Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Verkið er mikið“

„Verkið er mikið“

MJÖG mikilvægur fundur er í þann mund að hefjast í Jerúsalem. Davíð konungur hefur stefnt saman öllum höfðingjum sínum, hraustmennum og embættismönnum hirðarinnar. Þeir eru yfir sig ánægðir að heyra sérstaka tilkynningu. Jehóva hefur falið Salómon, syni Davíðs, að reisa stórfenglega byggingu. Hún á að vera helguð tilbeiðslunni á hinum sanna Guði. Hinum aldraða konungi Ísraels hafði verið blásið í brjóst að gera teikningar að byggingunni og hefur nú fengið þær Salómon. „Verkið er mikið,“ segir Davíð, „því að ekki er byggingin ætluð mönnum heldur Drottni Guði.“ – 1. Kron. 28:1, 2, 6, 11, 12; 29:1.

Því næst spyr Davíð þessarar spurningar: „Hver er nú reiðubúinn að færa Drottni gjöf?“ (1. Kron. 29:5) Hvernig hefðir þú brugðist við ef þú hefðir verið á staðnum? Hefðirðu fundið þig knúinn til að styðja þetta mikla verk? Ísraelsmenn brugðust tafarlaust við. Þeir glöddust yfir því að gefa framlög ,því að þeir færðu Drottni gjafirnar fúslega og af heilum hug‘. – 1. Kron. 29:9.

Öldum síðar kom Jehóva á fót nokkru mun mikilfenglegra en musterinu. Hann grundvallaði hið mikla andlega musteri, þá ráðstöfun sem gerir mönnum kleift að tilbiðja hann á grundvelli fórnar Jesú. (Hebr. 9:11, 12) Hvernig hjálpar Jehóva fólki að sættast við sig nú á dögum? Með kennslustarfinu sem við innum af hendi. (Matt. 28:19, 20) Það hefur leitt til þess að milljónir biblíunámskeiða eru haldin á hverju ári, þúsundir lærisveina skírast og hundruð safnaða eru myndaðir.

Vegna þess hve vöxturinn er mikill þarf að prenta fleiri biblíutengd rit, byggja ríkissali og halda þeim við og sjá fyrir hentugu húsnæði fyrir mót. Ertu ekki sammála því að allt sem við gerum til að koma fagnaðarerindinu á framfæri sé mikið og gefandi verk? – Matt. 24:14.

Kærleikurinn til Guðs og náungans og vitneskjan um hve áríðandi boðunin er hvetur þjóna Guðs til að ,færa honum gjöf‘ með því að gefa frjáls framlög. Það er stórkostlegt að mega tigna Jehóva með eigum okkar og sjá hvernig framlög okkar eru notuð af tryggð og skynsemi til að vinna mesta verk í sögu mannkyns. – Orðskv. 3:9.

Að gefa til að styðja verk Jehóva

Það hefur alltaf verið mikilvægur þáttur í hreinni tilbeiðslu að gefa af eigum sínum og fjármunum, og það hefur alltaf veitt mikla gleði. (1. Kron. 29:9) Í Ísrael til forna voru framlögin ekki aðeins notuð til að fegra musterið heldur líka til að geta innt af hendi öll þau daglegu verk sem tengdust tilbeiðslunni á Jehóva. Lögin kváðu á um að Ísraelsmenn ættu að gefa tíund af afurðum sínum til að styðja Levítana sem þjónuðu við musterið. En Levítarnir áttu líka að færa Jehóva tíund af öllu því sem þeir fengu. – 4. Mós. 18:21-29.

Kristnir menn voru leystir undan kröfum lögmálsins. En meginreglan um að þjónar Guðs gæfu efnisleg framlög til að styðja sanna tilbeiðslu hélst óbreytt. (Gal. 5:1) Kristnum mönnum á fyrstu öld fannst auk þess ánægjulegt að gefa framlög til að bæta úr skorti trúsystkina sinna. (Post. 2:45, 46) Páll postuli minnti kristna menn á að rétt eins og Guð sæi örlátlega fyrir þeim ættu þeir að sýna öðrum örlæti. Hann skrifaði: „Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.“ (1. Tím. 6:17-19; 2. Kor. 9:11) Páll gat vissulega staðfest orð Jesú af eigin reynslu: „Sælla er að gefa en þiggja.“ – Post. 20:35.