Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvers vegna ættu kristnir menn að fara með gát þegar þeir nota forrit til að senda og taka við rafrænum skilaboðum?

Sumir vottar Jehóva nýta sér nútímatækni til að halda sambandi við fjölskyldu og aðra votta. Þroskaður kristinn einstaklingur hefur þó í huga eftirfarandi ráð: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningar halda áfram og gjalda þess.“ – Orðskv. 27:12.

Við gerum okkur grein fyrir því að Jehóva vill vernda okkur. Þess vegna höfum ekki samband við þá sem valda sundrungu, þá sem hefur verið vikið úr söfnuðinum eða þá sem koma röngum kenningum á framfæri. (Rómv. 16:17; 1. Kor. 5:11; 2. Jóh. 10, 11) Sumir í söfnuðinum eða sem tengjast honum haga sér ef til vill ekki í samræmi við það sem Biblían kennir. (2. Tím. 2:20, 21) Við höfum það í huga þegar við veljum okkur vini. En það getur verið hægara sagt en gert að velja góðan félagsskap með rafrænum skilaboðum.

Það þarf sérstaklega að vanda valið á vinum þegar um er að ræða stóran samskiptahóp. Sumir vottar hafa verið með í stórum hópum og það hefur stundum haft slæmar afleiðingar í för með sér. Hvernig ætti bróðir eða systir að geta farið með gát í hópi sem telur hundruð manna eða jafnvel þúsundir? Það væri ekki hægt að vita hverjir allir eru og hvernig samband þeirra við Jehóva er. Í Sálmi 26:4 segir: „Ég umgengst ekki svikula menn og forðast þá sem fela sitt sanna eðli.“ (Sálm. 26:4, NW) Þetta vers sýnir að það er skynsamlegt að senda aðeins rafræn skilaboð til fólks sem við þekkjum.

Jafnvel þegar samskiptahópurinn er í minni kantinum þarf kristinn einstaklingur að hugsa um tímann sem fer í samskiptin og hvað fólkið í hópnum talar um. Við þurfum ekki að svara öllu sem verið er að ræða um, óháð því hvað það er og hvað fer mikill tími í það. Páll varaði Tímóteus við þeim sem ,slúðra og blanda sér í málefni annarra‘. (1. Tím. 5:13) Hættan er jafn mikil nú á dögum þótt samskiptin séu rafræn.

Þroskaður kristinn einstaklingur myndi hvorki gagnrýna trúsystkini sín né hlusta á aðra gera það. Hann myndi ekki heldur greina frá trúnaðarupplýsingum um þau. (Sálm. 15:3; Orðskv. 20:19) Og hann myndi ekki hlusta á eða koma á framfæri upplýsingum sem eru æsifengnar eða óstaðfestar. (Ef. 4:25) Vefsetrið jw.org og mánaðarþættirnir í Sjónvarpi Votta Jehóva sjá okkur ríkulega fyrir andlegri fæðu og áreiðanlegum upplýsingum.

Sumir vottar nota rafræn skilaboð til að selja eða auglýsa vörur eða bjóða fólki vinnu. Þetta eru allt saman viðskipti en á ekkert skylt við tilbeiðsluna á Jehóva. Kristnir menn sem vilja vera lausir við ást á peningum forðast að nota bræðrafélagið í viðskiptalegum tilgangi. – Hebr. 13:5.

Ættum við að nota rafræn skilaboð til að afla fjár handa trúsystkinum sem þurfa aðstoð eða neyðarhjálp? Við elskum trúsystkini okkar og aðstoðum því og uppörvum þá sem þurfa á því að halda. (Jak. 2:15, 16) En ef við reyndum að gera það með því að senda stórum hóp skilaboð gætum við gert deildarskrifstofunni eða öldungum safnaðarins erfiðara fyrir að veita hjálp. (1. Tím. 5:3, 4, 9, 10, 16) Og við myndum alls ekki vilja láta líta út fyrir að við séum sérstaklega valin til að annast trúsystkini okkar.

Við viljum heiðra Jehóva með því sem við gerum. (1. Kor. 10:31) Hugsum þess vegna um hætturnar þegar við nýtum okkur tækni eins og forrit til að senda skilaboð og förum með gát.