Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Uppörvið hvert annað hvern dag

Uppörvið hvert annað hvern dag

„Ef þið hafið einhver hvatningarorð til fólksins takið þá til máls.“ – POST. 13:15.

SÖNGVAR: 121, 45

1, 2. Hvers vegna er mikilvægt að uppörva?

„FORELDRAR mínir eru næstum aldrei uppörvandi við mig heldur gagnrýna mig oft. Þau geta verið mjög særandi,“ segir Cristina sem er 18 ára. [1] „Þau segja að ég sé seinþroska, treg til að læra og feit. Ég græt oft undan þeim og vil helst ekki tala við þau. Mér finnst ég einskis virði.“ Lífið getur verið ömurlegt án uppörvunar.

2 Hvatning og uppörvun hafa hins vegar góð áhrif. „Ég hef barist við þá tilfinningu árum saman að ég sé einskis virði,“ segir Rubén. „En dag einn var ég í boðuninni með öldungi sem tók eftir að mér leið illa. Hann hlustaði af samúð þegar ég lýsti líðan minni. Hann minnti mig á það góða sem ég gerði. Hann minnti mig líka á það sem Jesús sagði – að hvert og eitt okkar væri meira virði en margir spörvar. Ég leiði oft hugann að þessu versi og það snertir mig alltaf. Það sem öldungurinn sagði hafði mikið að segja fyrir mig.“ – Matt. 10:31.

3. (a) Hvað sagði Páll postuli um uppörvun? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Það kemur ekki á óvart að Biblían skuli hvetja okkur til að uppörva aðra að staðaldri. Páll postuli skrifaði í bréfi sínu til kristinna Hebrea: „Gætið þess, bræður og systur, að hafa ekkert illt í hjarta og láta engar efasemdir bægja ykkur frá lifanda Guði. Uppörvið heldur hvert annað hvern dag ... til þess að enginn forherðist af táli syndarinnar.“ (Hebr. 3:12, 13) Hefurðu einhvern tíma fengið uppörvun sem létti þér lund? Þá veistu hve mikilvægt er að uppörva aðra. Lítum nú á þrjár spurningar: Hvers vegna eigum við að vera uppörvandi? Hvað getum við lært um uppörvun af Jehóva, Jesú og Páli? Og hvernig getum við uppörvað aðra á áhrifaríkan hátt?

ALLIR ÞURFA UPPÖRVUN

4. Hverjir þurfa á uppörvun að halda og hvers vegna er skortur á henni nú á tímum?

4 Við þurfum öll á uppörvun að halda. En foreldrar þurfa að vera sérstaklega vakandi fyrir því að uppörva og hvetja börnin sín. Kennari að nafni Timothy Evans segir að börn þurfi „uppörvun rétt eins og plöntur þurfa vatn ... Börnum finnst þau metin að verðleikum og skipta máli ef þau fá uppörvun.“ En við lifum á erfiðum tímum. Fólk er eigingjarnt og kærleikslaust og það er skortur á hvatningu og uppörvun. (2. Tím. 3:1-5) Sumir foreldrar hrósa ekki börnum sínum einfaldlega vegna þess að sjálfir fengu þeir aldrei hrós frá foreldrum sínum. Fullorðnir þurfa líka á hvatningu að halda. Til dæmis kvarta margir undan því að fá aldrei hrós í vinnunni.

5. Hvað er fólgið í því að uppörva?

5 Við getum hvatt og uppörvað aðra með því að hrósa þeim fyrir vel unnið verk. Við getum líka uppörvað niðurdregna með því að minna á góða eiginleika þeirra eða með því að hughreysta þá. (1. Þess. 5:14) Gríska orðið, sem er yfirleitt þýtt „hvetja, uppörva“, merkir bókstaflega „að kalla upp að hlið sér“. Þegar við störfum með bræðrum okkar og systrum fáum við líklega mörg tækifæri til að segja eitthvað uppbyggilegt við þau. (Lestu Prédikarann 4:9, 10.) Grípum við tækifærin sem gefast til að segja öðrum hvað við kunnum að meta í fari þeirra og hvers vegna okkur þykir vænt um þá? Áður en þú svarar því skaltu velta fyrir þér Orðskviðunum 15:23 en þar segir: „Fagurt er orð í tíma talað.“

6. Hvers vegna vill djöfullinn gera okkur niðurdregin? Nefndu dæmi.

6 Satan djöfullinn vill gera okkur niðurdregin því að hann veit að þá gætum við gefist upp á að þjóna Jehóva. „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill,“ segir í Orðskviðunum 24:10. Satan reyndi að buga Job með illskeyttum ásökunum og með því að láta dynja yfir hann eitt áfallið á fætur öðru. En það mistókst. (Job. 2:3; 22:3; 27:5) Við getum varist Satan með því að vera uppörvandi við aðra í fjölskyldunni og söfnuðinum. Þá stuðlum við að því að gera heimili okkar og ríkissalinn að stað þar sem öllum líður vel og þeir finna til öryggiskenndar.

FORDÆMI TIL EFTIRBREYTNI

7, 8. (a) Hvernig hefur Jehóva uppörvað þjóna sína? (b) Hvernig geta foreldrar líkt eftir Jehóva? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

7 Jehóva. Sálmaskáldið söng: „Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ (Sálm. 34:19) Jehóva styrkti Jeremía spámann þegar hann var hræddur og niðurdreginn. (Jer. 1:6-10) Og þú getur rétt ímyndað þér hversu uppörvandi það var fyrir Daníel á gamalsaldri þegar Guð sendi engil til að styrkja hann og kallaði hann ,ástmög‘ sinn. (Dan. 10:8, 11, 18, 19) Gætir þú á sama hátt hvatt og uppörvað boðbera, brautryðjendur eða þá öldruð trúsystkini sem hafa ekki sama þrótt og áður?

8 Þó að Jehóva hefði verið óralengi með syni sínum á himnum fannst honum ekki óþarfi að hrósa honum og hvetja hann meðan hann var hér á jörð. Tvisvar heyrði Jesús föður sinn tala af himni og segja: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ (Matt. 3:17; 17:5) Jehóva hrósaði þannig Jesú og fullvissaði hann um að hann stæði sig vel. Það hlýtur að hafa verið mjög uppörvandi fyrir Jesú að heyra föður sinn segja þetta við tvö tækifæri – í byrjun þjónustu sinnar og síðasta árið sem hann var á jörð. Jehóva sendi líka engil til að styrkja Jesú í angist hans kvöldið áður en hann dó. (Lúk. 22:43) Ef við eigum börn skulum við líkja eftir Jehóva með því að hvetja þau og uppörva að staðaldri og hrósa þeim þegar þau standa sig vel. Og við ættum að styðja eins vel og við getum við bakið á þeim ef reynir á ráðvendni þeirra dag eftir dag í skólanum.

9. Hvað getum við lært af framkomu Jesú við postulana?

9 Jesús hélt fyrstu minningarhátíðina kvöldið áður en hann dó. Hann var auðmjúkur og þvoði fætur postulanna en þeir voru stoltir og enn að metast um hver þeirra væri mestur. Pétur stærði sig af því að hann myndi aldrei yfirgefa Jesú. (Lúk. 22:24, 33, 34) Jesús hrósaði postulunum engu að síður fyrir að hafa staðið með honum í raunum. Hann sagði að þeir myndu gera meiri verk en hann og fullvissaði þá um að Jehóva elskaði þá. (Lúk. 22:28; Jóh. 14:12; 16:27) Við gætum spurt okkur: Líki ég eftir Jesú og hrósa börnum mínum og öðrum þegar þeir standa sig vel, í stað þess að einblína á galla þeirra?

10, 11. Hvernig sýndi Páll að honum var umhugað um að uppörva aðra?

10 Páll postuli fór lofsamlegum orðum um trúsystkini sín í bréfum sínum. Hann hafði ferðast með sumum þeirra árum saman og þekkti eflaust galla þeirra en samt talar hann bara jákvætt um þá. Páll kallar Tímóteus til dæmis ,elskað og trútt barn sitt í samfélagi við Drottin‘ og segir að hann láti sér einlæglega annt um trúsystkini sín. (1. Kor. 4:17; Fil. 2:19, 20) Hann segir að Títus hafi ,oftsinnis og í mörgu reynst kostgæfinn‘. (2. Kor. 8:22, 23) Það hlýtur að hafa verið mjög uppörvandi fyrir Tímóteus og Títus að vita að Páll skyldi líta þannig á þá.

11 Páll og Barnabas hættu lífi sínu til að geta hvatt bræður sína. Í Lýstru höfðu þeir til dæmis orðið fyrir árás borgarbúa en þrátt fyrir ofstæki andstæðinga sneru þeir þangað aftur til að uppörva nýja lærisveina og hvetja þá til að vera staðfastir í trúnni. (Post. 14:19-22) Æstur múgur ógnaði Páli í Efesus. Í Postulasögunni 20:1, 2 segir: „Þegar þessum látum linnti sendi Páll eftir lærisveinunum, uppörvaði þá og kvaddi síðan og lagði af stað til Makedóníu. Hann fór nú um þau héruð og uppörvaði menn með mörgum orðum. Síðan hélt hann til Grikklands.“ Páli var greinilega mjög umhugað um að uppörva trúsystkini sín.

UPPÖRVUM HVERT ANNAÐ

12. Hvernig getum við uppörvast saman á samkomum?

12 Ein ástæðan fyrir því að faðir okkar á himnum sér okkur fyrir samkomum í hverri viku er sú að þar getum við hvatt og uppörvað hvert annað. (Lestu Hebreabréfið 10:24, 25.) Við fáum fræðslu og uppörvun á samkomunum, rétt eins og frumkristnir menn. (1. Kor. 14:31) Cristina, sem minnst var á fyrr í greininni, segir: „Það besta við samkomurnar er kærleikurinn og uppörvunin sem ég fæ. Stundum er ég niðurdregin þegar ég kem í ríkissalinn en þá koma systur til að heilsa mér. Þær faðma mig að sér og segja að ég líti vel út. Þær segja að þeim þyki vænt um mig og finnist gott að sjá mig dafna í sannleikanum. Mér líður miklu betur eftir slíka uppörvun.“ Það er mikilvægt að við leggjum öll okkar af mörkum til að „uppörvast saman“. – Rómv. 1:11, 12.

13. Hvers vegna þurfa þeir sem hafa þjónað Jehóva lengi á uppörvun að halda?

13 Þeir sem hafa þjónað Jehóva lengi þurfa líka að fá uppörvun. Tökum Jósúa sem dæmi. Jehóva sagði Móse að hvetja hann og uppörva. Hann sagði: „Skipaðu Jósúa foringja, stappaðu í hann stálinu því að hann skal fara fyrir þessu fólki yfir ána og skipta einnig landinu, sem þú færð að sjá, í erfðahluti milli þeirra.“ (5. Mós. 3:27, 28) Jósúa var í þann mund að taka að sér það ábyrgðastarf að fara fyrir Ísraelsþjóðinni og leiða hana inn í fyrirheitna landið. Hann átti eftir að verða fyrir vonbrigðum og bíða ósigur í að minnsta kosti einni orrustu. (Jós. 7:1-9) Hann þurfti því eðlilega á uppörvun og hvatningu að halda. Við getum uppörvað öldunga og farandhirða sem vinna hörðum höndum til að sjá um hjörð Guðs. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:12, 13.) Farandhirðir nokkur segir: „Stundum fáum við þakkarbréf frá trúsystkinum okkar þar sem þau lýsa yfir hve ánægjuleg heimsóknin hafi verið. Við söfnum bréfunum og lesum þau þegar við erum niðurdregin. Þau eru mjög uppörvandi.“

Börn þrífast á hlýju og uppörvun. (Sjá 14. grein.)

14. Hvað sýnir að það er áhrifaríkt að hrósa og vera uppörvandi við þá sem við gefum ráð?

14 Safnaðaröldungar og kristnir foreldrar vita að hrós og uppörvun hvetur aðra til að fylgja ráðum Biblíunnar. Páll hrósaði Korintumönnum fyrir að fylgja ráðum sínum og það hefur eflaust hvatt þá til að halda áfram á réttri braut. (2. Kor. 7:8-11) Andreas er tveggja barna faðir. Hann segir: „Hvatning og uppörvun hjálpar börnum að dafna í trúnni og þroskast tilfinningalega. Maður rekur smiðshöggið á ráðleggingar með því að hvetja og uppörva. Börn vita oft hvað er rétt en við hjálpum þeim að gera það sem er rétt með stöðugri hvatningu og uppörvun.“

HVERNIG GETUM VIÐ UPPÖRVAÐ Á ÁHRIFARÍKAN HÁTT?

15. Nefndu eitt sem við getum gert til að hvetja aðra.

15 Sýndu að þú kannt að meta góða eiginleika trúsystkina þinna og það sem þau leggja á sig. (2. Kron. 16:9; Job. 1:8) Jehóva og Jesús kunna vel að meta það sem við gerum fyrir þá, jafnvel þó að aðstæður okkar setji okkur takmörk. (Lestu Lúkas 21:1-4; 2. Korintubréf 8:12.) Sum öldruð trúsystkini okkar leggja mikið á sig til að sækja samkomur, taka þátt í þeim og boða trúna. Ættum við ekki að hrósa þeim fyrir það og hvetja þau?

16. Hvenær getum við uppörvað aðra?

16 Gríptu þau tækifæri sem gefast til að uppörva aðra. Ef við tökum eftir að einhver gerir eitthvað vel ættum við að hrósa honum. Þegar Páll og Barbabas voru í Antíokkíu í Pisidíu sögðu samkundustjórarnir við þá: „Bræður, ef þið hafið einhver hvatningarorð til fólksins takið þá til máls.“ Páll greip þá tækifærið og flutti uppörvandi ræðu. (Post. 13:13-16, 42-44) Er ekki full ástæða til að segja eitthvað uppörvandi ef færi gefst? Ef við temjum okkur að vera uppörvandi við aðra verða aðrir að öllum líkindum uppörvandi við okkur. – Lúk. 6:38.

17. Hvernig er best að hrósa?

17 Vertu einlægur og hrósaðu fyrir eitthvað ákveðið. Það er ágætt að hrósa almennt en betra að hrósa fyrir eitthvað ákveðið. Það má sjá af orðum Jesú til kristinna manna í Þýatíru. (Lestu Opinberunarbókina 2:18, 19.) Foreldrar geta til dæmis hrósað börnunum fyrir eitthvað ákveðið sem þau gera í þjónustu Jehóva. Við gætum líka hrósað einstæðri móður fyrir það hvernig hún elur upp börnin sín þrátt fyrir erfiðar kringumstæður. Ef við hrósum fyrir eitthvað ákveðið veit fólk að við meinum það sem við segjum og það gerir því gott.

18, 19. Hvernig getum við verið uppbyggjandi við niðurdregna?

18 Jehóva biður okkur ekki að segja eitthvað hvetjandi við ákveðna manneskju eins og hann sagði Móse að hvetja og uppörva Jósúa. Við gleðjum hann engu að síður með því að vera uppörvandi við trúsystkini og aðra. (Orðskv. 19:17; Hebr. 12:12) Við gætum til dæmis sagt ræðumanni hvernig ræðan hjálpaði okkur að sjá ákveðið vandamál í nýju ljósi eða skilja ákveðið biblíuvers. Systir nokkur skrifaði gestkomandi ræðumanni: „Við töluðum aðeins saman í nokkrar mínútur en þú sást að ég var niðurdregin og þú hughreystir mig. Ég vil að þú vitir að þegar þú talaðir hlýlega af sviðinu og augliti til auglitis leið mér eins og Jehóva væri að gefa mér gjöf.“

19 Ef við fylgjum ráðum Páls getum við án efa hjálpað öðrum að styrkja samband sitt við Jehóva. Hann gaf þetta ráð: „Hvetjið því og uppbyggið hvert annað, eins og þið og gerið.“ (1. Þess. 5:11) Við gleðjum Jehóva ef við ,uppörvum hvert annað hvern dag‘.

^ [1] (1. grein.) Sumum nöfnum er breytt.