Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 3

Það sem við lærum af tárum Jesú

Það sem við lærum af tárum Jesú

„Þá grét Jesús.“ – JÓH. 11:35.

SÖNGUR 17 „Ég vil“

YFIRLIT *

1–3. Hvað getur fengið okkur til að gráta?

 HVENÆR gréstu síðast? Við fellum stundum gleðitár. En því miður grátum við venjulega vegna þess að við erum döpur. Við grátum til dæmis gjarnan þegar við höfum misst ástvin. Lorilei er systir okkar í Bandaríkjunum. Hún segir: „Stundum var sársaukinn eftir að ég missti dóttur mína svo nístandi að ekkert virtist geta huggað mig. Á slíkum stundum efaðist ég um að brostið hjarta mitt yrði nokkurn tíma aftur heilt.“ *

2 Við grátum kannski af öðrum ástæðum. Hiromi er brautryðjandi í Japan. Hún segir: „Áhugaleysi fólks sem ég hitti í boðuninni dregur úr mér kjark af og til. Ég bið stundum Jehóva með tárin í augunum að hjálpa mér að finna einhvern sem leitar að sannleikanum.“

3 Hefur þú svipaða reynslu og þessar systur? Það á við um mörg okkar. (1. Pét. 5:9) Við viljum þjóna Jehóva með gleði en gerum það kannski með tárum vegna sorgar, kjarkleysis eða erfiðra aðstæðna sem reyna á trúfesti okkar. (Sálm. 6:7; 100:2) Hvað getum við gert þegar slíkar tilfinningar sækja á okkur?

4. Hvað skoðum við í þessari grein?

4 Við getum lært af Jesú. Hann fann líka stundum fyrir sterkum tilfinningum sem fengu hann til að gráta. (Jóh. 11:35; Lúk. 19:41; 22:44; Hebr. 5:7) Skoðum nokkur atvik þegar það gerðist og sjáum hvað við getum lært um Jesú og Jehóva föður hans. Við skoðum líka hvað við getum gert til að takast á við erfiðleika sem kalla fram tár.

TÁR VEGNA UMHYGGJU FYRIR VINUM HANS

Styðjum þá sem syrgja líkt og Jesús gerði. (Sjá 5.–9. grein.) *

5. Hvað lærum við um Jesú af frásögunni í Jóhannesi 11:32–36?

5 Veturinn árið 32 veiktist Lasarus, góður vinur Jesú, og dó. (Jóh. 11:3, 14) Hann átti tvær systur, þær Maríu og Mörtu. Jesú þótti innilega vænt um þessa fjölskyldu. Konurnar voru niðurbrotnar eftir að hafa misst bróður sinn. Eftir að Lasarus dó lagði Jesús af stað til þorpsins Betaníu þar sem María og Marta bjuggu. Þegar Marta frétti að Jesús væri á leiðinni flýtti hún sér til að hitta hann. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig henni hefur liðið þegar hún sagði: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“ (Jóh. 11:21) Stuttu síðar grét Jesús þegar hann sá Maríu og aðra gráta. – Lestu Jóhannes 11:32–36.

6. Hvers vegna grét Jesús við þetta tækifæri?

6 Hvers vegna grét Jesús við þetta tækifæri? Í ritinu Insight on the Scriptures segir: „Dauði Lasarusar vinar hans og sorg systra hans gerði Jesú sorgmæddan og fékk hann til að gráta.“ * Jesús hugsaði kannski um þjáningarnar sem Lasarus hafði þurft að þola í veikindum sínum og hvernig honum leið þegar hann fann lífið fjara út. Jesús grét örugglega líka við að sjá hvaða áhrif dauði Lasarusar hafði á Maríu og Mörtu. Ef þú hefur misst náinn vin eða ættingja hefurðu eflaust upplifað svipaðar tilfinningar. Skoðum þrennt sem þú getur lært af þessari frásögu.

7. Hvað lærum við um Jehóva af tárunum sem Jesús felldi vegna vina sinna?

7 Jehóva skilur hvernig þér líður. Jesús er „nákvæm eftirmynd“ föður síns. (Hebr. 1:3) Þegar Jesús grét endurspeglaði hann tilfinningar hans. (Jóh. 14:9) Ef þú hefur misst ástvin máttu vita að Jehóva tekur ekki aðeins eftir sorg þinni heldur finnur hann innilega til með þér. Hann langar að græða brostið hjarta þitt. – Sálm. 34:19; 147:3.

8. Hvers vegna getum við treyst að Jesús muni reisa upp látna ástvini okkar?

8 Jesús vill gefa ástvinum þínum lífið aftur. Stuttu eftir að Jesús grét fullvissaði hann Mörtu: „Bróðir þinn mun rísa upp.“ Marta trúði Jesú. (Jóh. 11:23–27) Sem trúfastur tilbiðjandi Jehóva vissi Marta örugglega að Elía og Elísa höfðu báðir reist fólk upp til lífs öldum áður. (1. Kon. 17:17–24; 2. Kon. 4:32–37) Og sennilega hafði hún heyrt að Jesús hafði gert það líka. (Lúk. 7:11–15; 8:41, 42, 49–56) Þú mátt líka vera viss um að þú fáir að sjá ástvini þína aftur. Að Jesús skyldi gráta þegar hann huggaði sorgmædda vini sína sýnir að hann þráir að reisa upp þá sem eru dánir.

9. Hvernig geturðu stutt þá sem syrgja, líkt og Jesús gerði? Nefndu dæmi.

9 Þú getur stutt þá sem syrgja. Jesús grét ekki aðeins með Mörtu og Maríu, hann hlustaði líka á þær og hughreysti. Við getum gert það sama fyrir þá sem syrgja. Dan er öldungur og býr í Ástralíu. Hann segir: „Ég þurfti á stuðningi að halda eftir að ég missti konuna mína. Nokkur hjón voru alltaf til staðar fyrir mig og tilbúin að hlusta á mig nótt sem dag. Þau leyfðu mér að syrgja og fóru ekki hjá sér þegar ég grét. Þau réttu mér líka hjálparhönd og hjálpuðu mér að þvo bílinn, kaupa í matinn og elda þegar mér fannst ég ekki geta þetta sjálfur. Og þau báðu oft til Jehóva með mér. Þau reyndust sannir vinir og ,bræður í andstreymi‘. – Orðskv. 17:17.

TÁR VEGNA UMHYGGJU FYRIR NÁUNGANUM

10. Lýstu því sem sagt er frá í Lúkasi 19:36–40.

10 Þegar Jesús nálgaðist Jerúsalem 9. nísan árið 33 safnaðist mikill mannfjöldi saman og fólk breiddi yfirhafnir á veginn þar sem leið hans lá til að sýna að það viðurkenndi hann sem konung sinn. Þetta var gleðilegur viðburður. (Lestu Lúkas 19:36–40.) Þess vegna bjuggust lærisveinar hans kannski ekki við því sem gerðist næst. ,Þegar Jesús nálgaðist borgina horfði hann yfir hana og grét.‘ Með tár í augum sagði Jesús fyrir vægðarlaus örlögin sem biðu Jerúsalembúa. – Lúk. 19:41–44.

11. Hvers vegna grét Jesús vegna íbúa Jerúsalem?

11 Jesús var sorgmæddur því að hann vissi að þótt hann fengi góðar móttökur myndu flestir samlanda hans hafna boðskapnum um Guðsríki. Fyrir vikið yrði Jerúsalem lögð í rúst og Gyðingar sem lifðu af hnepptir í ánauð. (Lúk. 21:20–24) Því miður höfnuðu flestir Jesú rétt eins og hann sagði fyrir. Hvernig bregst fólk við boðskapnum um Guðsríki þar sem þú býrð? Hvaða lærdóm geturðu dregið af tárum Jesú ef fáir bregðast vel við viðleitni þinni til að kenna þeim sannleikann? Skoðum þrennt í viðbót sem við getum lært.

12. Hvað lærum við um Jehóva af tárunum sem Jesús felldi fyrir náungann?

12 Jehóva er annt um fólk. Tár Jesú minna okkur á að Jehóva er mjög annt um fólk. „Hann vill ekki að neinn farist heldur að allir fái tækifæri til að iðrast.“ (2. Pét. 3:9) Við sýnum að við elskum náunga okkar með því að gefast ekki upp á að reyna að hjálpa fólki að taka við fagnaðarboðskapnum. – Matt. 22:39. *

Verum sveigjanleg í boðuninni eins og Jesús. (Sjá 13. og 14. grein.) *

13, 14. Hvernig sýndi Jesús samúð og hvernig getum við ræktað með okkur þennan eiginleika?

13 Jesús lagði hart að sér í boðuninni. Hann sýndi að hann elskaði fólk með því að boða því trúna við hvert tækifæri. (Lúkas 19:47, 48) Hvað knúði hann til þess? Hann hafði samúð með fólki. Stundum vildu svo margir hlusta á hann að hann og lærisveinar hans „gátu ekki einu sinni fengið sér að borða“. (Mark. 3:20) Hann var líka tilbúinn að tala við fólk að nóttu til ef það hentaði því best. (Jóh. 3:1, 2) Fæstir þeirra sem hlustuðu á hann urðu lærisveinar hans. En boðskapurinn hafði verið vandlega útskýrður fyrir þeim. (Post. 10:42) Til að gera slíkt hið sama þurfum við kannski að breyta nálgun okkar í boðuninni.

14 Vertu fús til að gera nauðsynlegar breytingar. Ef við boðum alltaf trúna á sama tíma náum við kannski ekki til þeirra sem gætu brugðist vel við fagnaðarboðskapnum. Brautryðjandi sem heitir Matilda segir: „Við eiginmaðurinn minn reynum að tala við fólk á mismunandi tímum. Við förum á viðskiptasvæði snemma morguns. Um hádegisbilið þegar margir eru á ferli notum við ritatrillur. Seinna á daginn er auðveldara að finna fólk heima.“ Frekar en að fylgja dagskrá sem hentar okkur ættum við að vera tilbúin að gera breytingar á henni til að auka líkurnar á að hitta fólk. Ef við gerum það getum við verið viss um að það gleður Jehóva.

TÁR VEGNA NAFNS FÖÐUR HANS

Leitum til Jehóva í bæn þegar við erum undir álagi rétt eins og Jesús gerði. (Sjá 15.–17. grein.) *

15. Hvað átti sér stað síðustu nótt Jesú á jörðinni samkvæmt Lúkasi 22:39–44?

15 Seint um kvöldið 14. nísan árið 33 fór Jesús í Getsemanegarðinn. Þar úthellti hann hjarta sínu fyrir Jehóva. (Lestu Lúkas 22:39–44.) Það var við þetta tækifæri að Jesús ,bar fram innilegar bænir með áköllum og tárum‘. (Hebr. 5:7) Hvað bað Jesús um þessa síðustu nótt fyrir dauða sinn? Hann bað um styrk til að vera Jehóva trúfastur og gera vilja hans. Jehóva heyrði innilega bæn sonar síns og sendi engil til að styrkja hann.

16. Hvers vegna var Jesús mjög sorgmæddur þegar hann bað til Jehóva í Getsemanegarðinum?

16 Jesús grét eflaust þegar hann var á bæn í Getsemanegarðinum því að hann var mjög sorgmæddur við þá tilhugsun að vera sakaður um guðlast. Hann vissi líka að gífurlega mikil ábyrgð hvíldi á herðum hans – að hreinsa og upphefja nafn föður hans. Hvað geturðu lært af tárum Jesú ef þú stendur frammi fyrir erfiðum aðstæðum sem reyna á trúfesti þína við Jehóva? Skoðum þrennt í viðbót.

17. Hvað lærum við um Jehóva af viðbrögðum hans við innilegum bænum Jesú?

17 Jehóva hlustar á bænir þínar. Jehóva hlustaði á innilegar bænir Jesú. Hvers vegna? Vegna þess að aðaláhyggjuefni Jesú var að vera föður sínum trúfastur og upphefja nafn hans. Jehóva svarar bænum okkar ef það er efst í huga okkar líka. – Sálm. 145:18, 19.

18. Hvernig er Jesús eins og góður og skilningsríkur vinur?

18 Jesús skilur hvernig þér líður. Það er gott að eiga vin sem skilur okkur þegar við erum áhyggjufull, sérstaklega ef hann hefur gengið í gegnum svipaðar raunir og við. Jesús er þannig vinur. Hann veit hvernig það er að vera máttlítill og þurfa á hjálp að halda. Hann þekkir veikleika okkar og sér til þess að við fáum hjálp „þegar við erum hjálparþurfi“. (Hebr. 4:15, 16) Rétt eins og Jesús þáði hjálp engils í Getsemanegarðinum ættum við að þiggja fúslega hjálpina sem Jehóva veitir, hvort sem hún er í formi rits, myndbands, ræðu eða hvetjandi heimsóknar frá öldungi eða þroskuðu trúsystkini.

19. Hvernig geturðu fengið styrk í erfiðum aðstæðum sem reyna á trúfesti þína við Jehóva? Nefndu dæmi.

19 Jehóva gefur þér frið sinn. Hvernig styrkir Jehóva okkur? Þegar við biðjum til Jehóva fáum við ,frið Guðs sem er æðri öllum skilningi‘. (Fil. 4:6, 7) Friðurinn sem Jehóva veitir róar okkur og hjálpar okkur að hugsa skýrt. Skoðum reynslu systur að nafni Luz. Hún segir: „Ég er oft einmana. Þess vegna finnst mér stundum eins og Jehóva elski mig ekki. En þegar mér líður þannig segi ég Jehóva strax frá því. Bænin hjálpar mér að ná stjórn á tilfinningum mínum.“ Reynsla systur okkar sýnir að bænin getur veitt okkur frið.

20. Hvað höfum við lært af tárum Jesú?

20 Það sem við getum lært af tárum Jesú er hughreystandi. Við erum minnt á að styðja syrgjandi trúsystkini og treysta að Jehóva og Jesús styðji okkur þegar við missum ástvin. Við erum hvött til að boða trúna og kenna af samúð vegna þess að Jehóva og Jesús sýna þennan fallega eiginleika. Og það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva og ástkær sonur hans skilja okkur, hafa samúð með okkur vegna veikleika okkar og vilja hjálpa okkur að halda út. Höldum áfram að fara eftir því sem við lærum þangað til Jehóva uppfyllir dásamlegt loforð sitt um að ,þerra hvert tár af augum okkar‘. – Opinb. 21:4.

SÖNGUR 120 Líkjum eftir hógværð Krists

^ Jesús fann stundum fyrir sterkum tilfinningum sem kölluðu fram tár í augum hans. Í þessari grein skoðum við þrjú tilvik þegar Jesús felldi tár og hvað við getum lært af því.

^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ Gríska orðið sem er þýtt „náungi“ í Matteusi 22:39 getur náð yfir fleira fólk en það sem býr nálægt okkur. Það getur átt við alla sem við komumst í snertingu við.

^ MYND: Jesús fann sig knúinn til að hugga Maríu og Mörtu. Við getum gert það sama fyrir þá sem hafa misst ástvin.

^ MYND: Jesús var fús til að kenna Nikódemusi að nóttu til. Við ættum að leiðbeina fólki við biblíunám á þeim tíma sem hentar því.

^ MYND: Jesús bað Jehóva um styrk til að vera honum trúfastur. Við verðum að gera það líka þegar við lendum í prófraunum.