Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 22

Viska sem leiðbeinir okkur í lífinu

Viska sem leiðbeinir okkur í lífinu

„Drottinn veitir speki.“ – ORÐSKV. 2:6.

SÖNGUR 89 Hlustið, hlýðið og hljótið blessun

YFIRLIT *

1. Hvers vegna höfum við öll þörf fyrir visku frá Guði? (Orðskviðirnir 4:7)

 ÞÚ HEFUR örugglega einhvern tíma beðið um visku ef þú hefur þurft að taka mikilvæga ákvörðun, og ekki að ástæðulausu. (Jak. 1:5) Salómon konungur skrifaði: „Viska er fyrir öllu.“ (Lestu Orðskviðina 4:7.) Hann var að sjálfsögðu ekki að tala um bara einhverja visku. Hann var að tala um viskuna frá Jehóva Guði. (Orðskv. 2:6) En getur viskan frá Guði hjálpað okkur að takast á við þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir? Já, hún getur það eins og við munum sjá í þessari námsgrein.

2. Hver er ein leið til að afla okkur visku?

2 Ein leið til að afla okkur meiri visku er að skoða og fylgja orðum tveggja manna sem eru almennt virtir fyrir visku sína. Fyrst beinum við athyglinni að Salómon. Biblían segir: „Guð gaf Salómon speki og mikinn skilning.“ (1. Kon. 5:9) Síðan snúum við okkur að því sem Jesús sagði en hann var vitrasti maður sem hefur nokkru sinni lifað. (Matt. 12:42) Um hann var spáð: „Andi Drottins mun hvíla yfir honum: andi speki og skilnings.“ – Jes. 11:2.

3. Um hvað er fjallað í þessari námsgrein?

3 Salómon og Jesús gátu gefið góð ráð í málum sem snerta okkur öll vegna þess að þeir notuðu viskuna sem Guð gaf þeim. Í þessari námsgrein athugum við þrjú þeirra: þörfina á að hafa rétt viðhorf til peninga, atvinnu og sjálfra okkar.

RÉTT VIÐHORF TIL PENINGA

4. Hve ólíkur var efnahagur Salómons og Jesú?

4 Salómon var moldríkur og lifði í munaði. (1. Kon. 10:7, 14, 15) Jesús átti á hinn bóginn fáar eigur og engan fastan samastað. (Matt. 8:20) En báðir höfðu þeir rétt viðhorf til efnislegra hluta vegna þess að viska þeirra beggja kom frá Jehóva Guði.

5. Hvaða rétta viðhorf til peninga hafði Salómon?

5 Salómon viðurkenndi að peningar ,veita forsælu‘. (Préd. 7:12) Með peningum getum við aflað okkur lífsnauðsynja og keypt ýmislegt sem okkur langar í. En þótt Salómon væri svona ríkur skildi hann að sumt væri mikilvægara en peningar. Hann skrifaði til dæmis: „Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður.“ (Orðskv. 22:1) Salómon sá líka að þeir sem elska peninga eru sjaldan ánægðir með það sem þeir hafa. (Préd. 5:9, 11) Og hann varaði við því að setja allt sitt traust á peninga, því að þeir geta skyndilega horfið, hversu mikið sem menn eiga af þeim. – Orðskv. 23:4, 5.

Hindrar viðhorf okkar til efnislegra hluta okkur í að setja hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti í lífi okkar? (Sjá 6. og 7. grein.) *

6. Hvaða rétta viðhorf hafði Jesús til efnislegra hluta?

6 Jesús hafði rétt viðhorf til efnislegra hluta. Hann naut þess að borða og drekka. (Lúk. 19:2, 6, 7) Við eitt tækifæri bjó hann til vín af bestu gæðum. Þetta var fyrsta kraftaverkið sem hann gerði. (Jóh. 2:10, 11) Og daginn sem hann dó var hann í dýrum fötum. (Jóh. 19:23, 24) En Jesús lét ekki efnislega hluti verða það mikilvægasta í lífi sínu. Hann sagði fylgjendum sínum: „Enginn getur þjónað tveim herrum … Þið getið ekki þjónað Guði og auðnum.“ (Matt. 6:24) Hann benti á að ef við einbeitum okkur fyrst og fremst að ríki Guðs muni Jehóva sjá til þess að við höfum það sem við þurfum. – Lestu Matteus 6:31–33.

7. Hvernig var það bróður til góðs að hafa rétt viðhorf til peninga?

7 Mörg trúsystkina okkar hafa notið góðs af því að fara eftir viturlegri leiðsögn Guðs varðandi viðhorf til peninga. Skoðum fordæmi bróður sem heitir Daniel. Hann segir: „Þegar ég var unglingur ákvað ég að það mikilvægasta í mínu lífi væri að þjóna Jehóva.“ Daniel hefur getað tekið þátt í mörgum mismunandi verkefnum í söfnuði Jehóva vegna þess að hann hefur haldið lífi sínu einföldu. Hann bætir við: „Ég get í hreinskilni sagt að ég hef aldrei séð eftir ákvörðuninni sem ég tók. Ég hefði getað grætt fullt af peningum ef ég hefði gert þá að því mikilvægasta í lífinu. En hvernig gætu peningar komið í staðinn fyrir þá vini sem ég hef eignast? Hvernig gætu þeir komið í staðinn fyrir ánægjuna sem fæst þegar ég set Guðsríki í fyrsta sæti? Jehóva hefur veitt mér meiri hamingju en peningar gætu nokkru sinni gert.“ Það gerir okkur augljóslega gott að beina athygli okkar að sambandinu við Jehóva en ekki peningum.

RÉTT VIÐHORF TIL ATVINNU

8. Hvernig vitum við að Salómon hafði rétt viðhorf til vinnu? (Prédikarinn 5:17, 18)

8 Salómon kallaði ánægjuna sem við hljótum af erfiði okkar „Guðs gjöf“. (Lestu Prédikarann 5:17, 18.) Hann skrifaði: „Allt erfiði færir ágóða.“ (Orðskv. 14:23) Salómon vissi hvað hann var að tala um. Hann naut þess að vinna. Hann byggði hús, plantaði víngarða og gerði garða og tjarnir. Hann byggði líka borgir. (1. Kon. 9:19; Préd. 2:4–6) Þetta var mikil vinna og veitti honum vafalaust ákveðna gleði. En Salómon vissi að til að njóta sannrar hamingju þurfti hann að gera eitthvað meira. Hann gerði líka margt fyrir Jehóva. Hann stjórnaði til dæmis byggingu mikilfenglegs musteris fyrir tilbeiðsluna á Jehóva – byggingarverkefni sem tók sjö ár. (1. Kon. 6:38; 9:1) Eftir að hafa tekið þátt í verkefnum af margvíslegu tagi áttaði hann sig á því að það mikilvægasta sem maður getur gert er að þjóna Jehóva. Hann skrifaði: „Við skulum hlýða á niðurstöðu þessa alls: Óttastu Guð og haltu boðorð hans.“ – Préd. 12:13.

9. Hvernig sá Jesús til þess að vinnan tæki ekki of mikið pláss?

9 Jesús var vinnusamur. Þegar hann var ungur vann hann sem smiður. (Mark. 6:3) Foreldrar hans voru vafalaust þakklátir fyrir hjálp hans því að þeir lögðu hart að sér að sjá fyrir þörfum stórrar fjölskyldu. Og þar sem Jesús var fullkominn maður hlýtur hann að hafa verið eftirsóttur smiður. Jesús naut þess líklega mjög að vinna. En þótt hann væri duglegur í vinnu passaði hann alltaf að hafa nægan tíma til að þjóna Jehóva. (Jóh. 7:15) Seinna, þegar hann var í fullu starfi við að boða trúna, ráðlagði hann áheyrendum sínum: „Vinnið ekki fyrir fæðu sem eyðist heldur fyrir þeirri fæðu sem endist og veitir eilíft líf.“ (Jóh. 6:27) Og í fjallræðunni sagði Jesús: „Safnið … fjársjóðum á himni.“ – Matt. 6:20.

Hvernig getum við haft jafnvægi milli atvinnu og þjónustunnar við Jehóva? (Sjá 10. og 11. grein.) *

10. Hvaða vandamál getur komið upp þegar við erum dugleg í vinnunni?

10 Viskan frá Guði hjálpar okkur að hafa rétt viðhorf til vinnu. Sem þjónum Guðs er okkur kennt að ,leggja hart að okkur og vinna heiðarleg störf‘. (Ef. 4:28) Vinnuveitendur taka oft eftir heiðarleika okkar og dugnaði og segja okkur kannski hversu mikils þeir meta vinnu okkar. Þetta gæti orðið til þess að við förum að vinna lengur af því að við viljum að vinnuveitandinn hafi jákvæða mynd af vottum Jehóva. Fljótlega gætum við samt áttað okkur á því að við erum farin að vanrækja fjölskylduna okkar og þjónustuna við Jehóva. Þá þurfum við að gera breytingu – finna jafnvægi.

11. Hvað lærði bróðir einn um að hafa rétt viðhorf til vinnu?

11 William er ungur bróðir sem hefur tekið eftir því hversu mikilvægt er að hafa rétt viðhorf til vinnu. Hann segir um bróður sem hann vann hjá áður: „Hann er hörkuduglegur en lætur vinnuna samt ekki gleypa sig. Hann leggur alltaf hart að sér og viðskiptavinir hans eru hæstánægðir með það sem hann gerir. En í lok vinnudagsins tekur hann vinnuna ekki með sér heim heldur einbeitir sér að fjölskyldu sinni og því að styrkja vináttuna við Guð. Ég þekki fáa sem eru jafn hamingjusamir og hann.“ *

RÉTT VIÐHORF TIL SJÁLFRA OKKAR

12. Hvernig sýndi Salómon að hann sá sjálfan sig í réttu ljósi, en hvernig breyttist það?

12 Þegar Salómon var trúfastur þjónn Jehóva sá hann sjálfan sig í réttu ljósi. Sem ungur maður var hann hógvær, viðurkenndi takmörk sín og bað Jehóva um leiðsögn. (1. Kon. 3:7–9) Snemma í stjórnartíð sinni var Salómon einnig meðvitaður um hve hættulegt það væri að vera hrokafullur. Hann skrifaði: „Dramb er falli næst, hroki veit á hrun.“ (Orðskv. 16:18) Því miður fór Salómon síðar sjálfur ekki eftir eigin ráðum. Þegar leið á stjórnartíð hans varð hann hrokafullur og fór að hunsa fyrirmæli Guðs. Lög Guðs kváðu til dæmis á um að hebreskur konungur ætti ekki að ,taka sér of margar konur svo að hjarta hans viki ekki af réttri leið‘. (5. Mós. 17:17) Salómon hunsaði þetta lagaákvæði og tók sér 700 eiginkonur og 300 hjákonur sem voru margar hverjar heiðnar. (1. Kon. 11:1–3) Kannski hélt Salómon að þetta yrði nú ekkert vandamál fyrir sig. Hvað sem hann hugsaði fékk hann að súpa seyðið af því að óhlýðnast Jehóva. – 1. Kon. 11:9–13.

13. Hvað getum við lært af því að hugleiða hógværð Jesú?

13 Jesús var auðmjúkur og sá sjálfan sig í réttu ljósi. Áður en hann kom til jarðar tók hann þátt í stórkostlegum verkefnum í þjónustu Jehóva. Með hjálp Jesú „var allt annað skapað á himni og jörð“. (Kól. 1:16) Við skírn hans rifjaðist líklega upp fyrir honum hverju hann hafði áorkað með föður sínum. (Matt. 3:16; Jóh. 17:5) En sú vitneskja varð ekki til þess að hann yrði hrokafullur. Þvert á móti upphóf hann sig aldrei yfir aðra. Hann sagði lærisveinum sínum að hann hefði komið til jarðarinnar „ekki til að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt sem lausnargjald fyrir marga“. (Matt. 20:28) Hann viðurkenndi líka hæversklega að hann gæti „ekkert gert að eigin frumkvæði“. (Jóh. 5:19) Jesús sýndi einstaka hógværð. Hann er framúrskarandi fordæmi fyrir okkur.

14. Hvernig getur það sem Jesús sagði hjálpað okkur að sjá okkur sjálf í réttu ljósi?

14 Jesús kenndi fylgjendum sínum að sjá sjálfa sig í réttu ljósi. Hann fullvissaði þá við eitt tækifæri: „Á ykkur eru jafnvel öll höfuðhárin talin.“ (Matt. 10:30) Það er mjög uppörvandi að vita þetta, sérstaklega ef við höfum tilhneigingu til að vera neikvæð í eigin garð. Þetta segir okkur að himneskur faðir okkar hefur einlægan áhuga á okkur – að við erum dýrmæt í hans augum. Við myndum aldrei draga dómgreind Jehóva í efa með því að álíta okkur óverðug að vera tilbiðjendur hans og fá líf í nýjum heimi hans.

Hvað gætum við farið á mis við ef við höfum ekki rétt viðhorf til sjálfra okkar? (Sjá 15. grein.) *

15. (a) Hvað sagði Varðturninn um það hvernig við getum séð okkur sjálf í réttu ljósi? (b) Hvaða blessun förum við á mis við ef við erum of upptekin af sjálfum okkur, eins og myndirnar á bls. 24 sýna?

15 Fyrir 15 árum sagði Varðturninn um það að sjá okkur sjálf í réttu ljósi: „Við viljum auðvitað ekki líta of stórt á okkur og verða montin en okkur langar ekki heldur til að fara í hinar öfgarnar og finnast við einskis virði. Við ættum þess í stað að reyna að hafa heilbrigt sjálfsmat og gera okkur grein fyrir bæði kostum okkar og göllum. Kristin kona komst svo að orði: ,Ég er hvorki persónugervingur illskunnar né gjöf Guðs til annarra. Ég hef bæði góða eiginleika og slæma, rétt eins og allir aðrir.‘“ * Kemurðu auga á hvers vegna það er gott fyrir okkur að sjá okkur sjálf í réttu ljósi?

16. Hvers vegna gefur Jehóva okkur viturlegar leiðbeiningar?

16 Jehóva gefur okkur viturlegar leiðbeiningar í orði sínu. Hann elskar okkur og vill að við séum hamingjusöm. (Jes. 48:17, 18) Það besta sem við getum gert og færir okkur mesta hamingju er að láta vilja Jehóva ganga fyrir í lífi okkar. Þá forðumst við mörg af vandamálunum sem þeir eiga við að etja sem beina athyglinni of mikið að peningum, vinnunni eða sjálfum sér. Verum öll staðráðin í að vera vitur og gleðja hjarta Jehóva. – Orðskv. 23:15.

SÖNGUR 94 Þakklát fyrir orð Guðs

^ Salómon og Jesús bjuggu yfir mikilli visku. Viska þeirra kom frá Jehóva Guði. Í þessari grein skoðum við hvað við getum lært af innblásnum leiðbeiningum Salómons og Jesú um að hafa rétt viðhorf til peninga, atvinnu og til sjálfra okkar. Við skoðum einnig hvernig það hefur gagnast trúsystkinum okkar að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar á þessum sviðum.

^ Sjá greinina „Að hafa ánægju af erfiðisvinnu“ í Varðturninum 1. mars 2015.

^ Sjá greinina „Biblían getur hjálpað þér að finna hamingju“ í Varðturninum 1. september 2005.

^ MYND: John og Tom eru tveir ungir bræður í sama söfnuði. John notar mikinn tíma til að nostra við bílinn sinn. Tom notar bílinn sinn til að aðstoða aðra, taka þátt í boðuninni og fara á safnaðarsamkomur.

^ MYND: John vinnur yfirvinnu. Hann vill ekki valda yfirmanni sínum vonbrigðum. Hvenær sem yfirmaðurinn biður hann um að vinna yfirvinnu samþykkir John það. Þetta sama kvöld fer Tom, sem er safnaðarþjónn, með öldungi í hirðisheimsókn. Áður hafði Tom útskýrt fyrir yfirmanni sínum að hann tekur nokkur kvöld í viku frá fyrir það sem tengist tilbeiðslunni á Jehóva.

^ MYND: John er upptekinn af sjálfum sér. Tom vill setja andleg málefni ofar eigin áhugamálum og víkkar út vinahóp sinn með því að hjálpa til við að viðhalda mótshöllinni.