Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 20

Hvað verður um óvini Guðs samkvæmt Opinberunarbókinni?

Hvað verður um óvini Guðs samkvæmt Opinberunarbókinni?

„Þær söfnuðu þeim saman á staðinn sem á hebresku kallast Harmagedón.“ – OPINB. 16:16.

SÖNGUR 150 Leitum hjálpræðis Guðs

YFIRLIT *

1. Hverju segir Opinberunarbókin frá sem snertir þjóna Guðs?

 OPINBERUNARBÓKIN segir frá því að himneskt ríki Guðs hefur verið stofnsett og að Satan hefur verið rekinn frá himnum. (Opinb. 12:1–9) Þessi brottrekstur er léttir fyrir þá sem eru á himnum en skapar vandamál fyrir okkur. Hvers vegna? Vegna þess að reiði Satans beinist að þeim sem þjóna Jehóva af trúfesti hér á jörðinni. – Opinb. 12:12, 15, 17.

2. Hvað hjálpar okkur að vera trúföst?

2 Hvernig getum við staðið trúföst þrátt fyrir árásir Satans? (Opinb. 13:10) Eitt sem getur hjálpað okkur er að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Í Opinberunarbókinni dregur Jóhannes postuli til dæmis upp mynd af þeirri blessun sem við munum njóta bráðlega. Eitt af því sem á eftir að gerast er að óvinum Guðs verður eytt. Skoðum nú hvernig Opinberunarbókin lýsir þessum óvinum og hvað verður um þá.

ÓVINUM GUÐS LÝST „MEÐ TÁKNUM“

3. Nefndu sum táknanna sem Opinberunarbókin segir frá.

3 Strax í fyrsta versi Opinberunarbókarinnar fáum við að vita að það sem við lesum í þessari bók er sett fram „með táknum,“ það er að segja á táknrænan hátt. (Opinb. 1:1) Óvinum Guðs er líka lýst táknrænt. Það koma nokkur villidýr til sögunnar. Eitt villidýrið kemur til dæmis „upp úr hafinu“. Það er með „tíu horn og sjö höfuð“. (Opinb. 13:1) Á eftir því kemur annað villidýr „upp úr jörðinni“. Dýrið talar eins og dreki og lætur „eld koma af himni“. (Opinb. 13:11–13) Þá birtist enn eitt dýrið, ,skarlatsrautt villidýr‘, sem vændiskona situr á. Þessi þrjú villidýr tákna óvini sem hafa barist gegn Jehóva Guði og ríki hans um langan tíma. Það er brýnt að við vitum hverjir þessir óvinir eru. – Opinb. 17:1, 3.

FJÖGUR STÓR DÝR

Þau koma „upp úr hafinu“. (Dan. 7:1–8, 15–17) Þau tákna heimsveldi sem ríktu yfir þjónum Guðs og höfðu mikil áhrif á þá frá því á tímum Daníels. (Sjá 4. og 7. grein.)

4, 5. Hvernig hjálpar það sem segir í Daníel 7:15–17 okkur að skilja hvað þessi tákn þýða?

4 Til að vita hverjir þessir óvinir eru þurfum við að skilja hvað þessi tákn þýða. Besta leiðin til þess er að leyfa Biblíunni að útskýra sig sjálfa. Mörg af táknunum í Opinberunarbókinni eru útskýrð í öðrum biblíubókum. Daníel spámann dreymdi til dæmis draum þar sem „fjögur stór dýr komu upp úr hafinu“. (Dan. 7:1–3) Daníel segir okkur hvað þau tákni. Þau tákna fjögur „konungdæmi“, eða stjórnir. (Lestu Daníel 7:15–17.) Þetta hjálpar okkur að skilja að villidýrin í Opinberunarbókinni hljóta einnig að tákna stjórnmálaöfl.

5 Skoðum nú betur sum táknanna í Opinberunarbókinni. Við eigum eftir að sjá að Biblían hjálpar okkur að skilja hvað þessi tákn þýða. Við byrjum á því að skoða nokkur villidýr. Fyrst athugum við fyrir hvað þau standa. Síðan sjáum við hvað verður um þau. Að lokum skoðum við hvað þetta þýðir fyrir okkur.

KENNSL BORIN Á ÓVINI GUÐS

VILLIDÝR MEÐ SJÖ HÖFUÐ

Það kemur „upp úr hafinu“ og er með sjö höfuð, tíu horn og tíu kórónur. (Opinb. 13:1–4) Það táknar öll stjórnmálaöfl sem hafa ríkt fram á okkar daga. Höfuðin sjö tákna sjö heimsveldi sem hafa haft mikil áhrif á þjóna Guðs. (Sjá 6.–8. grein.)

6. Hvað táknar sjöhöfða villidýrið sem er lýst í Opinberunarbókinni 13:1–4?

6 Hvað táknar villidýrið með sjö höfuð? (Lestu Opinberunarbókina 13:1–4.) Við tökum eftir að dýrið líkist hlébarða en fæturnir eru eins og bjarnarfætur og ginið eins og ljónsgin. Það er líka með tíu horn. Öll þessi einkenni má líka finna á villidýrunum fjórum sem er sagt frá í 7. kafla Daníelsbókar. En í Opinberunarbókinni hefur eitt og sama villidýrið öll einkennin, en ekki fjögur dýr. Þetta villidýr táknar ekki aðeins eina stjórn eða heimsveldi. Sagt er: „Því var gefið vald yfir hverjum ættflokki, kynþætti, tungu og þjóð.“ Það hlýtur því að tákna eitthvað meira en eina staka stjórn. (Opinb. 13:7) Þetta villidýr táknar öll stjórnmálaöflin sem hafa ráðið yfir mannkyninu í gegnum mannkynssöguna. *Préd. 8:9.

7. Hvað táknar hvert af höfðunum sjö á villidýrinu?

7 Hvað tákna höfuðin sjö? Við fáum vísbendingu í 17. kafla Opinberunarbókarinnar. Þar er lýst líkneski af dýrinu sem sagt er frá í 13. kaflanum. Í Opinberunarbókinni 17:10 segir: „Þetta eru sjö konungar: Fimm eru fallnir, einn er uppi núna og annar er enn ekki kominn, en þegar hann kemur á hann að vera um stuttan tíma.“ Sjö „höfuð“ standa upp úr öllum stjórnmálaöflunum sem Satan hefur notað. Þau eru heimsveldi sem hafa haft mikil áhrif á þjóna Guðs. Fimm þeirra höfðu þegar komið fram á sjónarsviðið á dögum Jóhannesar postula: Egyptaland, Assýría, Babýlon, Medía-Persía og Grikkland. Sjötta heimsveldið, Róm, réð enn ríkjum þegar Jóhannes fékk opinberunina. Hvert myndi reynast vera sjöunda og síðasta heimsveldið?

8. Hvað táknar sjöunda höfuðið á villidýrinu?

8 Eins og við munum sjá hjálpa spádómarnir í Daníelsbók okkur að skilja hvað sjöunda og síðasta höfuð dýrsins táknar. Hvaða heimsveldi hefur verið við völd nú á síðustu dögum, á ,Drottins degi‘? (Opinb. 1:10) Það er tvíveldið sem Bretland og Bandaríkin mynda, eða ensk-ameríska heimsveldið. Við getum því dregið þá ályktun að það sé sjöunda höfuðið á villidýrinu í Opinberunarbókinni 13:1–4.

VILLIDÝR MEÐ TVÖ HORN EINS OG LAMB

Það kemur „upp úr jörðinni“ og talar „eins og dreki“. Það lætur „eld koma af himni“ og gerir tákn sem ,falsspámaður‘. (Opinb. 13:11–15; 16:13; 19:20) Villidýrið með tvö horn er einnig nefnt falsspámaður. Það táknar ensk-ameríska heimsveldið, en það afvegaleiðir jarðarbúa og segir þeim að „gera líkneski af villidýrinu“ sem er með sjö höfuð og tíu horn. (Sjá 9. grein.)

9. Hvað táknar villidýrið með „tvö horn eins og lambshorn“?

9 Í 13. kafla Opinberunarbókarinnar segir að sjöunda höfuðið, ensk-ameríska heimsveldið, komi líka fram sem villidýr ,með tvö horn eins og lambshorn en tali eins og dreki‘. Dýrið „gerir mikil tákn og lætur jafnvel eld koma af himni til jarðar fyrir augum mannanna“. (Opinb. 13:11–15) Í 16. og 19. kafla Opinberunarbókarinnar er villidýrinu lýst sem ,falsspámanni‘. (Opinb. 16:13; 19:20) Daníel tók í svipaðan streng þegar hann sagði að ensk-ameríska heimsveldið væri „mikill skaðvaldur“. (Dan. 8:19, 23, 24) Þetta rættist nákvæmlega í síðari heimsstyrjöldinni. Kjarnorkusprengjurnar sem áttu stóran þátt í að gera út um stríðið voru búnar til af breskum og bandarískum vísindamönnum. Þannig lét ensk-ameríska heimsveldið „eld koma af himni til jarðar“.

SKARLATSRAUTT VILLIDÝR

Vændiskona, Babýlon hin mikla, situr á þessu villidýri. Dýrið er sagt vera áttundi konungurinn. (Opinb. 17:3–6, 8, 11) Vændiskonan stjórnar villidýrinu til að byrja með en það tortímir henni síðan. Vændiskonan táknar heimsveldi falskra trúarbragða. Villidýrið táknar nú Sameinuðu þjóðirnar, en þær gæta hagsmuna stjórnmálakerfis heimsins. (Sjá 10. og 14.–17. grein.)

10. Hvað táknar ,líkneskið af dýrinu‘? (Opinberunarbókin 13:14, 15; 17:3, 8, 11)

10 Nú skoðum við enn eitt villidýrið. Það er mjög svipað sjöhöfða villidýrinu, nema það er skarlatsrautt. Það er kallað „líkneskið af villidýrinu“ og sagt vera „áttundi konungurinn“. * (Lestu Opinberunarbókina 13:14, 15; 17:3, 8, 11.) „Konungurinn“ er sagður koma fram, hverfa en koma síðan fram aftur. Þetta lýsir vel Sameinuðu þjóðunum sem gæta hagsmuna pólitískra stjórna heimsins. „Konungurinn“ kom fyrst fram sem Þjóðabandalagið. Hann hvarf af sjónarsviðinu í síðari heimsstyrjöldinni en kom síðar fram aftur í núverandi mynd.

11. Hvaða áróðri beita villidýrin, en hvers vegna höfum við ekkert að óttast?

11 Þessi villidýr, eða ríkisstjórnir, beita áróðri til að vekja andstöðu gegn Jehóva og fólki hans. Þau safna ,konungum allrar heimsbyggðarinnar‘ til stríðsins við Harmagedón „á hinum mikla degi Guðs hins almáttuga“. (Opinb. 16:13, 14, 16) En við höfum ekkert að óttast. Jehóva, okkar mikli Guð, bregst skjótt við til að bjarga þeim sem styðja stjórn hans. – Esek. 38:21–23.

12. Hvað verður um öll villidýrin?

12 Hvað verður um öll villidýrin? Opinberunarbókin 19:20 svarar því: „Villidýrið var gripið ásamt falsspámanninum sem gerði tákn í augsýn þess en með táknunum hafði hann afvegaleitt þá sem höfðu fengið merki villidýrsins og þá sem tilbáðu líkneski þess. Þeim var báðum kastað lifandi í eldhafið sem logar af brennisteini.“ Þessum stjórnmálaöflum verður endanlega tortímt meðan þau eru enn við lýði.

13. Hvaða erfiðleikum valda sumar stjórnir þjónum Guðs?

13 Hvað þýðir þetta fyrir okkur? Við erum þjónar Guðs og verðum að sýna honum og ríki hans hollustu. (Jóh. 18:36) Það útheimtir að við séum hlutlaus og tökum ekki afstöðu í pólitískum málum. Það getur verið mjög erfitt vegna þess að ríkisstjórnir heimsins fara fram á fullan stuðning, bæði í orði og verki. Þeir sem láta undan þessum þrýstingi fá merki villidýrsins. (Opinb. 13:16, 17) En þeir kalla líka yfir sig vanþóknun Jehóva og fara á mis við eilíft líf. (Opinb. 14:9, 10; 20:4) Það er sannarlega mikilvægt að við, hvert og eitt okkar, gætum þess að vera algerlega hlutlaus, óháð því hversu mikið er þrýst á okkur.

SMÁNARLEG ENDALOK VÆNDISKONUNNAR MIKLU

14. Hvaða furðulegu sýn sér Jóhannes postuli næst, eins og kemur fram í Opinberunarbókinni 17:3–5?

14 Jóhannes postuli sér annað sem gerir hann „agndofa af undrun“. Hvað er það? Hann sér konu sitjandi á einu af þessum grimmu dýrum. (Opinb. 17:1, 2, 6) Henni er lýst sem „vændiskonunni miklu“ og hún er kölluð „Babýlon hin mikla“. Hún fremur ,kynferðislegt siðleysi‘ með ,konungum jarðarinnar‘. – Lestu Opinberunarbókina 17:3–5.

15, 16. Hver er „Babýlon hin mikla“ og hvernig vitum við það?

15 Hver er „Babýlon hin mikla“? Þessi kona getur ekki táknað stjórnmálaveldi vegna þess að hún er sögð fremja kynferðislegt siðleysi með stjórnmálaleiðtogum heims. (Opinb. 18:9) Hún reynir reyndar að stjórna þessum leiðtogum, en það sést af því að hún situr á baki villidýrsins. Hún getur ekki heldur táknað gráðug viðskiptaöfl í heimi Satans. Þau eru nefnd „kaupmenn jarðar“ í versum í Opinberunarbókinni sem minnast á vændiskonuna líka. – Opinb. 18:11, 15, 16.

16 Orðið „vændiskona“ getur í Biblíunni vísað til þeirra sem segjast þjóna Guði en stunda hjáguðadýrkun í einhverri mynd eða eru vinir heimsins á annan hátt. (1. Kron. 5:25; Jak. 4:4) Þeir sem þjóna Guði trúfastlega eru aftur á móti sagðir vera ,hreinir‘ eða „eins og meyjar“. (2. Kor. 11:2; Opinb. 14:4) Babýlon til forna var miðstöð falskrar tilbeiðslu. Babýlon hin mikla hlýtur því að tákna falska tilbeiðslu í öllum sínum myndum. Hún er reyndar heimsveldi falskra trúarbragða. – Opinb. 17:5, 18. Sjá viðaukann „Hvað er ,Babýlon hin mikla‘?“ í bókinni „Hvað kennir Biblían“, bls. 219–220.

17. Hvað verður um Babýlon hina miklu?

17 Hvað verður um Babýlon hina miklu? Opinberunarbókin 17:16, 17 svarar spurningunni á eftirfarandi hátt: „Hornin tíu sem þú sást og villidýrið munu hata vændiskonuna, ræna hana öllu og skilja hana eftir nakta. Þau munu éta hold hennar og brenna hana í eldi því að Guð hefur lagt þeim í brjóst að gera það sem hann hefur áformað.“ Jehóva knýr þjóðirnar til að nota skarlatsrauða villidýrið, það er að segja Sameinuðu þjóðirnar, til að ráðast á heimsveldi falskra trúarbragða og tortíma því fyrir fullt og allt. – Opinb. 18:21–24.

18. Hvernig getum við fullvissað okkur um að við tengjumst ekki Babýlon hinni miklu á nokkurn hátt?

18 Hvað þýðir þetta fyrir okkur? Við þurfum að halda okkur við þá tilbeiðslu „sem er hrein og óspillt frá sjónarhóli Guðs“. (Jak. 1:27) Við megum ekki láta smitast af falskenningum, heiðnum hátíðum, lágu siðferði og dulspeki Babýlonar hinnar miklu. Og við verðum að halda áfram að segja fólki að ,forða sér úr borginni‘ til að komast hjá því að vera samsekt henni frammi fyrir Guði. – Opinb. 18:4.

DÓMURINN YFIR MESTA ÓVINI GUÐS

ELDRAUÐI DREKINN

Satan gefur villidýrinu vald. (Opinb. 12:3, 9, 13; 13:4; 20:2, 10) Satan er mesti óvinur Jehóva. Hann verður fjötraður í undirdjúpi í 1.000 ár. Eftir það verður honum kastað í „haf elds og brennisteins“. (Sjá 19. og 20. grein.)

19. Hver er ,stóri eldrauði drekinn‘?

19 Opinberunarbókin lýsir líka ,stórum eldrauðum dreka‘. (Opinb. 12:3) Hann berst gegn Jesú og englum hans. (Opinb. 12:7–9) Hann ræðst á fólk Guðs og gefur villidýrunum, eða stjórnum manna, vald þeirra. (Opinb. 12:17; 13:4) Hver er þessi dreki? Hann er ,hinn upphaflegi höggormur sem er kallaður Djöfull og Satan‘. (Opinb. 12:9; 20:2) Hann veitir öllum öðrum óvinum Jehóva stuðning sinn.

20. Hvað verður um drekann?

20 Hvað verður um drekann? Í Opinberunarbókinni 20:1–3 kemur fram að engill mun kasta Satan í undirdjúpið. Það táknar að hann verður fangelsaður. Meðan hann er í undirdjúpinu getur hann ,ekki afvegaleitt þjóðirnar lengur, ekki fyrr en 1.000 árin eru liðin‘. Satan og illum öndum hans verður að lokum tortímt fyrir fullt og allt, en það má sjá af því að þeim er „kastað í haf elds og brennisteins“. (Opinb. 20:10) Ímyndum okkur heim án Satans og illra anda hans. Það verða dásamlegir tímar!

21. Hvers vegna getum við verið hamingjusöm vegna þess sem við höfum lesið í Opinberunarbókinni?

21 Það er mjög hvetjandi að skilja hvað táknin í Opinberunarbókinni þýða. Við höfum borið kennsl á óvini Jehóva og séð hvað verður um þá. Já, „sá sem les upp þessi spádómsorð er hamingjusamur og sömuleiðis þeir sem heyra þau“. (Opinb. 1:3) En hvaða blessun mun hlýðið mannkyn njóta þegar búið er að fjarlægja óvini Guðs? Við skoðum það í síðustu námsgreininni í þessari greinaröð.

SÖNGUR 23 Jehóva tekur völd

^ Opinberunarbókin notar tákn til að sýna hverjir óvinir Guðs eru. Daníelsbók hjálpar okkur að skilja hvað þessi tákn merkja. Í þessari námsgrein berum við saman suma af spádómum Daníels við álíka spádóma í Opinberunarbókinni. Það hjálpar okkur að bera kennsl á óvini Guðs. Síðan ræðum við hvað verður um þá.

^ Önnur vísbending um að sjöhöfða villidýrið tákni öll stjórnmálaöflin er að það hefur „tíu horn“. Talan tíu er oft notuð í Biblíunni til að tákna heild.

^ Ólíkt fyrsta villidýrinu hefur líkneskið ekki kórónur á hornunum. (Opinb. 13:1) Það er vegna þess að það „kemur af hinum sjö“ konungunum og fær vald sitt frá þeim. – Sjá vefgreinina „Hvað táknar skarlatsrauða dýrið í 17. kafla Opinberunarbókarinnar?“ á jw.org.