Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Umdæmismót árið 2012 í Nízhnja Apsha í Úkraínu.

Ríkuleg uppskera

Ríkuleg uppskera

JESÚS sagði fyrir að fylgjendur sínir myndu uppskera ríkulega nú á tíma endalokanna. (Matt. 9:37; 24:14) Orð hans hafa uppfyllst á einstakan hátt í Zakarpattja-umdæmi í Úkraínu. Í þrem nágrannabæjum á þessu svæði eru samtals 50 söfnuðir og yfir 5.400 boðberar. * Hvorki meira né minna en fjórði hver íbúi þessara bæja er vottur Jehóva.

Hvernig er starfssvæðið? „Fjölskyldubönd eru sterk, menn bera virðingu fyrir Biblíunni, meta réttlæti mikils og reyna einlæglega að aðstoða hver annan,“ segir Vasíle, bróðir sem býr á svæðinu. Hann bætir við: „Menn eru ekki alltaf sammála okkur en þegar við sýnum þeim eitthvað í Biblíunni hlusta þeir af athygli.“

Eins og gefur að skilja fylgja því ákveðin vandamál fyrir bræður og systur að boða trúna á svæði með svo hátt hlutfall boðbera. Einn söfnuður með 134 boðbera hefur til dæmis aðeins 50 heimili til að heimsækja á sínu svæði. Hvernig hafa boðberarnir lagað sig að þessum aðstæðum?

Margir leggja mikið á sig til að boða trúna á svæðum þar sem þörfin er meiri. Níræður bróðir, sem heitir Jonash, segir: „Á safnaðarsvæði okkar er einn boðberi á hver tvö heimili. Nýlega versnaði heilsan svo að núna boða ég trúna í þorpinu. En áður ferðaðist ég auk þess um 160 kílómetra á óúthlutað svæði þar sem ég boðaði trúna á ungversku.“ Boðberar þurfa að færa fórnir til að aðstoða á öðrum svæðum. Jonash segir: „Ég fór á fætur klukkan 4 um nótt til að ná lestinni og boðaði trúna til klukkan 6 að kvöldi þegar ég gat tekið lestina til baka. Þetta gerði ég tvisvar til þrisvar í viku.“ Fannst honum það erfiðisins virði? „Það veitti mér mikla gleði að boða trúna á þennan hátt,“ segir hann. „Ég naut þeirrar ánægju að hjálpa fjölskyldu á einangruðu svæði að kynnast sannleikanum.“

Skiljanlega geta ekki allir í söfnuðunum á þessu svæði ferðast langar leiðir. En allir, ungir sem aldnir, reyna að fara rækilega yfir starfssvæði safnaðarins. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa því að árið 2017 var aðsókn að minningarhátíðinni næstum tvöfaldur boðberafjöldi þessara þriggja bæja – eða helmingur bæjarbúa. Já, hvar sem við búum getum við verið „síauðug í verki Drottins“. – 1. Kor. 15:58.

^ gr. 2 Bæirnir heita Glíbokíj Potík, Serednje Vodjane og Nízhnja Apsha.