Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 19

„Konungur norðursins“ á tíma endalokanna

„Konungur norðursins“ á tíma endalokanna

„Að endalokum mun konungur suðursins snúast gegn honum [konungi norðursins].“ – DAN. 11:40.

SÖNGUR 150 Leitum hjálpræðis Guðs

YFIRLIT *

1. Hvað gefa spádómar Biblíunnar okkur innsýn í?

HVAÐ gerist hjá þjónum Jehóva í nánustu framtíð? Við þurfum ekki að geta okkur til um það. Spádómar Biblíunnar gefa okkur innsýn í mikilvæga atburði sem eiga bráðlega eftir að hafa áhrif á okkur öll. Einn þeirra beinir athyglinni sérstaklega að því hvað sumar valdamestu ríkisstjórnir jarðar eiga eftir að gera. Þennan spádóm er að finna í 11. kafla Daníelsbókar og hann rekur sögu tveggja andstæðinga, konungs norðursins og konungs suðursins. Stór hluti þessa spádóms hefur nú þegar uppfyllst og við getum því verið viss um að það sem eftir er uppfyllist líka.

2. Hvað þurfum við að hafa í huga þegar við rannsökum spádóm Daníels eins og sjá má af 1. Mósebók 3:15 og Opinberunarbókinni 11:7 og 12:17?

2 Til að skilja spádóminn í 11. kafla Daníelsbókar þurfum við að hafa í huga að hann á bara við um stjórnendur og stjórnir sem hafa haft bein áhrif á þjóna Guðs. Og þjónar Guðs eru oft þungamiðjan í mikilvægum heimsatburðum þó að þeir séu aðeins lítill hluti af íbúum jarðarinnar. Hvers vegna? Vegna þess að Satan og heimskerfi hans hafa eitt meginmarkmið – að útrýma þeim sem þjóna Jehóva og Jesú. (Lestu 1. Mósebók 3:15 og Opinberunarbókina 11:7; 12:17.) Spádómurinn í Daníelsbók verður auk þess að koma heim og saman við aðra spádóma í orði Guðs. Við getum aðeins fengið réttan skilning á spádómi Daníels ef við berum hann saman við aðra hluta Biblíunnar.

3. Hvað ræðum við í þessari grein og þeirri næstu?

3 Með þetta í huga munum við núna rannsaka Daníel 11:25–39. Við sjáum hverjir konungur norðursins og konungur suðursins voru á árunum 1870–1991. Við skoðum líka hvers vegna við höfum ástæðu til að endurskoða skýringu okkar á hluta af þessum spádómi. Í næstu grein ræðum við um Daníel 11:40–12:1 og skoðum breyttan skilning á því hvað þessi hluti spádómsins segir um tímann frá 1991 fram að Harmagedónstríðinu. Það er gagnlegt að hafa tímalínuna „Konungarnir tveir á tíma endalokanna“ til hliðsjónar þegar þú lest þessar tvær greinar. En fyrst þurfum við að bera kennsl á konungana tvo í spádóminum.

AÐ BERA KENNSL Á KONUNG NORÐURSINS OG KONUNG SUÐURSINS

4. Hvaða þrjú atriði hjálpa okkur að bera kennsl á konung norðursins og konung suðursins?

4 Titlarnir „konungur norðursins“ og „konungur suðursins“ áttu upphaflega við um stjórnmálaöfl sem voru fyrir norðan og sunnan Ísraelsland. Hvernig vitum við það? Taktu eftir hvað engillinn sem flutti Daníel boðskapinn sagði: „Ég [er] kominn til að veita þér skilning á því sem koma mun yfir þjóð þína á ókomnum dögum.“ (Dan. 10:14) Ísraelsmenn voru þjóð Guðs fram á hvítasunnu árið 33. Þaðan í frá gaf Jehóva hins vegar skýrt til kynna að hann leit á trúfasta lærisveina Jesú sem þjóð sína. Þess vegna á stór hluti spádómsins í 11. kafla Daníelsbókar við um fylgjendur Krists en ekki Ísraelsþjóðina. (Post. 2:1–4; Rómv. 9:6–8; Gal. 6:15, 16) Mismunandi stjórnendur hafa gengt hlutverki konunganna tveggja í gegnum tíðina. En þeir eiga allir ýmislegt sameiginlegt. Í fyrsta lagi höfðu konungarnir afgerandi áhrif á þjóna Guðs. Í öðru lagi sýndu þeir með framkomu sinni við þjóna Guðs að þeir hötuðu Jehóva, hinn sanna Guð. Og í þriðja lagi börðust konungarnir tveir um völd.

5. Getum við borið kennsl á konung norðursins og konung suðursins frá því á annarri öld þar til seint á 19. öld? Skýrðu svarið.

5 Einhvern tíma á annarri öld fóru falskristnir menn að leggja sannkristna söfnuðinn undir sig. Þeir höfðu tileinkað sér heiðnar kenningar og földu sannindin í orði Guðs. Þangað til seint á 19. öld var enginn skipulagður hópur þjóna Guðs á jörðinni. Illgresi falskrar kristni dafnaði svo að það var erfitt að bera kennsl á sannkristna menn. (Matt. 13:36–43) Hvers vegna skiptir máli að vita það? Það gefur til kynna að það sem við lesum um konung norðursins og konung suðursins geti ekki hafa átt við um stjórnendur sem ríktu frá því einhvern tíma á annarri öld fram á seinni hluta 19. aldar. Það var enginn skipulagður hópur þjóna Guðs sem þeir gátu ráðist á. * En við getum samt búist við að konungur norðursins og konungur suðursins hafi komið aftur í ljós seint á 19. öld. Hvers vegna?

6. Hvenær var hægt að bera kennsl á þjóna Guðs á ný? Skýrðu svarið.

6 Frá árinu 1870 fóru þjónar Guðs að mynda skipulagðan hóp. Það ár mynduðu Charles T. Russell og félagar hans biblíunámshóp. Bróðir Russell og nánir samstarfsmenn hans voru sendiboðinn sem sagt var fyrir um að myndi ,ryðja braut‘ áður en Messíasarríkið yrði stofnsett. (Mal. 3:1) Hægt var að bera kennsl á þjóna Guðs á ný. Voru einhver heimsveldi uppi á þeim tíma sem myndu hafa afgerandi áhrif á þjóna Guðs? Skoðum málið.

HVER ER KONUNGUR SUÐURSINS?

7. Hver var konungur suðursins þar til langt var liðið á fyrri heimsstyrjöldina?

7 Árið 1870 var Bretland orðið stærsta heimsveldi á jörðinni og það var með öflugasta herinn. Þessu heimsveldi var lýst eins og litlu horni sem vann sigur á þrem öðrum hornum – Frakklandi, Spáni og Hollandi. (Dan. 7:7, 8) Bretland var konungur suðursins þar til langt var liðið á fyrri heimsstyrjöldina. Bandaríkin voru þá orðin efnaðasta land heims og mynduðu náið bandalag við Bretland.

8. Hver hefur verið konungur suðursins á hinum síðustu dögum?

8 Í fyrri heimsstyrjöldinni mynduðu Bandaríkin og Bretland öflugt hernaðarbandalag og urðu þá ensk-ameríska heimsveldið. Eins og Daníel spáði fyrir um hafði þessi konungur safnað saman „miklum og illvígum her“. (Dan. 11:25) Á hinum síðustu dögum hefur ensk-ameríska heimsveldið alltaf verið konungur suðursins. * En hver hefur verið konungur norðursins?

KONUNGUR NORÐURSINS KEMUR Í LJÓS AFTUR

9. Hvenær kom konungur norðursins í ljós aftur og hvernig rættist það sem segir í Daníel 11:25?

9 Konungur norðursins kom í ljós aftur 1871, árið eftir að Russell og félagar hans mynduðu biblíunámshópinn. Konungur norðursins var þá Þýskaland. Það ár átti Otto von Bismarck þátt í að stofna Þýska keisaradæmið. Vilhjálmur 1., konungur Prússlands, varð fyrsti keisari þess og hann útnefndi Bismarck fyrsta kanslarann. * Á næstu áratugum varð Þýskaland að nýlenduveldi og það réð yfir ríkjum í Afríku og Kyrrahafinu. Það reyndi að verða valdameira en Bretland. (Lestu Daníel 11:25.) Þýska keisaradæmið byggði upp öflugan her og átti næststærsta sjóher í heimi. Þýskaland sendi herinn gegn óvinum sínum í fyrri heimsstyrjöldinni.

10. Hvernig rættist það sem segir í Daníel 11:25b, 26?

10 Daníel sagði síðan fyrir um hvernig myndi fara fyrir Þýska keisaradæminu og hernum sem það hafði byggt upp. Í spádóminum segir að konungur norðursins myndi ,bíða lægri hlut‘. Af hverju myndi hann gera það? „Því að vélabrögðum verður beitt gegn honum. Mötunautar hans munu verða honum að falli.“ (Dan. 11:25b, 26a) Á dögum Daníels voru þeir sem borðuðu „af konungsborði“ meðal annars ráðgjafar konungs „við hirðina“. (Dan. 1:5) Við hverja á spádómurinn hér? Hann á við um háttsetta embættismenn Þýska keisaradæmisins – þar á meðal hershöfðingja og hernaðarráðgjafa keisarans – sem áttu að lokum þátt í að fella keisaradæmið. * Spádómurinn sagði ekki aðeins til um fall keisaradæmisins heldur sagði hann einnig hvernig stríðið við konung suðursins myndi enda. Spádómurinn segir um konung norðursins: „Her hans verður yfirbugaður og mannfallið mikið.“ (Dan. 11:26b) Í fyrri heimsstyrjöldinni var her Þýskalands „yfirbugaður og mannfallið [var] mikið“, rétt eins og spáð var. Þessi styrjöld varð sú mannskæðasta fram að þessum tíma í sögunni.

11. Hvað gerðu konungur norðursins og konungur suðursins?

11 Þegar talað er um undanfara fyrri heimsstyrjaldarinnar í Daníel 11:27, 28 segir að konungur norðursins og konungur suðursins myndu „snæða saman en ræðast þó við af fláttskap“. Þar segir einnig að konungur norðursins myndi safna saman ,miklum auði‘. Það er nákvæmlega það sem gerðist. Þjóðverjar og Bretar sögðu hverjir öðrum að þeir vildu frið en það reyndust vera lygar þegar stríðið braust út árið 1914. Og á áratugunum fyrir 1914 varð Þýskaland næstríkasta land í heimi. Síðan uppfylltist það sem segir í Daníel 11:29 og fyrsta hluta vers 30 þegar Þjóðverjar börðust við konung suðursins en voru sigraðir.

KONUNGARNIR BERJAST GEGN ÞJÓNUM GUÐS

12. Hvað gerðu konungur norðursins og konungur suðursins í fyrri heimsstyrjöldinni?

12 Frá 1914 hafa konungarnir tveir barist harðar hvor gegn öðrum og gegn þjónum Guðs. Í fyrri heimsstyrjöldinni ofsóttu til dæmis bæði stjórn Þýskalands og Bretlands þjóna Guðs, en þeir neituðu að beita vopnum. Og stjórn Bandaríkjanna fangelsaði þá sem tóku forystuna í boðuninni og uppfyllti þannig spádóminn í Opinberunarbókinni 11:7–10.

13. Hvað gerði konungur norðursins á fjórða áratugnum og í síðari heimsstyrjöldinni?

13 Frá 1933 og sérstaklega í síðari heimsstyrjöldinni réðst konungur norðursins miskunnarlaust á þjóna Guðs. Þegar nasistaflokkurinn lagði Þýskaland undir sig bönnuðu Hitler og fylgismenn hans starf þjóna Guðs. Konungur norðursins tók mörg hundruð þjóna Jehóva af lífi og sendi þúsundir til viðbótar í fangabúðir. Daníel hafði spáð þessum atburðum. Konungi norðursins tókst að „vanhelga helgidóminn“ og „afnema hina daglegu fórn“ með því að setja verulegar hömlur á frelsi þjóna Guðs til að lofa nafn Jehóva opinberlega. (Daníel 11:30b, 31a) Hitler leiðtogi Þýskalands hét því jafnvel að útrýma þjónum Guðs í Þýskalandi.

NÝR KONUNGUR NORÐURSINS KEMUR Í LJÓS

14. Hver varð konungur norðursins eftir síðari heimsstyrjöldina? Skýrðu svarið.

14 Eftir síðari heimsstyrjöldina lagði kommúnistastjórn Sovétríkjanna undir sig stór svæði sem tilheyrðu áður Þýskalandi. Rétt eins og alræðisstjórn nasista sýndu Sovétríkin og bandamenn þeirra mikinn fjandskap öllum sem settu tilbeiðsluna á hinn sanna Guð í fyrsta sæti. Þar með urðu þau konungur norðursins.

15. Hvað gerði konungur norðursins eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar?

15 Skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar réðst nýr konungur norðursins, Sovétríkin og bandamenn þeirra, gegn þjónum Guðs. Í samræmi við spádóminn í Opinberunarbókinni 12:15–17 bannaði konungurinn boðun okkar og sendi þúsundir þjóna Jehóva í útlegð. Reyndar hefur konungur norðursins sent „heilt fljót“ ofsókna á þjóna Guðs á síðustu dögum í misheppnaðri tilraun sinni til að stöðva starf þeirra. *

16. Hvernig uppfylltu Sovétríkin spádóminn í Daníel 11:37–39?

16 Lestu Daníel 11:37–39Spádómurinn segir að konungur norðursins myndi ekki „virða guð forfeðra sinna“. Hvernig rættist það? Sovétríkin höfðu það markmið að útrýma trúarbrögðum og reyndu því að brjóta niður vald þeirra. Til að ná því markmiði höfðu Sovétríkin gefið út skipun allt frá 1918 sem lagði grunn að því að guðleysi yrði kennt í skólum. Hvernig dýrkaði konungur norðursins „guð víggirðinganna“? Sovétríkin notuðu gríðarlega fjármuni til að byggja upp her sinn og smíða þúsundir kjarnorkuvopna til að efla vald sitt. Bæði konungur norðursins og konungur suðursins áttu að lokum nægilega öflug vopn til að drepa milljarða manna.

KONUNGARNIR TVEIR VINNA SAMAN

17. Hver er „viðurstyggð eyðingarinnar“?

17 Konungur norðursins hefur stutt konung suðursins í einu mikilvægu máli. Þeir reistu „viðurstyggð eyðingarinnar“. (Dan. 11:31) Þessi „viðurstyggð“ er Sameinuðu þjóðirnar.

18. Hvers vegna er Sameinuðu þjóðunum lýst sem „viðurstyggð“?

18 Sameinuðu þjóðunum er lýst sem „viðurstyggð“ vegna þess að þær segjast geta gert eitthvað sem aðeins ríki Guðs er fært um – að koma á heimsfriði. Og í spádóminum kemur fram að þessi viðurstyggð valdi eyðingu vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar munu gegna lykilhlutverki í eyðingu allra falstrúarbragða. – Sjá tímalínuna „Konungarnir tveir á tíma endalokanna“.

HVERS VEGNA ÞURFUM VIÐ AÐ ÞEKKJA ÞESSA SÖGU?

19, 20. (a) Hvers vegna þurfum við að þekkja þessa sögu? (b) Hvaða spurningu verður svarað í næstu grein?

19 Við þurfum að þekkja þessa sögu vegna þess að hún sannar að frá 1870 til 1991 hefur spádómur Daníels um konung norðursins og konung suðursins verið að rætast. Við getum því treyst að það sem eftir er af þessum spádómi muni einnig uppfyllast.

20 Sovétríkin féllu árið 1991. Hver er þá konungur norðursins núna? Við fáum svar við því í næstu grein.

SÖNGUR 128 Verum þolgóð allt til enda

^ gr. 5 Við sjáum sannanir fyrir því að spádómur Daníels um ,konung norðursins‘ og ,konung suðursins‘ sé enn að uppfyllast. Hvernig getum við verið viss um það? Og af hverju þurfum við að skilja þennan spádóm?

^ gr. 5 Þess vegna teljum við ekki lengur að Árelíus Rómarkeisari (270–275) hafi verið „konungur norðursins“ eða að Zenóbía drottning (267–272) hafi verið „konungur suðursins“. Þetta er breyting á því sem segir í 13. og 14. kafla bókarinnar Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar.

^ gr. 9 Vilhjálmur 2. keisari neyddi Bismarck til að segja af sér árið 1890.

^ gr. 10 Þeir flýttu fyrir falli keisaradæmisins á ýmsa vegu. Þeir drógu til dæmis úr stuðningi við keisarann, láku viðkvæmum upplýsingum varðandi stríðið og neyddu keisarann til að segja af sér.

^ gr. 15 Í Daníel 11:34 (Biblían 1981) kemur fram að konungur norðursins myndi gera stutt hlé á ofsóknum sínum á kristna menn. Þetta gerðist til dæmis þegar Sovétríkin féllu árið 1991.