Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 21

Hvað segir Opinberunarbókin um framtíð þína?

Hvað segir Opinberunarbókin um framtíð þína?

„Amen! Komdu, Drottinn Jesús.“ – OPINB. 22:20.

SÖNGUR 142 Höldum fast í vonina

YFIRLIT *

1. Hvaða mikilvægu ákvörðun þurfa allir að taka?

 FÓLK nú á dögum stendur frammi fyrir mikilvægri ákvörðun. Ætlar það að styðja Jehóva Guð sem réttmætan stjórnanda alheimsins eða grimman óvin hans, Satan Djöfulinn? Það er bara um tvo kosti að velja. Hvaða ákvörðun sem fólk tekur hefur hún áhrif á eilífa framtíð þess. (Matt. 25:31–33, 46) Í „þrengingunni miklu“ er það annaðhvort með merki til björgunar eða eyðingar. – Opinb. 7:14; 14:9–11; Esek. 9:4, 6.

2. (a) Hvað hvetur Hebreabréfið 10:35–39 okkur til að gera? (b) Hvernig getur Opinberunarbókin hjálpað okkur?

2 Lestu Hebreabréfið 10:35–39. Ef þú hefur kosið að styðja stjórn Jehóva hefurðu tekið viturlega ákvörðun. Núna viltu hjálpa öðrum að velja rétt. Þú getur notað Opinberunarbókina til að hjálpa þeim. Þessi stórmerkilega bók segir okkur hvað verður um þá sem standa á móti Jehóva en líka hvaða blessun bíður þeirra sem styðja stjórn hans dyggilega. Við ættum að hugleiða þessi mikilvægu sannindi. Það mun styrkja ásetning okkar að halda áfram að þjóna Jehóva. Auk þess getum við notað það sem við lærum til að hjálpa öðrum að taka rétta ákvörðun og halda fast við hana.

3. Hvað er fjallað um í þessari námsgrein?

3 Í þessari grein skoðum við eftirfarandi spurningar: Hvað mun þeim hlotnast sem styðja stjórn Guðs? Hvað verður um þá sem kjósa að styðja skarlatsrauða villidýrið sem Opinberunarbókin lýsir?

HVERNIG FARNAST ÞEIM SEM ERU TRÚFASTIR?

4. Hvaða hóp sér Jóhannes postuli með Jesú á himnum?

4 Jóhannes postuli sér í sýn tvo hópa sem styðja stjórn Jehóva og eiga eilíft líf í vændum. Í fyrri hópnum eru 144.000 einstaklingar. (Opinb. 7:4) Þeir eru teknir frá jörðinni til að vera í ríkisstjórn með Jesú á himnum. Þeir munu ríkja ásamt honum yfir jörðinni. (Opinb. 5:9, 10; 14:3, 4) Jóhannes sér þá í sýn standa með Jesú á himnesku Síonarfjalli. – Opinb. 14:1.

5. Hvað gerist fljótlega hjá þeim sem eftir eru af hinum 144.000?

5 Í gegnum aldirnar hefur þúsundum einstaklinga verið safnað saman í hóp þessara 144.000. (Lúk. 12:32; Rómv. 8:17) Jóhannesi var hins vegar sagt að aðeins fáir þeirra yrðu lifandi á jörðinni á síðustu dögum. Þeir fá lokainnsigli til merkis um velþóknun Jehóva áður en þrengingin mikla brestur á. (Opinb. 7:2, 3; 12:17) Einhvern tíma í þrengingunni miklu verða þeir teknir til himna til að vera með þeim af hinum 144.000 sem hafa þegar dáið trúfastir. Þar verða þeir meðstjórnendur Jesú í Guðsríki. – Matt. 24:31; Opinb. 5:9, 10.

6, 7. (a) Hvaða hóp sér Jóhannes næst og hvað fáum við að vita um hann? (b) Hvers vegna ættu bæði hinir andasmurðu og ,mikli múgurinn‘ að hafa áhuga á því sem kemur fram i 7. kafla Opinberunarbókarinnar?

6 Eftir að hafa séð hópinn sem fer til himna sér Jóhannes „mikinn múg“. Ólíkt hinum 144.000 er ekki sagt hversu margir tilheyra þessum hópi. (Opinb. 7:9, 10) Hvað fáum við að vita um þá? Jóhannesi er sagt: „Þetta eru þeir sem koma úr þrengingunni miklu og þeir hafa þvegið skikkjur sínar skjannahvítar í blóði lambsins.“ (Opinb. 7:14) Eftir að hafa lifað af þrenginguna miklu mun þessi ,mikli múgur‘ búa á jörðinni og njóta mikillar blessunar. – Sálm. 37:9–11, 27–29; Orðskv. 2:21, 22; Opinb. 7:16, 17.

7 Sjáum við okkur sjálf í aðstæðunum sem er lýst í 7. kafla Opinberunarbókarinnar, hvort sem við höfum verið valin til að fara til himna eða verða áfram á jörðinni? Við ættum að gera það. Þetta verða ótrúlega spennandi tímar fyrir báða þessa hópa þjóna Guðs. Við verðum ákaflega glöð að hafa kosið að styðja stjórn Jehóva. Hvað fleira fáum við að vita í Opinberunarbókinni um þrenginguna miklu? – Matt. 24:21.

HVERNIG FARNAST ÞEIM SEM STANDA Á MÓTI GUÐI?

8. Hvernig hefst þrengingin mikla og hvernig bregðast flestir við?

8 Eins og við fengum að vita í síðustu námsgrein munu stjórnmálaöflin í heiminum innan tíðar ráðast á Babýlon hina miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinb. 17:16, 17) Það markar upphaf þrengingarinnar miklu. Byrja margir að þjóna Jehóva af þeim sökum? Nei. Bent er á í 6. kafla Opinberunarbókarinnar að á þeirri úrslitastund muni þeir sem ekki þjóna Jehóva leita verndar hjá stjórnmála- og viðskiptakerfi heimsins, en þeim er líkt við fjöll. Þeir styðja ekki Guðsríki og Jehóva álítur þá því andstæðinga. – Lúk. 11:23; Opinb. 6:15–17.

9. Hvernig sker fólk Jehóva sig úr í þrengingunni miklu og hvað hefur það í för með sér?

9 Trúfastir þjónar Jehóva munu sannarlega skera sig úr á þessum mjög svo erfiðu tímum. Þeir verða eini hópurinn á jörðinni sem þjónar Jehóva Guði og neitar að styðja ,villidýrið‘. (Opinb. 13:14–17) Þeir halda áfram að þjóna Jehóva trúfastlega og það gerir andstæðinga Jehóva mjög reiða. Það verður til þess að bandalag þjóða ræðst á þjóna Guðs um alla jörðina. Þessari hatursfullu árás er lýst í Biblíunni sem árás Gógs í Magóg. – Esek. 38:14–16.

10. Hvernig bregst Jehóva við þessari árás á þjóna sína, eins og kemur fram í Opinberunarbókinni 19:19–21?

10 Hvernig bregst Jehóva við þessari grimmu árás? Hann segir: „Heiftin mun ólga í mér.“ (Esek. 38:18, 21–23) Í 19. kafla Opinberunarbókarinnar er lýst hvað gerist næst. Jehóva sendir son sinn til að vernda þjóna sína og leggja óvini þeirra að velli. „Hersveitirnar á himni“ – trúfastir englar ásamt hinum 144.000 – verða með honum í þessari gagnárás. (Opinb. 17:14; 19:11–15) Hvernig lýkur þessu stríði? Með tortímingu allra manna og stofnana sem standa gegn Jehóva. – Lestu Opinberunarbókina 19:19–21.

EFTIR STRÍÐIÐ ER HALDIÐ BRÚÐKAUP

11. Hvaða viðburður er hámark Opinberunarbókarinnar?

11 Ímyndum okkur hvernig þeim verður innanbrjósts sem lifa af þegar óvinum Guðs er gereytt. Þá verður fögnuður! En þótt fögnuðurinn verði mikill á himni þegar Babýlon hinni miklu er eytt er annað sem er enn meira gleðiefni. (Opinb. 19:1–3) Það er reyndar hámark Opinberunarbókarinnar – ,brúðkaup lambsins‘. – Opinb. 19:6–9.

12. Hvenær verður brúðkaup lambsins haldið eins og er gefið til kynna í Opinberunarbókinni 21:1, 2?

12 Hvenær verður brúðkaupið haldið? Allir í hópi hinna 144.000 verða komnir til himna rétt áður en Harmagedónstríðið er háð. En brúðkaup lambsins verður ekki haldið þá. (Lestu Opinberunarbókina 21:1, 2.) Brúðkaupið verður haldið eftir Harmagedón þegar öllum óvinum Guðs hefur verið eytt. – Sálm. 45:4, 5, 14–18.

13. Hvaða þýðingu hefur brúðkaup lambsins fyrir þá sem eiga í hlut?

13 Hvaða þýðingu hefur brúðkaup lambsins fyrir þá sem eiga í hlut? Þetta táknræna hjónaband sameinar konunginn, Jesú Krist, og ,brúði‘ hans, hinar 144.000. Þessi mikilvægi viðburður markar upphaf nýrrar stjórnar sem verður við völd í 1.000 ár. – Opinb. 20:6.

DÝRLEG BORG OG FRAMTÍÐ ÞÍN

Opinberunarbókin 21. kafli lýsir táknrænni nýrri Jerúsalem sem ,kemur niður af himni frá Guði‘. Í þúsundáraríkinu færir hún hlýðnu mannkyni óendalega mikla blessun. (Sjá 14–16. greinar)

14, 15. Við hvað er hinum 144.000 líkt í 21. kafla Opinberunarbókarinnar? (Sjá forsíðumynd.)

14 Næst líkir 21. kafli Opinberunarbókarinnar hinum 144.000 við geysilega fallega borg sem er kölluð ,nýja Jerúsalem‘. (Opinb. 21:2, 9) Borgin er byggð á 12 undirstöðusteinum en á þeim standa „12 nöfn hinna 12 postula lambsins“. Hvers vegna vekur það athygli Jóhannesar? Það er vegna þess að hann sér nafnið sitt á einum steinanna. Hvílíkur heiður! – Opinb. 21:10–14; Ef. 2:20.

15 Þessi táknræna borg er engri annarri lík. Aðalgatan er úr skíragulli, 12 hlið hennar úr perlum, múrar og undirstöður eru skreyttar gimsteinum og öll mál hennar eru í fullkomnu jafnvægi. (Opinb. 21:15–21) En eitthvað virðist vanta. Jóhannes segir: „Ég sá ekki musteri í henni því að Jehóva Guð, hinn almáttugi, er musteri hennar og lambið einnig. Borgin þarf hvorki sól né tungl til að fá birtu því að dýrð Guðs lýsir hana upp og lambið er lampi hennar.“ (Opinb. 21:22, 23) Þeir sem mynda nýju Jerúsalem hafa beinan aðgang að Jehóva. (Hebr. 7:27; Opinb. 22:3, 4) Jehóva og Jesús eru því musteri borgarinnar.

Hverjir munu njóta góðs af ráðstöfununum sem eru táknaðar með fljóti og trjám? (Sjá 16. og 17. grein.)

16. Hvað upplifir mannkynið undir þúsund ára stjórn Guðsríkis?

16 Það er spennandi fyrir hina andasmurðu að hugsa um þessa borg. En þeir sem hafa jarðneska von hafa líka ástæðu til að hafa áhuga á henni. Undir þúsund ára stjórn Guðsríkis færir nýja Jerúsalem magnaða blessun. Jóhannes sér þessa blessun flæða eins og „fljót lífsvatnsins“. Beggja vegna fljótsins standa „tré lífsins“ en á þeim eru lauf sem eru „þjóðunum til lækningar“. (Opinb. 22:1, 2) Allir sem þá lifa fá tækifæri til að nýta sér þessar ráðstafanir. Smám saman verður hlýðnu mannkyni lyft upp til fullkomleika. Sjúkdómar, sársauki og sorgartár verða úr sögunni. – Opinb. 21:3–5.

17. Hverjir njóta góðs af þúsund ára stjórn Guðsríkis, eins og kemur fram í Opinberunarbókinni 20:11–13?

17 Hverjir njóta góðs af þessum dásamlegu ráðstöfunum? Fyrst fær mikill múgur fólks sem lifir af Harmagedón tækifæri til þess ásamt börnum sem kunna að fæðast í nýja heiminum. En í 20. kafla Opinberunarbókarinnar er líka lofað að dánir rísi upp til lífs aftur. (Lestu Opinberunarbókina 20:11–13.) ,Réttlátt‘ fólk sem dó trúfast en líka ,ranglátt‘ fólk sem dó en fékk ekki tækifæri til að kynnast Jehóva fær líf sitt aftur hér á jörðinni. (Post. 24:15; Jóh. 5:28, 29) Þýðir það að allir fái upprisu til lífs í þúsundáraríkinu? Nei. Þeir sem af ásettu ráði höfnuðu tækifærinu til að þjóna Jehóva áður en þeir dóu rísa ekki upp til lífs aftur. Þeir fengu tækifæri og sýndu fram á þeir eru ekki verðugir þess að lifa í paradís á jörð. – Matt. 25:46; 2. Þess. 1:9; Opinb. 17:8; 20:15.

LOKAPRÓFIÐ

18. Hvernig verða aðstæður á jörðinni við lok þúsund áranna?

18 Í lok þúsund áranna verða allir á jörðinni orðnir fullkomnir. Syndin sem mannkynið fékk í arf frá Adam hefur ekki lengur áhrif á það. (Rómv. 5:12) Bölvunin sem synd Adams hafði í för með sér hefur þá verið afmáð. Þannig ,lifna þeir við‘ sem búa á jörðinni við lok þúsund áranna og lifa sem fullkomnir karlar og konur. – Opinb. 20:5.

19. Hvers vegna er þörf á lokaprófi?

19 Við vitum að Jesús stóðst tilraunir Satans til að brjóta ráðvendni hans á bak aftur. Hann var trúfastur í prófraunum. En munu fullkomnir menn gera slíkt hið sama þegar Satan fær tækifæri til að reyna þá? Hver og einn þarf að svara þeirri spurningu fyrir sig þegar Satan er leystur úr undirdjúpinu í lok þúsund áranna. (Opinb. 20:7) Þeir sem reynast trúfastir í þessu lokaprófi fá eilíft líf og njóta loksins ósvikins frelsis. (Rómv. 8:21) Þeim sem gera uppreisn gegn Jehóva verður tortímt fyrir fullt og allt ásamt Djöflinum og illum öndum hans. – Opinb. 20:8–10.

20. Hvað finnst þér um þá hrífandi spádóma sem er að finna í Opinberunarbókinni?

20 Hvað finnst þér um þessa stuttu yfirferð yfir Opinberunarbókina? Finnst þér ekki spennandi að sjá sjálfan þig í þessum mögnuðu spádómum? Langar þig ekki til að bjóða öðrum að ganga til liðs við okkur í hreinni tilbeiðslu á Guði okkar? (Opinb. 22:17) Þessir heillandi framtíðarviðburðir snerta huga okkar og hjarta og við finnum okkur knúin til að taka undir með Jóhannesi postula: „Amen! Komdu, Drottinn Jesús.“ – Opinb. 22:20.

SÖNGUR 27 Börn Guðs verða opinber

^ Þetta er síðasta námsgreinin í greinaröðinni um Opinberunarbókina. Hún sýnir hvernig björt framtíð bíður þeirra sem eru Jehóva trúfastir en auðmýkjandi endir bíður þeirra sem standa á móti stjórn hans.