Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 12

Kærleikurinn hjálpar okkur að þola hatur

Kærleikurinn hjálpar okkur að þola hatur

„Ég gef ykkur þessi fyrirmæli til að þið elskið hver annan. Ef heimurinn hatar ykkur skuluð þið muna að hann hataði mig á undan ykkur.“ – JÓH. 15:17, 18.

SÖNGUR 129 Reynumst þolgóð

YFIRLIT *

1. Hvers vegna ætti það ekki að koma okkur á óvart að heimurinn hati okkur samkvæmt Matteusi 24:9?

JEHÓVA áskapaði okkur þörfina að elska og vera elskuð. Þess vegna særir það okkur og við verðum kannski hrædd þegar einhver hatar okkur. Systir sem heitir Georgina og býr í Evrópu segir: „Þegar ég var 14 ára hataði mamma mig fyrir að þjóna Jehóva. Ég var döpur og einmana og fór að efast um að ég væri góð manneskja.“ * Bróðir sem heitir Danylo skrifar: „Ég var hræddur og mér fannst það niðurlægjandi þegar hermenn börðu mig, smánuðu mig og hótuðu mér vegna þess að ég er vottur Jehóva.“ Okkur líður illa þegar við finnum fyrir hatri en það kemur okkur ekki á óvart. Jesús sagði að við yrðum hötuð. – Lestu Matteus 24:9.

2, 3. Hvers vegna eru fylgjendur Jesú hataðir?

2 Heimurinn hatar fylgjendur Jesú. Hvers vegna? Vegna þess að við ,tilheyrum ekki heiminum‘ rétt eins og Jesús. (Jóh. 15:17–19) Þess vegna virðum við mennskar stjórnir en neitum að tilbiðja þær og táknmyndir þeirra. Við veitum Jehóva óskipta hollustu. Við höldum á lofti rétti Guðs til að stjórna mannkyninu – rétti sem Satan og ,niðjar‘ hans neita harðlega að viðurkenna. (1. Mós. 3:1–5, 15) Við boðum að Guðsríki sé eina von mannkynsins og að það muni brátt tortíma öllum þeim sem standa á móti því. (Dan. 2:44; Opinb. 19:19–21) Það eru góðar fréttir fyrir þá sem eru auðmjúkir en vondar fréttir fyrir hina illu. – Sálm. 37:10, 11.

3 Við erum líka hötuð vegna þess að við lifum í samræmi við réttlát lög Guðs. En lágt siðferði heimsins stangast algerlega á við þessi lög. Margt fólk samþykkir til dæmis opinskátt siðlausa hegðun, sambærilega þeirri sem varð til þess að Guð eyddi Sódómu og Gómorru. (Júd. 7) Margir hæðast að okkur og álíta okkur umburðarlaus vegna þess að við hlýðum lögum Guðs varðandi slíka hegðun. – 1. Pét. 4:3, 4.

4. Hvaða eiginleikar styrkja okkur þegar fólk sýnir okkur hatur?

4 Hvað getur hjálpað okkur að sýna þolgæði þegar fólk hatar okkur og smánar? Við þurfum að trúa því staðfastlega að Jehóva hjálpi okkur. Trú okkar er eins og skjöldur sem getur „slökkt allar logandi örvar hins vonda“. (Ef. 6:16) En það er ekki nóg að hafa trú. Við þurfum líka að hafa kærleika. Hvers vegna? Vegna þess að kærleikurinn „er ekki reiðigjarn“. Hann er þolgóður í öllum erfiðum aðstæðum. (1. Kor. 13:4–7, 13) Skoðum nú hvernig kærleikur til Jehóva, kærleikur til trúsystkina okkar og jafnvel kærleikur til óvina okkar hjálpar okkur að sýna þolgæði þegar við erum hötuð.

KÆRLEIKUR TIL JEHÓVA HJÁLPAR OKKUR AÐ ÞOLA HATUR

5. Hvað gerði kærleikur Jesú til föður síns honum kleift að gera?

5 Kvöldið áður en óvinir Jesú tóku hann af lífi sagði hann við trúfasta fylgjendur sína: ,Ég elska föðurinn og geri eins og faðirinn hefur gefið mér fyrirmæli um.‘ (Jóh. 14:31) Kærleikur Jesú til Jehóva gaf honum styrk til að ganga í gegnum prófraunirnar sem voru framundan. Kærleikur okkar til Jehóva getur gert það sama fyrir okkur.

6. Hvernig bregðast þjónar Jehóva við hatri heimsins samkvæmt Rómverjabréfinu 5:3–5?

6 Kærleikur til Guðs hefur alltaf hjálpað þjónum hans að vera þolgóðir í ofsóknum. Þegar postulunum var til dæmis skipað af hinu volduga Æðstaráði Gyðinga að hætta að boða trúna knúði kærleikur til Guðs þá til „að hlýða Guði frekar en mönnum“. (Post. 5:29; 1. Jóh. 5:3) Slíkur órjúfanlegur kærleikur styrkir líka trúsystkini okkar nú á dögum en mörg þeirra standa stöðug andspænis ofsóknum af hendi grimmra og voldugra ríkisstjórna. En hatur heimsins dregur ekki úr okkur kjarkinn heldur þolum við það með gleði. – Post. 5:41; lestu Rómverjabréfið 5:3–5.

7. Hvernig ættum við að bregðast við þegar ættingjar standa gegn okkur?

7 Ef okkar eigin fjölskylda stendur gegn okkur er það ef til vill ein erfiðasta prófraunin sem við göngum í gegnum. Þegar við byrjum að sýna sannleikanum áhuga gæti einhver í fjölskyldunni haldið að verið væri að afvegaleiða okkur. Aðrir gætu álitið að við værum að missa vitið. (Samanber Markús 3:21) Þeir gætu jafnvel beitt okkur ofbeldi. Slík andstaða ætti ekki að koma okkur á óvart. Jesús sagði: „Heimilismenn manns verða óvinir hans.“ (Matt. 10:36) Við komum að sjálfsögðu ekki fram við ættingja okkar eins og óvini, hvaða viðhorf sem þeir kunna að hafa til okkar. Þvert á móti eykst kærleikur okkar til fólks þegar kærleikur okkar til Jehóva vex. (Matt. 22:37–39) En við miðlum aldrei málum með því að brjóta gegn lögum Biblíunnar og meginreglum aðeins til að þóknast mönnum.

Við getum þurft að þjást um tíma en Jehóva mun alltaf standa okkur við hlið og hughreysta okkur og styrkja. (Sjá 8.–10. grein.)

8, 9. Hvað hjálpaði systur að standast harða andstöðu?

8 Georgina, sem minnst er á fyrr í greininni, stóð föst fyrir þrátt fyrir harða andstöðu frá móður sinni. Hún segir: „Við móðir mín byrjuðum saman að rannsaka Biblíuna með vottunum en hálfu ári síðar þegar ég vildi fara að mæta á samkomur breyttist viðhorf hennar algerlega. Ég komst að því að hún var í sambandi við fráhvarfsmenn og notaði rök þeirra þegar hún talaði við mig. Hún móðgaði mig, hárreitti mig, tók mig hálstaki og henti ritunum mínum. Þegar ég var 15 ára lét ég skírast. Móðir mín reyndi að fá mig til að hætta að þjóna Jehóva með því að setja mig á heimili fyrir unglinga. Sumir þeirra áttu við fíkniefnavanda að glíma og höfðu framið glæpi. Andstaða er sérstaklega erfið þegar hún kemur frá þeim sem ætti að elska mann og annast.“

9 Hvað hjálpaði Georginu að halda út? Hún segir: „Daginn sem móðir mín snerist gegn mér hafði ég rétt lokið við að lesa alla Biblíuna. Ég var algerlega sannfærð um að ég hefði fundið sannleikann og mér fannst ég mjög náin Jehóva. Ég bað oft til hans og hann heyrði bænir mínar. Þegar ég dvaldi á unglingaheimilinu bauð systir mér heim til sín og við rannsökuðum Biblíuna saman. Og ég fékk styrk þegar ég hitti bræður og systur. Ég fékk að vera hluti af fjölskyldum þeirra. Ég sá greinilega að Jehóva er sterkari en andstæðingar okkar, sama hverjir þeir eru.“

10. Hvaða traust getum við borið til Jehóva Guðs okkar?

10 Páll postuli sagði að ekkert gæti gert okkur „viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni okkar“. (Rómv. 8:38, 39) Þótt við þurfum að þjást um tíma stendur Jehóva okkur alltaf við hlið og hughreystir okkur og styrkir. Og eins og reynsla Georginu sýnir hjálpar Jehóva okkur líka fyrir atbeina bræðra okkar og systra.

KÆRLEIKUR TIL TRÚSYSTKINA HJÁLPAR OKKUR AÐ ÞOLA HATUR

11. Hvernig myndi kærleikurinn sem Jesús lýsti í Jóhannesi 15:12, 13 hjálpa lærisveinum hans? Nefndu dæmi.

11 Kvöldið áður en Jesús dó minnti hann lærisveina sína á að elska hver annan. (Lestu Jóhannes 15:12, 13.) Hann vissi að fórnfús kærleikur myndi hjálpa þeim að halda áfram að vera sameinaðir og þola hatur heimsins. Tökum sem dæmi söfnuðinn í Þessalóníku. Bræður og systur þar voru ofsótt frá því að hann var stofnaður. En samt urðu þau fyrirmynd í trúfesti og kærleika. (1. Þess. 1:3, 6, 7) Páll hvatti þau til að halda áfram að sýna kærleika, jafnvel í „enn ríkari mæli“. (1. Þess. 4:9, 10) Kærleikur myndi knýja þau til að hughreysta niðurdregna og styðja þá sem voru veikburða. (1. Þess. 5:14) Við sjáum að þau fylgdu leiðbeiningum Páls því að í síðara bréfi sínu sem hann skrifaði ári síðar gat hann sagt við þau: „Kærleikur ykkar allra hvert til annars fer vaxandi.“ (2. Þess. 1:3–5) Kærleikur þeirra hjálpaði þeim að halda út í erfiðleikum og ofsóknum.

Kristinn kærleikur hjálpar okkur að þola hatur. (Sjá 12. grein.) *

12. Hvernig sýndu bræður og systur í einu landi hvert öðru kærleika þegar stríð geysti þar?

12 Skoðum reynslu Danylo, sem minnst er á fyrr í greininni, og eiginkonu hans. Þegar stríð í landinu náði til bæjarins þar sem þau bjuggu héldu þau áfram að sækja samkomur, gera sitt besta í boðuninni og deila með bræðrum og systrum matnum sem þau áttu. Dag einn birtust vopnaðir hermenn heima hjá Danylo. „Þeir heimtuðu að ég afneitaði trú minni,“ segir hann. „Þegar ég neitaði börðu þeir mig og þóttust skjóta mig með því að beina skotum yfir höfuðið á mér. Áður en þeir fóru hótuðu þeir að koma aftur og nauðga eiginkonu minni, en bræður okkar komu okkur í snatri um borð í lest sem flutti okkur til annars bæjar. Ég gleymi aldrei kærleika þessara kæru bræðra. Og þegar við komum til bæjarins gáfu trúsystkini þar okkur mat og hjálpuðu mér að finna vinnu og heimili. Fyrir vikið gátum við veitt öðrum vottum sem flúðu stríðið skjól.“ Frásögur eins og þessi sýna að kristinn kærleikur getur hjálpað okkur að þola hatur.

KÆRLEIKUR TIL ÓVINA OKKAR HJÁLPAR OKKUR AÐ ÞOLA HATUR

13. Hvernig hjálpar heilagur andi okkur að halda út í þjónustu okkar við Jehóva jafnvel þegar fólk hatar okkur?

13 Jesús sagði fylgjendum sínum að elska óvini sína. (Matt. 5:44, 45) Er það auðvelt? Alls ekki. En það er hægt með hjálp heilags anda Guðs. Ávöxtur anda Guðs felur meðal annars í sér kærleika, þolinmæði, góðvild, mildi og sjálfsstjórn. (Gal. 5:22, 23) Þessir eiginleikar hjálpa okkur að þola hatur. Margir andstæðingar hafa hætt að standa gegn okkur vegna þess að maki í trúnni, barn þeirra eða nágranni sýndi þessa góðu eiginleika. Margir þeirra hafa jafnvel orðið ástkær trúsystkini okkar. Ef þér finnst erfitt að elska þá sem hata þig vegna þess að þú þjónar Jehóva skaltu biðja um heilagan anda. (Lúk. 11:13) Þú getur verið fullviss um að vegir Guðs eru alltaf þeir bestu. – Orðskv. 3:5–7.

14, 15. Hvernig hjálpaði Rómverjabréfið 12:17–21 Yasmeen að sýna manninum sínum kærleika þótt hann veitti henni harða andstöðu?

14 Skoðum reynslu Yasmeen en hún býr í Mið-Austurlöndum. Þegar hún varð vottur Jehóva áleit eiginmaður hennar að hún hefði verið blekkt og reyndi að hindra hana í að þjóna Guði. Hann var ókurteis við hana og hvatti ættingja og jafnvel prest og galdramann til að hóta henni og saka hana um að sundra fjölskyldunni. Eiginmaðurinn hrópaði jafnvel ókvæðisorð að trúsystkinum á safnaðarsamkomu. Yasmeen grét oft vegna þess hve illa var komið fram við hana.

15 Andleg fjölskylda Yasmeen uppörvaði hana og styrkti í ríkissalnum. Öldungarnir hvöttu hana til að fara eftir því sem segir í Rómverjabréfinu 12:17–21. (Lestu.) „Það var erfitt,“ segir Yasmeen „en ég bað Jehóva að hjálpa mér og gerði mitt besta til að fara eftir því sem Biblían segir. Þess vegna þreif ég eldhúsið þegar maðurinn minn óhreinkaði það af illgirni. Þegar hann var ókurteis við mig svaraði ég mildilega og þegar hann var veikur annaðist ég hann.“

Þegar við sýnum þeim kærleika sem standa gegn okkur getur viðhorf þeirra breyst. (Sjá 16. og 17. grein.) *

16, 17. Hvað geturðu lært af Yasmeen?

16 Yasmeen var umbunað fyrir að sýna manninum sínum kærleika. Hún segir: „Maðurinn minn fór að treysta mér betur vegna þess að hann vissi að ég myndi alltaf segja sannleikann. Hann byrjaði að hlusta á mig af virðingu þegar við töluðum um trú og hann féllst á að halda friðinn á heimilinu. Núna hvetur hann mig til að fara á samkomur. Fjölskyldulífið hefur batnað svo um munar og það ríkir friður á heimilinu. Það er von mín að maðurinn minn taki við sannleikanum og þjóni Jehóva með mér.“

17 Reynsla Yasmeen sýnir að kærleikur „umber allt, ... vonar allt og er þolgóður í öllu“. (1. Kor. 13:4, 7) Hatur getur verið öflugt og skaðlegt en kærleikur er miklu sterkari. Kærleikur sigrar hjörtu. Og hann gleður hjarta Jehóva. En jafnvel þótt andstæðingar haldi áfram að hata okkur getum við samt verið glöð. Hvernig?

HÖTUÐ EN ÞÓ GLÖÐ

18. Hvers vegna getum við verið glöð þótt við séum hötuð?

18 Jesús sagði: „Þið eruð hamingjusöm þegar menn hata ykkur.“ (Lúk. 6:22) Við kjósum ekki að vera hötuð. Við erum ekki að reyna að vera píslarvottar. Hvernig getum við þá verið glöð þegar við erum hötuð? Í fyrsta lagi öðlumst við velþóknun Guðs þegar við sýnum þolgæði. (1. Pét. 4:13, 14) Í öðru lagi styrkist trú okkar og verður verðmætari. (1. Pét. 1:7) Og í þriðja lagi fáum við stórkostlega umbun – eilíft líf. – Rómv. 2:6, 7.

19. Hvers vegna voru postularnir glaðir eftir að hafa verið hýddir?

19 Stuttu eftir að Jesús var reistur upp fundu postularnir fyrir gleðinni sem hann talaði um. Þeir voru glaðir eftir að hafa verið hýddir og þeim skipað að hætta að boða trúna. Hvers vegna? Vegna þess að þeir töldust þess „verðir að vera vanvirtir vegna nafns [Jesú]“. (Post. 5:40–42) Kærleikurinn til herra þeirra var sterkari en óttinn við hatur óvina þeirra. Og þeir sýndu kærleika sinn í verki með því að boða fagnaðarboðskapinn sleitulaust. Mörg trúsystkina okkar nú á dögum halda áfram að þjóna Jehóva trúfastlega þrátt fyrir erfiðleika. Þau vita að Jehóva gleymir ekki verki þeirra og kærleikanum sem þau sýna nafni hans. – Hebr. 6:10.

20. Hvað skoðum við í næstu grein?

20 Heimurinn mun hata okkur eins lengi og þetta heimskerfi stendur. (Jóh. 15:19) En við þurfum ekki að óttast. Eins og við sjáum í næstu grein mun Jehóva styrkja og vernda trúfasta þjóna sína. (2. Þess. 3:3) Höldum því áfram að elska Jehóva, bræður okkar og systur og jafnvel þá sem hata okkur. Þegar við gerum þetta höldum við áfram að vera sameinuð og sterk í trúnni. Við heiðrum Jehóva og við sönnum að kærleikur er miklu sterkari en hatur.

SÖNGUR 106 Ræktum með okkur kærleika

^ gr. 5 Í þessari grein skoðum við hvernig kærleikur til Jehóva, kærleikur til trúsystkina okkar og jafnvel kærleikur til óvina okkar hjálpar okkur að halda áfram að þjóna Jehóva enda þótt heimurinn hati okkur. Við skoðum einnig hvers vegna Jesús sagði að við gætum verið hamingjusöm þótt við værum hötuð.

^ gr. 1 Nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 58 MYND: Eftir að hermenn höfðu haft í hótunum við Danylo hjálpuðu bræður honum og konunni hans að flytja til annars bæjar og þar tóku trúsystkini vel á móti þeim.

^ gr. 60 MYND: Eiginmaður Yasmeen sýnir henni andstöðu en öldungarnir gefa henni góð ráð. Hún reyndist góð eiginkona og annaðist manninn sinn þegar hann var veikur.