Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Látið ekkert hafa af ykkur sigurlaunin

Látið ekkert hafa af ykkur sigurlaunin

„Látið þá ekki taka af ykkur hnossið.“ – KÓL. 2:18.

SÖNGVAR: 122, 139

1, 2. (a) Hvaða sigurlaun eiga þjónar Jehóva í vændum? (b) Hvað hjálpar okkur að horfa til sigurlaunanna? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

ANDASMURÐIR kristnir menn eiga sér þá dýrmætu von að fara til himna. Páll postuli kallar það ,verðlaunin á himnum sem Guð hefur kallað þá til‘. (Fil. 3:14) Þeir hlakka til þess að ríkja með Jesú Kristi á himnum og hjálpa mönnunum að öðlast fullkomleika. (Opinb. 20:6) Guð hefur veitt þeim unaðslega von til að keppa að. Aðrir sauðir eiga sér annars konar von. Þeir hlakka til þess að hljóta eilíft líf á jörð, og það er líka unaðsleg von. – 2. Pét. 3:13.

2 Páll vildi hjálpa andasmurðum trúsystkinum sínum að vera Guði trú og hljóta sigurlaunin. Hann hvatti þau til að ,hugsa um það sem er hið efra‘. (Kól. 3:2) Þau áttu að hafa skýrt í huga þá dýrmætu von sína að fara til himna. (Kól. 1:4, 5) Allir þjónar Jehóva ættu að hugleiða þá blessun sem hann lofar þeim. Það hjálpar þeim að horfa til sigurlaunanna, hvort sem þeir eiga þá von að fara til himna eða lifa að eilífu á jörð. – 1. Kor. 9:24.

3. Við hvaða hættum varaði Páll trúsystkini sín?

3 Páll benti trúsystkinum sínum einnig á vissar hættur sem þeir þurftu að varast til að missa ekki af sigurlaununum. Í bréfi sínu til safnaðarins í Kólossu varaði hann til dæmis við falskristnum mönnum sem reyndu að ávinna sér hylli Guðs með því að fylgja lögmálinu í stað þess að trúa á Krist. (Kól. 2:16-18) Páll ræddi líka um ýmsar hættur sem steðja að okkur nú á tímum og gætu orðið til þess að við færum á mis við sigurlaunin. Hann útskýrir til dæmis hvernig hægt sé að standast siðlausar langanir, sigrast á neikvæðum tilfinningum í garð trúsystkina og takast á við erfiðleika í fjölskyldunni. Leiðbeiningar hans um þessi mál eru verðmætar fyrir okkur. Við skulum því líta á sumt af því sem Páll varaði við í bréfinu til kristinna manna í Kólossu.

DEYÐIÐ SIÐLAUSAR LANGANIR

4. Hvernig geta siðlausar langanir komið í veg fyrir að við hljótum sigurlaunin?

4 Eftir að hafa minnt trúsystkini sín á þá stórfenglegu von sem þau áttu skrifaði Páll: „Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd.“ (Kól. 3:5) Siðlausar langanir geta verið ákaflega sterkar og geta skemmt fyrir sambandi okkar við Jehóva og rænt okkur voninni. Bróðir, sem lét undan siðlausum löngunum, sagði eftir að hann sneri aftur til safnaðarins að langanirnar hefðu verið svo sterkar að hann „sá ekki að sér fyrr en um seinan“.

5. Hvernig getum við gætt okkar við varasamar aðstæður?

5 Það er sérstaklega mikilvægt að vera á varðbergi við aðstæður þar sem við gætum freistast til að brjóta siðferðisreglur Jehóva. Til dæmis er skynsamlegt fyrir par að setja sér skýr mörk strax í upphafi hvað varðar að snertast, kyssast og vera ein saman. (Orðskv. 22:3) Varasamar aðstæður geta líka skapast þegar þjónn Guðs er að heiman í vinnuferð eða þarf að vinna með einhverjum af hinu kyninu. (Orðskv. 2:10-12, 16) Ef þú lendir í slíkri stöðu skaltu segja frá því að þú sért vottur Jehóva, koma sómasamlega fram og hafa hugfast að daður getur endað með ósköpum. Við þurfum líka að vera vel á verði ef við erum einmana eða niðurdregin. Þörfin fyrir hlýju og umhyggju getur verið ákaflega sterk við þær aðstæður. Við gætum jafnvel orðið svo örvæntingarfull að við þiggjum athygli frá nánast hverjum sem er. Ef þér líður einhvern tíma þannig skaltu leita hjálpar hjá Jehóva og trúsystkinum þínum svo að þú missir ekki af sigurlaununum. – Lestu Sálm 34:19; Orðskviðina 13:20.

6. Hvað þurfum við að hafa hugfast þegar við veljum okkur skemmtiefni?

6 Til að deyða siðlausar langanir þurfum við að forðast siðlaust skemmtiefni. Stór hluti þess skemmtiefnis, sem er í boði, minnir á Sódómu og Gómorru fortíðar. (Júd. 7) Kynferðislegu siðleysi er haldið á lofti eins og það sé fullkomlega eðlilegt og hafi engar neikvæðar afleiðingar. Við megum ekki slaka á verðinum og láta mata okkur á hvaða skemmtiefni sem er. Við þurfum að velja okkur þannig skemmtiefni að við missum ekki sjónar á sigurlaununum. – Orðskv. 4:23.

ÍKLÆÐIST KÆRLEIKA OG GÓÐVILD

7. Hvað getur komið upp í kristna söfnuðinum?

7 Við erum öll sammála því að það sé blessun að fá að tilheyra kristna söfnuðinum. Við lesum og rannsökum Biblíuna á samkomum og við styðjum og styrkjum hvert annað. Það hjálpar okkur að hafa sigurlaunin ofarlega í huga. Stundum getur þó myndast spenna milli trúsystkina sökum einhvers misskilnings. Ef við greiðum ekki úr því getur það hæglega gert okkur gröm og bitur. – Lestu 1. Pétursbréf 3:8, 9.

8, 9. (a) Hvaða eiginleikar hjálpa okkur að hljóta sigurlaunin? (b) Hvernig getum við stuðlað að friði ef bróðir eða systir særir okkur?

8 Við megum ekki láta gremju koma í veg fyrir að við hljótum sigurlaunin. Páll skrifaði kristnum mönnum í Kólossu: „Íklæðist því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.“ – Kól. 3:12-14.

9 Kærleikur og góðvild auðvelda okkur að fyrirgefa hvert öðru. Ef trúsystkini segir eða gerir eitthvað sem særir okkur getur verið gott að rifja upp atvik þar sem við sjálf sögðum eða gerðum eitthvað særandi en var fyrirgefið. Erum við ekki þakklát fyrir kærleika þeirra og góðvild? (Lestu Prédikarann 7:21, 22.) Við erum sérstaklega þakklát fyrir að Kristur skuli í góðvild sinni sameina sanna þjóna Guðs. (Kól. 3:15) Við elskum öll Jehóva, boðum sama boðskapinn og glímum að miklu leyti við sams konar vandamál. Ef við erum kærleiksrík, góðviljuð og fyrirgefum hvert öðru stuðlum við að einingu í söfnuðinum og getum einbeitt okkur að sigurlaununum.

10, 11. (a) Hvers vegna er hættulegt að öfunda? (b) Hvernig getum við tryggt að við missum ekki af laununum sökum öfundar?

10 Öfund og afbrýðisemi geta komið í veg fyrir að við hljótum sigurlaunin. Í Biblíunni er sagt frá dæmum sem sýna fram á það. Kain öfundaði Abel, bróður sinn, og drap hann. Kóra, Datan og Abíram öfunduðu Móse og snerust gegn honum. Sál konungur öfundaði Davíð af velgengni hans og reyndi að drepa hann. Það er því dagsatt sem segir í Biblíunni: „Hvar sem ofsi [„afbrýðisemi“, NW] og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns spilling.“ – Jak. 3:16.

11 Ef við sýnum einlægan kærleika og góðvild dregur stórlega úr hættunni á að við verðum öfundsjúk. „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki,“ segir í Biblíunni. (1. Kor. 13:4) Til að forðast öfund þurfum við að leggja okkur fram um að líta hlutina sömu augum og Jehóva. Við þurfum að líta á trúsystkini okkar sem limi á einum og sama líkamanum. Það auðveldar okkur að sýna þeim samkennd eins og hvatt er til í Biblíunni. Þar segir: „[Ef] einn limur er í hávegum hafður samgleðjast allir limirnir honum.“ (1. Kor. 12:16-18, 26) Við öfundum ekki trúsystkini okkar þegar þau hljóta einhverja blessun heldur samgleðjumst þeim. Tökum Jónatan, son Sáls konungs, sem dæmi. Hann varð ekki öfundsjúkur þegar Davíð var valinn til að taka við sem konungur heldur studdi hann og hvatti. (1. Sam. 23:16-18) Getum við verið jafn kærleiksrík og góðviljuð og Jónatan?

HLJÓTIÐ SIGURLAUNIN SEM FJÖLSKYLDA

12. Hvaða ráð Biblíunnar hjálpa kristnum fjölskyldum að hljóta sigurlaunin?

12 Það stuðlar að friði og hamingju þegar allir í fjölskyldunni fara eftir meginreglum Biblíunnar og það hjálpar þeim að hljóta sigurlaunin. Páll ráðlagði kristnum fjölskyldum í Kólossu eftirfarandi: „Konur, verið undirgefnar eiginmönnum ykkar eins og sómir þeim er Drottni heyra til. Karlar, elskið eiginkonur ykkar og verið ekki beiskir við þær. Börn, verið hlýðin foreldrum ykkar í öllu því að það er Drottni þóknanlegt. Feður, verið ekki höstugir við börn ykkar, það gerir þau ístöðulaus.“ (Kól. 3:18-21) Er ekki augljóst að það er til góðs fyrir eiginmenn, eiginkonur og börn að fara eftir innblásnum leiðbeiningum Páls?

13. Hvernig getur systir í söfnuðinum unnið eiginmann sinn til fylgis við trúna?

13 Segjum að þú sért gift manni sem er ekki í trúnni. Hvað er til ráða ef þér finnst hann ekki koma vel fram við þig? Heldurðu að það bæti ástandið að rífast við hann? Segjum að þú hafir betur í deilunni. Er líklegt að hann taki við sannleikanum í framhaldi af því? Trúlega ekki. Ef þú virðir forystu hans stuðlarðu hins vegar að friði í fjölskyldunni, ert Jehóva til sóma og getur jafnvel unnið manninn þinn til fylgis við trúna. Þá getið þið bæði hlotið sigurlaunin. – Lestu 1. Pétursbréf 3:1, 2.

14. Hvað á kristinn eiginmaður að gera ef konan hans er ekki í trúnni og virðir hann ekki?

14 Tökum annað dæmi. Segjum að þú sért giftur en konan þín sé ekki í trúnni. Þér finnst hún ekki bera virðingu fyrir þér. Heldurðu að hún myndi bera meiri virðingu fyrir þér ef þú öskraðir á hana til að sýna henni hver ræður á heimilinu? Auðvitað ekki. Guð ætlast til að þú sért ástríkur eiginmaður og líkir eftir Jesú. (Ef. 5:23) Jesús er höfuð safnaðarins en er alltaf kærleiksríkur og þolinmóður. (Lúk. 9:46-48) Eiginmaður getur unnið konuna sína til fylgis við trúna með því að líkja eftir Jesú.

15. Hvernig sýnir kristinn karlmaður að hann elskar eiginkonu sína?

15 Jehóva segir eiginmönnum: „Elskið eiginkonur ykkar og verið ekki beiskir við þær.“ (Kól. 3:19) Kærleiksríkur eiginmaður virðir konuna sína með því að hlusta á álit hennar og fullvissa hana um að það skipti hann máli. (1. Pét. 3:7) Þó að hann geti ekki alltaf gert eins og hún biður um getur hann tekið yfirvegaðri ákvarðanir með því að ráðfæra sig við hana. (Orðskv. 15:22) Ástríkur eiginmaður reynir að ávinna sér virðingu konu sinnar í stað þess að krefjast hennar. Ef maður elskar konu sína og börn eru góðar líkur á að fjölskyldan sé hamingjusöm í þjónustu Jehóva og hljóti sigurlaunin.

Hvernig getum við komið í veg fyrir að missætti í fjölskyldunni hafi af okkur sigurlaunin? (Sjá 13.-15. grein.)

UNGLINGAR, LÁTIÐ EKKI HAFA AF YKKUR SIGURLAUNIN

16, 17. Hvað geturðu gert til að vera ekki sár út í foreldra þína?

16 Ertu unglingur og finnst þér foreldrar þínir vera of strangir og ekki skilja þig? Þú gætir orðið svo sár að þú farir að efast um að þú viljir þjóna Jehóva. En ef þú snýrð baki við Jehóva kemstu fljótt að raun um að engum þykir eins vænt um þig og guðhræddum foreldrum þínum og söfnuðinum.

17 Segjum að foreldrar þínir leiðrétti þig aldrei. Væri það ekki merki þess að þeim stæði á sama um þig? (Hebr. 12:8) En kannski sárnar þér hvernig foreldrarnir leiðrétta þig. Einblíndu samt ekki á það. Reyndu heldur að átta þig á hvers vegna þau fara þannig að. Haltu ró þinni og reyndu eins og þú getur að bregðast ekki of harkalega við gagnrýni þeirra. Í Biblíunni segir: „Hygginn maður er orðvar og skynsamur maður er fáorður.“ (Orðskv. 17:27) Settu þér það markmið að verða þroskuð manneskja sem tekur leiðbeiningum með ró og lærir af þeim, óháð því hvernig þær eru gefnar. (Orðskv. 1:8) Það er ómetanlegt að eiga trúaða foreldra sem elska Jehóva. Þeir vilja umfram allt hjálpa þér að hljóta sigurlaunin.

18. Hvers vegna ætlarðu að hafa sigurlaunin efst í huga?

18 Sigurlaunin, sem við eigum í vændum, eru óviðjafnanleg, hvort heldur um er að ræða ódauðleika á himnum eða eilíft líf á jörð. Vonin um að hljóta þau er örugg því að hún byggist á loforði skaparans. Í Biblíunni segir um paradís framtíðarinnar: „Landið verður fullt af þekkingu á Drottni“. (Jes. 11:9) Allir sem búa á jörðinni á þeim tíma fá fræðslu frá Jehóva. Það eru sigurlaun sem er þess virði að keppa eftir. Hafðu því alltaf í huga það sem Jehóva hefur lofað og láttu ekkert hafa af þér sigurlaunin.