Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 13

Hvernig verndar Jehóva okkur?

Hvernig verndar Jehóva okkur?

„Drottinn er trúr og hann mun styrkja ykkur og vernda fyrir hinum vonda.“ – 2. ÞESS. 3:3.

SÖNGUR 124 Sýnum tryggð

YFIRLIT *

1. Hvers vegna bað Jesús Jehóva um að gæta lærisveina sinna?

SÍÐASTA kvöldið sem Jesús lifði sem maður á jörð leiddi hann hugann að þeim vandamálum sem lærisveinar hans myndu mæta. Knúinn af kærleika til vina sinna bað Jesús föður sinn „að gæta þeirra fyrir hinum vonda“. (Jóh. 17:14, 15) Jesús vissi að eftir að hann færi aftur til himna myndi Satan Djöfullinn halda áfram að berjast gegn hverjum þeim sem vildi þjóna Jehóva. Þjónar Jehóva þurftu augljóslega á vernd að halda.

2. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva svari bænum okkar?

2 Jehóva svaraði bæn Jesú vegna þess að hann elskar son sinn. Ef við gerum okkar besta til að gleðja Jehóva elskar hann okkur líka og hann svarar bænum okkar þegar við biðjum um hjálp og vernd. Jehóva er umhyggjusamur faðir og heldur því áfram að annast börnin sín af kærleika. Nafn hans, eða orðspor, er í húfi.

3. Hvers vegna þurfum við á vernd Jehóva að halda?

3 Við höfum aldrei þurft eins mikið á vernd Jehóva að halda eins og núna. Satan hefur verið kastað niður af himnum „og er ofsareiður“. (Opinb. 12:12) Honum hefur tekist að sannfæra suma af þeim sem ofsækja okkur um að þeir „veiti Guði heilaga þjónustu“. (Jóh. 16:2) Aðrir sem trúa ekki á Guð ofsækja okkur vegna þess að við erum ólík fólki í heiminum. Hver sem ástæðan kann að vera þurfum við ekki að vera hrædd vegna þess að Guð segir í orði sínu: „Drottinn er trúr og hann mun styrkja ykkur og vernda fyrir hinum vonda.“ (2. Þess. 3:3) Hvernig verndar Jehóva okkur? Skoðum tvær leiðir sem hann notar til þess.

JEHÓVA SÉR OKKUR FYRIR HERKLÆÐUM

4. Hverju hefur Jehóva séð okkur fyrir til að vernda okkur samkvæmt Efesusbréfinu 6:13–17?

4 Jehóva hefur séð okkur fyrir alvæpni sem getur verndað okkur fyrir árásum Satans. (Lestu Efesusbréfið 6:13–17.) Þessi andlegu herklæði eru sterk og virka mjög vel. En þau vernda okkur ekki nema við klæðumst þeim öllum og höldum áfram að vera í þeim. Fyrir hvað stendur hver og einn hluti herklæðanna? Skoðum það nánar.

5. Hvað er belti sannleikans og hvers vegna þurfum við að vera með það?

5 Belti sannleikans stendur fyrir sannleikann í orði Guðs, Biblíunni. Hvers vegna þurfum við að vera með þetta belti? Vegna þess að Satan er „faðir lyginnar“. (Jóh. 8:44) Hann hefur spunnið upp lygar um þúsundir ára og hann „afvegaleiðir alla heimsbyggðina“. (Opinb. 12:9) En sannleikurinn í Biblíunni verndar okkur fyrir blekkingum hans. Hvernig setjum við á okkur belti sannleikans? Við gerum það með því að læra sannleikann um Jehóva, tilbiðja hann í „anda og sannleika“ og vera heiðarleg í öllu. – Jóh. 4:24; Ef. 4:25; Hebr. 13:18.

Belti: Sannleikurinn í orði Guðs.

6. Hver er brynja réttlætisins og hvers vegna þurfum við að klæðast henni?

6 Brynja réttlætisins stendur fyrir réttlátan mælikvarða Jehóva. Hvers vegna verðum við að klæðast þessari brynju? Brynja ver hjarta hermanns fyrir stungum. Á sama hátt ver brynja réttlætisins táknrænt hjarta okkar, eða okkar innri mann, fyrir spillandi áhrifum heimsins. (Orðskv. 4:23) Jehóva væntir þess að við elskum hann og þjónum honum af öllu hjarta. (Matt. 22:36, 37) Satan reynir því að fá okkur til að elska það sem heimurinn hefur upp á að bjóða og Jehóva hatar til að við hættum að þjóna Jehóva af öllu hjarta. (Jak. 4:4; 1. Jóh. 2:15, 16) Og ef það dugar ekki til reynir hann að þvinga okkur til að gera eitthvað sem Jehóva mislíkar.

Brynja: Réttlátur mælikvarði Jehóva.

7. Hvernig berum við brynju réttlætisins?

7 Við berum brynju réttlætisins með því að virða mælikvarða Jehóva um rétt og rangt og með því að lifa í samræmi við hann. (Sálm. 97:10) Sumum gæti fundist mælikvarði Jehóva vera of stífur. En ef við hættum að fara eftir meginreglum Biblíunnar í lífi okkar erum við eins og hermaður sem tekur af sér brynjuna í miðjum bardaga vegna þess að honum finnst hún vera of þung. Það væri ótrúlega heimskulegt! Ef við elskum Jehóva finnst okkur boðorð hans „ekki þung“ heldur lítum við svo á að þau bjargi lífi okkar. – 1. Jóh. 5:3.

8. Hvaða þýðingu hefur það að vera skóuð fúsleika til að flytja fagnaðarboðskapinn?

8 Páll hvetur okkur líka til að vera skóuð fúsleika til að flytja fagnaðarboðskap friðarins. Við ættum með öðrum orðum alltaf að vera tilbúin að boða fagnaðarboðskapinn um ríkið. Þegar við tölum við aðra um Biblíuna styrkjum við okkar eigin trú. Það er sannarlega hvetjandi að sjá hvernig þjónar Jehóva um allan heim leita að tækifærum til að flytja fagnaðarboðskapinn hvar sem þeir eru. Þeir gera það í vinnunni, í skólanum, á viðskiptasvæðum og þegar þeir fara hús úr húsi, versla, heimsækja ættingja sem eru ekki í trúnni eða tala óformlega við kunningja, og jafnvel þegar þeir eru einangraðir heima um tíma. Ef við hættum að boða trúna vegna ótta værum við eins og hermaður sem færi úr skónum í miðjum bardaga. Hann yrði auðveldlega sár á fótunum og ætti erfiðara með að verjast árásum. Auk þess gæti hann ekki hlýtt skipunum yfirmanns síns.

Skór: Fúsleiki til að flytja fagnaðarboðskapinn.

9. Hvers vegna verðum við að bera stóran skjöld trúarinnar?

9 Stóri trúarskjöldurinn stendur fyrir trú okkar á Jehóva. Við trúum því að Jehóva standi við öll loforð sín. Sú trú hjálpar okkur að slökkva „allar logandi örvar hins vonda“. Hvers vegna verðum við að bera þennan stóra skjöld? Vegna þess að hann verndar okkur fyrir kenningum fráhvarfsmanna og kemur í veg fyrir að við missum kjarkinn þegar fólk gerir lítið úr trú okkar. Án trúar höfum við ekki styrk til að standa á móti því þegar aðrir reyna að þrýsta á okkur til að óhlýðnast Jehóva. En við berum skjöldinn í hvert skipti sem við stöndum upp fyrir trú okkar í vinnunni eða skólanum. (1. Pét. 3:15) Við berum líka skjöldinn í hvert skipti sem við höfnum betur borgaðri vinnu sem myndi trufla andlega dagskrá okkar. (Hebr. 13:5, 6) Og skjöldurinn ver okkur í hvert sinn sem við þjónum Jehóva þrátt fyrir andstöðu. – 1. Þess. 2:2.

Skjöldur: Trú okkar á Jehóva og loforð hans.

10. Hvað er hjálmur frelsunarinnar og hvers vegna þurfum við að hafa hann á okkur?

10 Hjálmur frelsunarinnar er vonin sem Jehóva gefur okkur – vonin um að hann launi öllum sem gera vilja hans og að hann reisi okkur aftur til lífs ef við deyjum. (1. Þess. 5:8; 1. Tím. 4:10; Tít. 1:1, 2) Rétt eins og hjálmur verndar höfuð hermanns gerir von hjálpræðisins okkur kleift að hugsa skýrt. Hvernig gerir hún það? Vonin hjálpar okkur að einbeita okkur að loforðum Guðs og sjá vandamálin í réttu ljósi. Hvernig berum við hjálminn? Með því að gæta þess að sjá hlutina sömu augum og Guð. Við bindum til dæmis ekki von okkar við hverfulan auð heldur við Guð. – Sálm. 26:2; 104:34; 1. Tím. 6:17.

Hjálmur: Vonin um eilíft líf.

11. Hvað er sverð andans og hvers vegna þurfum við að nota það?

11 Sverð andans er orð Guðs, Biblían. Þetta sverð getur afhjúpað alls konar blekkingar og frelsað fólk undan þrældómi falskra kenninga og skaðlegra venja. (2. Kor. 10:4, 5; 2. Tím. 3:16, 17; Hebr. 4:12) Við lærum að beita sverðinu rétt með sjálfsnámi og þeirri þjálfun sem söfnuður Guðs veitir okkur. (2. Tím. 2:15) Auk þessara herklæða veitir Jehóva okkur aðra öfluga vernd. Hver er hún?

Sverð: Biblían, orð Guðs.

VIÐ ÞURFUM EKKI AÐ BERJAST EIN

12. Hvers annars þörfnumst við og hvers vegna?

12 Reyndur hermaður veit að hann sigrar ekki öflugan her einn síns liðs. Hann þarf stuðning félaga sinna. Við getum ekki heldur sigrað Satan og fylgjendur hans ein. Við þurfum stuðning frá bræðrum okkar og systrum. Jehóva hefur séð okkur fyrir bræðrasamfélagi sem stendur við bakið á okkur. – 1. Pét. 2:17.

13. Hvaða gagn höfum við af því að mæta á samkomur samkvæmt Hebreabréfinu 10:24, 25?

13 Við fáum meðal annars stuðning með því að mæta á samkomur. (Lestu Hebreabréfið 10:24, 25.) Þegar við erum niðurdregin – eins og hendir okkur öll – geta samkomurnar hresst okkur. Einlæg svör bræðra og systra uppörva okkur. Biblíutengdar ræður og sýnidæmi gera okkur enn ákveðnari í að þjóna Jehóva. Og uppbyggjandi samræður fyrir og eftir samkomur eru hvetjandi. (1. Þess. 5:14) Auk þess gefa samkomurnar okkur tækifæri til að njóta þeirrar gleði að hjálpa öðrum. (Post. 20:35; Rómv. 1:11, 12) Samkomurnar hjálpa okkur á fleiri vegu. Þær bæta bardagalist okkar með því að hjálpa okkur að taka framförum í boðuninni og kennslunni. Við lærum til dæmis að nota vel verkfærin í verkfærakistunni okkar. Undirbúðu þig því vel fyrir safnaðarsamkomur. Hlustaðu vel á samkomum. Notaðu síðan það sem þú lærir. Með því að gera þetta verðurðu „góður hermaður Krists Jesú“. – 2. Tím. 2:3.

14. Hvaða önnur hjálp stendur okkur til boða?

14 Við njótum líka stuðnings milljóna öflugra engla. Ímyndaðu þér hvað einn engill er fær um að gera. (Jes. 37:36) Ímyndaðu þér síðan hvað heill her öflugra engla er fær um að gera. Enginn maður eða illur andi hefur möguleika á að vinna öflugan her Jehóva. Það er stundum sagt að einn trúfastur vottur og Jehóva séu alltaf meirihluti. (Dóm. 6:16) Það er svo sannarlega rétt! Hafðu það í huga þegar vinnufélagi, skólafélagi eða ættingi sem er ekki í trúnni dregur úr þér kjarkinn. Mundu að þú ert ekki einn í þessari baráttu. Jehóva styður þig því að þú ert að fylgja leiðsögn hans.

JEHÓVA HELDUR ÁFRAM AÐ VERNDA OKKUR

15. Hvernig sýnir Jesaja 54:15, 17 að það verður aldrei hægt að þagga niður í þjónum Guðs?

15 Heimurinn undir stjórn Satans hefur margar ástæður til að hata okkur. Við erum algerlega hlutlaus í stjórnmálum og við tökum ekki þátt í hernaði. Við boðum nafn Guðs, auglýsum ríki hans sem einu vonina um frið og fylgjum réttlátum mælikvarða hans. Við afhjúpum stjórnanda heimsins sem viðbjóðslegan lygara og morðingja. (Jóh. 8:44) Og við boðum að heimi Satans verði bráðlega eytt. Satan og fylgjendur hans geta samt aldrei þaggað niður í okkur. Við höldum áfram að lofa Jehóva og notum til þess hvert tækifæri sem gefst. Þótt Satan sé öflugur hefur hann ekki getað hindrað að boðskapurinn um ríki Guðs nái til fólks um allan heim. Þetta er aðeins mögulegt vegna þess að Jehóva verndar okkur. – Lestu Jesaja 54:15, 17.

16. Hvernig mun Jehóva bjarga þjónum sínum í þrengingunni miklu?

16 Hvað er fram undan? Í þrengingunni miklu mun Jehóva bjarga okkur með undraverðum hætti. Fyrst mun hann bjarga trúföstum þjónum sínum þegar hann lætur konunga jarðarinnar eyða Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinb. 17:16–18; 18:2, 4) Síðan bjargar hann fólki sínu þegar hann afmáir það sem eftir verður af heimi Satans í Harmagedón. – Opinb. 7:9, 10; 16:14, 16.

17. Hvernig hjálpar það okkur að halda okkur nálægt Jehóva?

17 Satan getur ekki valdið okkur varanlegum skaða ef við höldum okkur nálægt Jehóva. Það er Satan sem á eftir að bíða varanlegan skaða. (Rómv. 16:20) Klæðstu öllum herklæðum Guðs – og vertu í þeim! Reyndu ekki að berjast einn. Styddu bræður þína og systur og fylgdu leiðsögn Jehóva. Ef þú gerir það geturðu treyst því að ástríkur faðir þinn á himnum styrki þig og verndi. – Jes. 41:10.

SÖNGUR 149 Sigursöngur

^ gr. 5 Í Biblíunni er okkur lofað að Jehóva styrki og verndi okkur, ekki aðeins fyrir því sem gæti skaðað samband okkar við hann heldur fyrir hverju því sem gæti valdið okkur varanlegum skaða. Í þessari grein fáum við svör við eftirfarandi spurningum: Hvers vegna þörfnumst við verndar Jehóva? Hvernig verndar Jehóva okkur? Og hvað þurfum við að gera til að vernd Jehóva nýtist okkur?