Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ungmenni – standið gegn djöflinum

Ungmenni – standið gegn djöflinum

„Klæðist alvæpni Guðs til þess að þið getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ – EF. 6:11.

SÖNGVAR: 79, 140

1, 2. (a) Hvers vegna gengur unga fólkið með sigur af hólmi í baráttunni við illar andaverur? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

PÁLL postuli líkir kristnum mönnum við hermenn sem berjast í návígi. Við eigum auðvitað ekki í stríði við menn en óvinir okkar eru engu að síður raunverulegir. Satan og illu andarnir eru þaulreyndir hermenn. Við fyrstu sýn mætti ætla að við eigum okkur litla sigurvon, ekki síst unga fólkið í söfnuðinum. Hvernig getur unga fólkið gengið með sigur af hólmi í baráttunni við ofurmannlegar illar andaverur? Sannleikurinn er sá að það getur sigrað og gerir það. Hvers vegna? Vegna þess að það „styrkist í Drottni“. En unga fólkið lætur sér ekki nægja að sækja kraft til Jehóva heldur er það líka vel búið til bardaga. Það „klæðist alvæpni Guðs“ eins og vel þjálfaðir hermenn. – Lestu Efesusbréfið 6:10-12.

2 Hugsanlegt er að Páll hafi haft vopn og verjur rómverskra hermanna í huga þegar hann tók þessa líkingu. (Post. 28:16) Við skulum skoða líkinguna og kanna hvers vegna hún á vel við. Tökum líka eftir hvað ungt fólk í söfnuðinum segir um kosti þess að nota andlegu herklæðin og hvers vegna það sé stundum erfitt.

Ertu í fullum herklæðum?

„GYRT SANNLEIKA“

3, 4. Hvað er líkt með sannleika Biblíunnar og belti rómverska hermannsins?

3 Lestu Efesusbréfið 6:14Rómverskur hermaður var gyrtur belti sem varði hann um mittið. Það var þakið málmplötum og studdi jafnframt undir þunga brynjuna. Sum belti voru með sterkum festingum fyrir sverð og rýting. Hermaðurinn gat gengið óhikað fram í bardaga með beltið hert um mittið.

4 Sannleikurinn, sem við lærum af orði Guðs, verndar okkur á sama hátt gegn falskenningum. (Jóh. 8:31, 32; 1. Jóh. 4:1) Því heitar sem við elskum sannleikann því auðveldara eigum við með að bera ,brynjuna‘, það er að segja að lifa eftir réttlátum lögum Jehóva. (Sálm. 111:7, 8; 1. Jóh. 5:3) Þegar við skiljum vel sannleikann í orði Guðs getum við auk þess varið hann af öryggi gegn andstæðingum okkar án þess að hvika. – 1. Pét. 3:15.

5. Hvers vegna eigum við að segja satt?

5 Þegar við bindum sannleikann utan um okkur ef svo má að orði komast lifum við eftir honum og segjum alltaf satt. Hvers vegna forðumst við að ljúga? Vegna þess að lygar eru eitt af öflugustu vopnum Satans. Lygar skaða bæði þann sem lýgur og þá sem trúa lygunum. (Jóh. 8:44) Við forðumst því lygar eftir bestu getu þó að við séum ófullkomin. (Ef. 4:25) En það getur verið þrautin þyngri. Abigail, 18 ára, segir: „Það virðist ekki alltaf borga sig að segja satt, sérstaklega ef maður getur logið sig út úr óþægilegum aðstæðum.“ Hvers vegna er hún þá alltaf sannsögul? „Þegar ég segi satt hef ég hreina samvisku frammi fyrir Jehóva,“ segir hún, „og foreldrar mínir og vinir vita að þeir geta treyst mér.“ Victoria, 23 ára, segir: „Maður getur orðið fyrir áreitni ef maður segir satt og stendur fast á trú sinni. En það er alltaf til góðs. Maður fær meira sjálfstraust, styrkir sambandið við Jehóva og ávinnur sér virðingu þeirra sem elska mann.“ Það er sannarlega þess virði að vera alltaf ,gyrtur sannleika um lendar sér‘.

Belti sannleikans (Sjá 3.-5. grein.)

„KLÆDD RÉTTLÆTINU SEM BRYNJU“

6, 7. Hvers vegna er réttlætinu líkt við brynju?

6 Ein gerð af brynjum rómverskra hermanna á fyrstu öld var samsett úr ræmum úr járni sem lágu lárétt um neðri hluta búksins og voru látnar skarast. Þær voru beygðar þannig að þær féllu að búknum og voru festar á leðurreimar með krókum og sylgjum úr málmi. Herðarnar voru sömuleiðis huldar járnplötum sem voru festar á leðurræmur. Brynja af þessu tagi takmarkaði hreyfigetu hermannsins að vissu marki og hann þurfti að ganga reglulega úr skugga um að plöturnar sætu á sínum stað. Brynjan verndaði hins vegar hjartað og önnur líffæri fyrir sverðalögum og örvaskotum.

7 Þetta er viðeigandi táknmynd þess hvernig réttlátar meginreglur Jehóva geta verndað hið óeiginlega hjarta. (Orðskv. 4:23) Það hefði aldrei hvarflað að hermanni að skipta á brynju úr járni og brynju úr deigari málmi. Við viljum ekki heldur skipta á meginreglum Jehóva og hugmyndum sjálfra okkar um rétt og rangt. Dómgreind okkar er hreinlega ekki nógu góð til að veita okkur nauðsynlega vernd. (Orðskv. 3:5, 6) Þess vegna þurfum við að ganga reglulega úr skugga um að brynjan, sem Jehóva hefur gefið okkur, sé í lagi og verndi hjartað.

8. Hvers vegna er það þess virði að fylgja mælikvarða Jehóva?

8 Finnst þér stundum að réttlátar meginreglur Jehóva íþyngi þér eða takmarki frelsi þitt? Daniel, 21 árs, segir. „Kennarar og skólafélagar gerðu grín að mér fyrir að lifa í samræmi við Biblíuna. Ég missti sjálfstraustið og var niðurdreginn um tíma.“ Hvernig náði hann sér? „Að lokum áttaði ég mig á að það er gott að lifa eftir mælikvarða Jehóva,“ segir hann. „Sumir af ,vinum‘ mínum fóru að neyta fíkniefna og aðrir flosnuðu upp úr námi. Það var dapurlegt að sjá hvernig fór fyrir þeim. Jehóva verndar okkur sannarlega.“ Madison, sem er 15 ára, segir: „Það er barátta fyrir mig að fylgja mælikvarða Jehóva og gera ekki það sem jafnöldrunum finnst flott og skemmtilegt.“ Hvað gerir hún? „Ég minni mig á að ég er kennd við nafn Jehóva og freistingarnar eru bara leið Satans til að skjóta á mig. Mér líður vel þegar ég hef betur í baráttunni.“

Brynja réttlætisins (Sjá 6.-8. grein.)

„SKÓUÐ Á FÓTUNUM MEÐ FÚSLEIK TIL AÐ FLYTJA FAGNAÐARBOÐIN UM FRIГ

9-11. (a) Hvernig eru kristnir menn „skóaðir“ í táknrænum skilningi? (b) Hvernig getum við gert okkur auðveldara fyrir að segja frá trúnni?

9 Lestu Efesusbréfið 6:15Rómverskur hermaður var ekki búinn undir bardaga nema hann væri í skóm. Skórnir voru úr þreföldu leðri, þægilegir og mjög sterkir. Hermaðurinn gat því verið öruggur í spori á göngunni.

10 Skór rómverskra hermanna gerðu þeim kleift að ganga fram í orrustu en táknrænn fótabúnaður kristinna manna gerir þeim kleift að boða fagnaðarboðskap friðarins. (Jes. 52:7; Rómv. 10:15) En það kostar visst hugrekki að láta í sér heyra þegar tækifæri gefst. „Ég þorði ekki að vitna fyrir bekkjarfélögunum,“ segir Bo sem er tvítugur. „Ég held mér hafi fundist það vandræðalegt. Þegar ég horfi um öxl skil ég ekki af hverju mér leið þannig. Núna finnst mér gaman að segja jafnöldrum mínum frá trúnni.“

11 Ungu fólki í söfnuðinum finnst yfirleitt auðveldara að boða fagnaðarerindið ef það er vel undirbúið. Hvernig er hægt að undirbúa sig? „Ég hef rit með mér í skólatöskunni,“ segir Julia sem er 16 ára. „Ég hlusta á bekkjarfélagana þegar þeir láta í ljós trú sína og skoðanir. Síðan velti ég fyrir mér hvernig ég geti hjálpað þeim. Þegar ég er undirbúin get ég talað við þá um þau mál sem þeir hafa sérstaklega gagn af.“ Makenzie, 23 ára, segir: „Ef maður er vingjarnlegur og hlustar vel getur maður áttað sig á við hvað jafnaldrarnir eru að glíma. Ég passa að lesa allt efnið sem er gefið út handa ungu fólki. Þá get ég bent jafnöldrunum á eitthvað í Biblíunni eða á jw.org sem getur hjálpað þeim.“ Orð þessara ungmenna bera með sér að því betur sem maður er undirbúinn því betur er maður „skóaður“ til að segja frá trúnni.

Skóaður fúsleika (Sjá 9.-11. grein.)

,SKJÖLDUR TRÚARINNAR‘

12, 13. Hvers eðlis eru „logandi skeyti“ Satans meðal annars?

12 Lestu Efesusbréfið 6:16Rómverskur hermaður bar ferhyrndan skjöld sem huldi hann frá öxlum niður að hnjám. Skjöldurinn hlífði honum þegar lagt var að honum með vopni eða örvum rigndi yfir hann.

13 „Logandi skeyti“ Satans eru af ýmsu tagi, meðal annars lygar um Jehóva. Ein af lygunum er sú að Jehóva þyki ekki vænt um þig og sé sama um þig. Ida er 19 ára. Henni finnst hún stundum vera einskis virði. „Mér hefur oft fundist eins og Jehóva sé fjarlægur mér og vilji ekki vera vinur minn,“ segir hún. Hvernig reynir hún að verjast þessari árás? „Samkomurnar styrkja trú mína gríðarlega,“ segir hún. „Áður sat ég bara og svaraði aldrei því að ég hélt að engan langaði til að heyra hvað ég hefði að segja. En núna bý ég mig undir samkomurnar og reyni að svara tvisvar eða þrisvar. Það er erfitt en mér líður miklu betur þegar ég svara. Og bræður og systur eru ákaflega hvetjandi. Þegar ég kem heim af samkomu veit ég alltaf að Jehóva elskar mig.“

14. Hvað má læra af tilfinningum Idu?

14 Tilfinningar Idu draga fram mikilvægan sannleika: Skjöldur hermannsins var af fastri stærð en trúarskjöldur okkar getur annaðhvort minnkað eða stækkað. Það er undir okkur komið. (Matt. 14:31; 2. Þess. 1:3) Það er afar mikilvægt að við byggjum okkur upp í trúnni.

Skjöldur trúarinnar (Sjá 12.-14. grein.)

,HJÁLMUR HJÁLPRÆÐISINS‘

15, 16. Að hvaða leyti er vonin eins og hjálmur?

15 Lestu Efesusbréfið 6:17Hjálmur rómverska hermannsins hafði það hlutverk að verja höfuðið, hálsinn og andlitið fyrir höggum. Stundum var handfang á hjálminum til að hermaðurinn gæti haldið á honum í hendinni.

16 ,Vonin um frelsun‘ verndar huga okkar, rétt eins og hjálmurinn verndar höfuð hermannsins. (1. Þess. 5:8; Orðskv. 3:21) Vonin beinir huganum að loforðum Guðs og hjálpar okkur að sjá erfiðleika í réttu ljósi. (Sálm. 27:1, 14; Post. 24:15) En til að ,hjálmurinn‘ verndi okkur þurfum við að vera með hann á höfðinu, ekki halda á honum í hendinni.

17, 18. (a) Hvernig gæti Satan fengið okkur til að taka hjálminn ofan? (b) Hvernig getum við sýnt að við látum Satan ekki blekkja okkur?

17 Hvernig gæti Satan fengið okkur til að taka hjálminn ofan? Munum hvað hann reyndi að fá Jesú til að gera. Satan vissi auðvitað að Jesús átti þá von að ríkja yfir mannkyninu þegar fram liðu stundir. En fyrst þyrfti hann að þjást og deyja og síðan bíða eftir að rétti tíminn rynni upp. Satan bauð honum því að stytta sér leið og sjá vonina rætast fyrr. Hann stakk upp á að Jesús tilbæði hann einu sinni og þá fengi hann heimsyfirráð umsvifalaust. (Lúk. 4:5-7) Satan veit líka að Jehóva býður okkur margs konar efnisleg gæði í nýja heiminum. En við þurfum að bíða eftir því og við gætum þurft að þola ýmsa erfiðleika áður en það gerist. Satan býðst því til að gefa okkur tækifæri til að njóta lífsins gæða umsvifalaust. Hann vill að við sækjumst eftir efnislegum gæðum strax og setjum ríki Guðs í annað sætið. – Matt. 6:31-33.

18 Margt ungt fólk í söfnuðinum hefur séð í gegnum blekkingar Satans á þessu sviði. Kiana, sem er tvítug, tilheyrir þeim hópi. „Ég veit að ríki Guðs er eina lausnin á öllum vandamálum okkar,“ segir hún. Hvaða áhrif hefur þessi örugga von á líf hennar og viðhorf? Vonin um paradís hjálpar henni að hafa hugfast að allt sem þessi heimur býður upp á er stundlegt. Hún reynir ekki að koma sér áfram í atvinnulífinu heldur notar tíma sinn og krafta til að þjóna Jehóva.

Hjálmur hjálpræðisins (Sjá 15.-18. grein.)

„SVERÐ ANDANS, GUÐS ORГ

19, 20. Hvernig getum við orðið enn færari í að nota Biblíuna?

19 Á dögum Páls notuðu rómverskir fótgönguliðar sverð sem var um 50 sentímetra langt og ætlað til bardaga í návígi. Þeir voru mjög leiknir að beita sverðinu, meðal annars vegna þess að þeir æfðu sig daglega.

20 Páll líkir Biblíunni við sverð sem Jehóva hefur gefið okkur. En við þurfum að læra að beita henni fagmannlega til að verja trúna – eða leiðrétta hugarfar okkar. (2. Kor. 10:4, 5; 2. Tím. 2:15) Hvernig geturðu orðið enn leiknari í að beita henni? Sebastian, 21 árs, segir: „Ég skrifa hjá mér eitt vers úr hverjum kafla sem ég les í Biblíunni. Ég er að taka saman lista með uppáhaldsversunum mínum. Það auðveldar mér að skilja hvernig Jehóva hugsar.“ Daniel, sem áður er getið, segir: „Þegar ég les í Biblíunni vel ég vers sem ég held að geti átt erindi til fólks sem ég hitti í boðuninni. Ég hef komist að raun um að fólk bregst vel við þegar það finnur að maður hefur brennandi áhuga á Biblíunni og leggur sig fram um að hjálpa því.“

Sverð andans (Sjá 19.-20. grein.)

21. Hvers vegna er engin ástæða til að óttast Satan og illu andana?

21 Unga fólkið, sem nefnt er í greininni, er til vitnis um að það er engin ástæða til að óttast Satan og illu andana. Þeir eru ógnvekjandi en ekki ósigrandi. Og þeir eru dauðlegir. Í þúsundáraríki Krists verða þeir fangelsaðir og geta ekkert gert af sér. Að síðustu verður þeim útrýmt. (Opinb. 20:1-3, 7-10) Við þekkjum óvin okkar, markmið hans og aðferðir. Við getum staðið gegn honum með hjálp Jehóva.