Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Jehóva hefur aldrei brugðist mér

Jehóva hefur aldrei brugðist mér

Ég var ein af fjórum stelpum sem voru valdar til að færa Adolf Hitler blóm eitt sinn eftir að hann flutti ræðu. Hvers vegna varð ég fyrir valinu? Pabbi tók mikinn þátt í starfsemi nasista og var bílstjóri flokksleiðtogans á staðnum. Mamma var kaþólsk og heit í trúnni. Hún vildi að ég yrði nunna. En þrátt fyrir þetta varð ég hvorki nunna né nasisti. Mig langar til að segja ykkur hvers vegna.

ÉG ÓLST upp í Graz í Austurríki. Sjö ára var ég send í klausturskóla. Þar varð ég vitni að yfirgengilegu siðleysi meðal presta og nunna. Mamma leyfði mér því að hætta í skólanum áður en ár var liðið.

Fjölskyldumynd þar sem pabbi er í einkennisbúningi hersins.

Síðar fór ég í heimavistarskóla. Kvöld eitt kom pabbi þangað til að flytja mig í öruggt skjól því að sprengjunum rigndi yfir Graz. Við leituðum skjóls í bænum Schladming. Rétt eftir að við fórum yfir brú nokkra var hún sprengd í loft upp. Seinna var skotið á okkur ömmu úr flugvélum í lágflugi þar sem við vorum í garðinum okkar. Í stríðslok fannst okkur bæði kirkjan og stjórnvöld hafa brugðist okkur.

ÉG KYNNIST JEHÓVA SEM BREGST ALDREI

Árið 1950 byrjaði vottur Jehóva að segja mömmu frá boðskap Biblíunnar. Ég hlustaði á samræður þeirra og fór stundum með mömmu á samkomur. Hún sannfærðist um að vottar Jehóva kenndu sannleikann og skírðist árið 1952.

Á þeim tíma fannst mér bara vera gamlar konur í söfnuðinum. Síðar kynntumst við söfnuði þar sem var margt ungt fólk. Þessi söfnuður var sko ekkert elliheimili! Eftir að við fluttum aftur til Graz fór ég að sækja allar samkomur, og áður en langt um leið sannfærðist ég líka um að ég væri að kynnast sannleikanum. Ég lærði einnig að Jehóva er Guð sem hjálpar þjónum sínum hvað sem á dynur. Það gerir hann jafnvel þótt okkur finnist aðstæður vera okkur algerlega ofviða. – Sálm. 3:6, 7.

Mig langaði til að segja öðrum frá sannleikanum. Ég byrjaði á systkinum mín. Eldri systur mínar fjórar voru fluttar að heiman og störfuðu sem kennarar. En ég heimsótti þær í þorpunum þar sem þær bjuggu og hvatti þær til að kynna sér Biblíuna. Öll systkini mín gerðu það um síðir og urðu vottar.

Í annarri vikunni, sem ég boðaði trúna hús úr húsi, hitti ég konu á fertugsaldri og fór að leiðbeina henni við biblíunám. Hún lét síðan skírast og seinna meir skírðust einnig maðurinn hennar og synir þeirra tveir. Þetta biblíunámskeið hafði djúpstæð áhrif á mig. Hvers vegna? Vegna þess að sjálf hafði ég aldrei fengið formlega biblíukennslu og þurfti að búa mig vel undir hverja námsstund. Í vissum skilningi þurfti ég að byrja á því að kenna sjálfri mér til að geta kennt konunni. Fyrir vikið fékk ég miklar mætur á sannleikanum.

,OFSÓTT EN EKKI YFIRGEFIN‘

Ég skírðist niðurdýfingarskírn í apríl árið 1954. Árið eftir sótti ég alþjóðamót í Þýskalandi, Frakklandi og Englandi. Í Lundúnum hitti ég Albert Schroeder. Hann var kennari við Biblíuskólann Gíleað og sat síðar í hinu stjórnandi ráði. Í skoðunarferð um British Museum benti bróðir Schroeder okkur á nokkur biblíuhandrit. Þau höfðu að geyma nafn Guðs með hebresku letri, og hann útskýrði fyrir okkur gildi þessara handrita. Þetta hafði sterk áhrif á mig og styrkti kærleiksböndin við Jehóva. Ég varð ákveðnari en nokkru sinni fyrr að halda sannleika Biblíunnar á lofti.

Með brautryðjandafélaga mínum (til hægri) í Mistelbach í Austurríki.

Ég gerðist brautryðjandi 1. janúar 1956. Fjórum mánuðum síðar var mér boðið að starfa sem sérbrautryðjandi í Austurríki. Á þeim tíma voru engir vottar í bænum Mistelbach þar sem ég átti að starfa. En þarna reyndi á mig á sérstakan hátt. Við vorum harla ólíkar, ég og brautryðjandafélagi minn. Ég var borgarbarn, næstum 19 ára, en hún var 25 ára sveitastúlka. Ég vildi sofa fram eftir á morgnana en hún vildi fara snemma á fætur. Ég vildi vaka fram eftir á kvöldin en hún vildi fara snemma í háttinn. En með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar tókst okkur að greiða fram úr þessu og okkur vegnaði vel sem brautryðjandafélögum.

En það var ýmislegt annað sem reyndi meira á okkur. Við urðum jafnvel fyrir dálitlum ofsóknum en vorum þó ,ekki yfirgefnar‘. (2. Kor. 4:7-9) Einu sinni vorum við að boða trúna í sveitaþorpi þegar þorpsbúar siguðu hundum á okkur. Á augabragði vorum við stöllurnar umkringdar stórum hundum sem geltu og sýndu tennurnar. Við héldumst í hendur og ég sagði jafnvel við Jehóva í bæn: „Jehóva, leyfðu okkur að deyja fljótt þegar þeir ná okkur!“ Þegar hundarnir voru komnir í seilingarfjarlægð námu þeir staðar, dilluðu rófunni og röltu burt. Okkur fannst Jehóva hafa verndað okkur. Eftir þetta boðuðum við fagnaðarerindið út um allt þorpið, og okkur til mikillar ánægju tóku þorpsbúar vel á móti okkur. Kannski voru þeir hissa að hundarnir skyldu ekki gera okkur mein eða undruðust að við skyldum halda áfram eftir skrekkinn. Sumir þeirra urðu síðar vottar.

Leigusalinn okkar skaut okkur líka skelk í bringu. Dag einn kom hann drukkinn heim og hótaði að drepa okkur. Hann fullyrti að það væri ónæði af okkur í hverfinu. Konan hans reyndi að róa hann en án árangurs. Við heyrðum í þeim upp í herbergið okkar. Við flýttum okkur að skorða hurðina af með stólum og byrjuðum að pakka niður. Þegar við opnuðum dyrnar stóð leigusalinn á stigapallinum með stóran hníf í hendinni. Við flúðum með pjönkur okkar út um bakdyrnar, hlupum gegnum garðinn og komum aldrei þangað aftur.

Við gengum inn á hótel og báðum um herbergi. Það fór svo að við dvöldumst þar í næstum ár og það reyndist starfi okkar til hagsbóta. Hvernig stóð á því? Hótelið stóð í miðbænum og sumir biblíunemendur okkar vildu gjarnan koma þangað til að fá kennslu. Áður en langt um leið vorum við farnar að halda bóknámið og vikulegt nám með hjálp Varðturnsins í hótelherberginu okkar að um það bil 15 viðstöddum.

Við störfuðum í Mistelbach í meira en ár. Þá var ég send til bæjarins Feldbach sem er suðaustur af Graz en þar var heldur enginn söfnuður. Ég fékk nýjan félaga í brautryðjandastarfinu og við bjuggum í pínulitlu herbergi á annarri hæð í bjálkakofa. Vindurinn næddi gegnum rifurnar milli bjálkanna og við reyndum að þétta þær með dagblöðum. Við þurftum að sækja vatnið í brunn. En þetta var erfiðisins virði. Eftir fáeina mánuði hafði myndast hópur áhugasamra í bænum. Um síðir skírðust um 30 manns úr sömu fjölskyldu sem við kenndum.

Upplifanir af þessu tagi sýndu mér að Jehóva bregst aldrei þeim sem starfa í þágu ríkis hans og þær vöktu með mér djúpt þakklæti til hans. Oft er það ekki á mannlegu valdi að veita okkur lið en Jehóva er alltaf nærri. – Sálm. 121:1-3.

GUÐ STYÐUR MIG „MEÐ SIGRANDI HENDI“

Árið 1958 átti að halda alþjóðamót í New York-borg, á leikvöngunum Yankee Stadium og Polo Grounds. Ég sótti um að fá að sækja mótið og deildarskrifstofan í Austurríki spurði hvort ég hefði áhuga á að sækja Gíleaðskólann. Það hvarflaði ekki að mér að afþakka boðið. Ég svaraði játandi um hæl.

Ég sat við hliðina á Martin Pötzinger í Gíleaðskólanum. Hann hafði mátt þola skelfilega meðferð í fangabúðum nasista. Hann átti líka sæti í hinu stjórnandi ráði síðar meir. Stundum hvíslaði hann að mér í tímum: „Erika, segðu mér á þýsku hvað þetta þýðir.“

Þegar námskeiðið var hálfnað tilkynnti Nathan Knorr hvert við yrðum send. Ég átti að fara til Paragvæ. Þar sem ég var ung að árum þurfti ég að fá leyfi frá pabba til að fara inn í landið. Ég fór þangað í mars 1959. Ég átti að búa á trúboðsheimili í borginni Asunción ásamt nýjum starfsfélaga.

Nokkru síðar hitti ég trúboðann Walter Bright. Hann hafði útskrifast úr Gíleað með 30. nemendahópnum en ég með 32. hópnum. Við giftumst og gátum nú tekist á við áskoranir lífsins í sameiningu. Þegar erfiðleikar urðu á vegi okkar lásum við alltaf loforð Jehóva í Jesaja 41:10: „Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig.“ Þessi orð veittu okkur vissu fyrir því að Jehóva myndi aldrei bregðast okkur eins lengi og við legðum okkur fram um að vera honum trú og þjóna ríki hans fyrst og fremst.

Síðar vorum við send á svæði nálægt landamærum Brasilíu. Að undirlagi presta tóku unglingar að kasta grjóti í trúboðsheimilið sem var ekki sérlega vel á sig komið fyrir. Þá fór Walter að aðstoða lögreglustjórann við biblíunám. Hann sá til þess að það væru lögregluþjónar nærri heimili okkar í heila viku, og þeir sem höfðu ofsótt okkur létu okkur í friði eftir það. Skömmu síðar fengum við hentugra húsnæði handan landamæranna. Það kom sér vel því að við gátum haldið samkomur bæði í Paragvæ og Brasilíu. Áður en við fluttumst þaðan höfðu myndast þar tveir litlir söfnuðir.

Með Walter, eiginmanni mínum, meðan við vorum trúboðar í Asunción í Paragvæ.

JEHÓVA STYÐUR MIG ÁFRAM

Læknar höfðu sagt mér að ég gæti ekki eignast börn þannig að það kom okkur verulega á óvart að ég skyldi verða ófrísk árið 1962. Við settumst að í Hollywood í Flórída, í nágrenni við fjölskyldu Walters. Um árabil gátum við hjónin ekki verið brautryðjendur því að við höfðum fyrir fjölskyldu að sjá. Við gættum þess samt að láta þjónustuna við ríki Guðs vera í fyrirrúmi. – Matt. 6:33.

Við komum til Flórída í nóvember 1962. Það kom okkur á óvart að almenningsálitið hafði þau áhrif á þeim tíma að svartir og hvítir vottar þar héldu ekki sameiginlegar samkomur og boðuðu ekki fagnaðarerindið á sömu svæðum. En Jehóva gerir ekki greinarmun á fólki eftir kynþætti, og áður en langt um leið voru svartir og hvítir farnir að halda sameiginlegar samkomur. Hönd Jehóva var þar greinilega að verki og núna eru tugir safnaða á svæðinu.

Walter dó því miður árið 2015 eftir að hafa greinst með krabbamein í heila. Við höfðum verið gift í 55 ár. Hann var yndislegur eiginmaður, elskaði Jehóva og var mörgum í söfnuðinum stoð og stytta. Ég hlakka til að hitta hann aftur heilan heilsu þegar hann verður reistur upp. – Post. 24:15.

Ég er þakklát fyrir að hafa getað þjónað Jehóva í fullu starfi í meira en 40 ár og uppskorið margs konar gleði og umbun. Við Walter gátum til dæmis verið viðstödd skírn hjá 136 biblíunemendum okkar. Auðvitað var lífið ekki alltaf dans á rósum en við litum aldrei á það sem tilefni til að hætta að þjóna trúum Guði okkar. Við styrktum öllu heldur sambandið við hann og treystum að hann greiddi úr málum á sinn hátt og þegar það væri tímabært. Hann gerir það alltaf. – 2. Tím. 4:16, 17.

Ég sakna Walters sárlega en brautryðjandastarfið er mér mikil hjálp. Það gerir mér ákaflega gott að kenna fólki og einnig að segja frá voninni um upprisu. Jehóva hefur aldrei brugðist mér á nokkurn hátt. Hann hefur stutt mig, styrkt og hjálpað með ,sigrandi hendi sinni‘ eins og hann lofaði. – Jes. 41:10.