ÆVISAGA
Fátækur í fyrstu en auðugur að lokum
Ég fæddist í bjálkakofa í smábæ sem nefnist Liberty og er í Indiana í Bandaríkjunum. Foreldrar mínir áttu fyrir son og tvær dætur þegar ég kom í heiminn. Síðar eignaðist ég tvo bræður og eina systur í viðbót.
ÞAÐ var fátt sem breyttist á skólaárum mínum. Maður lauk skólagöngunni með sömu krökkum og maður byrjaði með í fyrsta bekk, og flestir í bænum þekktust með nafni.
Bærinn Liberty var umkringdur litlum bóndabæjum og á þeim flestum var ræktaður maís. Pabbi vann hjá einum af bændunum um það leyti sem ég fæddist. Á unglingsárunum lærði ég að keyra dráttarvél og vinna helstu landbúnaðarstörf.
Pabbi var orðinn 56 ára þegar ég fæddist en mamma var 35 ára. Pabbi var grannur, hraustur og sterkur. Hann hafði ánægju af erfiðisvinnu og kenndi okkur krökkunum að gera það líka. Hann þénaði aldrei mikið, en við höfðum samt þak yfir höfuðið og höfðum alltaf í okkur og á. Og hann gaf sér alltaf tíma til að sinna okkur. Hann náði 93 ára aldri en mamma var 86 ára þegar hún dó. Hvorugt þeirra þjónaði Jehóva. Einn af bræðrum mínum hefur þjónað dyggilega sem öldungur síðan það fyrirkomulag var tekið upp skömmu eftir 1970.
YNGRI ÁRIN
Mamma var mjög trúuð og tók okkur krakkana með sér í baptistakirkjuna á hverjum sunnudegi. Ég heyrði fyrst minnst á þrenninguna þegar ég var 12 ára. Forvitinn spurði ég mömmu: „Hvernig getur Jesús verið bæði sonurinn og faðirinn samtímis?“ Ég man að hún svaraði: „Það er leyndardómur, drengur minn. Okkur er ekki ætlað að skilja það.“ Það var svo sannarlega leyndardómur fyrir mér. Ég var þó skírður í nálægum læk þegar ég var 14 ára – dýft þrisvar fyrir þrenninguna!
Í framhaldsskóla átti ég vin sem var atvinnumaður í hnefaleikum og hann taldi mig á að reyna fyrir mér í þeirri grein. Ég fór að æfa og skráði mig í hnefaleikafélagið Golden Gloves. Ég var ekkert sérlega góður svo að ég hætti eftir að hafa keppt nokkrum sinnum. Síðar var ég kallaður í herinn og sendur til Þýskalands. Yfirmenn mínir þar sendu mig í liðsforingjaskóla því að þeir töldu mig hafa meðfædda leiðtogahæfileika. Þeir vildu að ég gerði herþjónustuna að ævistarfi. Ég hafði engan áhuga á því svo að ég var leystur frá störfum með sæmd eftir tveggja ára herskyldu. Það var árið 1956. En áður en langt um leið skráði ég mig í annan og gerólíkan her.
LÍF MITT BREYTIST
Þegar hér var komið sögu hafði ég tileinkað mér vissa karlrembu. Ég hafði látið umhverfið og kvikmyndir móta hugmyndir mínar um það hvernig sannur karlmaður ætti að vera. Mér þótti lítil karlmennska í því að prédika með Biblíuna í hendi. En þá fór ég að læra ýmislegt sem breytti lífi mínu og viðhorfum. Dag einn var ég að aka um bæinn á rauða blæjubílnum mínum þegar tvær ungar dömur veifuðu til mín. Ég þekkti þær – þetta voru yngri systur mágs míns. En hvað um það, stúlkurnar voru vottar Jehóva. Ég hafði einhvern tíma þegið Varðturninn og Vaknið! hjá þeim en efni Varðturnsins var heldur þungt fyrir minn smekk. Í þetta sinn buðu þær mér að vera viðstaddur bóknám safnaðarins sem fór fram á heimili þeirra. Um var að ræða fámenna samkomu þar sem efni Biblíunnar var til umræðu. Ég sagðist myndu hugsa málið. „Lofarðu því?“ spurðu þær brosandi. „Ég lofa,“ svaraði ég.
Ég sá svolítið eftir því að hafa lofað þessu en fannst ég ekki geta gengið á bak orða minna. Ég mætti því á samkomuna um kvöldið. Börnin höfðu sterkust áhrif á mig. Ég trúði varla að þau vissu svona mikið um Biblíuna. Þótt ég hefði sótt kirkju með mömmu alla sunnudaga meðan ég var að alast upp vissi ég sáralítið um Biblíuna. Nú vildi ég kynna mér efni hennar betur og þáði biblíunámskeið. Eitt það fyrsta sem ég lærði var að almáttugur Guð héti Jehóva. Mörgum árum áður hafði ég spurt mömmu um votta Jehóva og hún svaraði einfaldlega: „Æ, þeir tilbiðja einhvern gamlan mann sem heitir Jehóva.“ En nú fannst mér augu mín opnast.
Mér gekk biblíunámið vel því að ég vissi að ég hafði fundið sannleikann. Ég skírðist í mars 1957, tæpum níu mánuðum eftir að ég sótti fyrstu samkomuna. Lífsviðhorf mín breyttust. Það gladdi mig að sjá hvað Biblían kennir um sanna karlmennsku. Jesús var fullkominn maður. Hver einasti Jes. 53:2, 7) Ég lærði að sannur fylgjandi Krists þarf að vera „ljúfur við alla“. – 2. Tím. 2:24.
karlmaður mætti vera stoltur af því að búa yfir sama styrk og krafti og hann. Því var spáð að hann yrði „hart leikinn“ en hann lét ekki hnefana tala þegar það gerðist. (Ég gerðist brautryðjandi árið eftir en þurfti að gera stutt hlé nokkru síðar vegna þess að ég hafði ákveðið að gifta mig. Brúðurin var Gloria, önnur ungu kvennanna sem buðu mér í bóknámið. Ég hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun. Gloria var gimsteinn þá og hún er það enn – dýrmætari en dýrasti demantur í heimi. Ég er alsæll að hafa gifst henni. En gefum henni orðið.
„Við systkinin vorum 17. Mamma var trúfastur vottur. Hún dó þegar ég var 14 ára. Þá fór pabbi að kynna sér Biblíuna. Eftir að hún dó samdi pabbi við skólastjórann. Ein af systrum mínum var þá á síðasta ári í framhaldsskóla, og pabbi spurði hvort við tvær mættum mæta í skóla hvor sinn daginn. Við myndum skiptast á þannig að önnur okkar gæti verið heima, annast yngri systkinin og verið tilbúin með kvöldmatinn þegar pabbi kæmi heim úr vinnu. Skólastjórinn féllst á það og þannig höfðum við það þangað til systir mín útskrifaðist. Tvær vottafjölskyldur voru með okkur í biblíunámi og 11 okkar barnanna urðu vottar Jehóva. Ég hafði ánægju af því að boða trúna þó að ég hafi alltaf verið feimin. Sam hefur hjálpað mér í þeirri baráttu síðan við giftum okkur.“
Við Gloria giftum okkur í febrúar 1959. Við nutum þess að starfa saman sem brautryðjendur. Í júlí sama ár sóttum við um að fá að starfa á Betel því að okkur langaði til að starfa við aðalstöðvarnar. Ástkær bróðir, Simon Kraker, tók okkur í viðtal. Hann sagði okkur að ekki væri tekið við hjónum til starfa á Betel um þær mundir. Okkur langaði eftir sem áður til að starfa á Betel en það liðu býsna mörg ár þangað til það varð að veruleika.
Við skrifuðum til aðalstöðvanna og báðum um að vera send á svæði þar sem vantaði fleiri boðbera. Okkur var gefinn einn valkostur – Pine Bluff í Arkansas. Á þeim tíma voru tveir söfnuðir í Pine Bluff. Annar var fyrir hvíta og hinn fyrir „litaða“, það er að segja svarta. Við vorum send til að starfa með „litaða“ söfnuðinum en í honum voru bara 14 boðberar.
KYNÞÁTTAAÐSKILNAÐUR OG FORDÓMAR
Þér er kannski spurn hvers vegna vottar Jehóva skiptu sér í söfnuði eftir hörundslit. Svarið er einfaldlega að það var um lítið annað að velja á þeim tíma. Lögum samkvæmt máttu svartir og hvítir ekki blanda geði hverjir við aðra á almannafæri og ef það gerðist var veruleg hætta á að það leiddi til ofbeldisverka. Víða var það svo að bræður og systur máttu búast við því að ríkissalurinn yrði eyðilagður ef þessir tveir kynþættir héldu sameiginlegar samkomur. Annað eins gerðist. Ef svartir vottar boðuðu trúna í hverfi hvítra voru þeir handteknir og þeim líklega misþyrmt. Við hlýddum lögunum til að geta boðað trúna og vonuðum bara að ástandið breyttist einhvern tíma til hins betra.
Boðunin var ekki alltaf auðveld. Þegar við boðuðum trúna í hverfi svartra kom stundum fyrir að við bönkuðum óvart hjá hvítri fjölskyldu. Við urðum að ákveða á stundinni hvort við ættum að reyna að fara með stutta biblíulega kynningu eða biðjast bara afsökunar og flýta okkur í næsta hús. Þannig var ástandið sums staðar á þeim tíma.
Við þurftum auðvitað að vinna fyrir okkur meðan við vorum brautryðjendur. Við fengum greidda þrjá dollara á dag fyrir flest störfin sem við unnum. Gloria sá um þrif á nokkrum stöðum. Á einum staðnum fékk ég að hjálpa henni svo að verkið tók helmingi styttri tíma fyrir hana. Okkur var gefinn hádegismatur. Þetta var fryst máltíð sem kallaðist „sjónvarpsmatur“ og við Gloria borðuðum saman áður en við fórum heim. Gloria straujaði þvott á einu heimili í hverri viku. Ég vann í garðinum, þvoði glugga og gerði ýmislegt annað tilfallandi. Á einum stað þvoðum við gluggana á heimili hvítrar fjölskyldu, Gloria að innan og ég að utan. Það tók okkur allan daginn þannig að við fengum hádegismat þar. Gloria borðaði inni í húsinu, þó ekki
með fjölskyldunni, en ég borðaði úti í bílskúrnum. Mér var alveg sama, maturinn var prýðilegur. Fjölskyldan var indæl. Hún var bara í fjötrum ákveðins hugarfars og kerfis. Ég man að við stoppuðum einu sinni á bensínstöð. Eftir að hafa fyllt tankinn spurði ég starfsmann hvort Gloria mætti nota salernið. Hann hvessti bara á mig augun og svaraði: „Það er læst.“EFTIRMINNILEG GÓÐVERK
Á hinn bóginn áttum við yndislegar stundir með trúsystkinum okkar og nutum þess að boða trúna. Fyrst eftir að við komum til Pine Bluff bjuggum við hjá bróður sem var safnaðarþjónn á þeim tíma. Konan hans var ekki í trúnni en Gloria fór að aðstoða hana við biblíunám. Ég kenndi hins vegar dóttur þeirra og manninum hennar. Mæðgurnar ákváðu að þjóna Jehóva og létu skírast.
Við áttum góða vini í hvíta söfnuðinum. Þeir buðu okkur gjarnan í mat en við urðum að koma til þeirra eftir að dimmt var orðið. Samtökin Ku Klux Klan, sem beita sér fyrir kynþáttahatri og ofbeldi, voru mjög virk á þeim tíma. Ég man að ég sá einu sinni mann sitja stoltan á veröndinni heima hjá sér að kvöldi hrekkjavöku, hvítklæddan með hvíta hettu eins og félagar í samtökunum voru vanir. En svona lagað kom ekki í veg fyrir að bræður og systur sýndu góðvild. Eitt sumarið vantaði okkur peninga til að ferðast á mót, og bróðir nokkur féllst á að kaupa Fordinn okkar af árgerðinni 1950. Dag einn, mánuði síðar, komum við heim þreytt eftir að hafa gengið hús úr húsi í sumarhitanum og haldið nokkur biblíunámskeið. Okkur til undrunar stóð bíllinn fyrir framan húsið. Á framrúðunni var miði sem á stóð: „Þið getið fengið bílinn ykkar aftur að gjöf frá mér. Bróðir ykkar.“
Ég man eftir öðru góðverki sem hafði djúpstæð áhrif á mig. Árið 1962 var mér boðið að sækja Ríkisþjónustuskólann sem var haldinn í South Lansing í New York. Þetta var mánaðarlangt námskeið handa umsjónarmönnum safnaða, farandsvæða og umdæma. En þegar ég fékk boðið var ég atvinnulaus og staurblankur. Ég var búinn að fara í atvinnuviðtal hjá símafélagi í Pine Bluff. Ef ég yrði ráðinn yrði ég fyrsti svarti maðurinn sem ynni hjá félaginu. Og nú hafði ég loksins fengið að vita að ég yrði ráðinn. Hvað átti ég til bragðs að taka? Ég hafði ekki efni á að ferðast til New York. Ég hugsaði um það í fullri alvöru að þiggja starfið og afþakka boðið um að sækja skólann. Ég var kominn á fremsta hlunn með að skrifa bréf og afþakka boðið en þá gerðist nokkuð sem ég gleymi aldrei.
Systir í söfnuðinum bankaði hjá okkur snemma morguns og rétti mér umslag. Það var fullt af peningum. Maðurinn hennar var ekki í trúnni, en hún og nokkur af börnum þeirra höfðu farið á fætur eldsnemma á morgnana um nokkurra vikna skeið til að reyta illgresi á bómullarökrum. Þannig höfðu þau önglað saman peningum sem dugðu
mér fyrir ferðinni til New York. „Farðu í skólann, lærðu eins mikið og þú getur og komdu síðan heim og kenndu okkur,“ sagði hún. Nokkru síðar spurði ég símafélagið hvort ég mætti hefja störf fimm vikum síðar en áætlað var. Svarið var þvert nei. En það skipti ekki máli. Ég hafði ákveðið mig, og ég er mjög ánægður að ég skyldi ekki þiggja starfið hjá símafélaginu.Gloria á líka góðar minningar frá Pine Bluff. „Mér fannst yndislegt að boða trúna þarna!“ segir hún. „Ég var með 15 til 20 biblíunámskeið. Við störfuðum hús úr húsi á morgnana og héldum síðan biblíunámskeið það sem eftir var dagsins, stundum fram til klukkan 11 á kvöldin. Boðunin var einstaklega skemmtileg. Ég hefði gjarnan haldið áfram að starfa þarna. Ég verð að viðurkenna að mig langaði ekki sérstaklega til að fá nýtt verkefni og fara í farandstarfið en Jehóva var á annarri skoðun.“ Það eru orð að sönnu.
LÍFIÐ Í FARANDSTARFINU
Við sóttum um að verða sérbrautryðjendur meðan við vorum brautryðjendur í Pine Bluff. Við bjuggumst fastlega við að verða útnefnd því að umdæmishirðirinn okkar vildi að við aðstoðuðum söfnuð í Texas, og hann vildi að við færum þangað sem sérbrautryðjendur. Þessi hugmynd höfðaði vel til okkar. Við biðum og biðum og vonuðumst eftir svari frá Félaginu, en ekkert kom í póstkassann. Einn góðan veðurdag fengum við loksins bréf. Mér var falið að starfa sem farandhirðir! Það var í janúar 1965. Bróðir Leon Weaver var útnefndur farandhirðir á sama tíma en hann er núna ritari deildarnefndarinnar í Bandaríkjunum.
Ég kveið fyrir að verða farandhirðir. Umdæmishirðirinn James A. Thompson hafði lagt mat á hæfni mína hér um bil ári áður. Hann benti mér vinsamlega á nokkur svið þar sem ég gat bætt mig og nefndi nokkra kosti sem góður farandhirðir þyrfti að hafa til að bera. Ég hafði ekki verið lengi í farandstarfinu þegar ég áttaði mig á að leiðbeiningar hans voru þarfar. James var fyrsti umdæmishirðirinn sem ég starfaði með eftir að ég var útnefndur. Ég lærði heilmikið af þessum trúa bróður.
Farandhirðar fengu ekki mikla kennslu á þeim tíma. Ég fékk að fylgjast með öðrum farandhirði í viku meðan hann heimsótti söfnuð. Í vikunni á eftir fylgdist hann með mér meðan ég heimsótti söfnuð. Hann kom með tillögur um eitt og annað og leiðbeindi mér. Eftir það vorum við ein á báti. Ég man að ég sagði við Gloriu: „Þarf hann virkilega að fara núna?“ En þegar fram liðu stundir áttaði ég
mig á einu. Góðir bræður eru alltaf tiltækir til að aðstoða mann – ef maður leyfir þeim það. Ég er enn þakklátur fyrir hjálp reyndra bræðra eins og James R. Browns, sem var þá farandhirðir, og Freds Rusks sem var á Betel en þeir eru nú látnir.Kynþáttafordómarnir voru allsráðandi í þá daga. Einu sinni héldu Ku Klux Klan-samtökin göngu í bæ sem við heimsóttum í Tennessee. Ég man eftir öðru skipti þegar starfshópurinn kom við á skyndibitastað. Ég þurfti að skreppa á salernið og tók þá eftir ófrýnilegum, hvítum manni sem stóð upp og elti mig. Hann var með húðflúr sem benti til kynþáttahaturs. En hvítur bróðir, miklu stærri en við ófrýnilegi maðurinn, kom á eftir okkur. „Er allt í lagi, bróðir Herd?“ spurði hann. Hinn viðskiptavinurinn flýtti sér burt án þess að nota salernið. Á langri ævi hef ég séð að fordómar snúast í rauninni ekki um hörundslit fólks heldur má rekja þá til syndarinnar – syndar Adams sem býr í okkur öllum. Og ég hef komist að raun um að bróðir er bróðir óháð hörundslit, og hann er tilbúinn til að deyja fyrir mann ef þörf krefur.
AUÐUGUR AÐ LOKUM
Við vorum 33 ár í farandstarfi. Fyrstu 12 árin var ég farandhirðir en síðan umdæmishirðir í 21 ár. Þetta voru dýrmæt og gefandi ár og margt dreif á daga okkar sem var bæði hvetjandi og uppörvandi. En annað gefandi verkefni beið okkar. Í ágúst 1997 rættist gamall draumur þegar okkur var boðið að starfa á Betel í Bandaríkjunum – heilum 38 árum eftir að við sóttum um í fyrsta sinn. Við hófum störf á Betel mánuði síðar. Ég ímyndaði mér að við ættum bara að starfa tímabundið á Betel, en það fór á annan veg.
Fyrsta starfið mitt var í þjónustudeildinni. Það var lærdómsríkt. Bræðurnir, sem starfa þar, þurfa að svara mörgum viðkvæmum og flóknum spurningum frá öldungaráðum og farandhirðum um allt land. Ég er þakklátur fyrir þolinmæði og hjálpfýsi bræðranna sem kenndu mér. Ég held þó að mér liði eins og nýgræðingi ef ég yrði settur aftur til starfa þar.
Við Gloria njótum þess að starfa á Betel. Við höfum alltaf verið morgunhanar og það kemur sér vel á Betel. Eftir um það bil ár var ég gerður að aðstoðarmanni þjónustunefndar hins stjórnandi ráðs Votta Jehóva. Árið 1999 var ég síðan beðinn að taka sæti í stjórnandi ráði. Ég hef lært margt í því starfi en mikilvægast af öllu er að það er augljóslega enginn maður sem er höfuð kristna safnaðarins heldur Jesús Kristur.
Þegar ég lít um öxl líður mér stundum svolítið eins og Amosi spámanni. Jehóva gaf gaum að þessum óbrotna fjárhirði sem vann árstíðabundin störf við mórberjarækt en mórber töldust vera fátækramatur. Guð skipaði hann samt spámann sem var vissulega andlega auðgandi verkefni. (Amos 7:14, 15) Jehóva gaf sömuleiðis gaum að mér, syni fátæks bónda í Liberty í Indiana, og úthellti yfir mig svo ríkulegri blessun að orð fá ekki lýst. (Orðskv. 10:22) Ég var ekki ríkur að veraldlegum gæðum á uppvaxtarárunum en mér finnst ég vera orðinn andlega auðugur – margfalt auðugri en ég gat nokkurn tíma látið mig dreyma um.