Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva leiðbeinir þjónum sínum á veginum til lífsins

Jehóva leiðbeinir þjónum sínum á veginum til lífsins

„Þetta er vegurinn, farið hann.“ – JES. 30:21.

SÖNGVAR: 65, 48

1, 2. (a) Hvaða viðvörun hefur bjargað mörgum mannslífum? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvaða leiðbeiningar hafa þjónar Guðs fengið sem geta bjargað lífi þeirra?

„STOPP, TAKIÐ EFTIR, HLUSTIÐ.“ Þessi orð hafa bjargað ótal mannslífum. Fyrir meira en 100 árum síðan voru í Norður-Ameríku sett upp stór skilti með þessum orðum þar sem járnbrautarteinar lágu yfir vegi. Hver var ástæðan? Að farartæki keyrðu ekki yfir teinana einmitt þegar lest ætti leið hjá og yrðu fyrir henni. Já, það hefur bjargað lífi fólks að hlýða þessari viðvörun.

2 Jehóva gerir meira en að setja upp viðvörunarskilti. Það er eins og hann standi fyrir framan þjóna sína, beini þeim í átt að eilífu lífi og haldi þeim frá hættum. Þar að auki er hann eins og kærleiksríkur hirðir sem kallar til sauða sinna, leiðir þá í rétta átt og veitir viðvaranir til að þeir geti varast hættuslóðir. – Lestu Jesaja 30:20, 21.

JEHÓVA HEFUR LENGI LEIÐBEINT ÞJÓNUM SÍNUM

3. Hvernig lenti mannkynið á veginum sem leiðir til dauða?

3 Allt frá upphafi mannkyns hefur Jehóva veitt þjónum sínum nákvæmar leiðbeiningar. Hann gaf til dæmis skýrar leiðbeiningar í Edengarðinum sem gátu veitt mönnunum eilíft líf og hamingju. (1. Mós. 2:15-17) Ef Adam og Eva hefðu fylgt leiðsögn hans hefðu þau ekki þurft að upplifa þær hörmungar sem þau kölluðu yfir sig – líf fullt sársauka sem endaði með dauða án nokkurrar vonar. En í stað þess að hlýða fylgdi Eva ráðum sem virtust koma frá lítilsverðu dýri. Adam hlustaði síðan á Evu, ráð dauðlegrar manneskju. Þau sneru bæði baki við kærleiksríkri leiðsögn föður síns. Þannig komu þau mannkyninu á veg sem leiðir til dauða.

4. (a) Hvers vegna var þörf á nýjum leiðbeiningum eftir flóðið? (b) Hvernig leiddu nýjar aðstæður viðhorf Guðs í ljós?

4 Á tímum Nóa veitti Guð leiðbeiningar sem leiddu til björgunar. Eftir flóðið lagði Jehóva sérstakt bann við notkun blóðs. Af hverju var þörf á því? Aðstæður höfðu breyst. Jehóva ætlaði nú að leyfa fólki að borða kjöt og því var þörf á nýjum leiðbeiningum. Fólkinu var sagt: „Kjöts sem líf er enn í, það er blóðið, skuluð þið ekki neyta.“ (1. Mós. 9:1-4) Nýju aðstæðurnar leiddu skýrt í ljós hvernig Guð hugsar um það sem tilheyrir honum, það er að segja lífið. Hann er skapari okkar og lífgjafi og hefur því réttinn til að setja reglur um lífið. Hann fyrirskipaði til dæmis að mennirnir skyldu ekki taka líf nokkurs manns. Lífið og blóðið er heilagt í augum Guðs og hann lætur hvern þann sem misnotar það svara til saka. – 1. Mós. 9:5, 6.

5. Hvað skoðum við nú og af hverju?

5 Skoðum nokkur dæmi um það hvernig Guð hefur haldið áfram að veita leiðbeiningar í aldanna rás. Þetta yfirlit á eftir að styrkja ásetning okkar að fylgja leiðsögn Jehóva inn í nýja heiminn.

NÝ ÞJÓÐ, NÝJAR LEIÐBEININGAR

6. Hvers vegna þurftu Ísraelsmenn á Móselögunum að halda og hvaða hugarfar þurftu þeir að hafa?

6 Á dögum Móse var þörf á skýrum leiðbeiningum um hegðun og um það hvernig tilbeiðslan ætti að fara fram. Hvers vegna? Aftur höfðu aðstæður breyst. Afkomendur Jakobs bjuggu undir stjórn Egypta í rúmar tvær aldir í landi þar sem allir í kringum þá tilbáðu hina dánu, notuðu skurðgoð og vanvirtu Guð með öðrum kenningum og trúarathöfnum. Þjóð Guðs þurfti á nýjum leiðbeiningum að halda eftir að hún losnaði undan harðstjórn Egypta. Hún var ekki lengur þrælaþjóð heldur frjáls þjóð sem þurfti aðeins að lúta lögum Jehóva. Sum heimildarrit segja að hebreska orðið fyrir „lög“ sé skylt stofnorði sem merkir „leiðbeina, veita leiðsögn, gefa fyrirmæli“. Móselögin voru eins og varnarmúr gegn siðleysi og falstrúariðkunum annarra þjóða. Þegar Ísraelsmenn hlýddu Guði nutu þeir blessunar hans. En þegar þeir hunsuðu hann þurftu þeir að taka skelfilegum afleiðingum þess. – Lestu 5. Mósebók 28:1, 2, 15.

7. (a) Útskýrðu hvers vegna Jehóva gaf þjóð sinni leiðbeiningar. (b) Hvernig var lögmálið eins konar kennari fyrir Ísraelsmenn?

7 Það var einnig önnur ástæða fyrir því að þörf var á leiðbeiningum. Lögmálið bjó Ísraelsmenn undir mikilvægan atburð í fyrirætlun Jehóva, það er að segja komu Messíasar, Jesú Krists. Lögmálið sýndi Ísraelsmönnum skýrt og greinilega að þeir voru ófullkomnir. Það leiddi þeim jafnframt fyrir sjónir að þeir þyrftu á lausnargjaldi að halda, fullkominni fórn sem myndi hylja allar syndir. (Gal. 3:19; Hebr. 10:1-10) Auk þess var lögmálið þáttur í að varðveita ættlegg Messíasar og auðveldaði fólki að bera kennsl á hann þegar hann kæmi fram. Já, lögmálið var eins konar tímabundinn kennari eða „tyftari“ sem leiddi til Krists. – Gal. 3:23, 24.

8. Af hverju ættum við að láta meginreglur Móselaganna leiðbeina okkur?

8 Við sem erum kristin getum líka haft gagn af leiðbeiningunum sem Ísraelsmenn fengu í lögmálinu. Hvernig þá? Við getum staldrað við og skoðað meginreglurnar sem búa að baki lögmálinu. Þó að við séum ekki undir þessum lögum getum við litið á mörg þeirra sem traustan leiðarvísi í daglegu lífi og tilbeiðslunni á Jehóva, heilögum Guði okkar. Hann lét skrá þessi lög í Biblíuna til að við gætum lært af þeim og látið meginreglurnar leiðbeina okkur, og til að við kynnum að meta hve miklu fremri leiðbeiningar Jesú eru. Við ættum líka að hlusta á orð Jesú: „Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt ekki drýgja hór. En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ Við þurfum ekki aðeins að forðast kynferðislegt siðleysi heldur líka löngunina í það. – Matt. 5:27, 28.

9. Hvaða nýju aðstæður kölluðu á nýjar leiðbeiningar frá Guði?

9 Eftir að Jesús kom sem Messías veitti Jehóva nýjar leiðbeiningar og opinberaði fleiri atriði í fyrirætlun sinni. Ástæðan var enn og aftur sú að aðstæður höfðu breyst. Árið 33 hafnaði Jehóva Ísraelsþjóðinni og útvaldi kristna söfnuðinn sem þjóð sína.

LEIÐBEININGAR HANDA NÝRRI ANDLEGRI ÞJÓÐ

10. Hvers vegna voru kristna söfnuðinum gefin ný lög og hvernig voru þau frábrugðin lögum Ísraelsmanna?

10 Þeir sem þjónuðu Guði í kristna söfnuðinum á fyrstu öld fengu ný og víðtækari fyrirmæli um tilbeiðslu og hegðun. Þessir trúu þjónar Guðs voru undir nýjum sáttmála. Móselögin voru gefin einni þjóð, Ísraelsþjóðinni. Hin andlega Ísraelsþjóð myndi hins vegar samanstanda af fólki af mörgum þjóðum og ólíkum uppruna. „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Post. 10:34, 35) Í fyrirheitna landinu þurftu Ísraelsmenn að fylgja Móselögunum sem voru meitluð í stein. Andlega Ísraelsþjóðin átti hins vegar að fylgja ,lögmáli Krists‘ sem byggðist að mestu leyti á meginreglum rituðum á hjörtu fólks. Kristnir menn áttu að fylgja ,lögmáli Krists‘ og njóta góðs af því hvar sem þeir bjuggu. – Gal. 6:2.

11. Nefndu tvennt sem „lögmál Krists“ hefur áhrif á í lífi kristinna manna.

11 Andlega Ísraelsþjóðin naut sannarlega góðs af leiðbeiningum Guðs fyrir milligöngu sonar hans. Rétt áður en stofnað var til nýja sáttmálans gaf Jesús tvenn mikilvæg fyrirmæli. Önnur þeirra sneru að boðuninni. Hin sneru að hegðun fylgjenda hans og framkomu þeirra við trúsystkini sín. Þessum fyrirmælum var beint til allra kristinna manna og eiga því erindi til allra tilbiðjenda Guðs nú á dögum, hvort sem þeir hafa himneska von eða jarðneska.

12. Hvað var nýtt við boðunina?

12 Lítum á boðun fagnaðarerindisins sem Jesús var í þann mund að fela fylgjendum sínum. Nýjar aðferðir yrðu notaðar við boðunina og umfang hennar myndi margfaldast. Fyrr á öldum hafði fólki af öðrum þjóðum verið tekið opnum örmum þegar það kom til Ísraels til að þjóna Jehóva. (1. Kon. 8:41-43) Það var áður en Jesús gaf fyrirmælin í Matteusi 28:19, 20. (Lestu.) Lærisveinum Jesú var sagt að ,fara‘ til allra þjóða. Strax á hvítasunnu árið 33 lét Jehóva þessa breyttu stefnu sína í ljós – hann vildi að fagnaðarerindið yrði boðað um alla jörð. Um 120 meðlimir þessa nýja safnaðar fylltust heilögum anda og fóru að tala á mismunandi tungumálum við Gyðinga og trúskiptinga. (Post. 2:4-11) Fljótlega náði boðunin einnig til Samverja. Árið 36 náði hún svo líka til óumskorinna heiðingja. Umfang boðunarinnar jókst sem sagt úr því að ná aðeins til Gyðinga í að ná til alls mannkyns.

13, 14. (a) Hvað felst í hinu ,nýja boðorði‘ Jesú? (b) Hvað lærum við af fordæmi Jesú?

13 Lítum nú á framkomu okkar við trúsystkini. Jesús gaf fylgjendum sínum „nýtt boðorð“. (Lestu Jóhannes 13:34, 35.) Í þessu boðorði felast ekki aðeins fyrirmæli um að elska trúsystkini sín við algengar aðstæður daglegs lífs. Við þurfum líka að vera fús til að fórna lífi okkar fyrir þau. Það er nokkuð sem Móselögin kváðu ekki á um. – Matt. 22:39; 1. Jóh. 3:16.

14 Jesús er besta fyrirmynd okkar á þessu sviði. Hann elskaði lærisveina sína á fórnfúsan hátt. Það fól í sér að hann dæi fyrir þá, og hann var tilbúinn til þess. Hann ætlaðist líka til að lærisveinar sínir, þar á meðal við, væru fúsir til að gera slíkt hið sama. Við gætum þurft að þola mikinn sársauka og jafnvel deyja í þágu trúsystkina okkar. – 1. Þess. 2:8.

LEIÐSÖGN Á OKKAR TÍMUM OG Í FRAMTÍÐINNI

15, 16. Við hvaða aðstæður búum við núna og hvernig leiðbeinir Guð okkur?

15 Jesús hefur séð fylgjendum sínum fyrir andlegri fæðu á réttum tíma, sérstaklega frá því að ,trúi og hyggni þjónninn‘ var skipaður. (Matt. 24:45-47) Þessi fæða hefur falið í sér nauðsynlegar leiðbeiningar við breyttar aðstæður.

16 Við lifum á þeim tíma sem Biblían kallar ,síðustu daga‘ og rétt fram undan er meiri þrenging en mennirnir hafa nokkurn tíma upplifað. (2. Tím. 3:1; Mark. 13:19) Að auki hefur Satan og illum öndum hans verið úthýst af himnum og umsvif þeirra verið takmörkuð við nágrenni jarðar. Þetta hefur valdið jarðarbúum miklum hörmungum. (Opinb. 12:9, 12) Okkur hefur líka verið falið að taka þátt í sögulegu boðunarátaki sem nær til fólks út um allan heim á fleiri tungumálum en nokkru sinni fyrr.

17, 18. Hvernig ættum við að bregðast við leiðbeiningunum sem við fáum?

17 Við þurfum að nota vel þau hjálpargögn sem söfnuður Jehóva lætur okkur í té. Reynir þú eftir fremsta megni að gera það? Ertu vakandi fyrir leiðbeiningum sem við fáum á samkomum um það hvernig hægt sé að nota þessi hjálpargögn og gera það á sem árangursríkastan hátt? Líturðu svo á að þær komi frá Guði?

18 Til að halda áfram að hljóta blessun Guðs þurfum við að vera vakandi fyrir öllum þeim leiðbeiningum sem við fáum fyrir milligöngu kristna safnaðarins. Ef við hlýðum þeim fúslega núna eigum við auðveldara með að fylgja leiðbeiningum í ,þrengingunni miklu‘ þegar illu heimskerfi Satans verður eytt í heild sinni. (Matt. 24:21) Í kjölfarið þurfum við nýjar leiðbeiningar fyrir lífið í réttlátum nýjum heimi sem verður algerlega laus við áhrif Satans.

Í paradís framtíðar verður bókum lokið upp sem veita okkur leiðbeiningar fyrir lífið í nýja heiminum. (Sjá 19. og 20. grein.)

19, 20. Hvaða bókum verður lokið upp og til hvers leiðir það?

19 Ísraelsþjóðin þurfti að fá nýjar leiðbeiningar á dögum Móse og hið sama má segja um kristna söfnuðinn sem átti að fylgja ,lögmáli Krists‘. Eins segir í Biblíunni að bókum verði lokið upp sem veita okkur leiðbeiningar fyrir lífið í nýja heiminum. (Lestu Opinberunarbókina 20:12.) Þessar bækur eiga að öllum líkindum eftir að upplýsa okkur um til hvers Jehóva ætlast af mönnunum á þeim tíma. Af námi sínu í þessum bókum eiga allir, þar á meðal hinir upprisnu, eftir að geta skilið hver vilji Guðs er með þá. Þessar bækur eiga eflaust eftir að hjálpa okkur að kynnast huga Jehóva betur. Aukinn skilningur á innblásnu orði Guðs ásamt því sem verður opinberað í nýju bókunum verður til þess að þeir sem byggja paradís framtíðar komi fram við náungann af kærleika og virðingu. (Jes. 26:9) Hugsaðu þér hvílík kennsla á eftir að fara fram undir leiðsögn konungs okkar, Jesú Krists!

20 Eilíft líf bíður þeirra sem fara eftir því sem ,ritað er í bókunum‘. Ef við verðum Jehóva trúföst í lokaprófrauninni skrifar hann nafn okkar í „lífins bók“ og það stendur þar til frambúðar. Við getum hlotið eilíft líf! Við þurfum því að STALDRA VIÐ til að hugleiða orð Guðs, TAKA EFTIR til að skilja hvað það þýðir fyrir okkur og HLUSTA með því að hlýða leiðbeiningum Guðs núna. Þannig getum við lifað af þrenginguna miklu og haldið endalaust áfram að læra um alvitran og kærleiksríkan Guð okkar, Jehóva. – Préd. 3:11; Rómv. 11:33.