Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mildi – hvernig er hún okkur til góðs?

Mildi – hvernig er hún okkur til góðs?

„Ég er feimin að eðlisfari,“ segir Sara, *„og hef lítið sjálfstraust. Mér finnst óþægilegt að vera með fólki sem er mjög ákveðið og með sterkan persónuleika. En ég er afslöppuð í félagsskap þeirra sem eru mildir og hógværir. Ég get látið tilfinningar mínar í ljós og rætt um vandamál mín við þannig fólk. Bestu vinir mínir eru mildir og hógværir.“

Orð Söru sýna að fólk vill vingast við þá sem eru mildir. Mildi er líka Jehóva að skapi. Við erum hvött í orði Guðs til að ,íklæðast mildi‘. (Kól. 3:12, neðanmáls) Hvað er mildi? Hvernig sýndi Jesús mildi? Hvernig getur þessi eiginleiki stuðlað að hamingju okkar?

HVAÐ ER MILDI?

Þeir sem eru mildir eru friðsamir. Þeir eru ljúfir og góðviljaðir í samskiptum sínum við aðra og geta tekist rólegir og yfirvegaðir á við það sem skapraunar þeim.

Mildi ber vott um innri styrk. Gríska orðið sem er þýtt „mildi“ var notað til að lýsa hesti sem var búið að temja. Hesturinn heldur styrknum en orkan hefur verið beisluð með þrotlausri þjálfun. Þegar við sýnum mildi höfum við stjórn á skapinu og komum friðsamlega fram við aðra.

„Ég er ekki mildur að eðlisfari,“ gæti einhver hugsað. Það er orðið algengt í heiminum í kringum okkur að fólk sýni yfirgang og óþolinmæði. Þess vegna getur verið hægara sagt en gert að sýna mildi. (Rómv. 7:19) Það kostar augljóslega fyrirhöfn að tileinka sér mildi en heilagur andi Jehóva hjálpar okkur að vinna að því markmiði. (Gal. 5:22, 23) Hvers vegna ættum við að leggja okkur fram við að tileinka okkur mildi?

Mildi er aðlaðandi eiginleiki. Við erum afslöppuð í félagsskap þeirra sem eru mildir, eins og Sara sem sagt er frá fyrr í greininni tók eftir. Jesús er framúrskarandi dæmi um mildan og góðan mann. (2. Kor. 10:1) Jafnvel börn langaði til að vera nálægt honum þótt þau þekktu hann varla. – Mark. 10:13–16.

Mildi er bæði okkur og þeim sem við umgöngumst til góðs. Ef við erum mild erum við ekki fljót að verða reið og svekkt. (Orðskv. 16:32) Við sleppum þar af leiðandi við sektarkennd sem við fáum ef við særum einhvern, sérstaklega þá sem okkur þykir vænt um. Þegar við erum mild særum við ekki þá sem við umgöngumst af því að við höfum stjórn á tilfinningum okkar og hegðun.

FULLKOMIN FYRIRMYND UM MILDI

Þrátt fyrir mikla ábyrgð og þétta dagskrá var Jesús mildur í garð allra. Á dögum Jesú þurftu margir að ,strita og bera þungar byrðar‘ og höfðu þörf fyrir endurnæringu. Það hefur uppörvað þá mikið þegar Jesús sagði við þá: „Komið til mín ... því að ég er ljúfur í lund og lítillátur í hjarta.“ – Matt. 11:28, 29.

Hvernig getum við tileinkað okkur mildi eins og Jesús sýndi? Með því að rannsaka orð Guðs og læra hvernig Jesús kom fram við fólk og brást við erfiðum aðstæðum. Þá getum við líkt eftir Jesú þegar við lendum í slíkum aðstæðum. (1. Pét. 2:21) Skoðum þrennt sem hjálpaði Jesú að sýna mildi.

Jesús var hógvær. Jesús sagðist bæði vera „ljúfur í lund og lítillátur í hjarta“. (Matt. 11:29) Í Biblíunni kemur fram að mildi er nátengd lítillæti og auðmýkt. (Ef. 4:1–3) Að hvaða leyti?

Auðmýkt hjálpar okkur að taka okkur ekki of alvarlega eða vera of viðkvæm. Hvernig brást Jesús við þeim sem gagnrýndu hann ranglega fyrir að vera „mathákur og vínsvelgur“? Hann sýndi í verki að ásakanirnar voru óréttmætar og benti mildilega á að „viskan sannast af verkum sínum“. – Matt. 11:19.

Ef einhver segir eitthvað í hugsunarleysi um uppruna þinn, kyn eða bakgrunn skaltu reyna að bregðast mildilega við. „Þegar ég verð pirraður vegna orða einhvers velti ég því fyrir mér hvernig Jesús hefði brugðist við,“ segir Peter sem er öldungur í Suður-Afríku. „Ég hef lært að taka sjálfan mig ekki of alvarlega,“ bætir hann við.

Jesús hafði skilning á veikleikum fólks. Lærisveinar Jesú vildu vel en stundum hindraði ófullkomleikinn þá í því að sýna það í verki. Kvöldið áður en Jesús var tekinn af lífi fékk hann ekki þann tilfinningalega stuðning frá Pétri, Jakobi og Jóhannesi sem hann bað um. Jesús skildi að ,andinn er ákafur en holdið veikt‘. (Matt. 26:40, 41) Þess vegna reiddist Jesús ekki lærisveinum sínum.

Mandy er systir sem var mjög gagnrýnin á aðra en reynir nú eins og hún mögulega getur að líkja eftir mildi Jesú. Hún segir: „Ég reyni að sætta mig við að ófullkomleiki manna birtist á mismunandi vegu og reyni að sjá það jákvæða í fari annarra, eins og Jehóva gerir.“ Gæti fordæmi Jesú í að bregðast við veikleika annarra af samúð hjálpað þér að sýna öðrum mildi?

Jesús lagði málin í hendur Jehóva. Jesús sætti sig við óréttláta meðferð þegar hann var á jörð. Hann var misskilinn, fyrirlitinn og pyntaður. En samt var hann mildur því að hann „fól sjálfan sig á hendur honum sem dæmir með réttlæti“. (1. Pét. 2:23) Jesús vissi að himneskur faðir sinn myndi styðja sig og taka á ranglætinu á réttum tíma.

Ef við verðum reið og reynum að berjast gegn óréttlæti sem við erum beitt gætum við auðveldlega brugðist of hart við og gert illt verra. Þess vegna erum við minnt á í Biblíunni: „Reiði mannsins kemur ekki réttlæti Guðs til leiðar.“ (Jak. 1:20) Jafnvel þótt reiði okkar sé réttlætanleg getur ófullkomleikinn leitt til þess að við bregðumst óskynsamlega við.

Systir í Þýskalandi sem heitir Cathy hugsaði áður sem svo: „Ef maður stendur ekki með sjálfum sér gerir það enginn.“ En þegar hún lærði að treysta á Jehóva breyttist viðhorf hennar. „Ég þarf ekki lengur að vera í vörn,“ segir hún. „Ég get verið mild því að ég veit að Jehóva hefur alla þræði í hendi sér.“ Ef þú hefur einhvern tíma orðið fyrir óréttlæti mun það líka hjálpa þér að fylgja fordæmi Jesú, treysta á Guð og sýna mildi.

HINIR MILDU ERU HAMINGJUSAMIR

Hvernig getur mildi hjálpað okkur í erfiðum aðstæðum?

Jesús benti á að ef við viljum vera hamingjusöm verðum við að sýna mildi. „Hinir mildu eru hamingjusamir því að þeir erfa jörðina.“ (Matt. 5:5, neðanmáls) Taktu eftir hvernig mildi kemur að gagni við eftirfarandi aðstæður.

Mildi dregur úr spennu í hjónabandi. „Ég hef sagt margt særandi við konuna mína sem ég meinti ekki,“ viðurkennir Robert, bróðir frá Ástralíu. „Það er ekki hægt að taka til baka vanhugsuð orð sögð í reiði. Mér leið svo illa þegar ég sá hvað ég hafði sært hana mikið.“

,Við hrösum öll margsinnis‘ í orðum okkar og vanhugsuð orð geta haft slæm áhrif á hjónabandið. (Jak. 3:2) Á slíkum augnablikum getur mildi hjálpað okkur að vera róleg og hafa taumhald á tungunni. – Orðskv. 17:27.

Robert lagði hart að sér til að þroska með sér mildi og sjálfstjórn. Með hvaða árangri? „Þegar okkur sinnast legg ég mig fram við að hlusta vel, tala mildilega og halda ró minni,“ segir hann. „Samband okkar hjónanna er langtum betra.“

Mildi hjálpar okkur að eiga betri samskipti við aðra. Flestir sem móðgast auðveldlega eignast fáa vini. Mildi hjálpar okkur að „varðveita einingu andans í bandi friðarins“. (Ef. 4:2, 3) „Þegar ég sýni mildi á ég ánægjulegri samskipti við aðra, jafnvel þótt sumir geti verið erfiðir,“ segir Cathy sem áður er vitnað í.

Mildi hjálpar manni að hafa innri frið. Biblían tengir ,viskuna sem kemur ofan að‘ við mildi og frið. (Jak. 3:13, 17) Mild manneskja hefur hugarró. (Orðskv. 14:30) Martin hefur lagt mikið á sig til að þroska með sér mildi. Hann segir: „Ég er sveigjanlegri og ekki eins frekur og finn fyrir meiri friði og hamingju.“

Það getur verið þrautin þyngri að þroska með sér mildi. „Satt að segja sýður stundum enn í mér reiðin,“ segir bróðir einn. En Jehóva, sem hvetur okkur til að sýna mildi, hjálpar okkur í baráttunni. (Jes. 41:10; 1. Tím. 6:11) Hann getur ,lokið þjálfun okkar og styrkt okkur‘. (1. Pét. 5:10) Með tímanum getum við, eins og Páll postuli, líkt eftir „mildi og góðvild Krists“. – 2. Kor. 10:1.

^ gr. 2 Sumum nöfnum er breytt.