Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 2

Lærum af yngri bróður Jesú

Lærum af yngri bróður Jesú

„Jakob, þjónn Guðs og Drottins Jesú Krists.“ – JAK. 1:1.

SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn

YFIRLIT *

1. Lýstu fjölskyldu Jakobs.

 JAKOB bróðir Jesú ólst upp í fjölskyldu sem átti sterkt samband við Jehóva. * Foreldrar hans, Jósef og María, elskuðu Jehóva innilega og gerðu sitt besta til að þjóna honum. Þar að auki átti eldri bróðir hans eftir að verða hinn fyrirheitni Messías. Hvílíkur heiður fyrir Jakob að fá að tilheyra þessari fjölskyldu!

Jakob kynntist eldri bróður sínum, Jesú, mjög vel þegar þeir ólust upp saman. (Sjá 2. grein.)

2. Hvaða ástæður hafði Jakob til að líta upp til stóra bróður síns?

2 Jakob hafði margar ástæður til að líta upp til stóra bróður síns. (Matt. 13:55) Jesús þekkti til dæmis Ritningarnar svo vel að hann kom hámenntuðum öldungum í Jerúsalem á óvart þegar hann var aðeins 12 ára. (Lúk. 2:46, 47) Kannski vann Jakob með Jesú við trésmíði. Ef hann gerði það hlýtur hann að hafa kynnst bróður sínum mjög vel. Nathan H. Knorr sagði oft: „Maður kynnist öðrum mjög vel þegar maður vinnur með þeim.“ * Það fór heldur ekki fram hjá Jakobi að „Jesús þroskaðist jafnt og þétt að viti og vexti og bæði Guð og menn fengu sífellt meiri mætur á honum“. (Lúk. 2:52) Við gætum því gert ráð fyrir að Jakob væri með þeim fyrstu til að verða lærisveinn Jesú. En svo var ekki.

3. Hvernig brást Jakob við þegar Jesús hóf þjónustu sína?

3 Jakob varð ekki lærisveinn meðan Jesús þjónaði á jörðinni. (Jóh. 7:3–5) Hann gæti hafa verið einn af ættingjum Jesú sem töldu hann „genginn af vitinu“. (Mark. 3:21) Og það bendir ekkert til þess að Jakob hafi verið með móður þeirra, Maríu, þegar Jesús var tekinn af lífi á kvalastaur. – Jóh. 19:25–27.

4. Hvað lærum við í þessari grein?

4 Síðar trúði Jakob á Jesú og varð virtur öldungur í kristna söfnuðinum. Í þessari grein skoðum við tvennt sem við getum lært af Jakobi: (1) hvers vegna við verðum að halda áfram að vera auðmjúk og (2) hvernig við getum verið góðir kennarar.

HÖLDUM ÁFRAM AÐ VERA AUÐMJÚK EINS OG JAKOB

Jakob viðurkenndi auðmjúklega Jesú sem Messías þegar hann birtist honum og var trúfastur lærisveinn hans upp frá því. (Sjá 5.–7. grein.)

5. Hvernig brást Jakob við þegar Jesús birtist honum eftir að hann var risinn upp?

5 Hvenær varð Jakob trúr fylgjandi Jesú? Eftir að Jesús var upprisinn „birtist hann Jakobi og svo öllum postulunum“. (1. Kor. 15:7) Það markaði þáttaskil í lífi Jakobs. Hann var viðstaddur þegar postularnir biðu eftir að fá heilagan anda á efri hæð í herbergi í Jerúsalem. (Post. 1:13, 14) Síðar var Jakob þeirrar ánægju aðnjótandi að þjóna í stjórnandi ráði á fyrstu öld. (Post. 15:6, 13–22; Gal. 2:9) Og einhvern tíma fyrir árið 62 var honum innblásið að skrifa bréf til smurðra kristinna manna. Þetta bréf kemur okkur að gagni hvort sem við höfum himneska von eða jarðneska. (Jak. 1:1) Samkvæmt Jósefusi, sagnaritara Gyðinga á fyrstu öld, var Jakob tekinn af lífi að fyrirskipun Ananíasar yngri, æðstaprests Gyðinga. Jakob var trúfastur Jehóva þar til hann lauk jarðnesku lífi sínu.

6. Á hvaða hátt var Jakob ólíkur trúarleiðtogum síns tíma?

6 Jakob var auðmjúkur. Af hverju getum við sagt það? Við skulum skoða hvernig viðbrögð Jakobs við boðskap Jesú voru á endanum ólík viðbrögðum trúarleiðtoganna. Þegar Jakob sá óhrekjandi sönnun um að Jesús væri sonur Guðs viðurkenndi hann það. Það sama átti ekki við um æðstuprestana í Jerúsalem. Þeir gátu til dæmis ekki neitað því að Jesús hafði reist Lasarus upp frá dauðum. Í staðinn fyrir að viðurkenna að Jesús væri fulltrúi Jehóva reyndu þeir að drepa bæði Jesú og Lasarus. (Jóh. 11:53; 12:9–11) Síðar, þegar Jesús sjálfur var reistur upp, lögðu þeir á ráðin um að fela það fyrir fólki. (Matt. 28:11–15) Stolt þessara trúarleiðtoga varð til þess að þeir höfnuðu Messíasi.

7. Hvers vegna verðum við að forðast stolt?

7 Lærdómurinn: Forðumst stolt og þiggjum fúslega kennslu. Rétt eins og sjúkdómur getur hert æðar hjarta manns og takmarkað getu þess getur stolt hert táknrænt hjarta okkar og komið í veg fyrir að við tökum leiðbeiningar Jehóva til okkar. Farísearnir leyfðu hjarta sínu að verða svo hart að þeir afneituðu skýrum sönnunum sem andi Guðs birti þeim. (Jóh. 12:37–40) Þeir voru á hættubraut því að þetta kom í veg fyrir að þeir fengju eilíft líf. (Matt. 23:13, 33) Það er svo mikilvægt að við höldum áfram að leyfa orði Guðs og anda að móta okkur og hafa áhrif á hugsun okkar og ákvarðanir. (Jak. 3:17) Jakob var fús að láta Jehóva kenna sér vegna þess að hann var auðmjúkur. Og eins og við munum sjá var það vegna þess að hann var auðmjúkur að hann varð góður kennari.

VERUM GÓÐIR KENNARAR EINS OG JAKOB

8. Hvað getur hjálpað okkur að verða góðir kennarar?

8 Jakob státaði ekki af veraldlegri menntun. Trúarleiðtogarnir á þeim tíma litu hann eflaust sömu augum og postulana Pétur og Jóhannes – sem ,ómenntaðan almúgamann‘. (Post. 4:13) En Jakob varð góður kennari eins og við sjáum vel þegar við lesum bókina sem ber nafn hans. Líkt og Jakob höfum við kannski takmarkaða veraldlega menntun. En með hjálp anda Jehóva og þjálfun sem söfnuðurinn veitir getum við líka orðið góðir kennarar. Skoðum hvernig Jakob setti gott fordæmi sem kennari og hvaða lærdóm við getum dregið af því.

9. Hvernig myndirðu lýsa kennslu Jakobs?

9 Jakob notaði ekki framandi orð eða flóknar útskýringar. Það hjálpaði áheyrendum hans að vita hvað þeir þyrftu að gera og hvernig. Skoðum til dæmis á hve einfaldan hátt Jakob kenndi kristnum mönnum að vera fúsir að þola óréttlæti án þess að fyllast gremju. Hann skrifaði: „Við teljum þá lánsama sem hafa verið þolgóðir. Þið hafið heyrt um þolgæði Jobs og hvernig Jehóva leiddi mál hans til lykta. Þannig sjáið þið að Jehóva er mjög umhyggjusamur og miskunnsamur.“ (Jak. 5:11) Tökum eftir að Jakob byggði kennslu sína á Ritningunum. Hann notaði orð Guðs til að hjálpa áheyrendum sínum að skilja að Jehóva umbunar alltaf þeim sem eru honum trúfastir eins og Job var. Jakob kom þessu til skila með því að nota einföld orð og rök. Þannig beindi hann athyglinni að Jehóva en ekki sjálfum sér.

10. Hvernig getum við líkt eftir Jakobi þegar við kennum öðrum?

10 Lærdómurinn: Hafðu kennsluna einfalda og byggðu hana á orði Guðs. Markmið okkar ætti ekki að vera að vekja aðdáun annarra á því hversu mikið við vitum heldur á því hversu mikið Jehóva veit og hversu annt honum er um þá. (Rómv. 11:33) Við gerum það með því að byggja alltaf það sem við segjum á Biblíunni. Frekar en til dæmis að segja biblíunemendum okkar hvað við myndum gera í þeirra sporum ættum við að hjálpa þeim að álykta út frá Biblíunni hvernig Jehóva hugsar og hvað honum finnst um málið. Þá er það löngunin til að gleðja Jehóva sem knýr þá til að gera eitthvað en ekki við.

11. Hvaða erfiðleika glímdu sumir þjónar Guðs við og hvaða ráð gaf Jakob þeim? (Jakobsbréfið 5:13–15)

11 Jakob var raunsær. Af bréfum Jakobs er augljóst að hann var meðvitaður um erfiðleikana sem trúsystkini hans glímdu við og hann gaf þeim leiðbeiningar til að takast á við þá. Sum þeirra brugðust til dæmis ekki fljótt við leiðbeiningum. (Jak. 1:22) Önnur trúsystkini komu betur fram við ríka en fátæka. (Jak. 2:1–3) Og enn önnur þeirra áttu erfitt með að hafa taum á tungu sinni. (Jak. 3:8–10) Þessir þjónar Guðs áttu við alvararlegan vanda að glíma en Jakob gafst ekki upp á þeim. Hann gaf ráð á kærleiksríkan en ákveðinn hátt og hvatti þá sem þurftu að styrkja sambandið við Jehóva að leita hjálpar öldunganna. – Lestu Jakobsbréfið 5:13–15.

12. Hvernig getum við verið jákvæð þegar við aðstoðum biblíunemendur okkar?

12 Lærdómurinn: Verum raunsæ en varðveitum jákvætt viðhorf til annarra. Margir sem við aðstoðum við biblíunám eiga í erfiðleikum með að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar. (Jak. 4:1–4) Það getur tekið þá tíma að losa sig við vonda eiginleika og rækta kristna eiginleika. Við þurfum eins og Jakob að hafa hugrekki til að segja nemendum okkar hvar þeir þurfa að bæta sig. Við þurfum líka að vera jákvæð og treysta því að Jehóva dragi auðmjúkt fólk til sín og gefi því styrk til að gera breytingar á lífi sínu. – Jak. 4:10.

13. Hvað viðurkenndi Jakob eins og kemur fram í Jakobsbréfinu 3:2 og neðanmálsgrein?

13 Jakob hafði heilbrigt sjálfsmat. Jakob leit ekki svo á að fjölskyldutengsl eða verkefni í söfnuðinum gæfu honum sérstöðu eða gerðu hann mikilvægari en bræður hans og systur. Hann kallaði þau ,kær trúsystkini‘. (Jak. 1:16, 19; 2:5) Hann reyndi ekki að sýnast fullkominn. Hann taldi sjálfan sig með þegar hann sagði: „Við gerum allir mistök.“ – Lestu Jakobsbréfið 3:2 og neðanmálsgrein.

14. Hvers vegna verðum við að vera fús að viðurkenna mistök okkar?

14 Lærdómur: Munum að við syndgum öll. Við megum ekki hugsa sem svo að við séum á einhvern hátt æðri þeim sem við kennum. Hvers vegna ekki? Ef við gefum í skyn að við séum gallalaus gæti nemandi okkar dregið þá ályktun að honum takist aldrei að uppfylla kröfur Guðs. En þegar við viðurkennum af hreinskilni að það hafi ekki alltaf verið auðvelt fyrir okkur að fara eftir meginreglum Biblíunnar og útskýrum hvernig Jehóva hefur hjálpað okkur að gera breytingar, auðveldum við nemandanum að sjá að hann getur líka þjónað Jehóva.

Líkingar Jakobs voru einfaldar, skýrar og áhrifaríkar. (Sjá 15. og 16. grein.) *

15. Hvernig líkingar notaði Jakob? (Jakobsbréfið 3:2–6, 10–12)

15 Jakob notaði líkingar sem náðu til hjartans. Hann hefur eflaust fengið hjálp heilags anda en trúlega hefur hann líka lært margt um kennslu með því að velta fyrir sér líkingunum sem eldri bróðir hans, Jesús, hafði notað. Líkingarnar sem Jakob notaði í bréfi sínu eru einfaldar og kennslan skýr. – Lestu Jakobsbréfið 3:2–6, 10–12.

16. Hvers vegna ættum við að nota áhrifaríkar líkingar?

16 Lærdómurinn: Notum áhrifaríkar líkingar. Þegar við notum góðar líkingar er eins og við notum myndskeið við kennsluna. Myndirnar hjálpa áheyrendum þínum að muna mikilvæg biblíusannindi. Jesús var snillingur í að nota áhrifaríkar líkingar og Jakob bróðir hans líkti eftir fordæmi hans. Skoðum eina af líkingunum sem hann notaði og hugleiðum hvers vegna hún var svona áhrifarík.

17. Hvers vegna er líkingin í Jakobsbréfinu 1:22–25 svona áhrifarík?

17 Lestu Jakobsbréfið 1:22–25. Líking Jakobs um spegilinn er áhrifarík af mörgum ástæðum. Hann hafði eitthvað ákveðið huga: til að hafa gagn af orði Guðs er nauðsynlegt að gera meira en að lesa það, við verðum að fara eftir því sem við lesum. Jakob valdi líkingu sem áheyrendur hans skildu auðveldlega, um mann sem lítur í spegil. Hver var kennslan? Það væri til einskis að líta í spegil og sjá þörf á að laga eitthvað en gera síðan ekkert í málinu. Á svipaðan hátt væri til einskis að lesa í orði Guðs og sjá þörf á að breyta einhverju í fari sínu en gera ekkert í málinu.

18. Hvað þrennt þurfum við að gera þegar við notum líkingar?

18 Þegar við notum líkingar getum við líkt eftir Jakobi með því að gera þrennt: (1) Göngum úr skugga um að líkingin sé hentug til að útskýra það sem við viljum koma til skila. (2) Notum líkingu sem áheyrendur okkar skilja auðveldlega. (3) Heimfærum líkinguna. Ef okkur finnst erfitt að finna áhrifaríkar líkingar er hægt að leita í Efnislykli að ritum Votta Jehóva. Undir viðfangsefninu „líkingar“ er hægt að finna margar líkingar sem við getum notað. Munum að líkingar eru eins og hátalari – þær undirstrika það sem við erum að kenna. Verum viss um að við notum þær aðeins til að útskýra aðalatriði í kennslunni. Mikilvægasta ástæðan fyrir því að við viljum bæta kennsluhæfileika okkar er að sjálfsögðu að hjálpa eins mörgum og mögulegt er að fá að vera í hamingjusamri fjölskyldu Jehóva en ekki að draga athygli að sjálfum okkur.

19. Hvernig sýnum við að við kunnum að meta fjölskyldu okkar í söfnuði Jehóva?

19 Við höfum ekki átt þess kost að alast upp með fullkomnum eldri bróður en við njótum þess að þjóna Jehóva ásamt stórri fjölskyldu bræðra og systra. Við sýnum þeim væntumþykju með því að eiga samskipti við þau, læra af þeim og þjóna trúfastlega þeim við hlið í boðuninni og kennslustarfinu. Þegar við gerum okkar besta til að líkja eftir viðhorfum, verkum og kennsluaðferðum Jakobs lofum við Jehóva og hjálpum einlægu fólki að nálgast himneskan föður okkar.

SÖNGUR 114 Verum þolinmóð

^ Jakob ólst upp í sömu fjölskyldu og Jesús. Hann þekkti fullkominn son Guðs betur en flestir á þeim tíma. Í þessari grein skoðum við hvað við getum lært af lífi og boðun yngri bróður Jesú sem varð máttarstólpi í söfnuðinum á fyrstu öld.

^ Í þessari grein tölum við til einföldunar um Jakob sem bróður Jesú þó að hann hafi í rauninni verið hálfbróðir hans. Hann skrifaði augljóslega Jakobsbréfið.

^ Nathan H. Knorr átti sæti í hinu stjórnandi ráði. Jarðlífi hans lauk árið 1977.

^ MYND: Jakob talaði um lítinn eld til að lýsa hættunni á að misnota tungu okkar. Það var dæmi sem fólk skildi auðveldlega.