hlökkuðu til þess tíma þegar Jehóva útrýmir allri illsku og breytir jörðinni í paradís. Kannski sáu þeir sjálfa sig taka á móti ættingja eða vini sem hafði dáið. En eftir að þeir voru andasmurðir fóru þeir að hugsa öðruvísi. Hvers vegna? Þeir urðu ekki óánægðir með vonina um eilíft líf á jörð. Þeir skiptu ekki um skoðun út af álagi og tilfinningaróti lífsins. Þeir hugsuðu ekki sem svo að það yrði leiðinlegt að búa að eilífu á jörðinni. Jehóva notaði öllu heldur heilagan anda sinn til að breyta hugsun þeirra og von.

12. Hvernig líta andasmurðir kristnir menn á von sína samkvæmt 1. Pétursbréfi 1:3, 4?

12 Þeim sem er andasmurður gæti fundist hann óverðugur þess að hljóta þennan mikla heiður. En hann efast ekki eitt augnablik um að Jehóva hafi valið hann. Hann er innilega glaður og þakklátur þegar hann hugsar um von sína um að lifa á himni. – Lestu 1. Pétursbréf 1:3, 4.

13. Hvernig hugsa andasmurðir um líf sitt hér á jörð?

13 Merkir þetta þá að þá sem eru andasmurðir langi til að deyja? Páll postuli svarar þeirri spurningu. Hann bar mannslíkama þeirra saman við tjald og sagði: „Við sem erum í þessu tjaldi andvörpum reyndar og erum þjökuð vegna þess að við viljum ekki afklæðast þessu tjaldi en við viljum þó klæðast hinu svo að lífið taki við af hinu dauðlega.“ (2. Kor. 5:4) Þeir hafa ekki misst áhugann á lífinu eða vilja að því ljúki sem fyrst. Þeir hafa öllu heldur ánægju af því og vilja nota hvern dag til að þjóna Jehóva ásamt fjölskyldu sinni og vinum. En hvað sem þeir hafa fyrir stafni muna þeir alltaf eftir þeirri dásamlegu framtíðarvon sem þeir eiga. – 1. Kor. 15:53; 2. Pét. 1:4; 1. Jóh. 3:2, 3; Opinb. 20:6.

HEFUR JEHÓVA SMURT ÞIG HEILÖGUM ANDA?

14. Hvað sannar ekki að maður hafi verið smurður heilögum anda?

14 Þú veltir kannski fyrir þér hvort þú sért andasmurður. Þá er gott að hugleiða þessar mikilvægu spurningar: Hefurðu brennandi löngun til að gera vilja Jehóva? Finnst þér þú hafa sértaklega mikinn áhuga á boðuninni? Ertu duglegur biblíunemandi og hefur mikla ánægju af að kafa ofan í „hið djúpa sem býr í Guði“? (1. Kor. 2:10) Finnst þér Jehóva hafa blessað þig ríkulega í boðuninni? Finnurðu til mikillar ábyrgðar gagnvart öðrum og vilt hjálpa þeim að þjóna Jehóva? Hefurðu séð sönnun þess að Jehóva hafi hjálpað þér á marga og sérstaka vegu í lífinu? Er svarið við öllum þessum spurningum eindregið já? Sannar það þá að þú hafir fengið himneska köllun? Nei, það gerir það ekki. Af hverju ekki? Af því að allir þjónar Guðs geta upplifað þetta, hvort sem þeir eru andasmurðir eða ekki. Og fyrir milligöngu heilags anda getur Jehóva gefið öllum þjónum sínum sama kraftinn, óháð því hver von þeirra er. Það eitt að þú skulir vera að velta fyrir þér hvort þú sért andasmurður er merki um að þú sért það ekki. Þeir sem Jehóva útvelur þurfa ekki að velta fyrir sér hvort þeir séu andasmurðir. Þeir vita það!

Jehóva notaði heilagan anda sinn til að gefa Abraham, Söru, Davíð og Jóhannesi skírara kraft til að vinna undraverð verk en hann notaði hann ekki til að gefa þeim von um líf á himni. (Sjá 15. og 16. grein.) *

15. Hvernig vitum við að það hafa ekki allir himneska köllun sem hafa fengið heilagan anda?

15 Í Biblíunni er að finna mörg dæmi um trúfasta þjóna Guðs sem fengu heilagan anda en höfðu samt ekki von um að lifa á himni. Davíð fékk leiðsögn heilags anda. (1. Sam. 16:13) Heilagur andi hjálpaði honum að skilja hin djúpu sannindi um Jehóva og honum var innblásið að skrifa hluta Biblíunnar. (Mark. 12:36) En þrátt fyrir það sagði Pétur postuli: „Davíð steig ekki upp til himna.“ (Post. 2:34) Jóhannes skírari var ,fullur heilögum anda‘. (Lúk. 1:13–16) Jesús sagði að það hafi enginn maður verið meiri en Jóhannes. En síðan sagði hann að Jóhannes færi ekki til himna. (Matt. 11:10, 11) Jehóva notaði heilagan anda sinn til að gefa þessum mönnum kraft til að vinna undraverð verk en ekki til að kalla þá til himna. Þýðir það að þeir hafi ekki verið eins trúfastir og þeir sem voru valdir til að ríkja með Kristi á himni? Nei. Það þýðir einfaldlega að Jehóva reisir þá upp til lífs á ný í paradís á jörð. – Jóh. 5:28, 29; Post. 24:15.

16. Hvaða von hafa langflestir þjónar Guðs nú á tímum?

16 Fæstir þjónar Guðs nú á tímum hafa von um að lifa á himni. Líkt og Abraham, Sara, Davíð, Jóhannes skírari og margir aðrir þjónar Guðs frá biblíutímanum hlakka þeir til að lifa hér á jörð sem þegnar Guðsríkis. – Hebr. 11:10.

17. Hvaða spurningum verður svarað í næstu grein?

17 Meðal þjóna Guðs hér á jörð er enn andasmurt fólk. Það gætu því eðlilega vaknað vissar spurningar. (Opinb. 12:17) Hvernig ættu andasmurðir til dæmis að líta á sjálfa sig? Hvernig ættirðu að bregðast við ef einhver í söfnuðinum þínum byrjar að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni? Og hvað ef þeim fjölgar sem segjast vera andasmurðir? Ættirðu að hafa áhyggjur af því? Þessum spurningum verður svarað í næstu grein.

^ gr. 5 Allt frá hvítasunnu árið 33 hefur Jehóva gefið sumum kristnum mönnum dásamlega von – von um að ríkja á himni sem konungar ásamt syni hans. En hvernig vita þeir að þeir hafa hlotið þennan einstaka heiður? Hvað gerist þegar fólk fær þetta boð? Þessum áhugaverðu spurningum er svarað í greininni, en hún byggist á grein sem birtist í Varðturninum í janúar 2016.

^ gr. 2 ORÐASKÝRING: Smurðir heilögum anda: Jehóva notar heilagan anda sinn til að velja þá sem eiga að ríkja á himni með Jesú. Með anda sínum gefur Guð þeim sem hann velur framtíðarloforð, eða tryggingu. (Ef. 1:13, 14) Þessir þjónar Guðs geta sagt að heilagur andi ,vitni með þeirra anda‘, eða geri þeim ljóst, að laun þeirra séu á himni. – Rómv. 8:16.

^ gr. 5 ORÐASKÝRING: Innsigli. Þetta innsigli verður ekki endanlegt fyrr en einhvern tíma áður en hinn andasmurði deyr trúfastur eða einhvern tíma áður en þrengingin mikla brýst út. – Ef. 4:30; Opinb. 7:2–4. Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum apríl 2016.

^ gr. 10 Hægt er að fá frekari upplýsingar um hvað það merkir að ,fæðast að nýju‘ í Varðturninum á ensku 1. apríl 2009, bls. 3–12.

SÖNGUR 27 Börn Guðs verða opinber

^ gr. 57 MYND: Við getum hlakkað til lífsins hér á jörð sem þegnar Guðsríkis hvort sem við erum í fangelsi vegna trúar okkar eða höfum frelsi til að boða fólki trúna og kenna því sannleikann.