Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 22

Bættu námsvenjur þínar

Bættu námsvenjur þínar

„Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ – FIL. 1:10.

SÖNGUR 35 Metum rétt það sem máli skiptir

YFIRLIT *

1. Hvað gæti dregið úr lönguninni til að setjast niður við sjálfsnám?

ÞAÐ er heilmikið mál að hafa í sig og á nú á tímum. Mörg trúsystkini okkar vinna langan vinnudag til að geta séð fjölskyldu sinni fyrir brýnustu nauðsynjum. Sumir þurfa að ferðast nokkra klukkutíma á dag til og frá vinnustaðnum. Margir vinna erfiðisvinnu til að sjá sér farborða. Þessi duglegu trúsystkini eru úrvinda að loknum vinnudegi. Síst af öllu langar þau til að setjast niður við sjálfsnám.

2. Hvenær finnst þér best að lesa og hugleiða?

2 Sannleikurinn er samt sá að við verðum að finna tíma til þess að kafa ofan í orð Guðs og ritin okkar – og kafa djúpt. Samband okkar við Jehóva og eilífa lífið er undir því komið! (1. Tím. 4:15) Sumir vakna snemma á morgnana til að lesa og hugleiða í ró og næði þegar þeir eru úthvíldir eftir góðan nætursvefn. Aðrir gefa sér smástund til að næra sig andlega þegar hljótt er orðið í lok dags.

3-4. Hvaða breytingar hafa verið gerðar á útgáfustarfsemi safnaðarins og hvers vegna?

3 Þú ert örugglega sammála því að það sé mikilvægt að taka sér tíma til náms. En hvaða efni áttu að fara yfir? „Mér finnst erfitt að komast yfir allt efnið,“ segirðu kannski. „Það er svo mikið að lesa.“ Sumum tekst að lesa og horfa á allt efnið sem við fáum en margir eiga erfitt með að finna svigrúm til þess. Hið stjórnandi ráð veit það og hefur þess vegna ákveðið nýlega að gefa út minna efni, bæði á prenti og stafrænu formi.

4 Árbók Votta Jehóva er til dæmis ekki gefin út lengur því að nú birtast margar uppörvandi frásögur á jw.org® og í mánaðarþáttum Sjónvarps Votta Jehóva. Tímaritin Vaknið! og Varðturninn í almennri útgáfu koma núna út aðeins þrisvar á ári. Þessar breytingar eru ekki gerðar til að gefa okkur meiri tíma til að sinna málum sem tengjast ekki trúnni heldur til við getum einbeitt okkur enn betur að því sem máli skiptir. (Fil. 1:10) Skoðum núna hvernig hægt er að forgangsraða og hvernig hægt er að fá sem mest út úr biblíunámi sínu.

FORGANGSRAÐAÐU

5-6. Hvaða rit ættum við að lesa vandlega?

5 Hvað ætti að vera ofarlega á forgangslistanum? Við ættum að taka frá tíma daglega til að lesa í orði Guðs. Vikulegt lesefni safnaðarins í Biblíunni hefur verið stytt til að við höfum meiri tíma til að hugleiða það sem við lesum og skoða ítarefni. Markmið okkar ætti ekki aðeins að vera að lesa úthlutað efni heldur líka að láta boðskap Biblíunnar hreyfa við okkur og styrkja tengsl okkar við Jehóva. – Sálm. 19:15.

6 Hvað annað ættum við að lesa vandlega? Við viljum auðvitað undirbúa okkur fyrir Varðturnsnámið og safnaðarbiblíunámið og auk þess fara yfir annað efni fyrir samkomuna í miðri viku. Við ættum líka að lesa hvert einasta tölublað Varðturnsins og Vaknið!

7. Ættum við að vera niðurdregin ef við náum ekki að fara yfir allt efnið sem birtist á vefsíðu okkar og í Sjónvarpi safnaðarins?

7 „Gott og vel,“ segirðu kannski, „en hvað um allt efnið sem er birt á vefsíðunni okkar, jw.org, og í Sjónvarpi safnaðarins? Það er svo mikið til að lesa og horfa á!“ Það er alveg rétt. En hugsaðu þér að þú farir á veitingarstað þar sem þú getur valið úr mörgum girnilegum réttum á hlaðborði. Þú getur aldrei smakkað á öllu sem er á boðstólum þannig að þú velur þér aðeins fáeina rétti. Hið sama er að segja um andlegu fæðuna. Misstu ekki kjarkinn þótt þú náir ekki að nýta þér allt efnið sem er í boði í stafrænu formi. Lestu og horfðu á það sem þú kemst yfir. Skoðum núna hvað nám felur í sér og hvernig hægt er að hafa sem mest gagn af því.

NÁM ER VINNA

8. Hvernig er gott að fara yfir námsgrein í Varðturninum og af hverju er það gagnlegt?

8 Nám er að lesa efni með óskiptri athygli í ákveðnum tilgangi. Það er meira en aðeins að renna yfir efnið og strika undir svör. Þegar þú til dæmis undirbýrð þig fyrir Varðturnsnámið skaltu fyrst lesa yfirlitið í byrjun greinarinnar. Síðan skaltu velta fyrir þér fyrirsögninni, millifyrirsögnum og upprifjunarspurningum. Eftir það geturðu lesið vel og vandlega yfir greinina. Taktu eftir lykilsetningunni í hverri efnisgrein sem er oftast fyrsta setningin. Lykilsetningin segir til um hvað fjallað er um í efnisgreininni. Þegar þú lest í gegnum greinina hugleiddu þá hvernig hver efnisgrein styður millifyrirsögnina á undan og tengist efninu í heild. Merktu við framandi orð og atriði sem þig langar til að kanna betur síðar.

9. (a) Hvers vegna ættum við að skoða ritningarstaðina vandlega þegar við búum okkur undir Varðturnsnámið og hvernig getum við gert það? (b) Hvað ættum við að gera samkvæmt Jósúabók 1:8, auk þess að lesa ritningarstaðina?

9 Varðturnsnámið er biblíunám. Skoðaðu því vandlega ritningarstaðina sem vísað er í, sérstaklega þá sem verða lesnir upp þegar farið er yfir efnið á samkomu. Taktu sérstaklega eftir hvernig lykilorð og hugmyndir í biblíuversunum styðja kjarnann í efnisgreininni. Gefðu þér auk þess góðan tíma til að hugleiða ritningarstaðina og velta fyrir þér hvernig þú getur heimfært þá upp á líf þitt. – Lestu Jósúabók 1:8.

Kennið börnum ykkar góðar námsvenjur. (Sjá 10. grein.) *

10. Hvers vegna er mikilvægt að foreldrar kenni börnum sínum góðar námsvenjur og að leita sér upplýsinga um tiltekið efni, samanber Hebreabréfið 5:14?

10 Foreldrar vilja auðvitað að börnin hafi ánægju af vikulegri tilbeiðslustund fjölskyldunnar. Þeir ættu alltaf að hafa eitthvað ákveðið efni í huga til að ræða við börnin en það er þó ekki nauðsynlegt að finna upp á einhverjum skemmtilegum og spennandi verkefnum í hverri viku. Það má nota námsstundina til að horfa á mánaðarþáttinn í Sjónvarpi Votta Jehóva eða stöku sinnum vinna að ákveðnu verkefni eins og að búa til líkan af örkinni hans Nóa. En það er líka mikilvægt að kenna börnunum góðar námsvenjur og námsaðferðir. Þau þurfa til dæmis að læra að undirbúa sig fyrir samkomurnar og afla sér upplýsinga um spurningu eða vandamál sem hefur komið upp í skólanum. (Lestu Hebreabréfið 5:14.) Ef þau nota tíma heima til að kynna sér hvað Biblían segir um hin og þessi mál eiga þau auðveldara með að einbeita sér að dagskrárliðum á samkomum og mótum þar sem ekki eru sýnd myndbönd. Lengd námsstundar fer að sjálfsögðu eftir aldri og skapgerð barnanna.

11. Hvers vegna er áríðandi að kenna biblíunemendum okkar góðar námsvenjur og aðferðir til sjálfsnáms?

11 Biblíunemendur okkar þurfa líka að læra góðar námsvenjur og -aðferðir. Þegar þeir eru nýbyrjaðir í náminu erum við ánægð með að sjá þá búa sig undir biblíunámsstundina eða samkomurnar með því að strika bara undir svörin. En við þurfum að kenna þeim að leita sér sjálf upplýsinga og stunda sjálfsnám sem er þeim til gagns. Þá kunna þeir að leita fanga í ritum okkar þegar vandamál koma upp í staðinn fyrir að leita strax hjálpar annarra í söfnuðinum.

MARKVISST SJÁLFSNÁM

12. Hvaða markmið getum við sett okkur í sjálfsnáminu?

12 Ef þú ert ekki mikill námshestur ertu kannski efins um að þú eigir einhvern tíma eftir að hafa ánægju af námi. Láttu það ekki aftra þér. Hafðu námsstundirnar stuttar í byrjun og lengdu þær síðan smám saman. Settu þér ákveðið markmið. Aðalmarkmið okkar ætti að sjálfsögðu að vera að styrkja sambandið við Jehóva. Skammtímamarkmið gæti verið að svara spurningu sem þú hefur verið spurður eða að afla upplýsinga um vandamál sem þarf að leysa.

13. (a) Hvað geturðu gert til að verja trú þína ef þú ert í skóla? (b) Hvernig geturðu farið eftir ráðinu í Kólossubréfinu 4:6?

13 Ertu í skóla? Kannski trúa allir bekkjarfélagar þínir þróunarkenningunni. Þig langar til að verja það sem Biblían kennir en finnst þú ekki geta það. Þú gætir gert það að námsverkefni. Markmið þitt gæti verið tvíþætt: (1) að styrkja þá sannfæringu þína að Guð hafi skapað allt og (2) að verða færari í að verja sannleikann. (Rómv. 1:20; 1. Pét. 3:15) Þú gætir spurt þig hvers vegna bekkjafélagar þínir trúa þróunarkenningunni. Kannaðu síðan vandlega hvað ritin okkar segja um málið. Það er kannski ekki eins erfitt að verja trúna og þú heldur. Flestir trúa þróunarkenningunni bara vegna þess að einhver sem þeir líta upp til heldur því fram að hún sé sönn. Þú þarft kannski ekki að benda á nema eina eða tvær staðreyndir til að svara spurningu samnemanda á fullnægjandi hátt. – Lestu Kólossubréfið 4:6.

ÖRVAÐU ÁHUGANN

14-16. (a) Hvernig geturðu kynnt þér biblíubók sem þú veist ekki mikið um? (b) Útskýrðu hvernig þú getur fengið skýrari mynd af bók Amosar með hjálp ritningarstaðanna sem vísað er í. (Sjá einnig rammann „ Sjáðu frásögur Biblíunnar fyrir þér“.)

14 Segjum að á næstu samkomu verði farið yfir bók eins af minni spámönnunum. En þú veist ekki mikið um þennan spámann. Fyrsta skrefið gæti verið að örva áhugann á því sem hann skrifaði. Hvernig er hægt að gera það?

15 Spyrðu þig fyrst hvað þú veist um spámanninn. Hver var hann, hvar átti hann heima og við hvað starfaði hann? Þessar upplýsingar gætu varpað ljósi á orðaval hans og af hverju hann notar ákveðnar líkingar. Þegar þú lest í Biblíunni skaltu vera vakandi fyrir orðalagi sem endurspeglar hvaða mann hann hafði að geyma.

16 Næst gæti verið gott að kanna hvenær bókin var skrifuð. Það er auðveldlega hægt að finna út með því að fletta upp á yfirlitinu yfir biblíubækurnar aftast í Nýheimsþýðingunni. Síðan geturðu rennt yfir yfirlitið yfir spámenn og konunga í Handbók biblíunemandans. Ef það er spádómsbók sem þú ert að kynna þér ættirðu að lesa þér til um tíðarandann þegar bókin var skrifuð. Hvaða slæmu viðhorf og atferli vildi spámaðurinn leiðrétta? Hverjir voru samtímamenn hans? Til að sjá heildarmyndina þarftu kannski að leita fanga á fleiri stöðum í Biblíunni. Þú gætir til dæmis glöggvað þig betur á hvað var að gerast á dögum Amosar með því að lesa nokkur vers í 2. Konungabók og 2. Kroníkubók sem bent er á í millivísunum við Amos 1:1. Auk þess gætirðu lesið skrif Hósea sem var ef til vill uppi á sama tíma og Amos. Þessar heimildir geta varpað ljósi á samtíð Amosar. – 2. Kon. 14:25-28; 2. Kron. 26:1-15; Hós. 1:1 – 2:2; Amos 1:1.

 

TAKTU EFTIR SMÁATRIÐUM

17-18. Notaðu dæmin í greinunum eða segðu frá eigin reynslu til að sýna fram á hvernig hægt er að hafa meiri ánægju af biblíulestri með því að taka eftir smáatriðum.

17 Það er gott að vera svolítið forvitinn þegar maður les Biblíuna. Segjum sem svo að þú sért að lesa 12. kafla Sakaríabókar þar sem spáð er um dauða Messíasar. (Sak. 12:10) Þegar þú lest vers 12 sérðu að „kynkvísl Natans ættar“ myndi syrgja sárlega þegar Messías dæi. Í staðinn fyrir að hlaupa fram hjá þessu smáatriði skaltu staldra við og velta fyrir þér hvaða tengsl séu milli ættar Natans og Messíasar. Er hægt að finna skýringu á því? Þú bregður þér í hlutverk „spæjara“. Millivísun í Nýheimsþýðingunni vísar þér á 2. Samúelsbók 5:13, 14 og þar uppgötvarðu að Natan var einn af sonum Davíðs konungs. Önnur millivísun, Lúkas 3:23, 31, leiðir í ljós að Jesús var kominn af Natan í móðurlegg. (Sjá skýringar við Lúkas 3:23, „Joseph, son of Heli“. *) Þetta er athyglisvert! Þú vissir fyrir að því hafði verið spáð að Jesús yrði afkomandi Davíðs. (Matt. 22:42) En Davíð átti yfir 20 syni. Er ekki ótrúlegt að Sakaría skuli hafa tekið fram að ætt Natans hefði sérstaka ástæðu til að hryggjast yfir dauða Jesú!

18 Skoðum annað dæmi. Í fyrsta kafla Lúkasar lesum við að engillinn Gabríel heimsótti Maríu og sagði henni stórkostlega hluti um soninn sem hún myndi eignast: „Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu.“ (Lúk. 1:32, 33) Okkur hættir kannski til að einblína á það fyrsta sem Gabríel sagði við Maríu, það er að segja að Jesús yrði kallaður „sonur Hins hæsta“. En Gabríel spáði því líka að Jesús myndi „ríkja“. Hvernig ætli María hafi skilið þessi orð? Ætli hún hafi skilið það þannig að Jesús myndi taka við völdum af Heródesi konungi eða einhverjum arftaka hans í Ísrael? Ef Jesús yrði konungur yrði María konungsmóðir og fjölskylda hennar myndi búa í konungshöllinni. En hvergi kemur fram að María hafi haft orð á slíku við Gabríel. Og hvergi er minnst á að María hafi óskað eftir tignarstöðu í ríki Jesú eins og tveir af lærisveinum hans gerðu. (Matt. 20:20-23) Þetta smáatriði styrkir þá mynd sem við höfum af Maríu að hún hafi verið einstaklega auðmjúk.

19-20. Hvaða markmið ættum við að hafa með biblíunámi, samanber Jakobsbréfið 1:22-25 og 4:8?

19 Eins og fram hefur komið ætti aðalmarkmiðið með námi okkar í Biblíunni og ritum safnaðarins að vera að styrkja sambandið við Jehóva. Við viljum jafnframt sjá betur hvaða mann við höfum að geyma og hverju við þurfum að breyta til að þóknast Guði. (Lestu Jakobsbréfið 1:22-25; 4:8.) Við ættum því að biðja Jehóva um anda hans í byrjun hverrar námsstundar. Biðjum hann að hjálpa okkur að hafa sem mest gagn af efninu og sjá sjálf okkur sömu augum og hann sér okkur.

20 Reynum öll að vera eins og þjónn Guðs sem sálmaskáldið lýsir, þjónn sem „hefur yndi af leiðsögn Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt ... Allt, sem hann gerir, lánast honum.“ – Sálm. 1:2, 3.

SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn

^ gr. 5 Jehóva gefur okkur meira en nóg af efni til að horfa á, lesa og rannsaka. Þessi grein hjálpar okkur að ákveða hvað við lesum og rannsökum og bendir á góðar leiðir til að fá sem mest út úr námsstundunum.

^ gr. 17 „Jakob gat Jósef, mann Maríu“ samkvæmt Matteusi 1:16. Í frásögn Lúkasar er Jósef sagður ,sonur Elí‘ en þá er greinilega átt við að hann sé tengdasonur hans. Þegar rakinn var ættleggur dóttursonar til afa var venja meðal Gyðinga að beina athyglinni að körlunum í ættinni, og það kann að vera ástæðan fyrir því að Lúkas nefnir ekki dóttur Elí á nafn heldur skráir eiginmann hennar sem son Elí. Lúkas rekur ættartölu Jesú frá Maríu þannig að Elí virðist hafa verið faðir Maríu og afi Jesú í móðurætt.

^ gr. 62 MYND: Foreldrar sýna börnunum hvernig eigi að búa sig undir vikulegt Varðturnsnám safnaðarins.

^ gr. 64 MYND: Bróðir aflar sér upplýsinga um biblíuritarann Amos. Myndirnar í bakgrunninum sýna hvað hann sér ljóslifandi fyrir sér þegar hann les frásögur Biblíunnar og hugleiðir þær.