Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna höldum við áfram að ,bera mikinn ávöxt‘?

Hvers vegna höldum við áfram að ,bera mikinn ávöxt‘?

„Með því vegsamast faðir minn að þér berið mikinn ávöxt og verðið lærisveinar mínir.“ – JÓH. 15:8.

SÖNGVAR: 53, 60

1, 2. (a) Um hvað ræddi Jesús við lærisveina sína skömmu áður en hann dó? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga ástæður þess að við boðum trúna? (c) Um hvað er rætt í þessari grein?

KVÖLDIÐ áður en Jesús dó átti hann langar samræður við postulana og sannfærði þá um hve heitt hann elskaði þá. Hann sagði þeim líka dæmisögu um vínvið eins og rætt var í greininni á undan. Með þeirri dæmisögu hvatti Jesús lærisveina sína til að halda áfram að ,bera mikinn ávöxt‘, það er að segja að vera þolgóðir í að boða boðskapinn um ríki Guðs. – Jóh. 15:8.

2 En Jesús sagði lærisveinunum ekki aðeins hvað þeir þyrftu að gera heldur líka af hverju þeir ættu að gera það. Hann gaf þeim ástæður fyrir því að halda áfram að boða trúna. Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að hugleiða þessar ástæður? Það hvetur okkur til að boða þolgóð fagnaðarerindið svo að „allar þjóðir fái að heyra það“. (Matt. 24:13, 14) Við skulum skoða fjórar biblíulegar ástæður fyrir því að boða trúna. Síðan ræðum við um fjórar gjafir frá Jehóva sem hjálpa okkur að halda áfram að bera ávöxt.

VIÐ VEGSÖMUM JEHÓVA

3. (a) Hvaða ástæða fyrir því að boða trúna er gefin í Jóhannesi 15:8? (b) Hvað tákna vínberin í dæmisögu Jesú og hvers vegna er það viðeigandi?

3 Aðalástæðan fyrir því að við boðum trúna er sú að við viljum vegsama Jehóva og helga nafn hans meðal manna. (Lestu Jóhannes 15:1, 8.) Taktu eftir að Jesús líkti Jehóva, föður sínum, við vínyrkja, það er að segja garðyrkjumann sem ræktar vínber. Jesús líkti sjálfum sér við vínviðinn og fylgjendum sínum við greinarnar. (Jóh. 15:5) Það er því viðeigandi að vínberin tákni ávöxt Guðsríkis sem fylgjendur Krists bera. Jesús sagði við postulana: „Með því vegsamast faðir minn að þér berið mikinn ávöxt.“ Vínviður, sem ber góð vínber, er vínyrkjanum til heiðurs. Eins vegsömum við Jehóva og erum honum til heiðurs þegar við boðum ríki hans af fremsta megni. – Matt. 25:20-23.

4. (a) Hvernig helgum við nafn Guðs? (b) Hvað finnst þér um að fá að helga nafn Guðs?

4 Hvernig helgar boðunin nafn Guðs? Við getum ekki gert nafn Guðs heilagra en það er. Það er þegar heilagt í orðsins fyllstu merkingu. En taktu eftir því sem Jesaja spámaður sagði: „Drottinn allsherjar sé yður heilagur.“ (Jes. 8:13) Við helgum nafn Guðs meðal annars með því að líta á það sem æðra öllum öðrum nöfnum og með því að hjálpa fólki að skilja að það er heilagt. (Matt. 6:9) Þegar við segjum fólki frá stórkostlegum eiginleikum Jehóva og fyrirætlun hans með mannkynið verjum við nafn hans fyrir lygum og rógburði Satans. (1. Mós. 3:1-5) Við helgum líka nafn Guðs þegar við reynum að leiða fólki fyrir sjónir að hann er verður þess „að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn“. (Opinb. 4:11) Rune hefur verið brautryðjandi í 16 ár. Hann segir: „Ég er þakklátur fyrir að hafa tækifæri til að bera vitni um skapara alheims. Sú tilhugsun er mér hvatning til að halda áfram að boða trúna.“

VIÐ ELSKUM JEHÓVA OG SON HANS

5. (a) Hvaða ástæða er gefin í Jóhannesi 15:9, 10 fyrir því að boða trúna? (b) Hvernig benti Jesús á mikilvægi þess að vera þolgóð?

5 Lestu Jóhannes 15:9, 10. Önnur mikilvæg ástæða fyrir því að við boðum fagnaðarerindið er sú að við elskum Jehóva og Jesú. (Mark. 12:30; Jóh. 14:15) Jesús sagði lærisveinum sínum ekki aðeins að vera í elsku hans heldur að ,vera stöðugir í elsku hans‘. Hann vissi að það myndi útheimta þolgæði að vera trúr lærisveinn hans ár eftir ár. Með því að nota ítrekað orðið ,stöðugur‘ í þessum versum leggur hann áherslu á að fylgjendur sínir þurfi að vera þolgóðir.

6. Hvernig sýnum við að við viljum vera stöðug í elsku Krists?

6 Hvernig sýnum við að við viljum vera stöðug í elsku Krists og þóknast honum? Með því að halda boðorð hans og fara eftir því sem hann segir. En Jesús bað okkur ekki að gera neitt sem hann gerði ekki sjálfur því að hann bætti við: „Eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“ (Jóh. 15:10) Jesús setti okkur fordæmi til eftirbreytni. – Jóh. 13:15.

7. Hvernig tengist hlýðni og kærleikur?

7 Jesús benti á að hlýðni tengdist kærleika þegar hann sagði við postula sína: „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig.“ (Jóh. 14:21) Þegar við hlýðum fyrirmælum Jesú um að boða trúna sýnum við líka að við elskum Jehóva þar sem fyrirmæli Jesú eru í samræmi við vilja föður hans. (Matt. 17:5; Jóh. 8:28) Og þegar við sýnum Jehóva og Jesú að við elskum þá verðum við stöðug í kærleika þeirra.

VIÐ VÖRUM FÓLK VIÐ

8, 9. (a) Nefndu enn eina ástæðu fyrir því að við boðum trúna. (b) Hvers vegna eru orð Jehóva í Esekíel 3:18, 19 og 18:23 okkur hvatning til að halda áfram að boða trúna?

8 Þriðja ástæðan fyrir því að við höldum áfram að boða trúna er sú að við viljum vara fólk við. Í Biblíunni er Nói kallaður ,boðberi‘. (Lestu 2. Pétursbréf 2:5.) Boðun hans í aðdraganda flóðsins hlýtur að hafa falið í sér viðvörun um eyðinguna sem var í vændum. Hvers vegna getum við dregið þá ályktun? Tökum eftir því sem Jesús sagði: „Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki [„gáfu engan gaum að“, NW] fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.“ (Matt. 24:38, 39) Nói flutti ótrauður viðvörunarboðskap Jehóva þó að fólk léti sér fátt um finnast.

9 Nú á dögum boðum við ríki Guðs til að gefa fólki tækifæri til að kynnast vilja hans með mannkynið. Rétt eins og Jehóva óskum við þess að fólk gefi boðskapnum gaum og haldi lífi. (Esek. 18:23) Þegar við boðum trúna hús úr húsi og á götum úti vörum við jafnframt eins marga og hægt er við því að ríki Guðs sé í þann mund að koma til að binda enda á þennan óguðlega heim. – Esek. 3:18, 19; Dan. 2:44; Opinb. 14:6, 7.

VIÐ ELSKUM NÁUNGANN

10. (a) Hvaða ástæða er nefnd í Matteusi 22:39 fyrir því að boða trúna? (b) Hvernig hjálpuðu Páll og Sílas fangaverði í Filippí?

10 Fjórða ástæðan fyrir því að við höldum boðuninni áfram er sú að við elskum náungann. (Matt. 22:39) Kærleikurinn til náungans hvetur okkur til að halda út í þessu starfi þar sem við vitum að viðhorf fólks getur breyst þegar aðstæður þess breytast. Páll og Sílas, félagi hans, voru í borginni Filippí þegar andstæðingar létu varpa þeim í fangelsi. Um nóttina skók jarðskjálfti fangelsið og allar dyrnar opnuðust. Fangavörðurinn óttaðist að fangarnir hefðu flúið og ætlaði að fyrirfara sér. En Páll hrópaði til hans: „Ger þú sjálfum þér ekkert mein!“ „Hvað á ég að gera til að verða hólpinn?“ spurði fangavörðurinn angistarfullur. „Trú þú á Drottin Jesú og þú munt verða hólpinn,“ svöruðu þeir. – Post. 16:25-34.

Við boðum trúna af því að við elskum Jehóva, Jesú og náungann. (Sjá 5. og 10. grein.)

11, 12. (a) Hvernig getum við heimfært frásöguna af fangaverðinum upp á boðun okkar? (b) Hvað viljum við vera tilbúin til að gera?

11 Hvernig getum við heimfært frásöguna af fangaverðinum upp á boðun okkar? Það er eftirtektarvert að fangavörðurinn bað ekki um hjálp fyrr en eftir að jarðskjálftinn reið yfir. Eins getur verið að sumir nú á dögum, sem hafa ekki viljað hlusta á boðskap Biblíunnar, breyti um afstöðu og leiti hjálpar þegar þeir verða skyndilega fyrir alvarlegum skakkaföllum. Sumir á svæðinu okkar eru ef til vill í öngum sínum eftir að hafa skyndilega misst vinnuna. Sumir gætu verið miður sín eftir skilnað og aðrir eru kannski niðurbrotnir eftir að hafa greinst með alvarlegan sjúkdóm eða misst ástvin. Við slíkar aðstæður fara margir að velta fyrir sér tilgangi lífsins – ef til vill í fyrsta sinn á ævinni. Þeir spyrja sig jafnvel hvað þeir þurfi að gera til að verða hólpnir. Þó að þeir hafi aldrei áður viljað hlusta á vonarboðskap Biblíunnar gætu þeir verið tilbúnir til þess núna.

12 Ef við höldum áfram að boða trúna af kappi erum við í aðstöðu til að hughreysta fólk þegar það er tilbúið til að hlusta. (Jes. 61:1) Charlotte hefur verið brautryðjandi í 38 ár. Hún segir: „Fólk er ráðvillt nú til dags. Það þarf að fá tækifæri til að heyra fagnaðarerindið.“ Ejvor hefur verið brautryðjandi í 34 ár. Hún segir: „Fleirum líður illa nú en nokkru sinni fyrr. Ég vil svo gjarnan hjálpa þeim. Það hvetur mig áfram í boðuninni.“ Náungakærleikur er sannarlega verðug ástæða til að halda áfram að boða trúna.

GJAFIR SEM HJÁLPA OKKUR AÐ VERA ÞOLGÓÐ

13, 14. (a) Hvaða gjöf er nefnd í Jóhannesi 15:11? (b) Hvernig getum við notið sömu gleði og Jesús? (c) Hvaða áhrif hefur gleði á boðun okkar?

13 Síðasta kvöldið áður en Jesús dó nefndi hann einnig við postulana nokkrar gjafir sem myndu hjálpa þeim að halda áfram að bera ávöxt. Hvaða gjafir eru það og hvernig hjálpa þær okkur?

14 Gleði. Er íþyngjandi að fylgja fyrirmælum Jesú um að boða trúna? Síður en svo. Eftir að Jesús hafði sagt dæmisöguna um vínviðinn sagði hann að boðunin myndi veita okkur gleði. (Lestu Jóhannes 15:11.) Hann sagði meira að segja að við myndum njóta sömu gleði og hann. Hvernig þá? Eins og minnst var á fyrr í greininni líkti Jesús sjálfum sér við vínvið og lærisveinum sínum við greinar. Vínviðurinn heldur uppi greinunum. Svo framarlega sem greinarnar eru á vínviðnum fá þær vatn og næringu í gegnum hann. Eins njótum við sömu gleði og Jesús svo framarlega sem við erum sameinuð honum og fetum náið í fótspor hans. Þá njótum við gleðinnar sem hann naut, gleðinnar sem hlýst af því að gera vilja Guðs. (Jóh. 4:34; 17:13; 1. Pét. 2:21) Hanne hefur meira en fjögurra áratuga reynslu af brautryðjandastarfinu. Hún segir: „Ég er alltaf glöð þegar ég hef verið í boðuninni. Það hvetur mig til að halda áfram í þjónustu Jehóva.“ Gleðin gefur okkur kraft til að halda áfram að boða trúna, jafnvel þó að fáir hlusti. – Matt. 5:10-12.

15. (a) Hvaða gjöf er nefnd í Jóhannesi 14:27? (b) Hvernig hjálpar friður okkur að halda áfram að bera ávöxt?

15 Friður. (Lestu Jóhannes 14:27.) Fyrr þetta sama kvöld áður en Jesús dó sagði hann við postulana: „Minn frið gef ég yður.“ Hvernig hjálpar friður Jesú okkur að bera ávöxt? Ef við höldum þolgóð út í boðuninni finnum við fyrir innri ró vegna þess að vitum að það gleður Jehóva og Jesú. (Sálm. 149:4; Rómv. 5:3, 4; Kól. 3:15) Ulf hefur þjónað Jehóva í fullu starfi í 45 ár. Hann segir: „Þó að ég verði þreyttur þegar ég boða trúna veitir það mér sanna gleði. Það gefur lífinu gildi.“ Við erum innilega þakklát fyrir að hafa innri frið sem varir.

16. (a) Hvaða gjöf er nefnd í Jóhannesi 15:15? (b) Hvað þurftu postularnir að gera til að eiga vináttu Jesú áfram?

16 Vinátta. Eftir að Jesús hafði sagt postulunum að hann vildi að ,fögnuður þeirra væri fullkominn‘ útskýrði hann fyrir þeim mikilvægi þess að sýna fórnfúsan kærleika. (Jóh. 15:11-13) Því næst sagði hann: „Ég kalla yður vini.“ Hugsaðu þér hve ómetanleg gjöf það er að eiga Jesú að vini! En hvað þurftu postularnir að gera til að halda vináttu hans? Þeir þurftu að „fara og bera ávöxt“, það er að segja að halda áfram að boða trúna. (Lestu Jóhannes 15:14-16.) Um tveim árum áður hafði Jesús gefið þeim þessi fyrirmæli: „Farið og prédikið: Himnaríki er í nánd.“ (Matt. 10:7) Og þetta síðasta kvöld hvatti hann þá til að vera staðfastir í því verki sem þeir höfðu hafist handa við. (Matt. 24:13; Mark. 3:14) Það var hægara sagt en gert að fara eftir þessu boði Jesú en þeir gátu það – og þar með átt vináttu hans áfram. Hvernig gátu þeir gert þessu verkefni skil? Þeir fengu aðra gjöf sem gerði þeim það kleift.

17, 18. (a) Hvaða gjöf er nefnd í Jóhannesi 15:16? (b) Hvernig nutu lærisveinar Jesú góðs af þessari gjöf? (c) Hvaða gjafir styrkja okkur nú á dögum?

17 Bænheyrsla. Jesús sagði: „Faðirinn [veitir] yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni.“ (Jóh. 15:16) Þetta loforð hlýtur að hafa verið uppörvandi fyrir postulana. * Leiðtogi þeirra átti ekki langt eftir ólifað sem maður á jörð þó að þeir gerðu sér ekki enn fulla grein fyrir því. En þeir yrðu ekki skildir eftir einir og óstuddir. Jehóva var reiðubúinn að svara bænum þeirra og hjálpa þeim að boða fagnaðarerindið um ríkið. Og það gerði hann því að skömmu síðar fundu þeir hvernig hann svaraði bænum þeirra og hjálpaði þeim. – Post. 4:29, 31.

Við megum vera viss um að Jehóva svarar bænum okkar og hjálpar okkur. (Sjá 18. grein.)

18 Hið sama á við nú á dögum. Ef við höldum áfram að bera ávöxt eigum við Jesú að vini. Auk þess megum við vera viss um að Jehóva er reiðubúinn að svara bænum okkar og hjálpa okkur að yfirstíga hindranir sem verða á vegi okkar í boðuninni. (Fil. 4:13) Við erum ákaflega þakklát að Jehóva skuli svara bænum okkar og að Jesús skuli vera vinur okkar. Þessar gjafir frá Jehóva styrkja okkur til að halda áfram að bera ávöxt. – Jak. 1:17.

19. (a) Af hverju höldum við áfram að boða trúna? (b) Hvað hjálpar okkur að ljúka verkinu sem Guð hefur falið okkur?

19 Eins og rætt hefur verið í þessari grein höldum við áfram að boða trúna vegna þess að þannig vegsömum við Jehóva og helgum nafn hans, sýnum honum og Jesú að við elskum þá, vörum fólk við og sýnum náungakærleika. Jehóva hefur gefið okkur gjafir á borð við gleði, frið, vináttu og bænheyrslu til að styrkja okkur svo að við getum lokið verkinu sem hann fól okkur. Það gleður hann innilega að sjá okkur halda ötul áfram að ,bera mikinn ávöxt‘.

^ gr. 17 Kvöldið áður en Jesús dó fullvissaði hann postulana ítrekað um að Jehóva myndi svara bænum þeirra. – Jóh. 14:13; 15:7, 16; 16:23.