Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Agi – merki um kærleika Guðs

Agi – merki um kærleika Guðs

„Drottinn agar þann sem hann elskar.“ – HEBR. 12:6.

SÖNGVAR: 123, 86

1. Hvernig er oft talað um aga í Biblíunni?

HVAÐ kemur upp í hugann þegar þú heyrir orðið „agi“? Kannski hugsarðu fyrst um refsingu en margt fleira felst í ögun. Í Biblíunni er oft talað um aga á aðlaðandi hátt, stundum samhliða þekkingu, visku, kærleika og lífi. (Orðskv. 1:2-7; 4:11-13, Biblían 1981) Ástæðan er sú að þegar Guð agar okkur sýnir hann að hann elskar okkur og vill að við hljótum eilíft líf. (Hebr. 12:6) Ögun Guðs getur falið í sér refsingu en hann beitir henni aldrei af grimmd eða til að særa okkur. Ögun snýst reyndar fyrst og fremst um að mennta, rétt eins og foreldrar gera þegar þeir ala upp elskuð börn sín.

2, 3. Hvernig getur agi falið í sér kennslu og refsingu? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

2 Hugsum okkur þetta dæmi: Jói litli er að kasta bolta inni í húsinu. Mamma hans segir við hann: „Jói, þú veist að þú mátt ekki leika með boltann inni. Þú gætir brotið eitthvað!“ En Jói hlustar ekki á mömmu sína. Hann heldur áfram í boltaleiknum og brýtur svo óvart blómavasa. Hvernig ætlar mamma hans að aga hann? Í öguninni gæti bæði falist kennsla og einhvers konar refsing. Hún gæti kennt Jóa með því að minna hann á hvers vegna það sem hann gerði var rangt. Hún vill sýna honum fram á viskuna í því að hlýða foreldrum sínum og útskýra að reglur þeirra séu nauðsynlegar og sanngjarnar. Til að undirstrika það gæti hún síðan ákveðið að refsa honum með viðeigandi hætti. Hún gæti til dæmis tekið boltann af Jóa um einhvern tíma. Þannig getur hann skilið betur að það hefur afleiðingar að vera óhlýðinn.

3 Þar sem við tilheyrum kristna söfnuðinum má segja að við búum í „Guðs húsi“. (1. Tím. 3:15) Við virðum því rétt Jehóva bæði til að setja reglur og til að veita kærleiksríkan aga þegar við brjótum þær. Ef hegðun okkar hefur óþægilegar afleiðingar getur ögunin frá föðurnum á himnum auk þess minnt okkur á hversu mikilvægt það er að hlusta á hann. (Gal. 6:7) Guði er innilega annt um okkur og hann vill hlífa okkur við þjáningum. – 1. Pét. 5:6, 7.

4. (a) Hvers konar kennslu blessar Jehóva? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

4 Með því að veita aga byggðan á meginreglum Biblíunnar getum við hjálpað barni okkar eða biblíunemanda að ná því markmiði að verða fylgjandi Krists. Orð Guðs, fremsta kennslugagn okkar, gerir okkur kleift að veita ,umvöndun og menntun í réttlæti‘. Þannig hjálpum við barni okkar eða biblíunemanda að skilja og ,halda allt það sem Jesús hefur boðið okkur‘. (2. Tím. 3:16; Matt. 28:19, 20) Jehóva blessar slíka kennslu en hún gerir nemendunum fært að gera enn fleiri að lærisveinum Krists. (Lestu Títusarbréfið 2:11-14.) Leitum nú svara við þrem mikilvægum spurningum: (1) Hvernig endurspeglar agi Guðs kærleika hans til okkar? (2) Hvað getum við lært af þeim sem hafa hlotið ögun frá Guði? (3) Hvernig getum við líkt eftir Jehóva og syni hans þegar við veitum aga?

ÖGUN GUÐS ER KÆRLEIKSRÍK

5. Hvernig endurspeglar ögun frá Jehóva kærleika hans til okkar?

5 Jehóva leiðréttir, menntar og þjálfar okkur af kærleika þannig að við getum notið kærleika hans áfram og haldið okkur á veginum til lífsins. (1. Jóh. 4:16) Hann gerir aldrei lítið úr okkur, móðgar okkur eða lætur okkur finnast við vera einskis virði. (Orðskv. 12:18) Hann sýnir okkur öllu heldur virðingu, höfðar til hins góða í fari okkar og virðir frjálsan vilja okkar. Hugsarðu um það þegar þú hlýtur aga frá Guði, hvort heldur fyrir milligöngu orðs hans, biblíutengdra rita, kristinna foreldra eða safnaðaröldunga? Þegar öldungar reyna að leiðrétta okkur á mildan og kærleiksríkan hátt, jafnvel áður en við áttum okkur á að við höfum gert eitthvað rangt, endurspegla þeir kærleika Jehóva til okkar. – Gal. 6:1.

6. Hvernig er ögun merki um kærleika Guðs, jafnvel þegar hún felur í sér að maður missir þjónustuverkefni?

6 Stundum getur agi þó falið meira í sér en ráð og leiðbeiningar. Ef málið snýst um alvarlega synd gæti maður misst þjónustuverkefni í söfnuðinum. Jafnvel slík ögun er merki um kærleika Guðs. Að missa þjónustuverkefni getur til dæmis gert þeim sem hefur syndgað ljóst hve mikilvægt er að hann einbeiti sér betur að biblíunámi og því að hugleiða og biðja. Þannig getur hann orðið sterkari í trúnni. (Sálm. 19:8) Með tímanum fær hann kannski verkefnin aftur. Jafnvel þegar einhverjum er vikið úr söfnuðinum endurspeglar það kærleika Jehóva þar sem það verndar söfnuðinn gegn slæmum áhrifum. (1. Kor. 5:6, 7, 11) Og þar sem ögun Guðs er alltaf sanngjörn getur sá sem syndgaði áttað sig á alvarleika málsins ef honum er vikið úr söfnuðinum. Það getur orðið til þess að hann iðrist. – Post. 3:19.

HANN NAUT GÓÐS AF AGA JEHÓVA

7. Hver var Sebna og hvaða slæma eiginleika fór hann að sýna af sér?

7 Til að undirstrika hve mikilvægur agi er skulum við nú ræða um tvo menn sem Jehóva agaði: Sebna, sem var uppi á tímum Hiskía konungs, og Graham, bróður á okkar tímum. Sebna hafði töluvert vald þar sem hann var ,hallarráðsmaður‘, líklega í höll Hiskía. (Jes. 22:15) En því miður varð hann hrokafullur og fór að sækjast eftir upphefð. Hann lét meira að segja höggva sér íburðarmikla gröf og ók um í ,glæsivögnum‘. – Jes. 22:16-18.

Við hljótum blessun Guðs ef við erum auðmjúk og fús til að breyta hugarfari okkar. (Sjá 8.-10. grein.)

8. Hvernig agaði Jehóva Sebna og hvernig fór?

8 Þar sem Sebna leitaðist við að fá upphefð ,rak Guð hann úr embætti sínu‘ og lét Eljakím taka við af honum. (Jes. 22:19-21) Þetta gerðist þegar Sanheríb Assýríukonungur ætlaði að ráðast á Jerúsalem. Einhverju síðar sendi Sanheríb háttsetta embættismenn til Jerúsalem ásamt fjölmennum her til að draga kjark úr Gyðingunum og hræða Hiskía þannig að hann gæfist upp. (2. Kon. 18:17-25) Eljakím var sendur til að tala við embættismennina en hann var ekki einn. Tveir aðrir voru með honum og annar þeirra var Sebna sem nú var orðinn ritari. Gefur þetta ekki til kynna að Sebna hafi ekki látið biturð og gremju ná tökum á sér heldur að hann hafi auðmjúkur þegið lægri stöðu en hann hafði haft áður? Ef svo er, hvaða lærdóm getum við þá dregið af frásögunni? Skoðum þrennt.

9-11. (a) Hvaða mikilvægu lærdóma má draga af reynslu Sebna? (b) Hvers vegna finnst þér uppörvandi að sjá hvað Jehóva gerði í máli Sebna?

9 Í fyrsta lagi missti Sebna stöðu sína en það minnir okkur á að „dramb er falli næst [og] hroki veit á hrun“. (Orðskv. 16:18) Leitastu við að vera auðmjúkur og sjá sjálfan þig í réttu ljósi ef þú ert með verkefni í söfnuðinum sem gerir þig kannski áberandi? Læturðu Jehóva fá heiðurinn af hæfileikum þínum eða því sem þú hefur áorkað? (1. Kor. 4:7) Páll postuli skrifaði: „Ég [segi] ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi.“ – Rómv. 12:3.

10 Í öðru lagi vildi Jehóva kannski sýna með því að ávíta Sebna að hann hafði ekki gefist upp á honum. (Orðskv. 3:11, 12) Þeir sem missa þjónustuverkefni í söfnuði Guðs nú á tímum geta lært mikið af þessu. Í stað þess að reiðast og verða gramir geta þeir haldið áfram að þjóna Guði eftir bestu getu miðað við nýjar aðstæður sínar og litið á agann sem merki um kærleika Jehóva. Mundu að föður okkar á himnum finnst við ekki vera óviðbjargandi ef við auðmýkjum okkur frammi fyrir honum. (Lestu 1. Pétursbréf 5:6, 7.) Kærleiksríkur agi getur verið leið Guðs til að móta okkur. Verum því eins og mjúkur leir í höndum hans.

11 Í þriðja lagi geta þeir sem er falið að veita aga, svo sem foreldrar og umsjónarmenn í söfnuðinum, lært mikið af því sem Jehóva gerði í máli Sebna. Agi frá Jehóva getur endurspeglað hatur hans á synd en einnig sýnt hve annt honum er um þann sem hefur syndgað. Ef þið foreldrar eða umsjónarmenn þurfið að veita aga, líkið þið þá eftir Jehóva og hatið hið illa en leitið jafnframt eftir hinu góða í fari barnsins eða trúsystkinisins? – Júd. 22, 23.

12-14. (a) Hvernig bregðast sumir við aga Guðs? (b) Hvernig hjálpaði orð Guðs bróður einum að breyta hugarfari sínu og hver var árangurinn?

12 Því miður verða sumir sem hljóta aga svo sárir að þeir fjarlægjast Guð og söfnuð hans. (Hebr. 3:12, 13) En þýðir það að öll von sé úti fyrir þá? Hugsum til Grahams sem var vikið úr söfnuðinum, var tekinn inn í hann á ný en varð síðan óvirkur í trúnni. Nokkrum árum eftir það bað hann öldung, sem hafði kynnst honum vel, að aðstoða sig við biblíunám.

13 Öldungurinn lítur um öxl og segir: „Graham var stoltur. Hann var aðfinnslusamur í garð öldunganna sem höfðu átt hlut að máli þegar honum var vikið úr söfnuðinum. Næstu námstundirnar ræddum við því vers sem fjölluðu um stolt og áhrif þess. Graham fór að sjá sjálfan sig í ljósi Biblíunnar og honum líkaði ekki það sem hann sá. Þetta hafði stórkostleg áhrif á hann. Hann viðurkenndi að stoltið hefði verið eins og ,bjálki‘ sem blindaði hann og að aðfinnslusemin hefði verið hans vandamál. Eftir það tók hann snöggum breytingum. Hann fór að sækja allar samkomur, leggja sig einlæglega fram við biblíunám og biðja reglulega. Hann tók líka alvarlega ábyrgð sína að sinna andlegum þörfum fjölskyldunnar, konu sinni og börnum til mikillar ánægju.“ – Lúk. 6:41, 42; Jak. 1:23-25.

14 Öldungurinn heldur áfram: „Dag einn sagði Graham mér nokkuð sem snerti hjarta mitt. ,Ég hef þekkt sannleikann í mörg ár,‘ sagði hann, ,og ég hef meira að segja verið brautryðjandi. En það er ekki fyrr en núna sem ég get einlæglega sagt að ég elska Jehóva.‘ Fljótlega var hann beðinn um að bera hljóðnema á samkomum, og hann kunni ákaflega vel að meta að fá það verkefni. Fordæmi hans sýndi mér fram á að þegar maður auðmýkir sig frammi fyrir Guði og þiggur aga hlýtur maður ríkulega blessun.“

LÍKJUM EFTIR GUÐI OG KRISTI ÞEGAR VIÐ VEITUM AGA

15. Hvað þurfum við að gera ef við viljum að agi, sem við veitum, nái til hjartans?

15 Til að verða góðir kennarar þurfum við fyrst að vera góðir nemendur. (1. Tím. 4:15, 16) Þeir sem Jehóva hefur falið að veita aga þurfa að sama skapi sjálfir að vera fúsir til að fara eftir leiðsögn hans. Þegar þeir sýna slíka auðmýkt ávinna þeir sér virðingu og eiga auðveldara með að tala af einlægni þegar þeir þjálfa eða leiðrétta aðra. Skoðum fordæmi Jesú.

16. Hvað getum við lært af Jesú um viðeigandi aga og áhrifaríka kennslu?

16 Jesús hlýddi alltaf föður sínum, jafnvel þegar það reyndi verulega á. (Matt. 26:39) Og hann gaf honum heiðurinn af kennslu sinni og visku. (Jóh. 5:19, 30) Þar sem Jesús var auðmjúkur og hlýðinn var hann umhyggjusamur kennari og það laðaði einlægt fólk að honum. (Lestu Matteus 11:29.) Hlýleg orð hans styrktu þá sem voru eins og brákaður reyr eða hörkveikur á olíulampa sem var við það að slokkna. (Matt. 12:20) Jesús var líka vingjarnlegur og kærleiksríkur þegar reyndi á þolinmæðina. Það kom skýrt í ljós þegar hann þurfti að leiðrétta postulana eftir að þeir sýndu af sér sjálfselsku og metnaðargirni. – Mark. 9:33-37; Lúk. 22:24-27.

17. Hvaða eiginleikar hjálpa öldungum að vera góðir hirðar hjarðar Guðs?

17 Allir sem hafa þá ábyrgð að veita aga byggðan á meginreglum Biblíunnar þurfa að líkja eftir Kristi. Þannig sýna þeir að þá langar til að láta Guð og son hans móta sig. Pétur postuli skrifaði: „Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ (1. Pét. 5:2-4) Umsjónarmenn ættu fúslega að lúta yfirráðum Guðs og Krists, höfuðs safnaðarins. Það er bæði sjálfum þeim til góðs og þeim sem þeir hafa í sinni umsjá. – Jes. 32:1, 2, 17, 18.

18. (a) Til hvers ætlast Jehóva af foreldrum? (b) Hvernig hjálpar Jehóva foreldrum að standa undir ábyrgð sinni?

18 Sömu meginreglur eiga við um fjölskylduna. Þeim sem fara með forystuna í fjölskyldu er sagt: „Reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin.“ (Ef. 6:4) Hversu mikilvægt er þetta? Í Orðskviðunum 19:18 segir: „Agaðu son þinn meðan enn er von svo að þú berir ekki ábyrgð á dauða hans.“ (NW) Já, Jehóva dregur kristna foreldra til ábyrgðar ef þeir veita barni ekki nauðsynlegan aga. (1. Sam. 3:12-14) Hann veitir foreldrum hins vegar þá visku og þann styrk sem þeir þurfa þegar þeir biðja auðmjúkir um það og reiða sig á leiðsögn Biblíunnar og heilags anda. – Lestu Jakobsbréfið 1:5.

LÆRUM HVERNIG VIÐ GETUM LIFAÐ FRIÐSAMLEGA AÐ EILÍFU

19, 20. (a) Hvað hlýst af því að þiggja aga frá Guði? (b) Hvað skoðum við í næstu grein?

19 Það væri erfitt að telja upp allt það góða sem hlýst af því að þiggja aga frá Jehóva og líkja eftir honum og syni hans þegar við veitum öðrum aga. Fjölskyldan og söfnuðurinn verður athvarf þar sem friður ríkir. Hver og einn finnur fyrir kærleika og öryggi og finnst hann vera mikils metinn – og það er bara forsmekkur af því sem koma skal. (Sálm. 72:7) Það eru engar ýkjur að segja að aginn frá Jehóva kenni okkur að lifa saman sem friðsöm og sameinuð fjölskylda að eilífu undir föðurlegri umsjá hans. (Lestu Jesaja 11:9.) Þegar við lítum þannig á agann frá Guði er auðveldara að sjá hann í réttu ljósi – sem fallegt merki um þann óviðjafnanlega kærleika sem Guð sýnir okkur.

20 Í næstu grein lærum við enn meira um aga í fjölskyldunni og í söfnuðinum. Einnig verður rætt um sjálfsaga og nokkuð sem getur verið mun verra en sársaukinn sem agi kann að valda.