Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónar Guðs þurfa að skírast

Þjónar Guðs þurfa að skírast

,Skírnin frelsar ykkur.‘ – 1. PÉT. 3:21.

SÖNGVAR: 52, 41

1, 2. (a) Hvernig bregðast kristnir foreldrar stundum við þegar barnið þeirra vill láta skírast? (b) Hvers vegna eru skírnþegar spurðir hvort þeir hafi vígst Jehóva? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

UNG stúlka, sem við skulum kalla Maríu, stendur upp ásamt öðrum skírnþegum. Foreldrarnir fylgjast með þegar hún svarar hátt og skýrt spurningunum tveim sem ræðumaðurinn spyr. Rétt á eftir skírist hún.

2 Foreldrar Maríu eru stoltir að dóttir þeirra skuli hafa vígst Jehóva skilyrðislaust og látið skírast. Áður hafði móðir hennar þó haft nokkrar efasemdir. Hún hafði velt fyrir sér hvort María væri of ung til að skírast. Skildi stúlkan hve alvarlegt skref það væri? Væri betra að hún biði með að skírast? Margir ástríkir foreldrar velta þessu fyrir sér þegar barnið þeirra lætur í ljós að það langi til að skírast. (Préd. 5:4) Þegar allt kemur til alls eru það mikilvægustu skrefin á lífsleið kristins manns að vígjast og skírast. – Sjá rammann „ Hefurðu vígt þig Jehóva?

3, 4. (a) Hvernig lýsti Pétur postuli mikilvægi skírnarinnar? (b) Hvers vegna má líkja skírninni við smíði arkarinnar á dögum Nóa?

3 Pétur postuli ræðir um skírn og minnist í því sambandi á örkina sem Nói smíðaði. Hann segir: „Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur.“ (Lestu 1. Pétursbréf 3:20, 21.) Örkin var skýr sönnun þess að Nói hafði helgað sig því að gera vilja Guðs. Hann skilaði dyggilega af sér því verkefni sem Jehóva fól honum. Nói sýndi trú sína í verki og það varð til þess að hann og fjölskylda hans lifðu flóðið af. Hvers vegna líkir Pétur skírninni við arkarsmíðina?

4 Örkin sýndi svo ekki varð um villst að Nói trúði Guði. Með því að skírast að öðrum ásjáandi sýnir fólk að það hefur vígst Jehóva vegna trúar á fórn Krists og upprisu. Þeir sem skírast hlýða Guði og vinna það verk sem þeim er falið, rétt eins og Nói. Jehóva sá til þess að Nói bjargaðist þegar flóðið skall á og hann sér líka til þess að vígðir og skírðir þjónar sínir bjargist þegar illur heimur nútímans líður undir lok. (Mark. 13:10; Opinb. 7:9, 10) Þess vegna er mjög mikilvægt að vígjast Guði og skírast. Sá sem dregur það óþarflega á langinn að skírast getur átt á hættu að missa af tækifærinu til að hljóta eilíft líf.

5. Um hvað er fjallað í þessari grein?

5 Í ljósi þess hve mikilvægt er að skírast skulum við leita svara við þrem spurningum: Hvað segir Biblían um skírn? Hvað þarf maður að gera áður en maður skírist? Hvers vegna þurfum við að hafa mikilvægi skírnarinnar í huga þegar við kennum börnum okkar og öðrum biblíunemendum?

ÞAÐ SEM BIBLÍAN SEGIR UM SKÍRN

6, 7. (a) Hvað táknaði skírn Jóhannesar? (b) Hvern fékk Jóhannes að skíra og hvað táknaði sú skírn?

6 Í Biblíunni er fyrst getið um skírn þegar sagt er frá Jóhannesi skírara. (Matt. 3:1-6) Þeir sem skírðust hjá honum gerðu það til að láta í ljós að þeir iðruðust synda sinna gegn Móselögunum. Mikilvægasta skírn Jóhannesar hafði þó ekkert með iðrun að gera. Jóhannes fékk þann einstaka heiður að fá að skíra Jesú, fullkominn son Guðs. (Matt. 3:13-17) Jesús var syndlaus þannig að hann þurfti ekki að iðrast. (1. Pét. 2:22) Skírn hans táknaði að hann bauð sig fram til að gera vilja Guðs. – Hebr. 10:7.

7 Lærisveinar Jesú skírðu einnig meðan hann starfaði á jörð. (Jóh. 3:22; 4:1, 2) Skírn þeirra táknaði það sama og skírn Jóhannesar, það er að segja að fólk iðraðist synda sinna gegn Móselögunum. En eftir að Jesús var dáinn og risinn upp fékk skírnin allt aðra merkingu fyrir þá sem fylgdu honum.

8. (a) Hvaða fyrirmæli gaf Jesús fylgjendum sínum eftir að hann reis upp frá dauðum? (b) Hvað merkir skírn kristinna manna?

8 Jesús birtist meira en 500 körlum, konum og hugsanlega börnum eftir að hann var risinn upp árið 33. Það var ef til vill þá sem hann sagði: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.“ (Matt. 28:19, 20; 1. Kor. 15:6) Jesús fól fylgjendum sínum það verkefni að gera fólk að lærisveinum. Hann sagði að allir sem tækju á sig það „ok“ að vera lærisveinar hans yrðu að skírast. (Matt. 11:29, 30) Allir sem vildu þjóna Jehóva á réttan hátt yrðu að viðurkenna hlutverk Jesú í fyrirætlun hans. Síðan gætu þeir látið skírast. Þetta yrði eina niðurdýfingarskírnin sem Guð hefði velþóknun á. Það sést greinilega af Biblíunni að nýir lærisveinar Krists á fyrstu öld skildu hvað skírnin merkti. Og þeir frestuðu því ekki að óþörfu að láta skírast. – Post. 2:41; 9:18; 16:14, 15, 32, 33.

FRESTAÐU ÞVÍ EKKI

9, 10. Hvað má læra um skírn af eþíópíska hirðmanninum og Páli postula?

9 Lestu Postulasöguna 8:35, 36Eþíópískur maður, sem hafði tekið gyðingatrú, hafið farið til Jerúsalem til að tilbiðja Guð en var nú á heimleið. Engill Jehóva sendi Filippus til hans og hann „boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú“. Hvernig brást maðurinn við? Hann var greinilega þakklátur fyrir að hafa fengið að skilja sannleikann. Hann vildi breyta í samræmi við fyrirmæli Jehóva og lét því skírast án tafar.

10 Lítum á annað dæmi – Gyðing nokkurn sem ofsótti kristna menn. Hann tilheyrði þjóð sem var vígð Guði. En þjóðin hafði glatað þessu sérstaka sambandi við Guð. Maðurinn barðist af miklu kappi fyrir því að varðveita trúarhefðir gyðingdómsins en sneri við blaðinu þegar Jesús Kristur birtist honum og talaði til hans af himni. Hvernig brást maðurinn við? Hann þáði fúslega hjálp Ananíasar sem var lærisveinn Jesú. „Hann ... stóð upp og lét þegar skírast,“ segir í Biblíunni. (Post. 9:17, 18; Gal. 1:14) Þú ert ábyggilega búinn að átta þig á að þetta er maðurinn sem var síðar kallaður Páll postuli. En taktu eftir að Páll beið ekki boðanna þegar hann hafði skilið sannleikann um hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs. Hann lét skírast án tafar. – Lestu Postulasöguna 22:12-16.

11. (a) Hvað er biblíunemendum hvatning til að skírast? (b) Hvaða áhrif hefur það á okkur að sjá fólk skírast?

11 Það er ekki ósvipað nú á dögum. Þegar biblíunemendur trúa sannleika Biblíunnar og læra að meta hann er þeim mikið í mun að skírast, óháð aldri. Skírnarræðan, sem er flutt á hverju móti, er hápunktur fyrir þá. Vottar Jehóva gleðjast að sjá biblíunemanda taka við sannleikanum og skírast niðurdýfingarskírn. Foreldrar í söfnuðinum fagna því innilega að sjá börnin sín í hópi nýju lærisveinanna sem skírast. Á þjónustuárinu 2017 sýndu meira en 284.000 manns það hugarfar sem þarf til að vígjast Jehóva og láta skírast til tákns um það. (Post. 13:48) Þessir nýju lærisveinar skildu greinilega að kristinn maður þarf að skírast. Hver var undanfari þess að þeir létu skírast?

12. Hvað þarf biblíunemandi að gera áður en hann skírist?

12 Áður en biblíunemandi getur látið skírast þarf hann að læra sannleikann um Guð, fyrirætlun hans með mannkynið og jörðina og um það sem hann hefur gert til að bjarga mannkyninu. (1. Tím. 2:3-6) Hann þarf að byggja upp trú sem knýr hann til að fylgja réttlátum lífsreglum Jehóva og forðast hegðun sem hann hefur vanþóknun á. (Post. 3:19, 20) Þetta skiptir miklu máli því að það er ekki hægt að vígjast Guði ef líferni manns er þess eðlis að maður fengi ekki inngöngu í ríki Guðs. (1. Kor. 6:9, 10) En það þarf meira til en að lifa eftir háleitum siðferðisreglum Jehóva. Sá sem vill vígjast honum sækir líka safnaðarsamkomur. Hann tekur virkan þátt í að boða fagnaðarerindið og kenna. Jesús sagði að lærisveinar sínir hefðu þetta verkefni. (Post. 1:8) Nýir lærisveinar þurfa að gera allt þetta. Þá fyrst geta þeir vígst Jehóva einslega í bæn og síðan gefið tákn um það með því að skírast í votta viðurvist.

MARKMIÐ BIBLÍUNEMENDA

13. Hvers vegna þarf biblíukennari að hafa hugfast að sannkristinn maður þarf að skírast?

13 Þegar við hjálpum börnum okkar og öðrum biblíunemendum að stíga nauðsynleg skref skulum við hafa hugfast að fylgjendur Jesú þurfa að skírast. Ef við höfum það skýrt í huga erum við ófeimin að ræða við nemendur okkar, þegar við á, að það sé mikilvægt að vígjast Guði og skírast. Við viljum að börnin okkar og aðrir biblíunemendur taki stöðugum framförum og láti síðan skírast.

Hefurðu hugfast hve mikilvægt er að skírast og sýnirðu nemandanum fram á það? (Sjá 13. grein.)

14. Hvers vegna þrýstum við ekki á fólk að skírast?

14 Hvorki foreldri, biblíukennari eða nokkur annar ætti að þrýsta á barn eða biblíunemanda að skírast. Jehóva starfar ekki þannig. (1. Jóh. 4:8) Þegar við kennum fólki ættum við frekar að leggja áherslu á gildi þess að byggja upp náið samband við Jehóva. Ef nemandinn kann að meta sannleikann og hann langar til að vera lærisveinn Krists langar hann líka til að skírast. – 2. Kor. 5:14, 15.

15, 16. (a) Þarf fólk að ná ákveðnum aldri til að skírast? Skýrðu svarið. (b) Hvers vegna þarf biblíunemandi að skírast sem vottur Jehóva þó að hann hafi skírst áður hjá öðrum trúarsöfnuði?

15 Það þarf ekki að ná ákveðnum aldri til að skírast. Fólk er ólíkt og er mislengi að þroskast í trúnni. Margir láta skírast ungir að aldri og eru Jehóva trúir þaðan í frá. Aðrir eru komnir á gamalsaldur þegar þeir kynnast sannleikanum og láta skírast – sumir jafnvel komnir yfir tírætt.

16 Öldruð kona, sem var í biblíunámi, spurði kennarann sinn hvort hún þyrfti nokkuð að skírast aftur. Hún hafði skírst áður hjá nokkrum öðrum trúarsöfnuðum. Kennarinn fór yfir nokkur biblíuvers með konunni. Hún áttaði sig á hvaða kröfur eru gerðar í Biblíunni og lét skírast skömmu síðar. Hún skildi að hún þyrfti að skírast þó að hún væri að nálgast áttrætt. Til að skírn sé gild í augum Jehóva þarf hún að byggjast á nákvæmri þekkingu á vilja hans. Nýir lærisveinar þurfa að skírast þó að þeir hafi skírst áður hjá öðrum trúarsöfnuði. – Lestu Postulasöguna 19:3-5.

17. Hvað er viðeigandi að hugleiða daginn sem maður skírist?

17 Skírnardagurinn er mikill gleðidagur en jafnframt tilefni til að hugsa vel um hvað vígsla og skírn felur í sér. Það kostar vinnu að halda vígsluheit sitt. Þess vegna líkti Jesús því að vera lærisveinn við að bera ok. Lærisveinar Jesú mega ekki lifa framar fyrir sjálfa sig heldur eiga þeir að lifa fyrir hann sem dó fyrir þá og reis upp. – 2. Kor. 5:15; Matt. 16:24.

18. Hvaða spurningar eru ræddar í næstu grein?

18 Móðir Maríu var með þetta í huga þegar hún velti fyrir sér því sem fram kemur í byrjun greinarinnar. Ef þú ert foreldri má vel vera að þér sé spurn hvort barnið þitt sé tilbúið til að skírast. Hefur það næga þekkingu til að vígjast Jehóva? Ætti barnið að afla sér góðrar menntunar og vinnu áður en það skírist? Hvað nú ef barnið lætur skírast en syndgar síðan alvarlega? Við ræðum þessi mál í næstu grein og könnum hvernig kristnir foreldrar geta séð skírnina í réttu ljósi.