Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 19

Hvaða þýðingu hefur Opinberunarbókin fyrir þig?

Hvaða þýðingu hefur Opinberunarbókin fyrir þig?

„Sá sem les upp þessi spádómsorð er hamingjusamur.“ – OPINB. 1:3.

SÖNGUR 15 Fögnum frumburði Jehóva

YFIRLIT *

1, 2. Nefndu eina ástæðu fyrir því að við ættum að hafa áhuga á Opinberunarbókinni.

 HEFUR þér einhvern tíma verið boðið að skoða myndaalbúm hjá einhverjum? Þegar þú skoðar myndirnar sérðu margt fólk sem þú þekkir ekki en ein myndin er kunnugleg. Hvers vegna? Vegna þess að þú ert á myndinni. Þú reynir að muna hvenær myndin var tekin og hvar. Þú reynir líka að bera kennsl á alla á myndinni. Þessi mynd hefur ákveðna merkingu fyrir þig.

2 Opinberunarbókin er eins og þessi ljósmynd. Hvernig þá? Það eru að minnsta kosti tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi var þessi biblíubók skrifuð fyrir okkur. Strax í fyrsta versinu lesum við: „Opinberun Jesú Krists sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem á að gerast bráðlega.“ (Opinb. 1:1) Það sem stendur í bókinni er ekki skrifað fyrir fólk almennt heldur okkur, þjóna Guðs. Það ætti ekki að koma okkur þjónum Guðs á óvart að við eigum þátt í að uppfylla spádóma sem er að finna í þessari heillandi bók. Það má segja að við séum á þessari „mynd“.

3, 4. Hvenær myndu spádómar Opinberunarbókarinnar rætast samkvæmt því sem hún segir og hvaða áhrif ætti það að hafa á hvert og eitt okkar?

3 Önnur ástæða varðar það hvenær þessir spádómar áttu að rætast. Hinn aldraði postuli Jóhannes benti á þennan tíma þegar hann sagði: „Með innblæstri var ég fluttur fram á Drottins dag.“ (Opinb. 1:10) Þegar Jóhannes skrifaði þessi orð um árið 96 var enn þá langt í „Drottins dag“. (Matt. 25:14, 19; Lúk. 19:12) Samkvæmt biblíuspádómunum hófst þessi dagur árið 1914 þegar Jesús varð konungur á himnum. Frá og með því ári byrjuðu spádómarnir sem snerta þjóna Guðs að rætast. Já, við lifum á ,Drottins degi‘.

4 Við lifum á spennandi tímum og þurfum því að gefa kærleiksríkum leiðbeiningum í Opinberunarbókinni 1:3 sérstakan gaum. Þar segir: „Sá sem les upp þessi spádómsorð er hamingjusamur og sömuleiðis þeir sem heyra þau og fara eftir því sem er skrifað í spádóminum því að hinn tilsetti tími er í nánd.“ Við þurfum sannarlega að lesa, heyra og fara eftir þessum spádómsorðum. Hvað er sumt af því sem við þurfum að fara eftir?

FULLVISSUM OKKUR UM AÐ TILBEIÐSLA OKKAR SÉ JEHÓVA ÞÓKNANLEG

5. Hvernig undirstrikar Opinberunarbókin að við þurfum að ganga úr skugga um að tilbeiðsla okkar sé Jehóva þóknanleg?

5 Við sjáum alveg frá byrjun Opinberunarbókarinnar að Jesú er fullkunnugt um það sem á sér stað í söfnuðum þjóna sinna. (Opinb. 1:12–16, 20; 2:1) Þetta sést vel á því sem hann lét skrifa til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu. Hann gaf þjónum Guðs á fyrstu öld nákvæmar leiðbeiningar til að tryggja að tilbeiðsla þeirra væri Jehóva þóknanleg. Og þessar leiðbeiningar eiga við alla þjóna Guðs nú á dögum. Hvað segir þetta okkur? Leiðtogi okkar, Jesús Kristur, veit vel hvernig samband okkar við Jehóva er. Við njótum leiðsagnar og verndar Jesú og ekkert fer fram hjá honum. Hann veit hvað við þurfum að gera til að hafa velþóknun Jehóva áfram. Hvaða leiðbeiningar gaf hann sem við þurfum að fara eftir?

6. (a) Hvaða vandamál benti Jesús á í boðskap sínum til safnaðarins í Efesus samkvæmt Opinberunarbókinni 2:3, 4? (b) Hvað lærum við af þessu?

6 Lestu Opinberunarbókina 2:3, 4. Við megum ekki glata kærleikanum sem við höfðum til Jehóva í upphafi. Boðskapur Jesú til þjóna Guðs í söfnuðinum í Efesus sýndi að þeir höfðu verið þolgóðir og haldið áfram að þjóna Jehóva þrátt fyrir ýmsa erfiðleika. En þeir höfðu glatað kærleikanum sem þeir höfðu í upphafi. Þeir þurftu að endurvekja hann, annars væri tilbeiðsla þeirra ekki Jehóva þóknanleg. Við þurfum líka að gera meira en að halda út. Við þurfum að halda út af réttum ástæðum. Guð okkar hefur ekki aðeins áhuga á því hvað við gerum heldur líka hvers vegna við gerum það. Hvatir okkar skipta hann máli vegna þess að hann væntir þess að tilbeiðsla okkar byggist á innilegum kærleika og þakklæti til hans. – Orðskv. 16:2; Mark. 12:29, 30.

7. (a) Hvert var vandamálið hjá þjónum Guðs í Sardes samkvæmt Opinberunarbókinni 3:1–3? (b) Hvað þurfum við að gera?

7 Lestu Opinberunarbókina 3:1–3. Við þurfum að halda áfram að vera vakandi. Þjónar Guðs í söfnuðinum í Sardes áttu við annað vandamál að glíma. Þeir voru áður virkir í þjónustunni við Guð en voru nú orðnir kærulausir. Jesús sagði þeim þess vegna að vakna. Hvaða viðvörun felst í þessu fyrir okkur? Jehóva gleymir að sjálfsögðu ekki því sem við höfum gert. (Hebr. 6:10) En við getum ekki byggt sambandið við hann eingöngu á því sem við gerðum í þjónustunni áður. Þótt okkur séu fleiri takmörk sett nú en áður þurfum við að vera „önnum kafin í verki Drottins“ og halda okkur vakandi allt til enda. – 1. Kor. 15:58; Matt. 24:13; Mark. 13:33.

8. Hvað lærum við af því sem var sagt við þjóna Guðs í Laódíkeu? (Opinberunarbókin 3:15–17)

8 Lestu Opinberunarbókina 3:15–17. Við þurfum að vera kappsöm og heils hugar í tilbeiðslunni. Jesús benti á annað vandamál í boðskap sínum til þjóna Guðs í Laódíkeu. Þeir voru hálfvolgir í tilbeiðslunni. Vegna sinnuleysis þeirra sagði Jesús þeim að þeir væru ,vesælir og aumkunarverðir‘. Þeir þurftu að glæða brennandi áhuga á Jehóva og tilbeiðslunni á honum. (Opinb. 3:19) Hvað lærum við? Ef kappsemi okkar hefur farið minnkandi þurfum við að styrkja þakklæti okkar fyrir allt það góða sem Jehóva og söfnuður hans hefur gefið okkur. (Opinb. 3:18) Við ættum aldrei að leggja svo mikið upp úr þægilegum lífsstíl að það trufli þjónustuna við Jehóva svo að hún lendi í öðru sæti.

9. Hvaða hættu þurfum við að vara okkur á eins og kemur fram í boðskap Jesú til þjóna Guðs í Pergamos og Þýatíru?

9 Við verðum að hafna kenningum fráhvarfsmanna. Jesús ávítaði suma þjóna Guðs í Pergamos fyrir að valda sundrungu og flokkadráttum. (Opinb. 2:14–16) Hann hrósaði þeim í Þýatíru sem höfðu forðast ,djúp Satans‘ og hvatti þá til að ,halda fast‘ við sannleikann. (Opinb. 2:24–26) Þeir þjónar Guðs sem höfðu veikst í trúnni og látið blekkjast af falskenningum þurftu að iðrast. Hvað með okkur? Við þurfum að hafna öllum hugmyndum sem eru ekki í samræmi við viðhorf Jehóva. Fráhvarfsmenn sýnast kannski guðræknir en verk þeirra sýna annað. (2. Tím. 3:5) Það er auðveldara að koma auga á falskenningar og hafna þeim þegar við erum dugleg að rannsaka orð Guðs. – 2. Tím. 3:14–17; Júd. 3, 4.

10. Hvað fleira getum við lært af því sem Jesús sagði við söfnuðina í Pergamos og Þýatíru?

10 Við megum ekki taka þátt í siðleysi í neinni mynd né láta það viðgangast. Það var enn eitt vandamál í Pergamos og Þýatíru. Jesús fordæmdi suma í þessum söfnuðum fyrir að hafna ekki siðleysi. (Opinb. 2:14, 20) Hvað lærum við? Við getum ekki vænst þess að Jehóva afsaki að við tökum þátt í siðleysi þótt við höfum þjónað honum í mörg ár og höfum ýmis verkefni í söfnuðinum. (1. Sam. 15:22; 1. Pét. 2:16) Hann ætlast til þess að við fylgjum háum siðferðisstaðli sínum óháð því hve mælikvarða heimsins hrakar. – Ef. 6:11–13.

11. Hvað höfum við lært hingað til? (Sjá einnig rammann „ Það sem við getum lært“.)

11 Hvað höfum við lært hingað til? Við höfum séð að við þurfum að ganga úr skugga um að tilbeiðsla okkar sé Jehóva þóknanleg. Ef við erum að gera eitthvað sem hefur þau áhrif að tilbeiðsla okkar er Jehóva ekki þóknanleg þurfum við að gera eitthvað strax til að leiðrétta málið. (Opinb. 2:5, 16; 3:3, 16) En Jesús benti á fleira í boðskap sínum til safnaðanna. Hvað er það?

ÞOLUM OFSÓKNIR FÚSLEGA

Hvernig hefur Satan ráðist á þjóna Guðs eftir að honum var kastað frá himnum? (Sjá 12.–16. grein.)

12. Hvað getum við lært af boðskap Jesú til þjóna Guðs í Smyrnu og Fíladelfíu? (Opinberunarbókin 2:10)

12 Skoðum nú boðskap Jesú til safnaðanna í Smyrnu og Fíladelfíu. Hann sagði þjónum Guðs þar að óttast ekki ofsóknir vegna þess að Jehóva myndi umbuna þeim ef þeir væru trúfastir. (Lestu Opinberunarbókina 2:10; 3:10) Hvað lærum við? Við verðum að gera ráð fyrir ofsóknum og vera fús að þola þær. (Matt. 24:9, 13; 2. Kor. 12:10) Hvers vegna er það mikilvægt?

13, 14. Hvernig hafa atburðirnir sem er lýst í 12. kafla Opinberunarbókarinnar haft áhrif á þjóna Guðs?

13 Opinberunarbókin segir frá því að þjónar Guðs yrðu ofsóttir á okkar dögum – ,á Drottins degi‘. Í 12. kafla er sagt frá því að stríð brytist út á himnum strax eftir að Jesús væri krýndur konungur. Mikael – hinn upprisni Jesús Kristur – og englar hans berjast gegn Satan og illum öndum. (Opinb. 12:7, 8) Óvinir Guðs bíða ósigur og þeim er kastað niður í nágrenni jarðarinnar þar sem þeir valda fólki ómældum þjáningum. (Opinb. 12:9, 12) En hvaða áhrif hefur þetta á þjóna Guðs?

14 Opinberunarbókin greinir því næst frá viðbrögðum Satans. Hann hefur ekki lengur aðgang að himnum þannig að hann beinir reiði sinni að þeim sem eru eftir af andasmurðum þjónum Guðs, en þeir eru jarðneskir fulltrúar Guðsríkis og hafa það verkefni að vitna um Jesú. (Opinb. 12:17; 2. Kor. 5:20; Ef. 6:19, 20) Hvernig hefur þessi spádómur ræst?

15. Hverja tákna ,vottarnir tveir‘ í 11. kafla Opinberunarbókarinnar og hvað henti þá?

15 Satan fékk óvini Guðs til að ráðast á andasmurða bræður sem tóku forystuna í boðun fagnaðarboðskaparins. Þeir sem fóru fremstir meðal þeirra voru hinir táknrænu ,tveir vottar‘ sem talað er um að hafi verið drepnir. * (Opinb. 11:3, 7–11) Árið 1918 voru átta forystumenn safnaðarins dæmdir til langrar fangelsisvistar fyrir rangar sakir. Frá mannlegu sjónarhorni virtist vera gert út af við starf þessara andasmurðu manna.

16. Hvað gerðist öllum að óvörum árið 1919 en hvað heldur Satan áfram að gera fram á þennan dag?

16 Í spádóminum í 11. kafla Opinberunarbókarinnar er líka sagt að ,vottarnir tveir‘ yrðu endurlífgaðir stuttu síðar. Spádómurinn rættist með undraverðum hætti innan við ári eftir að bræðurnir voru fangelsaðir. Snemma árið 1919 voru þessir andasmurðu bræður leystir úr fangelsi og síðar voru ákærurnar dregnar til baka. Bræðurnir sneru strax aftur til starfa – starfa fyrir Guðsríki. En þar með hættu ekki árásir Satans á þjóna Guðs. Síðan þá hefur Satan beitt ,fljóti‘ ofsókna gegn þjónum Guðs. (Opinb. 12:15) Það er óhætt að segja að hér reynir á trú og þolgæði okkar allra. – Opinb. 13:10.

TÖKUM FULLAN ÞÁTT Í VERKINU SEM JEHÓVA HEFUR FALIÐ OKKUR

17. Hvaða óvæntu hjálp hafa þjónar Guðs fengið þótt þeir hafi verið skotmark árása Satans?

17 Í 12. kafla Opinberunarbókarinnar er þessu næst bent á að þjónum Guðs berst hjálp úr óvæntri átt. „Jörðin“ myndi ,svelgja fljót‘ ofsókna. (Opinb. 12:16) Þetta er nákvæmlega það sem gerðist. Stundum hafa stöðugri hlutar heims Satans, eins og sumir dómstólar, komið þjónum Guðs til hjálpar. Þjónar Jehóva hafa aftur og aftur unnið dómsmál sem hafa veitt þeim frelsi að vissu marki. Hvernig hafa þeir nýtt þetta frelsi? Þeir hafa notað öll tækifæri til fulls til að vinna það verk sem Jehóva fól þeim. (1. Kor. 16:9) Hvað felur þetta verk í sér?

Hvaða tvenns konar boðskap flytja þjónar Guðs? (Sjá 18. og 19. grein.)

18. Hvert er meginverkefni okkar á þessum síðustu dögum?

18 Jesús spáði því að þjónar hans myndu flytja fagnaðarboðskap um ríki Guðs um alla jörð áður en endirinn kæmi. (Matt. 24:14) Þegar þeir gerðu það myndu þeir njóta stuðnings engils, eða hóps engla, sem væri „með eilífan fagnaðarboðskap til að boða þeim sem búa á jörðinni, hverri þjóð, ættflokki, tungu og kynþætti“. – Opinb. 14:6.

19. Hvaða annan boðskap þurfa þeir sem elska Jehóva að flytja?

19 Fagnaðarboðskapurinn um ríkið er ekki eini boðskapurinn sem þjónar Guðs verða að flytja. Þeir þurfa einnig að styðja það starf engla sem er lýst í 8.–10. kafla Opinberunarbókarinnar. Þessir englar boða mikla ógæfu fyrir þá sem hafna Guðsríki. Vottar Jehóva hafa því flutt dómsboðskap sem er líkt við hagl og eld og gefur til kynna dóm Guðs yfir mismunandi hlutum hins illa heims Satans. (Opinb. 8:7, 13) Fólk þarf að fá að vita að endirinn er nálægur þannig að það geti gert róttækar breytingar á lífi sínu og lifað af reiðidag Jehóva. (Sef. 2:2, 3) En þetta er ekki vinsæll boðskapur. Við þurfum að vera hugrökk til að flytja hann. Lokadómsboðskapurinn sem við flytjum í þrengingunni miklu verður enn ákveðnari. – Opinb. 16:21.

FÖRUM EFTIR ÞVÍ SEM ER SKRIFAÐ Í SPÁDÓMINUM

20. Hvað skoðum við í næstu tveim námsgreinum?

20 Við þurfum sannarlega að fara eftir því sem er skrifað í spádóminum vegna þess að það sem Opinberunarbókin greinir frá snertir okkur. (Opinb. 1:3) Hvernig getum við verið þolgóð í ofsóknum og gert okkar til að flytja hugrökk þennan boðskap? Tvennt getur gefið okkur styrk: í fyrsta lagi það sem Opinberunarbókin segir um óvini Guðs, og í öðru lagi sú framtíðarblessun sem bíður okkar ef við höldum áfram að vera trúföst. Við skoðum þetta í næstu tveim námsgreinum.

SÖNGUR 32 Fylgdu Jehóva

^ Við lifum á spennandi tímum. Spádómar í Opinberunarbókinni eru að rætast núna. Hvernig snerta þessir spádómar okkur? Í þessari námsgrein og tveim næstu fáum við innsýn í sumt af því sem er að finna í Opinberunarbókinni. Þegar við setjum okkur inn í það sem hún hefur að geyma og förum eftir því getur tilbeiðsla okkar verið Guði þóknanleg.

^ Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 15. nóvember 2014, bls. 30.