Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvers vegna draga Vottar Jehóva upp þá mynd af Páli postula að hann hafi verið sköllóttur eða þunnhærður?

Sannleikurinn er sá að enginn núlifandi maður veit með vissu hvernig Páll leit út. Teikningar og myndir í ritum okkar eru túlkun listamanna og eru ekki byggðar á fornum myndum eða fornleifarannsóknum.

Hins vegar eru til ákveðnar vísbendingar um útlit Páls. Bent var á eina þeirra í Varðturni Síonar 1. mars 1902. Þar segir: „Bestu útlitslýsinguna á Páli, sem telja má áreiðanlega arfsögn, er sennilega að finna í Acta Pauli et Theclae [Sagan af Páli og Þeklu] sem var rituð um 150 e.Kr. Þar er honum lýst svo að hann hafi verið ,lágvaxinn, sköllóttur, hjólbeinóttur, þrekvaxinn, með samvaxnar augabrúnir og fremur neflangur‘.“

Í bókinni The Oxford Dictionary of the Christian Church (útgáfu frá 1997) segir um þetta fornrit: „Það er ekki óhugsandi að þessi saga hafi að geyma vissar sögulegar staðreyndir.“ Sagan af Páli og Þeklu var í hávegum höfð fyrr á öldum sem sést best á því að enn eru til 80 handrit á grísku, auk þýðinga á öðrum tungumálum. Myndirnar í ritum okkar samræmast því fornum lýsingum á útliti postulans.

Rétt er þó að minna á að útlit Páls skiptir ekki mestu máli. Sumir sem gagnrýndu hann í lifanda lífi sögðu að hann væri ,lítill fyrir mann að sjá og enginn tæki mark á ræðu hans‘. (2. Kor. 10:10) Við skulum þó ekki gleyma að Páll tók kristna trú vegna þess að Jesús vitraðist honum. Einnig má minna á allt það sem hann áorkaði eftir að Jesús valdi hann ,að verkfæri til þess að bera nafn sitt fram fyrir heiðingja‘. (Post. 9:3-5, 15; 22:6-8) Og hugsaðu þér hvílíkt gagn við getum haft af biblíubókunum sem Jehóva innblés Páli að skrifa.

Páll gerði ekki mikið úr afrekum sínum áður en hann gerðist kristinn og lýsti ekki útliti sínu. (Post. 26:4, 5; Fil. 3:4-6) Hann skrifaði: „Ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli.“ (1. Kor. 15:9) Síðar skrifaði hann: „Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists.“ (Ef. 3:8) Boðskapurinn, sem Páll flutti, er miklu mikilvægari en hugsanlegt útlit hans.