Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur átt þátt í að styrkja eininguna – hvernig?

Þú getur átt þátt í að styrkja eininguna – hvernig?

„Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman.“ – EF. 4:16.

SÖNGVAR: 53, 107

1. Hvað hefur einkennt verk Guðs allt frá upphafi?

ALLT frá upphafi sköpunar getum við séð hvernig unnið hefur verið í einingu að ákveðnum markmiðum. Fyrsta sköpunarverk Jehóva, persónugervingur viskunnar, sagðist hafa ,verið með í ráðum við hlið honum og verið yndi hans dag hvern‘. (Orðskv. 8:30) Faðirinn og sonurinn unnu saman að því að skapa allt það fjölbreytta líf sem til er núna. Samvinna einkenndi einnig verk Guðs eftir það. Við tökum eftir því við byggingu arkarinnar á dögum Nóa. Síðar unnu þjónar Guðs saman við að reisa tjaldbúðina, taka hana í sundur og flytja á ferð sinni um eyðimörkina. Við musterið spiluðu þeir saman fallega tónlist og sungu í samhljóma kór Jehóva til lofs. Öll þessi verkefni voru háð því að fólk ynni saman. – 1. Mós. 6:14-16, 22; 4. Mós. 4:4-32; 1. Kron. 25:1-8.

2. (a) Hvað var eftirtektarvert við kristna söfnuðinn á fyrstu öld? (b) Hvaða spurningar verða nú teknar fyrir?

2 Samvinna einkenndi einnig kristna söfnuðinn á fyrstu öld undir forystu Jesú Krists. Páll postuli útskýrði að þó að hinir andasmurðu byggju yfir mismunandi „náðargjöfum“, sinntu mismunandi „þjónustustörfum“ og ,framkvæmdir‘ væru af ýmsum toga voru þeir allir hluti af einum og sama ,líkama‘. (Lestu 1. Korintubréf 12:4-6, 12.) En hvað um okkar daga? Hvernig getum við verið samlynd og sameinuð við boðun fagnaðarerindisins? Og hvernig getum við unnið saman í söfnuðinum og í fjölskyldunni?

VINNUM SAMAN VIÐ BOÐUNINA

3. Hvað sá Jóhannes postuli í sýn?

3 Undir lok fyrstu aldar sá Jóhannes postuli sjö engla í sýn og hver þeirra blés í básúnu. Þegar fimmti engillinn básúnaði sá Jóhannes „stjörnu“ falla af himni til jarðar. „Stjarnan“ hafði lykil í hendi sér og með honum opnaði hún brunn undirdjúpsins. Þykkan reykjarmökk lagði af brunninum og úr honum kom mikill engisprettusveimur. Þessar táknrænu engisprettur ráðast ekki á gróður heldur gegn „þeim mönnum sem ekki hafa innsigli Guðs á enni sér“. (Opinb. 9:1-4) Jóhannes vissi vel hve miklum skaða engisprettusveimur gat valdið. Voru ekki engisprettur einmitt ein af plágunum í Egyptalandi á dögum Móse? (2. Mós. 10:12-15) Táknrænu engispretturnar í sýn Jóhannesar lýsa vel andasmurðum kristnum mönnum sem boða kröftugan dómsboðskap Jehóva. Milljónir manna með jarðneska von hafa nú sameinast þeim. Það er ekki að undra að sameinað boðunarátak okkar skuli grafa undan valdi Satans sem hann beitir fyrir milligöngu falstrúarbragðanna.

4. Hvaða starf þurfa þjónar Guðs að inna af hendi og hvað þurfa þeir að gera til að takast það?

4 Þjónar Jehóva hafa fengið í hendur það gríðarmikla verkefni að boða „fagnaðarerindið“ um allan heim áður en endirinn kemur. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Í því felst að bjóða öllum sem ,þyrstir‘ að fá „ókeypis lífsins vatn“. (Opinb. 22:17) Hvernig getum við sem tilheyrum kristna söfnuðinum gert það með góðum árangri? Aðeins með því að vera sameinuð og vinna vel saman. – Ef. 4:16.

5, 6. Hvernig erum við sameinuð þegar við boðum fagnaðarerindið?

5 Boðunin þarf að fara fram með skipulegum hætti til að við getum komið fagnaðarerindinu um ríki Guðs til eins margra og hægt er. Þess vegna er okkur leiðbeint. Leiðbeiningarnar, sem eru veittar í söfnuðum okkar um allan heim, gera okkur kleift að vinna saman að þessu verkefni. Við hittumst í samansöfnunum áður en við förum út til að flytja fólki boðskapinn um ríkið. Við komum honum á framfæri með því sem við segjum og með milljónum eintaka biblíutengdra rita. Leggurðu þig fram um að taka ötulan þátt í boðuninni þegar við erum hvött til að gera boðunarátak? Þannig sameinastu milljónum annarra í að boða boðskap ,engilsins sem flýgur um háhvolf himins‘ og sagt er frá í Opinberunarbókinni 14:6.

6 Er ekki gaman að lesa í árbókinni um árangur boðunarinnar í heild? Hugsaðu líka um hve sameinuð við erum þegar við dreifum boðsmiðum á umdæmis- og alþjóðamót. Á þessum mótum hlustum við á hvetjandi biblíutengdar ræður og horfum á leikrit og sýnidæmi. Í þeim er oft lögð áhersla á hvernig Jehóva hvetur okkur innilega til að þjóna sér af öllu hjarta. Minningarhátíðin um dauða Jesú sameinar okkur einnig. Við sýnum þakklæti okkar fyrir óverðskuldaða góðvild Guðs og hlýðum boði Jesú með því að safnast saman á þessum árlega viðburði eftir sólsetur hinn 14. Nísan. (1. Kor. 11:23-26) Það eru ekki bara skírðir vottar Jehóva sem koma saman. Vikurnar fyrir minningarhátíðina förum við til eins margra og við getum á svæði safnaðarins til að bjóða þeim á þennan mikilvæga atburð.

7. Hvað getum við gert þegar við vinnum saman?

7 Stök engispretta hefur ekki mikil áhrif á gróður. Eins gæti það sem við gerum sjálf virst ómerkilegt eitt og sér. En þegar við vinnum saman tekst okkur að beina athygli milljóna manna að Jehóva, honum sem á skilið að fá lof og heiður okkar allra. Það er þó ekki bara með þessum hætti sem samvinna styrkir eininguna meðal þjóna Guðs.

VINNUM SAMAN Í SÖFNUÐINUM

8, 9. (a) Hvaða líkingu notar Páll til að kenna kristnum mönnum að vera sameinaðir? (b) Hvernig getum við sýnt samstarfsvilja í söfnuðinum?

8 Í bréfi sínu til Efesusmanna útskýrir Páll hvernig söfnuðurinn er skipulagður og bendir á að allir í honum þurfi að ,vaxa upp í öllu‘. (Lestu Efesusbréfið 4:15, 16.) Hvað hjálpar okkur hverju og einu að vinna að því marki? Páll líkir söfnuðinum við mannslíkamann og beinir athyglinni að því hvernig hann er sameinaður undir höfðinu, Jesú Kristi. Hann talar um hvernig líkaminn er tengdur saman þegar ,sérhver taug innir sína þjónustu af hendi‘. Hvernig getum við, hvort sem við erum ung eða gömul, sterk eða veikburða, stuðlað að einingu og að því að trúin eflist í söfnuðinum?

9 Eitt sem er mjög mikilvægt er að virða og vera undirgefin öldungunum, en Jesús hefur falið þeim að veita leiðbeiningar í söfnuðinum. (Hebr. 13:7, 17) Okkur finnst það kannski ekki alltaf auðvelt en við getum beðið Jehóva um hjálp. Heilagur andi hans getur hjálpað okkur að styðja fyrirkomulag safnaðarins af heilum hug. Ef okkur finnst stundum erfitt að fylgja leiðbeiningum sem við fáum ættum við að hugleiða hvernig við stuðlum að einingu safnaðarins með því að vera auðmjúk og samstarfsfús. Það verður líka til þess að kærleikurinn innan safnaðarins dafnar.

10. Hvernig stuðla safnaðarþjónar að einingu í söfnuðinum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

10 Við kunnum vel að meta það sem safnaðarþjónar gera til að stuðla að einingu í söfnuðinum. Á hvaða aldri sem þeir eru veita þeir fórnfúsir þjónustu sem allir njóta góðs af. Þeir aðstoða til dæmis öldungana með því að sjá til þess að nóg sé til af ritum fyrir boðunina. Þeir sjá líka oft um þrif og viðhald á ríkissalnum og bjóða gesti velkomna á samkomurnar. Ef við vinnum vel með þessum bræðrum stuðlum við að því að allt gangi snurðulaust fyrir sig í söfnuðinum. – Samanber Postulasöguna 6:3-6.

11. Hvað getur ungt fólk gert til að stuðla að einingu í söfnuðinum?

11 Margir þroskaðir bræður hafa sinnt ábyrgðarstörfum innan safnaðarins um árabil. En aldurinn er ef til vill farinn að setja þeim skorður og þá þarf að gera breytingar. Yngri bræður geta verið til mikillar hjálpar. Þó að þeir hafi ekki mikla reynslu geta þeir fengið þjálfun og orðið hæfir til að taka á sig aukna ábyrgð. Það er hrósvert þegar safnaðarþjónar sækjast eftir að verða hæfir til að vera öldungar. (1. Tím. 3:1, 10) Sumir ungir öldungar hafa tekið enn meiri framförum og eru nú orðnir farandhirðar sem þjóna trúsystkinum í mörgum söfnuðum. Erum við ekki þakklát fyrir að ungt fólk skuli fúslega styðja söfnuðinn? – Lestu Sálm 110:3, neðanmáls; Prédikarann 12:1.

VINNUM SAMAN Í FJÖLSKYLDUNNI

12, 13. Hvað getur hjálpað öllum í fjölskyldunni að vinna saman?

12 Hvernig getum við stuðlað að samvinnu innan fjölskyldunnar? Margir hafa komist að raun um að sameiginleg tilbeiðslustund í hverri viku getur styrkt tengslin milli foreldra og barna. Á þessum ánægjulegu stundum einbeitum við okkur að andlegum málum og það stuðlar að einingu í fjölskyldunni. Þegar fjölskyldan æfir sig fyrir boðunina hjálpar það henni að boða trúna með skilvirkari hætti. Það er augljóst að fjölskyldur verða nánari þegar þær ræða saman um orð Guðs og finna að allir elska sama Guð og langar til að gera vilja hans.

Tilbeiðslustund fjölskyldunnar styrkir tengslin milli þeirra sem eldri eru og yngri. (Sjá 12. og 15. grein.)

13 Hvað geta hjón gert til að vinna saman Jehóva til lofs? Ef þau þjóna Jehóva trúfastlega saman eflir það eininguna þeirra á milli og veitir þeim mikla ánægju. Abraham og Sara, Ísak og Rebekka og Elkana og Hanna tjáðu öll ást sína til maka síns. Hjón nú á dögum ættu að leggja sig fram um það líka. (1. Mós. 26:8; 1. Sam. 1:5, 8; 1. Pét. 3:5, 6) Það styrkir einingu hjónanna og dregur þau nær föður okkar á himnum. – Lestu Prédikarann 4:12.

14. Hvað geturðu gert til að halda hjónabandinu sterku ef maki þinn þjónar ekki Jehóva?

14 Þjónar Guðs ættu ekki að giftast einhverjum sem er ekki í trúnni. (2. Kor. 6:14) En hvað um bræður og systur sem búa á trúarlega skiptu heimili? Sumir þjóna Jehóva voru giftir þegar þeir kynntust sannleikanum og maki þeirra er ekki vottur. Þeir geta samt stuðlað að einingu í fjölskyldunni með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Í því felst að vinna með makanum að eins miklu leyti og hægt er án þess þó að gefa eftir þegar trúin á í hlut. Það getur verið erfitt en hugsaðu um launin sem geta hlotist af því. Það getur líka verið erfitt að fara eftir meginreglum Biblíunnar þegar maki fjarlægist söfnuðinn. Þannig var það hjá systur sem heitir Mary. Hún og David, maðurinn hennar, þjónuðu Jehóva saman en hann hætti að sækja samkomur fyrir um 25 árum. Mary hélt þó trúföst áfram að sækja samkomur og mót. Hún lagði sig líka fram um að nýta sér meginreglur Biblíunnar heima fyrir, en það fól meðal annars í sér að fræða börnin þeirra sex um Jehóva. Eftir að börnin uxu úr grasi og fluttu að heiman var Mary mjög einmana. En David byrjaði þá að lesa blöðin sem hún lagði fram fyrir hann. Með tímanum fór hann að sækja samkomur á ný þar sem sex ára sonarsonur hans tók frá sæti fyrir hann. Ef David mætti ekki sagði strákurinn við hann: „Afi, ég saknaði þín á samkomunni í dag.“ David þjónar nú Jehóva á ný og Mary er yfir sig ánægð að þau skuli gera það saman.

15. Hvernig geta eldri hjón hjálpað yngri hjónum?

15 Fjölskyldur nú á tímum verða fyrir árásum Satans og því er nauðsynlegt að öll hjón, sem þjóna Guði, vinni vel saman. Sama hversu lengi þú hefur verið í hjónabandi ættirðu að hugsa um hvað þú getur sagt eða gert til að styrkja það. Þið sem hafið verið gift lengi getið hjálpað yngri hjónum að þessu leyti. Þið gætuð af og til boðið yngri hjónum að vera með í tilbeiðslustund fjölskyldunnar. Þegar þau fylgjast með ykkur geta þau séð að ástúð og eining eru mikilvægir þættir í hjónabandinu sama hve lengi fólk hefur verið gift. – Tít. 2:3-7.

GÖNGUM UPP Á FJALL JEHÓVA

16, 17. Til hvers hlakka sameinaðir þjónar Guðs?

16 Sjáðu fyrir þér Ísraelsmenn á biblíutímanum halda hátíð og lofa Jehóva við musterið í Jerúsalem. Þeir hafa undirbúið ferðina, hjálpað hver öðrum á leiðinni og síðan sameinast í tilbeiðslunni við musterið. Allt krafðist þetta samvinnu. (Lúk. 2:41-44) Núna, þegar við göngum á veginum sem liggur inn í nýja heiminn, þurfum við líka að vera sameinuð og samvinnuþýð. En það gerist ekki sjálfkrafa. Þarft þú að leggja þig betur fram á þessu sviði?

17 Hugsaðu um þá blessun sem bíður okkar. Við höfum nú þegar sagt skilið við þá sundrung og óreiðu sem einkennir þennan heim. Bæði Jesaja og Míka sögðu fyrir atburð sem við sjáum rætast núna – þjónar Jehóva ganga sameinaðir upp á fjall hans. (Jes. 2:2-4; lestu Míka 4:2-4.) Tilbeiðsla okkar er sannarlega hátt upp hafin núna á síðustu dögum. En hamingja okkar og gleði nær nýjum hæðum í framtíðinni þegar allt mannkynið verður sameinað og vinnur vel saman.