Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 21

Jehóva veitir þér styrk

Jehóva veitir þér styrk

„Þegar ég er veikburða er ég sterkur.“ – 2. KOR. 12:10.

SÖNGUR 73 Veittu okkur hugrekki

YFIRLIT *

1, 2. Hvaða erfiðleika glíma margir vottar við?

PÁLL postuli hvatti Tímóteus, og í raun alla kristna menn, til að gera þjónustu sinni góð skil. (2. Tím. 4:5) Við tökum öll leiðbeiningar Páls alvarlega. En það er ekki alltaf auðvelt. Fyrir mörg trúsystkini okkar krefst það mikils hugrekkis að taka þátt í boðuninni. (2. Tím. 4:2) Hugsum til dæmis um bræður okkar og systur sem búa í löndum þar sem hömlur eru á starfi okkar eða það jafnvel bannað. Þau taka þátt í boðuninni þótt það geti kostað þau frelsið.

2 Þjónar Jehóva þurfa að takast á við ýmis konar vandamál sem gætu dregið úr þeim kjark. Margir þurfa til dæmis að vinna langan vinnudag aðeins til að afla fjölskyldunni brýnustu nauðsynja. Þeir myndu vilja gera meira í boðuninni en hafa litla orku í lok vikunnar. Aðrir geta gert minna í boðuninni vegna langvinnra veikinda eða hækkandi aldurs og eiga jafnvel ekki heimangengt. Enn aðrir glíma við þá tilfinningu að finnast þeir einskis virði. Mary, * systir sem býr í Mið-Austurlöndum, segir: „Það fer svo mikil orka í að berjast við neikvæðar tilfinningar að það gerir mig tilfinningalega úrvinda. Þá fæ ég samviskubit því að það tekur tíma og orku frá boðuninni.“

3. Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Jehóva getur óháð aðstæðum okkar gefið okkur kraft til að takast á við erfiðleika okkar og halda áfram að þjóna sér að því marki sem aðstæður okkar leyfa. Áður en við skoðum hvernig Jehóva hjálpar okkur skulum við líta á hvernig hann veitti Páli og Tímóteusi styrk til að gera þjónustunni góð skil.

STYRKUR TIL AÐ HALDA BOÐUNINNI ÁFRAM

4. Hvaða vandamál þurfti Páll að takast á við?

4 Páll tókst á við margvísleg vandamál. Hann þurfti sérstaklega á hjálp Jehóva að halda þegar hann var barinn, grýttur og fangelsaður. (2. Kor. 11:23–25) Páll viðurkenndi opinskátt að hann þyrfti stundum að berjast við neikvæðar tilfinningar. (Rómv. 7:18, 19, 24) Hann þurfti líka að þola ,þyrni í holdinu‘ af einhverju tagi sem hann þráði að Guð tæki frá sér. – 2. Kor. 12:7, 8.

Hvað gerði Páli kleift að halda áfram að boða trúna? (Sjá 5. og 6. grein.) *

5. Hverju áorkaði Páll þrátt fyrir erfiðleikana?

5 Jehóva gaf Páli styrk til að halda áfram að boða trúna þrátt fyrir öll vandamálin sem hann tókst á við. Skoðum hverju Páll áorkaði. Þegar hann var til dæmis í stofufangelsi í Róm boðaði hann leiðtogum Gyðinga og hugsanlega háttsettum embættismönnum fagnaðarboðskapinn af kappi. (Post. 28:17; Fil. 4:21, 22) Hann boðaði einnig mörgum í lífvarðarsveitinni trúna og öllum sem heimsóttu hann. (Post. 28:30, 31; Fil. 1:13) Á sama tíma skrifaði Páll innblásin bréf sem komu kristnum mönnum að gagni þá og gera það enn. Og fordæmi Páls veitti söfnuðinum í Róm styrk svo að trúsystkini þar ,urðu hugrakkari og boðuðu orð Guðs óttalaust‘. (Fil. 1:14) Þótt aðstæður takmörkuðu stundum það sem Páll gat gert í boðuninni gerði hann það besta úr aðstæðunum og það varð ,í rauninni fagnaðarboðskapnum til framdráttar‘. – Fil. 1:12.

6. Hvað gerði Páli kleift að halda áfram í boðuninni samkvæmt 2. Korintubréfi 12:9, 10?

6 Páll gerði sér grein fyrir því að allt sem hann gerði í þjónustunni gerði hann með hjálp frá Jehóva en ekki í eigin mætti. Hann vissi að kraftur Guðs „fullkomnast í veikleika“. (Lestu 2. Korintubréf 12:9, 10.) Með heilögum anda sínum gaf Jehóva Páli styrk til að gera þjónustunni góð skil – þrátt fyrir ofsóknir, fangelsun og aðra erfiðleika.

Hvað gerði Tímóteusi kleift að halda áfram að boða trúna? (Sjá 7. grein.) *

7. Hvaða erfiðleikum þurfti Tímóteus að sigrast á til að gera þjónustunni góð skil?

7 Tímóteus, yngri félagi Páls, þurfti líka að reiða sig á hjálp frá Guði til að halda áfram að boða trúna. Hann fór með Páli í langar trúboðsferðir. Og Páll sendi hann í ferðalög til að heimsækja og uppörva söfnuði. (1. Kor. 4:17) Tímóteusi hefur kannski ekki fundist hann vera starfinu vaxinn. Það gæti verið ástæðan fyrir því að Páll sagði við hann: „Láttu engan líta niður á þig þótt þú sért ungur.“ (1. Tím. 4:12) Á þessum tíma hafði Tímóteus líka þyrni í holdinu –,tíð veikindi‘. (1. Tím. 5:23) En Tímóteus vissi að Jehóva myndi fyrir atbeina heilags anda gefa sér þann styrk sem hann þurfti til að boða fagnaðarboðskapinn og þjóna trúsystkinum sínum. – 2. Tím. 1:7.

STYRKUR TIL AÐ VERA TRÚFÖST ÞRÁTT FYRIR ERFIÐLEIKA

8. Hvernig styrkir Jehóva þjóna sína nú á dögum?

8 Jehóva gefur þjónum sínum ,kraft sem er ofar mannlegum mætti‘ til að þeir geti haldið áfram að þjóna honum trúfastir. (2. Kor. 4:7) Skoðum fernt sem Jehóva lætur okkur í té til að styrkja okkur og hjálpa okkur að vera trúföst – bænina, Biblíuna, kristinn félagsskap og boðunina.

Jehóva gefur okkur styrk með bæninni. (Sjá 9. grein.)

9. Hvernig getur bænin hjálpað okkur?

9 Bænin veitir styrk. Í Efesusbréfinu 6:18 hvetur Páll okkur til að biðja til Guðs „öllum stundum“. Guð svarar slíkum bænum með því að veita okkur styrk. Jonnie, sem býr í Bólivíu, fann fyrir slíkum stuðningi þegar hann gekk í gegnum röð erfiðleika. Konan hans og báðir foreldrar veiktust alvarlega á sama tíma. Það reyndi verulega á Jonnie að annast þau. Móðir hans dó og konan hans og faðir voru lengi að ná sér af veikindunum. Jonnie segir þegar hann lítur til baka: „Þegar álagið var sérstaklega mikið hjálpaði það mér að vera nákvæmur í bænum mínum.“ Jehóva gaf Jonnie þann styrk sem hann þurfti til að halda út. Ronald, öldungur í Bólivíu, fékk að vita að móðir sín væri komin með krabbamein. Hún dó mánuði síðar. Hvað hjálpaði honum á þessum erfiða tíma? Hann segir: „Í bæn til Jehóva get ég úthellt hjarta mínu og tjáð honum tilfinningar mínar. Ég veit að hann skilur mig betur en nokkur annar, jafnvel betur en ég sjálfur.“ Okkur líður kannski stundum eins og við getum ekki haldið út eða við vitum ekki hvað við eigum að biðja um. En Jehóva býður okkur að biðja til sín jafnvel þó að okkur finnist erfitt að færa hugsanir okkar og tilfinningar í orð. – Rómv. 8:26, 27.

Jehóva gefur okkur styrk með Biblíunni. (Sjá 10. grein.)

10. Hvers vegna er svona mikilvægt að lesa í Biblíunni og hugleiða það sem við lesum, samanber Hebreabréfið 4:12?

10 Biblían veitir styrk. Við getum sótt styrk og hughreystingu í Ritningarnar rétt eins og Páll. (Rómv. 15:4) Þegar við lesum orð Guðs og hugleiðum það sem við lesum getur Jehóva beitt anda sínum til að hjálpa okkur að skilja betur hvernig Ritningarnar eiga við okkar aðstæður. (Lestu Hebreabréfið 4:12.) Ronald, sem áður er getið, segir: „Ég er þakklátur fyrir að hafa vanið mig á að lesa í Biblíunni á hverju kvöldi. Ég hugleiði vandlega eiginleika Jehóva og kærleika hans í samskiptum við þjóna sína. Þetta hjálpar mér að endurheimta styrk.“

11. Hvernig gaf Biblían syrgjandi systur styrk?

11 Við getum tileinkað okkur rétt viðhorf til aðstæðna okkar með því að hugleiða orð Guðs. Skoðum hvernig Biblían kom syrgjandi ekkju að gagni. Öldungur nefndi við hana að það gæti verið gagnlegt fyrir hana að lesa Jobsbók. Þegar hún gerði það voru hennar fyrstu viðbrögð að gagnrýna Job fyrir að hugsa ekki rétt. „Job, vertu ekki svona neikvæður,“ hugsaði hún með sér. En svo áttaði hún sig á því að hennar eigið viðhorf hafði verið svipað og hjá Job. Það hjálpaði henni að leiðrétta viðhorf sitt og gaf henni styrk til að takast á við sársaukann sem fylgdi því að missa eiginmann sinn.

Jehóva gefur okkur styrk með félagsskap við trúsystkini. (Sjá 12. grein.)

12. Hvernig styrkir Jehóva okkur fyrir atbeina trúsystkina okkar?

12 Félagsskapur við trúsystkini veitir styrk. Jehóva styrkir líka þjóna sína fyrir atbeina bræðra og systra. Páll skrifaði að hann þráði að hann og trúsystkini hans ,gætu uppörvað hvert annað‘. (Rómv. 1:11, 12) Mary, sem áður er vitnað í, finnst mjög dýrmætt að vera með bræðrum og systrum. Hún segir: „Jehóva beindi til mín bræðrum og systrum sem vissu ekki einu sinni hvaða vandamál ég var að glíma við. Þau sögðu eitthvað uppörvandi eða sendu mér skilaboð sem reyndust vera nákvæmlega það sem ég þurfti. Það hefur líka hjálpað mér að tala við aðrar systur sem hafa glímt við sams konar erfiðleika og læra af reynslu þeirra. Og öldungarnir láta mig alltaf finna að ég sé dýrmæt í söfnuðinum.“

13. Hvernig getum við uppörvað hvert annað á safnaðarsamkomum?

13 Á safnaðarsamkomum gefst okkur eitt besta tækifærið til að hvetja hvert annað. Hvernig væri að taka frumkvæðið þegar þú ert á samkomu í að styrkja trúsystkini þín með því að tjá einlæglega að þú kunnir innilega að meta þau og það sem þau leggja á sig? Öldungur að nafni Peter sagði til dæmis eitt sinn við systur, en maki hennar er ekki í trúnni: „Þú getur ekki gert þér í hugarlund hversu uppörvandi það er að sjá þig hérna. Þú sérð alltaf til þess að börnin þín sex séu tilbúin fyrir samkomur og þú sjálf tilbúin að svara á samkomum.“ Hún táraðist af þakklæti og svaraði: „Þú getur ekki ímyndað þér hversu mikið ég þurfti á þessu að halda núna.“

Jehóva gefur okkur styrk með boðuninni. (Sjá 14. grein.)

14. Hvaða áhrif hefur það á okkur að taka þátt í boðuninni?

14 Boðunin veitir styrk. Þegar við segjum öðrum frá sannindum Biblíunnar endurnærumst við og fáum nýjan kraft, hvort sem viðbrögð þeirra eru jákvæð eða ekki. (Orðskv. 11:25) Systir sem heitir Stacy komst að því hvað boðunin gefur mikinn kraft. Hún var mjög döpur þegar ættingja hennar var vikið úr söfnuðinum og velti því stöðugt fyrir sér hvort hún hefði getað gert meira til að hjálpa. Hún gat varla hugsað um neitt annað. Hvað hjálpaði henni að takast á við þessar erfiðu aðstæður? Boðunin. Þegar hún tók þátt í boðuninni beindi hún athygli að fólki á svæðinu sem þurfti á hjálp að halda. Hún segir: „Einmitt þá treysti Jehóva mér fyrir biblíunemanda sem tók hröðum framförum. Það var mjög uppörvandi. Ekkert hefur hjálpað mér eins mikið og boðunin.“

15. Hvað geturðu lært af því sem Mary segir?

15 Sumum gæti fundist þeir ekki geta gert mikið í boðuninni vegna kringumstæðna sinna. Ef þér líður þannig, mundu þá að Jehóva er ánægður ef þú gerir þitt besta. Mary, sem minnst var á áður, fannst hún ekki koma að miklu gagni þegar hún flutti á svæði þar sem fólk talar annað tungumál. Hún segir: „Framan af gat ég lítið meira í boðuninni en að segja eitthvað stutt og einfalt, lesa biblíuvers eða gefa smárit.“ Henni fannst hún ekki standa sig nógu vel í samanburði við fólk sem talaði málið reiprennandi. En hún leiðrétti hugarfar sitt. Hún fór að átta sig á því að Jehóva gat notað hana þrátt fyrir takmörk hennar. Hún segir: „Það sem Biblían kennir er dásamlega einfalt og sannleikur hennar getur breytt lífi fólks.“

16. Hvað getur styrkt þá sem eiga ekki heimangengt?

16 Jehóva sér og kann að meta löngun okkar til að taka þátt í boðuninni jafnvel þótt við eigum ekki heimangengt. Hann getur opnað okkur leið til að boða trúna þeim sem annast okkur eða heilbrigðisstarfsfólki. Ef við miðum það sem við getum gert núna við það sem við gátum gert áður gætum við orðið niðurdregin. En ef við komum auga á hvernig Jehóva hjálpar okkur núna fáum við styrk til að þola alla erfiðleika með gleði.

17. Hvers vegna ættum við samkvæmt Prédikaranum 11:6 að halda áfram að boða trúna jafnvel þótt við sjáum ekki strax árangur?

17 Við vitum ekki hvaða fræ sannleikans sem við gróðursetjum skjóta rótum og byrja að vaxa. (Lestu Prédikarann 11:6.) Barbara er á níræðisaldri. Hún boðar trúna reglulega í síma og með því að skrifa bréf. Með einu bréfinu sendi hún Varðturninn 1. maí 2014 með greininni „Það sem Guð hefur gert fyrir þig“. Óafvitandi hafði hún sent bréfið til hjóna sem voru ekki lengur vottar Jehóva. Þau lásu blaðið aftur og aftur. Manninum fannst eins og Jehóva væri að tala beint til sín. Hjónin byrjuðu að sækja samkomur og urðu að lokum virkir vottar á ný, eftir meira en 27 ár. Við getum rétt ímyndað okkur hversu uppörvandi og styrkjandi það hefur verið fyrir Barböru að sjá svona góðan árangur af einu bréfi.

Jehóva gefur okkur styrk með (1) bæninni, (2) Biblíunni, (3) félagsskap við trúsystkini og (4) boðuninni. (Sjá 9., 10., 12. og 14. grein.)

18. Hvað þurfum við að gera til að fá styrk frá Guði?

18 Jehóva hefur séð okkur fyrir nægum möguleikum til að þiggja ríkulegan kraft. Hann hefur meðal annars gefið okkur bænina, Biblíuna, kristinn félagsskap og boðunina. Þegar við nýtum okkur þessar ráðstafanir sýnum við að við treystum á getu Jehóva og löngun til að hjálpa okkur. Reiðum okkur alltaf á himneskan föður okkar sem hefur yndi af því að ,koma þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann‘. – 2. Kron. 16:9.

SÖNGUR 61 Áfram, vottar Guðs

^ gr. 5 Við lifum á erfiðum tímum en Jehóva sér okkur fyrir þeirri hjálp sem við þurfum til að takast á við þá. Í þessari grein skoðum við hvernig Jehóva hjálpaði Páli postula og Tímóteusi að halda áfram að þjóna sér þrátt fyrir vandamál þeirra. Við ræðum fernt sem Jehóva hefur gert til að hjálpa okkur að halda áfram að þjóna sér.

^ gr. 2 Nafninu hefur verið breytt.

^ gr. 53 MYND: Meðan Páll er í stofufangelsi í Róm skrifar hann bréf til margra safnaða og talar við þá sem koma til hans um fagnaðarboðskapinn.

^ gr. 55 MYND: Tímóteus uppörvar trúsystkinin þegar hann heimsækir söfnuðina.