Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Látum kærleika okkar ekki kólna

Látum kærleika okkar ekki kólna

„Vegna þess að lögleysi magnast mun kærleikur flestra kólna.“ – MATT. 24:12.

SÖNGVAR: 60, 135

1, 2. (a) Við hverja átti Jesús upphaflega þegar hann sagði það sem stendur í Matteusi 24:12? (b) Hvernig sýnir Postulasagan að flestir hinna frumkristnu viðhéldu kærleikanum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

JESÚS benti á tákn sem myndi sýna að ,veröldin væri að líða undir lok‘, en hluti þessa tákns var að ,kærleikur flestra myndi kólna‘. (Matt. 24:3, 12) Gyðingar á fyrstu öld sögðust vera þjónar Guðs en þeir leyfðu kærleikanum til hans að kólna.

2 Flestir kristnir menn á þeim tíma voru hins vegar önnum kafnir við að ,boða fagnaðarerindið um að Jesús væri Kristur‘. Þeir sýndu að þeir elskuðu Guð, trúsystkini sín og fólk utan safnaðarins. (Post. 2:44-47; 5:42) Sumir fylgjenda Jesú á fyrstu öld leyfðu þó kærleikanum að kólna.

3. Hver kann að vera ástæðan fyrir því að kærleikur sumra kristinna manna hafi kólnað?

3 Hinn upprisni Jesús Kristur sagði frumkristnum mönnum sem bjuggu í Efesus: „Það hef ég á móti þér að þú hefur fallið frá þínum fyrri kærleik.“ (Opinb. 2:4) Hvers vegna ætli það hafi gerst? Ein ástæðan gæti hafa verið að þessir fylgjendur Krists hafi orðið fyrir áhrifum af heiminum og hugsunarhætti hans. (Ef. 2:2, 3) Efesus á fyrstu öld einkenndist af syndsamlegu líferni, rétt eins og margar borgir nú á dögum. Hún var vellauðug og íbúarnir lögðu mikið upp úr munaði, afþreyingu og þægindum. Óeigingjarn kærleikur hafði vikið fyrir eigingjörnum nautnum. Blygðunarlaus hegðun og gróft kynferðislegt siðleysi var auk þess allsráðandi.

4. (a) Hvernig hefur kærleikurinn kólnað á okkar dögum? (b) Á hvaða þrem sviðum getur reynt á kærleika okkar?

4 Spádómur Jesú um að kærleikurinn færi dvínandi á einnig við um okkar daga. Fólk ber æ minni kærleika til Guðs. Milljónir manna hafa snúið við honum baki og leita lausna við vandamálum mannkyns hjá stofnunum manna. Þar af leiðandi kólnar kærleikurinn stöðugt meðal þeirra sem tilbiðja ekki Jehóva. En eins og ástandið í frumkristna söfnuðinum í Efesus sýnir geta sannkristnir menn nú á tímum einnig sofnað á verðinum og leyft kærleika sínum að dvína. Skoðum nú þrjú svið þar sem reynt getur á kærleika okkar: (1) til Jehóva, (2) til sannleika Biblíunnar og (3) til trúsystkina okkar.

KÆRLEIKUR TIL JEHÓVA

5. Hvers vegna þurfum við að elska Guð?

5 Sama dag og Jesús varaði við að kærleikurinn myndi kólna hafði hann lagt áherslu á hverjum væri allra mikilvægast að sýna kærleika. Hann sagði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.“ (Matt. 22:37, 38) Það að elska Jehóva af öllu hjarta hjálpar okkur að hlýða boðum hans, að vera þolgóð og að hata hið illa. (Lestu Sálm 97:10.) Satan og heimur hans reynir þó að grafa undan kærleika okkar til Guðs.

6. Hver er afleiðing þess að kærleikur manna til Guðs hefur dvínað?

6 Í heiminum í kringum okkur hefur fólk almennt brenglaða mynd af kærleikanum. Það elskar sjálft sig miklu frekar en skapara sinn. (2. Tím. 3:2) Satan stýrir þessum heimi sem elur á löngun í „allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað, allt oflæti vegna eigna“. (1. Jóh. 2:16) Páll postuli varaði trúsystkini sín við því að láta eftir löngunum holdsins. „Sjálfshyggjan er dauði,“ sagði hann og útskýrði síðan að hún væri „fjandsamleg Guði“. (Rómv. 8:6, 7) Þeir sem hafa notað lífið í að sækjast eftir efnislegum gæðum eða fullnægja kynferðislegum löngunum hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum. – 1. Kor. 6:18; 1. Tím. 6:9, 10.

7. Hvaða hættur steðja að fylgjendum Krists nú á dögum?

7 Í sumum löndum halda opinskáir guðleysingjar, efasemdamenn og þróunarsinnar á lofti hugmyndum sem eru gerðar til að grafa undan bæði kærleikanum til Guðs og trúnni á hann. Þeir hafa sannfært marga um að fólk þurfi að vera annaðhvort trúgjarnt eða heimskt til að trúa á skapara. Vísindamönnum er auk þess gert hátt undir höfði en þannig beinist athygli fólks burt frá skaparanum. (Rómv. 1:25) Ef við leyfðum okkur að hlusta á slíkar kenningar gætum við fjarlægst Jehóva og kærleikurinn kólnað. – Hebr. 3:12.

8. (a) Hvað getur valdið því að þjónar Jehóva verði niðurdregnir? (b) Um hvað erum við fullvissuð í Sálmi 136?

8 Ef við verðum niðurdregin getur það einnig veikt trú okkar og valdið því að kærleikurinn til Guðs kólni. Í þessum illa heimi Satans lendum við öll af og til í aðstæðum sem draga úr okkur kjark. (1. Jóh. 5:19) Við glímum kannski við heilsuleysi, fjárhagserfiðleika eða vandamál sem fylgja ellinni. Okkur gæti líka liðið illa vegna þess að við erum með lágt sjálfsmat, vegna þess að væntingar okkar hafa brugðist eða vegna eigin mistaka. Við ættum þó aldrei að láta slíkar aðstæður eða tilfinningar sannfæra okkur um að Jehóva hafi yfirgefið okkur. Öllu heldur ættum við að hugleiða hughreystandi orð Biblíunnar um órjúfandi kærleika Jehóva til okkar. Við finnum dæmi um það í Sálmi 136:23 en þar stendur: „Hann minntist vor í lægingu vorri, miskunn hans varir að eilífu.“ Trúfastur kærleikur Jehóva til þjóna sinna bregst aldrei. Við getum því verið fullviss um að hann heyri ,grátbeiðnir okkar‘ um hjálp og svari þeim. – Sálm. 116:1; 136:24-26.

9. Hvernig fékk Páll styrk til að viðhalda kærleikanum til Guðs?

9 Líkt og sálmaskáldið sótti Páll styrk í að hugsa um hvernig Jehóva styður okkur statt og stöðugt. Páll skrifaði: „Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gert mér?“ (Hebr. 13:6) Páll treysti algerlega á ástúðlega umhyggju Jehóva og það hjálpaði honum að takast á við erfiðleika lífsins. Hann leyfði ekki erfiðum aðstæðum að draga sig niður. Þegar hann var í fangelsi skrifaði hann reyndar nokkur uppörvandi bréf. (Ef. 4:1; Fil. 1:7; Fílem. 1) Já, Páll viðhélt kærleikanum til Guðs jafnvel þegar reyndi verulega á hann. Hvernig fékk hann kraft til þess? Hann treysti á ,Guð allrar huggunar sem hughreystir okkur í sérhverri þrenging okkar‘. (2. Kor. 1:3, 4) Hvernig getum við líkt eftir Páli og viðhaldið sterkum kærleiksböndum við Jehóva?

Sýndu að þú elskir Jehóva. (Sjá 10. grein.)

10. Hvernig getum við viðhaldið sterkum kærleiksböndum við Jehóva?

10 Páll talar sjálfur um eina helstu leiðina til að viðhalda sterkum kærleiksböndum við Jehóva. Hann skrifaði trúsystkinum sínum: „Biðjið án afláts.“ Síðar skrifaði hann líka: „Verið ... staðföst í bæninni.“ (1. Þess. 5:17; Rómv. 12:12) Bænasamband okkar við Guð er grundvöllurinn að nánu sambandi við hann. (Sálm. 86:3) Tökum okkur nægan tíma til að tjá Jehóva innstu hugsanir okkar og tilfinningar. Þá er ekki annað hægt en að við nálægjum okkur himneskum föður okkar „sem heyrir bænir“. (Sálm. 65:3) Auk þess styrkist kærleikur okkar til hans þegar við finnum að hann svarar bænum okkar. Við áttum okkur æ betur á að Jehóva er „nálægur öllum sem ákalla hann“. (Sálm. 145:18) Þegar við treystum á stuðning Jehóva erum við betur í stakk búin til að takast á við trúarprófraunir sem eiga eftir að mæta okkur.

AÐ ELSKA SANNLEIKA BIBLÍUNNAR

11, 12. Hvernig getum við haft meira yndi af sannleika Biblíunnar?

11 Við sem erum kristin fögnum sannleikanum og höfum yndi af honum. Orð Guðs er uppspretta sannleikans. Jesús sagði í bæn til föður síns: „Þitt orð er sannleikur.“ (Jóh. 17:17) Til að elska sannleikann þarf maður því að byrja á að afla sér nákvæmrar þekkingar á orði Guðs. (Kól. 1:10) En meira þarf til en það eitt að viða að sér þekkingu. Tökum eftir hvernig innblásinn ritari Sálms 119 hjálpar okkur að skilja hvað felst í því að elska sannleika Biblíunnar. (Lestu Sálm 119:97-100.) Tökum við okkur tíma yfir daginn til að hugleiða og velta fyrir okkur því sem við lesum í Biblíunni? Við fyllumst þakklæti fyrir sannleika Biblíunnar þegar við hugleiðum hvernig það er okkur til góðs að heimfæra hann upp á líf okkar.

12 Sálmaskáldið heldur áfram: „Hve sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum.“ (Sálm. 119:103) Að sama skapi getum við notið þeirrar bragðgóðu andlegu fæðu sem við fáum frá söfnuði Guðs. Við getum leyft henni að leika við bragðlaukana svo að segja þannig að við munum eftir ,fögrum orðum‘ sannleikans og getum notað þau til að hjálpa öðrum. – Préd. 12:10.

13. Hvað varð til þess að Jeremía elskaði sannleikann í Ritningunni og hvaða áhrif hafði það á hann?

13 Jeremía spámaður elskaði sannleikann í Ritningunni. Hvaða áhrif höfðu orð Guðs á hjarta hans? „Þegar orð þín komu gleypti ég þau, orð þín urðu gleði mín. Hjarta mitt fagnaði því að ég er kenndur við þig, Drottinn, Guð hersveitanna.“ (Jer. 15:16) Jeremía gleypti og melti dýrmæt orð Guðs í táknrænum skilningi með því að hugleiða þau. Þannig lærði hann að meta mikils þann heiður að vera kenndur við nafn Guðs. Hefur kærleikur okkar til sannleika Biblíunnar orðið til þess að við metum mikils þann einstaka heiður sem við höfum – að bera nafn Guðs og boða ríki hans núna á endalokatímanum?

Sýndu að þú elskir sannleika Biblíunnar. (Sjá 14. grein.)

14. Hvernig getum við glætt kærleika okkar til sannleika Biblíunnar?

14 Hvað fleira getum við gert til að glæða kærleika okkar til sannleika Biblíunnar, annað en að lesa hana og biblíutengdu ritin okkar? Við getum glætt þennan kærleika með því að sækja samkomur reglulega. Vikulegt biblíunám okkar með hjálp Varðturnsins er ein helsta leiðin sem Jehóva notar til að fræða okkur. En til að skilja efnið almennilega þurfum við að búa okkur vel undir námið í hverri viku. Ein leið til þess er að fletta upp öllum ritningarstöðunum sem vísað er í. Nú orðið er hægt að sækja Varðturninn á mörgum tungumálum á vefsetrinu jw.org eða lesa hann í JW Library-appinu. Á sumum rafrænum sniðum er auðveldlega hægt að fletta upp versunum sem vísað er í í námsgreinunum. En óháð því hvaða aðferð við notum vex kærleikur okkar til sannleika Biblíunnar þegar við lesum þessi vers vandlega og hugleiðum þau. – Lestu Sálm 1:2.

KÆRLEIKUR TIL TRÚSYSTKINA

15, 16. (a) Hvaða skylda hvílir á okkur samkvæmt Jóhannesi 13:34, 35? (b) Hvernig tengist kærleikur okkar til trúsystkina kærleika okkar til Guðs og til Biblíunnar?

15 Síðustu nóttina, sem Jesús var á jörð, sagði hann við lærisveina sína: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ – Jóh. 13:34, 35.

16 Að elska bræður okkar og systur tengist því að elska Jehóva. Reyndar er ekki hægt að gera annað ef hitt vantar. Jóhannes postuli skrifaði: „Sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóh. 4:20) Kærleikur okkar til Jehóva og til trúsystkina helst auk þess í hendur við kærleika okkar til Biblíunnar. Hvers vegna? Vegna þess að kærleikurinn til sannleika Biblíunnar knýr okkur til að hlýða af heilu hjarta boðum hennar um að elska Guð og elska trúsystkini okkar. – 1. Pét. 1:22; 1. Jóh. 4:21.

Sýndu trúsystkinum þínum að þú elskir þau. (Sjá 17. grein.)

17. Nefndu dæmi um hvernig við getum sýnt kærleika.

17 Lestu 1. Þessaloníkubréf 4:9, 10Hvernig getum við sýnt í verki að við elskum þá sem eru í söfnuðinum okkar? Rosknum bróður eða systur gæti vantað far á samkomur. Ekkja gæti þurft aðstoð við að dytta að einhverju á heimilinu. (Jak. 1:27) Bræður og systur á öllum aldri, sem eru niðurdregin eða þunglynd eða glíma við aðrar prófraunir, hafa þörf fyrir að við sýnum þeim athygli, uppörvum þau og hughreystum. (Orðskv. 12:25; Kól. 4:11) Við sönnum að við elskum trúsystkini okkar þegar við sýnum í orði og verki að okkur er innilega annt um þau. – Gal. 6:10.

18. Hvað getur hjálpað okkur að leysa minni háttar ágreining við trúsystkini okkar?

18 Í Biblíunni er spáð fyrir að ,síðustu dagar‘ þessa illa heims myndu einkennast af eigingirni og græðgi. (2. Tím. 3:1, 2) Við sem erum kristin þurfum því að leggja hart að okkur til að glæða kærleikann til Guðs, til sannleika Biblíunnar og hvert til annars. Vissulega getur komið upp minni háttar ágreiningur milli okkar og trúsystkina. En það er öllum í söfnuðinum til mikillar blessunar þegar kærleikurinn knýr okkur til að setja niður allt ósætti eins friðsamlega og hægt er. (Ef. 4:32; Kól. 3:14) Leyfum kærleikanum aldrei að kólna. Höldum öllu heldur áfram að elska Jehóva, orð hans og trúsystkini okkar af öllu hjarta.