Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 5

Notum tímann sem best

Notum tímann sem best

„Gætið þess vandlega að þið hegðið ykkur ekki eins og óskynsamar manneskjur heldur skynsamar og notið tímann sem best.“ – EF. 5:15, 16.

SÖNGUR 8 Jehóva er hæli okkar

YFIRLIT *

1. Hvernig getum við varið tíma með Jehóva?

 VIÐ njótum þess að verja tíma með þeim sem okkur er annt um. Hamingjusömum hjónum finnst fátt betra en að eiga rólegt kvöld saman. Ungt fólk nýtur þess að vera með nánum vinum. Og við kunnum öll að meta að vera með bræðrum okkar og systrum. En umfram allt finnst okkur gott að verja tíma með Guði. Við gerum það með því að biðja til hans, lesa í orði hans og hugleiða fyrirætlun hans og fallega eiginleika. Það er dýrmætt að verja tíma með Jehóva. – Sálm. 139:17NW.

2. Hvað getur verið erfitt?

2 Þótt við kunnum að meta sambandið við Jehóva er ekki alltaf auðvelt að finna tíma til að rækta það. Við höfum mikið að gera en það getur gert okkur erfitt fyrir að finna tíma til að sinna tilbeiðslunni. Veraldleg vinna, fjölskylduábyrgð og fleira getur tekið það mikinn tíma að okkur finnist við vera of upptekin til að biðja, lesa Biblíuna eða hugleiða efni hennar.

3. Hvaða önnur hætta er til staðar?

3 Það er líka önnur og lúmskari hætta til staðar. Ef við erum ekki varkár gætum við leyft ýmsu sem er ekki rangt í sjálfu sér að taka frá okkur tíma sem hefði mátt nota til að nálgast Jehóva. Við höfum til dæmis öll gott af afþreyingu af og til. En jafnvel holl afþreying getur tekið það mikinn tíma að lítill tími verði eftir fyrir tilbeiðsluna á Jehóva. Við þurfum að gæta hófs í afþreyingu. – Orðskv. 25:27; 1. Tím. 4:8.

4. Hvað skoðum við í þessari grein?

4 Í þessari grein skoðum við hvers vegna við þurfum að meta hvað sé okkur mikilvægast. Við ræðum líka hvernig við getum notað tímann sem við verjum með Jehóva sem best og hvaða gagn við höfum af því.

TAKTU GÓÐAR ÁKVARÐANIR OG FORGANGSRAÐAÐU RÉTT

5. Hvernig getur það að hugleiða leiðbeiningarnar í Efesusbréfinu 5:15–17 hjálpað ungu fólki að taka réttar ákvarðanir í lífinu?

5 Veldu bestu lífsstefnuna. Ungt fólk veltir oft fyrir sér hvernig best sé að lifa lífinu. Námsráðgjafar og ættingjar sem eru ekki í trúnni gætu hvatt það til að sækjast eftir veraldlegri menntun og frama í heiminum. Slík menntun tæki að öllum líkindum mikinn tíma. Foreldrar og vinir í söfnuðinum gætu á hinn bóginn hvatt unga fólkið til að nota líf sitt í þjónustu Jehóva. Hvað getur hjálpað ungu fólki sem elskar Jehóva að taka bestu ákvörðunina? Það er gagnlegt að lesa Efesusbréfið 5:15–17 og hugleiða það sem segir þar. (Lestu.) Eftir að hafa lesið þessi vers gæti sá sem er ungur spurt sig: Hver er „vilji Jehóva“? Hvaða ákvörðun gleður hann? Hvaða ákvörðun hjálpar mér að nota tíma minn á sem bestan hátt? Gleymum ekki að „dagarnir eru vondir“ og heimurinn sem Satan stjórnar tekur brátt enda. Það væri skynsamlegt af okkur að nota líf okkar á þann hátt sem gleður Jehóva.

6. Hvað kaus María að gera og hvers vegna var það viturlegt?

6 Forgangsraðaðu rétt. Að nota tíma okkar sem best felur stundum í sér að velja að gera annað af tvennu sem er í sjálfu sér hvorugt rangt. Frásagan af því þegar Jesús heimsótti Maríu og Mörtu sýnir þetta vel. Marta var gestrisin og örugglega mjög ánægð að fá Jesú í heimsókn og undirbjó því úrvalsmáltíð handa honum. En María systir hennar settist niður með Jesú og hlustaði á það sem hann hafði að segja. Þótt Marta hefði gott eitt í huga ,valdi María besta hlutskiptið‘. (Lúk. 10:38–42, neðanmáls) Þegar frá leið mundi María kannski ekki hvað var í matinn en við getum verið viss um að hún gleymdi því aldrei sem Jesús kenndi henni. María mat mikils þann takmarkaða tíma sem hún átti með Jesú. Við metum líka mikils tímann sem við eigum með Jehóva. Hvernig getum við nýtt þann tíma sem best?

NOTAÐU TÍMA ÞINN MEÐ JEHÓVA SEM BEST

7. Hvers vegna er mikilvægt að biðja, rannsaka Biblíuna og hugleiða efni hennar?

7 Mundu að bæn, biblíunám og hugleiðing eru hluti af tilbeiðslunni. Þegar við biðjum til Jehóva höfum við samband við himneskan föður okkar sem elskar okkur innilega. (Sálm. 5:8) Þegar við rannsökum Biblíuna öðlumst við ,þekkingu á Guði‘, en hann er uppspretta allrar visku. (Orðskv. 2:1–5) Og þegar við hugleiðum efni Biblíunnar virðum við um leið fyrir okkur aðlaðandi eiginleika Jehóva, stórkostlega fyrirætlun hans með sköpunarverk sitt og hvernig við getum átt hlutdeild í þeirri fyrirætlun. Er hægt að nota tímann betur? En hvernig getum við nýtt takmarkaðan tíma okkar sem best?

Geturðu fundið rólegan stað til sjálfsnáms? (Sjá 8. og 9. grein.)

8. Hvað lærum við af því hvernig Jesús varði tímanum í óbyggðum?

8 Finndu rólegan stað ef það er hægt. Skoðum fordæmi Jesú. Hann dvaldi 40 daga í óbyggðum áður en hann hóf þjónustu sína. (Lúk. 4:1, 2) Við þessar rólegu aðstæður gat Jesús beðið til Jehóva og hugleitt vilja hans með sig. Það bjó hann eflaust undir þær prófraunir sem hann átti fljótlega eftir að mæta. Hvað getum við lært af Jesú? Ef þú ert í stórri fjölskyldu er kannski ekki auðvelt að finna rólegan stað heima. Þá gætirðu kannski fundið góðan stað utandyra. Julie gerir það þegar hún vill eiga stund með Jehóva í bæn. Hún og eiginmaður hennar búa í lítilli íbúð í Frakklandi og tækifærin eru fá til að vera í næði út af fyrir sig. „Ég fer þess vegna í almenningsgarðinn á hverjum degi,“ segir Julie. „Þar get ég verið ein og einbeitt mér að því að tala við Jehóva.“

9. Hvernig sýndi Jesús að hann mat mikils samband sitt við Jehóva þótt hann væri önnum kafinn?

9 Jesús var önnum kafinn. Meðan hann þjónaði á jörðinni var hann eltur milli staða af fjölda fólks og allir vildu fá athygli hans. Eitt sinn voru ,allir borgarbúar samankomnir við dyrnar‘ til að hitta hann. En Jesús tók sér samt tíma til að hlúa að sambandi sínu við Jehóva. Fyrir sólarupprás fór hann á „óbyggðan stað“ þar sem hann gat verið einn með föður sínum. – Mark. 1:32–35.

10, 11. Hvað hvatti Jesús lærissveina sína til að gera í Getsemanegarðinum samkvæmt Matteusi 26:40, 41, en hvað gerðist?

10 Síðasta kvöldið hans á jörðinni leitaði hann aftur á rólegan stað þar sem hann gat hugleitt og beðið til Jehóva. Hann fékk næði í Getsemanegarðinum. (Matt. 26:36) Þar gaf hann lærissveinum sínum tímabærar leiðbeiningar um bænina.

11 Veltum fyrir okkur því sem gerðist. Það var áliðið þegar þeir komu í garðinn, hugsanlega var komið fram yfir miðnætti. Jesús bað lærissveinana um að vaka og fór síðan afsíðis til að biðja. (Matt. 26:37–39) Þeir sofnuðu meðan hann var á bæn. Jesús kom að þeim sofandi og hvatti þá til að ,vaka og biðja stöðugt‘. (Lestu Matteus 26:40, 41.) Hann skildi að þeir höfðu verið undir miklu álagi og voru þreyttir. Jesús sagði samúðarfullur að ,holdið væri veikt‘. Hann fór tvisvar aftur til að biðja til Jehóva. Í bæði skiptin þegar hann kom til baka fann hann lærisveinana sofandi en ekki á bæn. – Matt. 26:42–45.

Geturðu tekið þér tíma til að biðja til Jehóva þegar þú ert best upplagður? (Sjá 12. grein.)

12. Hvað geturðu gert ef þér finnst þú of stressaður eða þreyttur til að biðja til Jehóva?

12 Veldu rétta tímann. Stundum gæti okkur fundist við of stressuð eða þreytt til að biðja. Ef þér hefur liðið þannig ertu ekki einn um það. Hvað er til ráða? Sumum sem voru vanir að biðja til Jehóva í lok dagsins hefur fundist það hjálpa að gera það aðeins fyrr á kvöldin þegar þeir eru ekki eins þreyttir. Aðrir hafa fundið út að stellingin sem þeir velja hefur áhrif á það hvernig þeim gengur að einbeita sér. En hvað ef þú ert of áhyggjufullur eða niðurdreginn til að biðja? Segðu Jehóva hvernig þér líður. Þú getur verið viss um að miskunnsamur faðir okkar skilur þig. – Sálm. 139:4.

Geturðu sleppt því að svara smáskilaboðum eða tölvupóstum á samkomum? (Sjá 13. og 14. grein.)

13. Hvernig gætu snjalltæki truflað okkur þegar við biðjum, rannsökum Biblíuna eða erum á samkomum?

13 Forðastu það sem stelur athygli þinni þegar þú rannsakar Biblíuna. Bænin er ekki eina leiðin sem við getum notað til að styrkja samband okkar við Jehóva. Að rannsaka Biblíuna og sækja samkomur getur líka hjálpað okkur að nálgast Guð. Er eitthvað sem við getum gert til að nota sem best tímann sem við tökum okkur til þess? Spyrðu þig: Hvað truflar athygli mína á samkomum eða þegar ég er að lesa í Biblíunni? Gæti það verið að svara í síma eða skoða tölvupóst eða smáskilaboð? Milljarðar manna eiga gagnleg tæki sem bjóða upp á þetta. Sumir sem hafa rannsakað þetta segja að þegar við reynum að einbeita okkur að einhverju getur það verið truflandi bara að vera með snjallsíma nálægt okkur. „Fólk einbeitir sér ekki að því sem það er að gera,“ segir prófessor í sálfræði. „Hugurinn er annars staðar.“ Áður en mót hefjast erum við gjarnan beðin um að stilla snjalltæki þannig að þau trufli ekki aðra. Gætum við gert það sama þegar við erum ein þannig að snjalltæki okkar trufli okkur ekki þegar við eigum tíma með Jehóva?

14. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að einbeita okkur, samanber Filippíbréfið 4:6, 7?

14 Biddu Jehóva að hjálpa þér að einbeita þér. Þegar þú stendur þig að því að hugurinn er farinn eitthvað annað þegar þú ert að rannsaka Biblíuna eða þú ert á samkomu skaltu biðja Jehóva um að hjálpa þér. Ef þú ert áhyggjufullur gætirðu átt erfitt með að leggja áhyggjurnar til hliðar og einbeita þér að andlegum málum. En það er mjög mikilvægt að gera það. Biddu um friðinn sem verndar ekki einungis hjarta þitt heldur líka huga. – Lestu Filippíbréfið 4:6, 7.

AÐ VERJA TÍMA MEÐ JEHÓVA VEITIR BLESSUN

15. Hvaða gagn höfum við af því að verja tíma með Jehóva?

15 Það kemur þér að miklu gagni að taka þér tíma til að tala við Jehóva, hlusta á hann og hugsa um hann. Hvernig? Í fyrsta lagi tekurðu betri ákvarðanir. Biblían fullvissar okkur: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur.“ (Orðskv. 13:20) Þegar þú notar tíma með Jehóva uppsprettu viskunnar verður þú vitur. Þú munt skilja betur hvernig þú gleður hann og forðast að taka ákvarðanir sem særa hann.

16. Hvernig verðum við betri kennarar þegar við verjum tíma með Jehóva?

16 Í öðru lagi verðurðu betri kennari. Þegar við leiðbeinum einhverjum við biblíunám er eitt mikilvægasta markmiðið að hjálpa nemandanum að nálgast Jehóva. Því meira sem við biðjum til Jehóva og lærum um hann þeim mun heitar elskum við hann og erum betur í stakk búin að hjálpa nemanda okkar að gera það líka. Jesús gaf okkur gott fordæmi. Hann talaði af svo mikilli hlýju og kærleika um föður sinn að trúfastir fylgjendur hans gátu ekki annað en elskað hann líka. – Jóh. 17:25, 26.

17. Hvers vegna hjálpar bæn og sjálfsnám okkur að styrkja trúna?

17 Í þriðja lagi verður trú þín sterkari. Veltu því fyrir þér hvað gerist þegar þú biður Guð um leiðsögn, huggun eða stuðning. Trú þín styrkist í hvert skipti sem Jehóva svarar slíkum bænum. (1. Jóh. 5:15) Hvað fleira getur styrkt trú þína? Sjálfsnám. „Trúin kemur af því sem menn heyra.“ (Rómv. 10:17) En til að byggja upp sterka trú er meira krafist en að verða sér úti um þekkingu. Hvað fleira þurfum við að gera?

18. Hvers vegna er hugleiðing mikilvæg?

18 Við þurfum að hugleiða það sem við lærum. Veltu fyrir þér reynslu ritara 77. sálmsins. Hann var miður sín því að honum fannst hann og aðrir Ísraelsmenn hafa misst velþóknun Jehóva. Áhyggjurnar héldu fyrir honum vöku. (3.–9. vers) Hvað gerði hann? Hann sagði við Jehóva: „Ég vil hugleiða öll þín verk, íhuga stórvirki þín.“ (13. vers) Sálmaskáldið vissi auðvitað hvað Jehóva hafði gert fyrir fólk sitt áður en velti samt fyrir sér: „Hefur Guð gleymt gæsku sinni og í reiði byrgt miskunn sína?“ (10. vers) Sálmaskáldið hugleiddi verk Jehóva og hvernig hann hafði sýnt miskunn og samúð áður. (12. vers) Hann sannfærðist um að Jehóva yfirgæfi ekki fólk sitt. (16. vers) Trú þín styrkist sömuleiðis þegar þú hugleiðir hvað Jehóva hefur gert fyrir fólk sitt og hvað hann hefur gert fyrir þig.

19. Á hvaða annan hátt höfum við gagn af því að verja tíma með Jehóva?

19 Í fjórða lagi styrkist kærleikur þinn til Jehóva. Það er mikilvægast af öllu. Kærleikur hvetur þig, umfram alla aðra eiginleika, til að hlýða Jehóva, færa fórnir til að gleðja hann og halda út í öllum raunum. (Matt. 22:37–39; 1. Kor. 13:4, 7; 1. Jóh. 5:3) Ekkert er dýrmætara en náið, kærleiksríkt samband við Jehóva. – Sálm. 63:2–9.

20. Hvernig ætlarðu að tryggja að þú hafir nægan tíma með Jehóva?

20 Gleymum ekki að bæn, biblíunám og hugleiðing eru hluti af tilbeiðslu okkar. Leitaðu þess vegna tækifæra til að verja tíma með Jehóva í ró og næði rétt eins og Jesús. Forðastu óþarfa truflun. Biddu Jehóva að hjálpa þér að einbeita þér þegar þú tilbiður hann. Ef þú notar tíma þinn eins vel og þú getur núna umbunar Jehóva þér með eilífu lífi í nýjum heimi hans. – Mark. 4:24.

SÖNGUR 28 Hver er þinn vinur, Guð?

^ Jehóva er besti vinur okkar. Við metum mikils vináttuna við hann og okkur langar að kynnast honum betur. Það tekur tíma að kynnast einhverjum. Þetta á líka við um það að rækta vináttuna við Jehóva. Hvernig getum við tekið frá tíma til að nálgast himneskan föður okkar í ljósi þess að við erum flest önnum kafin og hvaða gagn höfum við af því að gera það?