Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvers vegna segir í 2. Samúelsbók 21:7–9 að Davíð hafi ,þyrmt Mefíbóset‘ en hafi síðan látið taka Mefíbóset af lífi?

Sumir hafa velt þessu fyrir sér eftir að hafa lesið hratt yfir þessa frásögu. En um er að ræða tvo mismunandi menn og það er lærdómsríkt að skoða það sem átti sér stað.

Sál konungur Ísraels átti sjö syni og tvær dætur. Jónatan var fyrsti sonurinn sem hann eignaðist. Seinna eignaðist hann son með Rispu hjákonu sinni sem fékk nafnið Mefíbóset. Það er áhugavert að Jónatan skuli líka hafa átt son sem hét Mefíbóset. Sál konungur átti því bæði son og sonarson sem hétu þessu nafni.

Þar að kom að Sál snerist gegn Gíbeonítum sem bjuggu meðal Ísraelsmanna og reyndi að drepa þá alla. Svo virðist sem margir þeirra hafi verið myrtir. Það var augljóslega rangt af Sál að gera þetta. Hvers vegna? Vegna þess að höfðingjar Ísraelsmanna gerðu friðarsáttmála við Gíbeoníta á dögum Jósúa. – Jós. 9:3–27.

Sáttmálinn var enn í gildi á dögum Sáls. Þegar konungurinn reyndi að tortíma Gíbeonítunum braut hann því gegn sáttmálanum. Fyrir vikið hvíldi blóðsök á Sál og fjölskyldu hans. (2. Sam. 21:1) Um síðir varð Davíð konungur. Gíbeonítarnir sem höfðu lifað af töluðu við Davíð um þetta alvarlega brot. Davíð spurði þá hvernig ætti að friðþægja fyrir hræðilegt illskuverk Sáls þannig að Jehóva gæti aftur blessað landið. Gíbeonítarnir báðu ekki um peninga heldur að sjö synir þess sem hafði lagt á ráðin um að tortíma þeim yrðu framseldir og teknir af lífi. (4. Mós. 35:30, 31) Davíð varð við beiðni þeirra. – 2. Sam. 21:2–6.

Þegar hér var komið sögu höfðu Sál og Jónatan fallið í bardaga, en Mefíbóset sonur Jónatans var á lífi. Hann var fatlaður eftir að hafa orðið ungur fyrir slysi og tók greinilega engan þátt í árás afa hans á Gíbeonítana. Davíð hafði gert vináttusáttmála við Jónatan sem átti að koma afkomendum hans að gagni, þar á meðal Mefíbóset. (1. Sam. 18:1; 20:42) Í frásögunni segir: „En konungur þyrmdi Mefíbóset Jónatanssyni Sálssonar vegna þess eiðs sem Davíð og Jónatan, sonur Sáls, höfðu svarið hvor öðrum við nafn Drottins.“ – 2. Sam. 21:7.

En Davíð varð samt við beiðni Gíbeonítanna. Hann framseldi tvo af sonum Sáls, þar á meðal son að nafni Mefíbóset, og fimm dóttursona hans. (2. Sam. 21:8, 9) Það sem Davíð gerði varð til þess að blóðsökinni var létt af landinu.

Þessi frásaga leynir á sér. Lög Guðs voru skýr. Þau sögðu að synir skyldu ekki „líflátnir … fyrir afbrot feðra sinna“. (5. Mós. 24:16) Jehóva hefði ekki samþykkt það sem var gert við tvo syni og fimm dóttursyni Sáls ef þeir hefðu verið saklausir. Lög Guðs bættu við: „Aðeins má taka mann af lífi fyrir eigin afbrot.“ Svo virðist sem þessir sjö afkomendur Sáls hafi átt einhvern þátt í tilraun Sáls til að tortíma Gíbeonítunum. Þeir fengu því að gjalda fyrir synd sína.

Þessi frásaga sýnir fram á að enginn getur afsakað ranga hegðun með því hugsa eða segja að hann hafi einfaldlega hlýtt fyrirmælum. Viturlegur orðskviður segir: „Veldu fótum þínum beina braut, þá verður ætíð traust undir fótum.“ – Orðskv. 4:24–27; Ef. 5:15.