Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 4

Hvers vegna sækjum við minningarhátíðina?

Hvers vegna sækjum við minningarhátíðina?

„Gerið þetta til minningar um mig.“ – LÚK. 22:19.

SÖNGUR 20 Þú gafst þinn kæra son

YFIRLIT *

1, 2. (a) Hvenær hugsum við sérstaklega mikið um ástvin sem við höfum misst? (b) Hvað gerði Jesús kvöldið áður en hann dó?

 ÓHÁÐ því hversu langt er liðið síðan við misstum ástvini munum við eftir þeim. Venjulega hugsum við sérstaklega mikið um þá á dánarafmæli þeirra.

2 Á hverju ári sækjum við, ásamt milljónum annarra, dánarafmæli Jesú Krists sem við elskum innilega. (1. Pét. 1:8) Við komum saman til að minnast hans sem gaf líf sitt sem lausnargjald til að bjarga okkur undan synd og dauða. (Matt. 20:28) Jesús vildi reyndar að fylgjendur sínir minntust dauða síns. Kvöldið áður en hann dó stofnaði hann til minningarmáltíðar og sagði: „Gerið þetta til minningar um mig.“ – Lúk. 22:19.

3. Hvað ræðum við í þessari grein?

3 Fáir þeirra sem sækja minningarhátíðina hafa himneska von. En meðal viðstaddra eru milljónir annarra sem hafa jarðneska von. Í þessari grein skoðum við ástæður fyrir því að báðir hóparnir líta fram til minningarhátíðarinnar á hverju ári. Við veltum líka fyrir okkur hvaða gagn við höfum af því að vera viðstödd. En skoðum fyrst nokkrar ástæður fyrir því að hinir andasmurðu sækja hátíðina.

HVERS VEGNA SÆKJA HINIR ANDASMURÐU MINNINGARHÁTÍÐINA?

4. Hvers vegna neyta hinir andasmurðu af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni?

4 Hinir andasmurðu hlakka til að vera viðstaddir minningarhátíðina ár hvert sem þátttakendur. Hvers vegna er viðeigandi að þeir neyti brauðsins og vínsins? Til að fá svar við því skulum við skoða það sem gerðist síðasta kvöld Jesú á jörðinni. Eftir páskamáltíðina stofnsetti Jesús það sem síðan hefur verið þekkt sem kvöldmáltíð Drottins. Hann rétti 11 trúföstum postulum sínum brauð og vín og bað þá að borða og drekka af því. Hann ræddi við þá um tvo sáttmála, eða samninga – nýja sáttmálann og sáttmálann um ríkið. * (Lúk. 22:19, 20, 28–30) Þessir sáttmálar opnuðu postulunum og takmörkuðum fjölda annarra leið til að verða konungar og prestar á himni. (Opinb. 5:10; 14:1) Aðeins hinir andasmurðu eru aðilar að þessum sáttmálum og neyta því af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni.

5. Hvað vita hinir andasmurðu um vonina sem þeir hafa fengið?

5 Önnur ástæða fyrir því að hinir andasmurðu hlakka til minningarhátíðarinnar er sú að hún gefur þeim tækifæri til að hugleiða von sína. Jehóva hefur gefið þeim einstaka von – ódauðleika og óforgengileika á himni, að stjórna með Jesú Kristi og hinum 144.000 og umfram allt að vera í návist Jehóva Guðs. (1. Kor. 15:51–53; 1. Jóh. 3:2) Hinir andasmurðu vita að þeim er boðinn þessi heiður á himni. En til að hljóta hann þurfa þeir að vera trúfastir allt til dauða. (2. Tím. 4:7, 8) Það veitir hinum andasmurðu mikla gleði að hugleiða von sína. (Tít. 2:13) En hvað um „aðra sauði“? (Jóh. 10:16) Hvers vegna sækja þeir minningarhátíðina?

HVERS VEGNA SÆKJA AÐRIR SAUÐIR MINNINGARHÁTÍÐINA?

6. Hvers vegna eru aðrir sauðir viðstaddir minningarhátíðina á hverju ári?

6 Aðrir sauðir eru viðstaddir minningarhátíðina sem áhorfendur en ekki þátttakendur. Árið 1938 var þeim sem hafa jarðneska von sérstaklega boðið að sækja minningarhátíðina í fyrsta sinn. Í Varðturninum 1. mars 1938 sagði: „Það er rétt og mjög viðeigandi að [aðrir sauðir] séu viðstaddir slíka samkomu og fylgist með því sem fer fram … Það ætti að vera og er tími til að gleðjast fyrir þá líka.“ Rétt eins og gestir í brúðkaupi kunna að meta að fylgjast með giftingarathöfninni eru aðrir sauðir ánægðir að vera viðstaddir minningarhátíðina til að fylgjast með því sem fer fram.

7. Hvers vegna hlakka aðrir sauðir til að hlusta á ræðuna sem er flutt á minningarhátíðinni?

7 Aðrir sauðir hugleiða von sína líka. Þeir hlakka til að hlusta á ræðuna sem er flutt á minningarhátíðinni því að hún fjallar að miklu leyti um það sem Kristur og 144.000 meðstjórnendur hans munu gera fyrir trúfasta menn í þúsundáraríkinu. Þessir stjórnendur á himni hjálpa til við að breyta jörðinni í paradís og lyfta hlýðnu mannkyni upp til fullkomleika undir forystu konungs þeirra, Jesú Krists. Það er spennandi fyrir þær milljónir manna sem fylgjast með því sem fer fram á minningarhátíðinni að sjá fyrir sér uppfyllingu biblíuspádóma, eins og þeirra sem er að finna í Jesaja 35:5, 6; 65:21–23 og Opinberunarbókinni 21:3, 4. Þegar þeir sjá sjálfa sig og ástvini sína fyrir sér í nýja heiminum styrkja þeir framtíðarvon sína og þann ásetning að hætta aldrei að þjóna Jehóva. – Matt. 24:13; Gal. 6:9.

8. Hvaða önnur ástæða er fyrir því að aðrir sauðir sækja minningarhátíðina?

8 Skoðum aðra ástæðu fyrir því að aðrir sauðir sækja minningarhátíðina. Þeir vilja sýna hinum smurðu kærleika og stuðning. Biblían sagði fyrir að náið samband yrði milli hinna smurðu og þeirra sem hafa jarðneska von. Skoðum nokkur dæmi um það.

9. Hvað gefur spádómurinn í Sakaría 8:23 til kynna um samband annarra sauða við hina andasmurðu?

9 Lestu Sakaría 8:23. Þessi spádómur lýsir á fallegan hátt tilfinningum annarra sauða í garð andasmurðra trúsystkina sinna. Orðin „Gyðings“ og „ykkur“ vísa til hinna smurðu. (Rómv. 2:28, 29) „Tíu menn af öllum þjóðtungum“ tákna aðra sauði. Þeir „grípa í“ hina smurðu, það er að segja tengjast þeim traustum böndum í hreinni tilbeiðslu. Það er því eðlilegt að aðrir sauðir láti í ljós náið samband sitt við hina andasmurðu með því að vera viðstaddir minningarhátíðina ásamt þeim.

10. Hvað hefur Jehóva gert sem uppfyllir spádóminn í Esekíel 37:15–19, 24, 25?

10 Lestu Esekíel 37:15–19, 24, 25. Jehóva hefur látið þennan spádóm rætast með því að mynda órjúfanlegt einingarband milli hinna smurðu og annarra sauða. Spádómurinn nefnir tvo tréstafi. Stafur Júda (ættkvíslarinnar sem konungar Ísraels voru valdir úr) táknar þá sem hafa himneska von og stafur Jósefs táknar þá sem hafa jarðneska von. * Jehóva myndi sameina þessa tvo hópa svo að úr yrði ,einn stafur‘. Það þýðir að þeir myndu þjóna sameinaðir undir einum konungi, Jesú Kristi. Hinir andasmurðu og aðrir sauðir eru viðstaddir minningarhátíðina árlega, ekki sem tveir hópar heldur sem „ein hjörð“ undir ,einum hirði‘. – Jóh. 10:16.

11. Hvernig sýna ,sauðirnir‘ í Matteusi 25:31–36, 40 fyrst og fremst stuðning sinn við bræður Krists?

11 Lestu Matteus 25:31–36, 40. Sauðirnir í þessari dæmisögu tákna þá sem eru réttlátir á tíma endalokanna og hafa jarðneska von – aðra sauði. Þeir styðja trúfastlega þá sem eftir eru af andasmurðum bræðrum Krists, aðallega með því að hjálpa þeim að axla þá miklu ábyrgð að boða trúna og gera fólk að lærisveinum um allan heim. – Matt. 24:14; 28:19, 20.

12, 13. Á hvaða fleiri vegu styðja aðrir sauðir bræður Krists?

12 Vikurnar fyrir minningarhátíðina sýna aðrir sauðir stuðning sinn við bræður Krists með því að taka þátt í alþjóðlegu átaki til að bjóða áhugasömum á hátíðina. (Sjá rammann „ Undirbúðu þig fyrir tímabilið í kringum minningarhátíðina“.) Þeir gera líka ráðstafanir til að halda minningarhátíðina í söfnuði sínum, jafnvel þótt enginn í honum sé andasmurður. Aðrir sauðir hafa mikla ánægju af að styðja bræður Krists á þennan hátt. Þeir vita að Jesús lítur svo á að það sem þeir gera fyrir smurða bræður hans sé gert fyrir hann. – Matt. 25:37–40.

13 Hvaða fleiri ástæður höfum við til að sækja minningarhátíðina, óháð því hver von okkar er?

HVERS VEGNA SÆKJUM VIÐ ÖLL MINNINGARHÁTÍÐINA?

14. Hvernig hafa Jehóva og Jesús sýnt okkur mikinn kærleika?

14 Við erum þakklát fyrir kærleikann sem Jehóva og Jesús hafa sýnt okkur. Jehóva hefur sýnt okkur kærleika á marga vegu en mesta kærleiksverk hans var að senda ástkæran son sinn til að þjást og deyja fyrir okkur. (Jóh. 3:16) Við skiljum líka að Jesús sýndi mikinn kærleika með því að fórna lífi sínu í okkar þágu. (Jóh. 15:13) Við getum aldrei endurgoldið Jehóva og Jesú kærleikann sem þeir hafa sýnt okkur. En við getum sýnt þakklæti okkar með því hvernig við lifum lífinu hvern dag. (Kól. 3:15) Og við sækjum minningarhátíðina því að við viljum hugsa um kærleika þeirra til okkar og sýna þeim kærleika okkar.

15. Hvers vegna eru bæði hinir andasmurðu og aðrir sauðir mjög þakklátir fyrir lausnarfórnina?

15 Við erum mjög þakklát fyrir lausnarfórnina. (Matt. 20:28) Hinir andasmurðu meta mikils lausnarfórnina því að hún gerir dásamlega von þeirra mögulega. Jehóva hefur lýst þá réttláta og ættleitt þá sem börn sín vegna trúar þeirra á fórn Jesú. (Rómv. 5:1; 8:15–17, 23) Aðrir sauðir eru líka þakklátir fyrir lausnarfórnina. Þeir trúa á úthellt blóð Krists og eru því hreinir í augum Guðs og geta veitt honum heilaga þjónustu. Þeir hafa þá von að lifa af ,þrenginguna miklu‘. (Opinb. 7:13–15) Bæði aðrir sauðir og hinir andasmurðu sýna þakklæti sitt fyrir lausnarfórnina með því að vera viðstaddir minningarhátíðina á hverju ári.

16. Af hvaða annarri ástæðu sækjum við minningarhátíðina?

16 Önnur ástæða fyrir því að við sækjum minningarhátíðina er að við viljum hlýða Jesú. Óháð því hver von okkar er tökum við til okkar fyrirmælin sem Jesús gaf kvöldið sem hann stofnaði til minningarhátíðarinnar: „Gerið þetta til minningar um mig.“ – 1. Kor. 11:23, 24.

HVAÐA GAGN HÖFUM VIÐ AF ÞVÍ AÐ VERA VIÐSTÖDD?

17. Hvernig hjálpar minningarhátíðin okkur að nálgast Jehóva?

17 Við nálgumst Jehóva. (Jak. 4:8) Eins og við höfum séð gefur minningarhátíðin okkur tækifæri til að hugleiða vonina sem Jehóva hefur gefið okkur og þann mikla kærleika sem hann hefur sýnt okkur. (Jer. 29:11; 1. Jóh. 4:8–10) Þegar við íhugum örugga von okkar og óbrigðulan kærleika Jehóva til okkar styrkjum við kærleika okkar til hans og vináttu. – Rómv. 8:38, 39.

18. Hvað finnum við okkur knúin til að gera þegar við hugleiðum fordæmi Jesú?

18 Við finnum okkur knúin til að líkja eftir Jesú. (1. Pét. 2:21) Í aðdraganda minningarhátíðarinnar beinum við athygli okkar að frásögu Biblíunnar af síðustu viku Jesú sem maður á jörð, dauða hans og upprisu. Ræðan sem er flutt á minningarhátíðinni minnir okkur á kærleika Jesú til okkar. (Ef. 5:2; 1. Jóh. 3:16) Þegar við lesum um og hugleiðum fórnfýsi Jesú finnum við okkur knúin til að „lifa eins og hann lifði“. – 1. Jóh. 2:6.

19. Hvernig getum við varðveitt vináttuna við Jehóva?

19 Við verðum enn staðráðnari í að varðveita vináttu okkar við Guð. (Júd. 20, 21) Við varðveitum vináttu okkar við Guð með því að gera okkar besta til að hlýða honum, helga nafn hans og gleðja hjarta hans. (Orðskv. 27:11; Matt. 6:9; 1. Jóh. 5:3) Minningarhátíðin er okkur hvatning til að lifa dag hvern á þann hátt að Jehóva sjái að við viljum vera í skjóli kærleika hans að eilífu.

20. Hvaða góðu ástæður höfum við til að vera viðstödd minningarhátíðina?

20 Hvort sem von okkar er að lifa að eilífu á himni eða jörð höfum við góðar ástæður til að sækja minningarhátíðina á hverju ári. Þegar við hittumst þennan dag ár hvert minnumst við dauða Jesú Krists sem við elskum. Umfram allt minnumst við mesta kærleiksverks sem hefur verið unnið – kærleikans sem Jehóva sýndi okkur með því að gefa son sinn sem lausnargjald. Minningarhátíðin verður haldin föstudaginn 15. apríl þetta árið. Við elskum Jehóva og son hans. Ekkert getur því verið okkur mikilvægara á dánarafmæli Jesú en að vera viðstödd minningarhátíðina.

SÖNGUR 16 Hyllum Jehóva fyrir smurðan son hans

^ Hvort sem von okkar er að lifa á himni eða jörð hlökkum við til að sækja minningarhátíðina ár hvert. Í þessari grein ræðum við hvaða góðu ástæður við höfum til að sækja hátíðina og hvaða gagn við höfum af því.

^ Sjá greinina „Þið verðið ,konungsríki presta‘“ í Varðturninum 15. október 2014 bls. 15–17 til að fá frekari upplýsingar um nýja sáttmálann og sáttmálann um ríkið.

^ Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum júlí 2016 til að fá frekari upplýsingar um spádóminn um stafina tvo í Esekíel 37. kafla.