Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Sá sem er örlátur hlýtur blessun“

„Sá sem er örlátur hlýtur blessun“

FÓRNIR hafa lengi verið mikilvægur þáttur í sannri tilbeiðslu. Ísraelsmenn færðu dýrafórnir og kristnir menn hafa alla tíð verið þekktir fyrir ,lofgjörðarfórnir‘ sínar. En Guð hefur líka velþóknun á annars konar fórnum. (Hebr. 13:15, 16) Þessar fórnir veita bæði gleði og blessun eins og eftirfarandi dæmi sýna fram á.

Hanna var trúfastur þjónn Guðs til forna sem þráði heitt að eignast son en hafði verið ófær um að eignast börn. Hún hét í bæn að ef hún eignaðist son myndi hún „gefa hann Drottni alla ævi hans“. (1. Sam. 1:10, 11) Að því kom að Hanna varð barnshafandi og fæddi soninn Samúel. Þegar Samúel hafði verið vaninn af brjósti fór Hanna með hann í tjaldbúðina rétt eins og hún hafði heitið. Jehóva blessaði hana fyrir fórnfýsi hennar. Hún fékk að eignast fimm börn til viðbótar og Samúel varð spámaður og biblíuritari. – 1. Sam. 2:21.

Kristnir menn hafa þann heiður að mega nota líf sitt í þjónustu skaparans, rétt eins og Hanna og Samúel. Jesús lofaði að við myndum hljóta ríkuleg laun fyrir hverja þá fórn sem við færðum í tilbeiðslunni á Jehóva. – Mark. 10:28-30.

Dorkas var kristin kona á fyrstu öld sem var þekkt fyrir að vera „góðgerðasöm og örlát við snauða“ – að færa fórnir í þágu annarra. Því miður „tók hún sótt og andaðist“ og allur söfnuðurinn syrgði hana. Þegar lærisveinarnir fréttu að Pétur væri á svæðinu báðu þeir hann að koma þegar í stað. Ímyndaðu þér hve glaðir þeir hafa verið þegar hann kom og reisti Dorkas upp frá dauðum. Þetta er í fyrsta skipti sem sagt er frá að postuli hafi reist einhvern upp frá dauðum. (Post. 9:36-41) Guð hafði ekki gleymt fórnum Dorkasar. (Hebr. 6:10) Frásagan af örlæti hennar er varðveitt í orði Guðs og hún er okkur góð fyrirmynd til eftirbreytni.

Páll postuli setti líka frábært fordæmi með því að gefa örlátlega af tíma sínum og athygli. Hann skrifaði trúsystkinum sínum í Korintu: „Ég er fús til að verja því sem ég á, já, leggja sjálfan mig í sölurnar fyrir ykkur.“ (2. Kor. 12:15) Páll lærði af reynslunni að það veitir manni gleði að fórna sjálfum sér í þágu annarra. Og það sem mikilvægara er, maður hlýtur blessun Jehóva og velþóknun. – Post. 20:24, 35.

Það er greinilegt að það gleður Jehóva þegar við notum tíma okkar og krafta í þágu Guðsríkis og trúsystkina okkar. En er hægt að styðja boðun Guðsríkis á aðra vegu? Já! Auk þess að gefa af tíma okkar og kröftum getum við heiðrað Guð með því að gefa frjáls framlög. Þau eru notuð til að efla boðunina um allan heim, meðal annars með því að styðja trúboða og aðra sem eru í sérstakri þjónustu í fullu starfi. Frjálsu framlögin eru einnig notuð til að framleiða og þýða ritin okkar og myndbönd, veita neyðaraðstoð og byggja ríkissali. Við megum vera viss um að „sá sem er örlátur hlýtur blessun“. Auk þess heiðrum við Jehóva þegar við gefum honum af eigum okkar og öðru sem við búum yfir. – Orðskv. 3:9; 22:9, NW.

Að gefa fúslega

Hve mikið maður gefur sýnir ekki endilega hve örlátur maður er. Jesús fylgdist eitt sinn með fólki leggja peninga í fjárhirslu musterisins. Auðmenn lögðu mikið í hana en Jesús hreifst af því að sjá fátæka ekkju láta þar tvo smápeninga sem voru mjög lítils virði. Hann sagði: „Þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir ... hún gaf af skorti sínum, alla björg sína.“ – Lúk. 21:1-4; Mark. 12:41-44.

Það sem Páll postuli skrifaði Korintumönnum samræmist þessu viðhorfi Jesú. Hann sagði varðandi það að gefa framlög til fátækra trúsystkina: „Ef viljinn er góður þá er hver metinn eftir því sem hann á og ekki eftir því sem hann á ekki til.“ (2. Kor. 8:12) Framlög eru ekki eitthvað sem ætti að metast um, og við ættum aldrei að bera okkur saman við aðra. Hver og einn ætti að gefa í samræmi við það sem hann á, og Jehóva er ánægður þegar við gefum af fúsu geði.

Jehóva á alla hluti og því getur enginn gert hann ríkari. En það er samt heiður að mega gefa framlög og það gefur þeim sem tilbiðja hann tækifæri til að sýna að þeir elska hann. (1. Kron. 29:14-17) Að gefa framlög með réttu hugarfari og til að efla sanna tilbeiðslu en ekki til að sýnast eða af öðrum eigingjörnum hvötum veitir gleði og blessun Guðs. (Matt. 6:1-4) „Sælla er að gefa en þiggja,“ sagði Jesús. (Post. 20:35) Við getum átt þátt í þeirri gleði með því að gefa af kröftum okkar í þjónustu Jehóva og með því að taka frá eitthvað af efnislegum eigum okkar til að styðja sanna tilbeiðslu og hjálpa þeim sem eiga það skilið. – 1. Kor. 16:1, 2.