NÁMSGREIN 23
Foreldrar, hjálpið börnunum ykkar að elska Jehóva
„Þú skalt elska Jehóva Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál þinni og öllum huga þínum.“ – MATT. 22:37.
SÖNGUR 134 Ykkur er trúað fyrir börnunum
YFIRLIT *
1, 2. Útskýrðu hvernig meginreglur Biblíunnar geta öðlast nýtt gildi þegar aðstæður breytast.
GLÆSILEG brúðhjón hlusta vandlega á brúðkaupsræðuna sína. Umræðuefnið er ekki nýtt fyrir þeim. En frá og með þessum degi öðlast ráð handa hjónum nýtt gildi því að nú þurfa þau á þeim að halda sjálf.
2 Það er svipað þegar hjón verða foreldrar. Þau hafa kannski hlustað á fjölmargar ræður um barnauppeldi en nú fá þessar meginreglur nýja merkingu fyrir þau vegna þess að nú eru þau foreldrar. Þegar aðstæður breytast skoðum við gjarnan meginreglur sem við þekkjum í nýju ljósi. Það er mikil ábyrgð að eignast barn. Þetta er ein ástæðan fyrir því að tilbiðjendur Jehóva lesa reglulega í Biblíunni og hugleiða efni hennar, rétt eins og konungar Ísraels en þeir áttu að lesa í orði Guðs „alla ævidaga sína“. – 5. Mós. 17:19.
3. Hvað ræðum við í þessari grein?
3 Þið foreldrar hafið fengið eitt mikilvægasta verkefni sem þjónar Guðs geta fengið, að ala upp barn. En það felst meira í því en að fræða það um Jehóva. Það felur líka í sér að hjálpa barninu að elska Jehóva. Hvað getur hjálpað foreldrum til þess? Í þessari námsgrein fjöllum við um fjórar meginreglur sem hjálpa foreldrum að gera það. (2. Tím. 3:16) Við skoðum líka hvernig nokkrir foreldrar hafa farið eftir þessum meginreglum með góðum árangri.
FJÓRAR MEGINREGLUR SEM GETA HJÁLPAÐ FORELDRUM
4. Nefndu eina meginreglu sem nýtist foreldrum til að hjálpa börnum sínum að elska Jehóva. (Jakobsbréfið 1:5)
4 Meginregla 1: Leitið leiðsagnar Jehóva. Biðjið Jehóva um visku til að hjálpa börnunum að elska hann. (Lestu Jakobsbréfið 1:5.) Enginn er jafn hæfur og hann til að gefa ráð um þetta. Það eru margar ástæður fyrir því. Nefnum tvær þeirra. Í fyrsta lagi hefur enginn jafn mikla reynslu sem foreldri og hann. (Sálm. 36:10) Og í öðru lagi skila ráð hans alltaf góðum árangri. – Jes. 48:17.
5. (a) Hverju sér söfnuður Jehóva foreldrum fyrir? (b) Hvað lærðirðu af því hvernig Abilio og Ulla Amorim ólu upp börnin sín, eins og kemur fram í myndbandinu?
5 Foreldrar fá fjölmargar góðar leiðbeiningar í Biblíunni og fyrir milligöngu safnaðarins til að sinna þessu verkefni. (Matt. 24:45) Í gegnum árin hafa birst leiðbeiningar í greinaröðinni „Góð ráð handa fjölskyldunni“ í tímaritinu Vaknið! Þær má nú finna á vefsetri okkar jw.org. Þar er líka að finna mörg myndbönd með viðtölum, teiknimyndum og leiknu efni sem geta hjálpað foreldrum að fylgja leiðbeiningum Jehóva þegar þeir ala upp börnin sín. * – Orðskv. 2:4–6.
6. Hvað finnst föður einum um leiðbeiningarnar sem þau hjónin fá frá söfnuði Jehóva?
6 Margir foreldrar hafa tjáð þakklæti fyrir þá hjálp sem Jehóva veitir fyrir milligöngu safnaðarins. Joe er þriggja barna faðir. Hann viðurkennir: „Það er ekki auðvelt að ala upp þrjú börn. Við hjónin leitum oft til Jehóva í bæn. Og við höfum oft fundið að grein eða myndband var einmitt það sem við þurftum til að hjálpa börnunum okkar. Að leita leiðsagnar Jehóva hefur verið okkur líflína.“ Þetta kennsluefni gagnast Joe og eiginkonu hans mikið þegar þau hjálpa börnunum að mynda samband við Jehóva.
7. Hvers vegna þurfa foreldrar að gera sitt besta til að vera góðar fyrirmyndir? (Rómverjabréfið 2:21)
7 Meginregla 2: Kennið með fordæmi ykkar. Börn eru athugul og líkja oft eftir foreldrum sínum. Auðvitað er ekkert foreldri fullkomið. (Rómv. 3:23) En það er skynsamlegt af foreldrum að gera sitt besta til að setja gott fordæmi. (Lestu Rómverjabréfið 2:21.) Faðir einn segir: „Börn eru eins og svampar og þau drekka allt í sig sem þau sjá. Þau benda á það ef ósamræmi er milli orða og verka foreldranna.“ Ef við viljum að börnin okkar elski Jehóva þarf að vera augljóst að við eigum náið og sterkt samband við hann.
8, 9. Hvað er hægt að læra af því sem Andrew og Emma segja?
8 Foreldrar geta gert margt til að hjálpa börnunum sínum að byggja upp gott samband við Jehóva. Bróðir sem heitir Andrew og er 17 ára segir: „Foreldrar mínir hafa alltaf lagt mikla áherslu á bænina. Pabbi bað alltaf til Jehóva með mér á kvöldin. Hann gerði það líka þótt ég væri búinn að biðja til hans sjálfur. Foreldrar mínir sögðu mér að ég gæti talað eins oft við Jehóva og ég vildi. Þessi áhersla á bænina hafði mikil áhrif á mig og núna á ég auðvelt með að leita til Jehóva og lít á hann sem ástríkan föður.“ Þið foreldrar, vanmetið ekki hvernig kærleikur ykkar til Jehóva getur hjálpað börnunum ykkar að elska hann líka.
9 Skoðum reynslu Emmu. Þegar faðir hennar yfirgaf fjölskylduna skildi hann móður hennar eftir stórskulduga. Emma segir: „Mamma var oft í fjárhagsvandræðum en talaði alltaf um að Jehóva myndi annast þjóna sína. Það var augljóst að hún trúði þessu sjálf. Hún lifði í samræmi við það sem hún kenndi.“ Hver er lærdómurinn? Foreldrar geta verið börnum sínum góðar fyrirmyndir, jafnvel við erfiðar aðstæður. – Gal. 6:9.
10. Hvaða tækifæri höfðu foreldrar í Ísrael til að tala við börnin sín? (5. Mósebók 6:6, 7)
10 Meginregla 3: Talið reglulega við börnin ykkar. Jehóva sagði foreldrum í Ísrael til forna að tala reglulega við börnin um sig. (Lestu 5. Mósebók 6:6, 7.) Foreldrar höfðu mörg tækifæri yfir daginn til að ræða við börnin sín og hjálpa þeim að læra að elska Jehóva. Strákur var kannski með föður sínum þegar hann var að sá eða hirða uppskeru. Systir hans var kannski löngum stundum með móður þeirra þegar hún vann við að sauma eða vefa eða sinnti öðrum húsverkum. Við slíkar aðstæður gáfust mörg tækifæri til að tala um mikilvæg mál. Foreldrarnir gátu til dæmis talað við börnin um eiginleika Jehóva, hversu góður hann væri og annaðist fjölskylduna vel.
11. Hvenær gefst kristnum foreldrum tækifæri til að tala við börnin sín?
11 Það eru breyttir tímar. Víða hafa foreldrar ekki lengur eins mikinn tíma með börnunum sínum. Börnin eru oft í skólanum meðan foreldrarnir eru í vinnunni. Foreldrarnir þurfa þess vegna að finna tíma til þess að tala við börnin sín. (Ef. 5:15, 16; Fil. 1:10) Biblíunámsstund fjölskyldunnar er tækifæri til þess. Ungur bróðir sem heitir Alexander segir: „Pabbi lagði mikla áherslu á biblíunámsstund fjölskyldunnar og lét ekkert koma í veg fyrir að við tækjum okkur tíma fyrir hana. Eftir námsstundina sátum við svo saman og spjölluðum.“
12. Hvað ætti höfuð fjölskyldunnar að hafa í huga í biblíunámsstundinni?
12 Ef þú ert höfuð fjölskyldunnar, hvernig geturðu þá stuðlað að því að biblíunámsstundin verði ánægjuleg fyrir börnin? Einn möguleiki er að nota nýja námsritið Von um bjarta framtíð. Hvettu börnin þín til að tjá sig frjálslega, líka um tilfinningar sínar og áhyggjur. Ekki nota þetta tækifæri til að leiðrétta þau eða skamma. Haltu ró þinni ef þau segja eitthvað sem endurspeglar rangt viðhorf. Þú getur verið ánægður þegar þau tjá tilfinningar sínar einlæglega því að þannig færðu að vita hvernig þau hugsa og getur best hjálpað þeim að styrkja kærleikann til Jehóva.
13. Hvaða önnur tækifæri hafa foreldrar til að hjálpa börnunum sínum að kynnast Jehóva betur?
13 Foreldrar, leitið tækifæra til að hjálpa börnunum ykkar að eignast sterkara samband við Jehóva. Það er ekki bara í biblíunámsstundum sem er hægt að kenna börnunum um kærleiksríkan Guð okkar. Lisa er móðir. Hún segir: „Við hjálpuðum börnunum okkar að tengja sköpunarverkið við Jehóva. Þegar til dæmis hundurinn okkar gerði eitthvað sem krökkunum fannst fyndið bentum við þeim á hvernig þetta sýndi að Jehóva hefur skopskyn og er glaður Guð og að hann vill að við séum glöð líka.“
14. Hvers vegna er mikilvægt að foreldrar hjálpi börnunum sínum að velja sér góða vini? (Orðskviðirnir 13:20)
14 Meginregla 4: Hjálpið börnunum ykkar að eignast góða vini. Orð Guðs bendir á að vinir okkar hafi áhrif á okkur, annaðhvort góð eða slæm. (Lestu Orðskviðina 13:20.) Þekkið þið foreldrar vini barnanna ykkar? Hafið þið hitt þá og gert eitthvað með þeim? Hvernig getið þið hjálpað börnunum ykkar að eignast vini sem elska Jehóva? (1. Kor. 15:33) Þið getið boðið þeim sem eiga sterkt samband við Jehóva að gera eitthvað með ykkur fjölskyldunni. – Sálm. 119:63.
15. Hvað geta foreldrar gert til að hjálpa börnunum sínum að eignast góða vini?
15 Faðir sem heitir Tony segir frá því sem hann og konan hans hafa gert til að hjálpa börnunum sínum að eignast góða vini: „Við hjónin höfum í gegnum árin boðið bræðrum og systrum á mismunandi aldri og af ólíkum uppruna heim til okkar. Við borðum saman og þau eru með okkur í biblíunámsstund fjölskyldunnar. Þetta er frábært tækifæri til að kynnast þeim sem elska Jehóva og þjóna honum með gleði. Það er mjög gaman að fá farandhirða, trúboða og aðra í heimsókn. Reynsla þeirra, áhugi og fórnfýsi hefur haft ótrúlega mikil áhrif á börnin okkar og hjálpað þeim að eignast sterkara samband við Jehóva.“ Foreldrar, verið staðráðnir í að hjálpa börnunum ykkar að eignast góða vini.
GEFIÐ EKKI UPP VONINA
16. Hvað ætti að hafa í huga ef sonur eða dóttir í fjölskyldu segist ekki vilja þjóna Jehóva?
16 En hvað ef eitt barna þinna segist ekki vilja þjóna Jehóva þótt þú hafir gert allt sem í þínu valdi stendur til að hjálpa því? Ekki draga þá ályktun að þú hafir brugðist sem foreldri. Jehóva hefur gefið okkur öllum – þar á meðal barni þínu – frjálsan vilja, möguleikann að velja hvort við þjónum Guði eða ekki. Ef barnið þitt ákveður að yfirgefa Jehóva skaltu ekki gefa upp vonina um að það snúi aftur einn góðan veðurdag. Mundu eftir dæmisögunni um týnda soninn. (Lúk. 15:11–19, 22–24) Ungi maðurinn villtist af leið en sneri að lokum aftur. „Þetta er bara dæmisaga,“ gæti einhver sagt. „Gerist þetta í raunveruleikanum?“ Já, það getur gerst. Og það gerðist í lífi ungs manns sem heitir Elie.
17. Hvaða áhrif hefur saga Elie á þig?
17 Elie segir að foreldrar hans hafi gert sitt besta til að glæða með honum kærleika til Jehóva og orðs hans, Biblíunnar. En hann gerði uppreisn þegar hann var táningur. Elie fór að lifa tvöföldu lífi og hlustaði ekki á foreldra sína þegar þeir reyndu að hjálpa honum að styrkja samband sitt við Jehóva. Eftir að hann fór að heiman gerði hann ýmislegt rangt. En samt talaði hann stundum við einn af vinum sínum um Biblíuna. Hann segir: „Því meira sem ég talaði um Jehóva við vin minn því meira hugsaði ég um Jehóva. Hægt en örugglega fóru fræ sannleikans sem höfðu legið í dvala í hjarta mínu að vaxa, fræ sem foreldrar mínir höfðu haft mikið fyrir að sá.“ Með tímanum kom Elie aftur til safnaðarins. * Við getum rétt ímyndað okkur hve glaðir foreldrar hans voru að þeir skyldu hafa reynt að kenna honum frá unga aldri að elska Jehóva. – 2. Tím. 3:14, 15.
18. Hvað finnst þér um foreldra sem leggja hart að sér til að kenna börnunum sínum að elska Jehóva?
18 Foreldrar, Jehóva hefur gefið ykkur dásamlega gjöf, að ala upp nýja kynslóð tilbiðjenda sinna. (Sálm. 78:4–6) Þetta er ekki lítið mál. Þið eigið hrós skilið fyrir óþreytandi viðleitni til að hjálpa börnunum ykkar. Ef þið haldið áfram að gera ykkar besta til að hjálpa þeim að elska Jehóva og kennið þeim að hlýða honum getið þið verið viss um að það gleður kærleiksríkan föður okkar á himnum. – Ef. 6:4.
SÖNGUR 135 Jehóva hvetur: „Vertu vitur, sonur minn“
^ Kristnir foreldrar elska börnin sín innilega. Þeir leggja hart að sér til að annast líkamlegar og tilfinningalegar þarfir þeirra. En það sem meira máli skiptir er að þeir gera sitt besta til að hjálpa börnunum sínum að elska Jehóva. Í þessari námsgrein verður fjallað um fjórar meginreglur Biblíunnar sem geta hjálpað foreldrum að gera það.
^ Sjá myndbandið Jehóva kenndi okkur að ala upp börnin á jw.org.
^ Sjá greinina „Biblían breytir lífi fólks“ í Varðturninum 1. apríl 2012.
^ MYND: Faðir vill kynnast vinum sonar síns og spilar körfubolta með syni sínum og einum vina hans.