Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver mótar hugarfar þitt?

Hver mótar hugarfar þitt?

„Fylgið ekki háttsemi þessa heims.“ – RÓMV. 12:2.

SÖNGVAR: 88, 45

1, 2. (a) Hvernig brást Jesús við þegar Pétur hvatti hann til að hlífa sjálfum sér? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvers vegna brást Jesús við á þennan hátt?

LÆRISVEINAR Jesú trúðu ekki eigin eyrum. Þeir bjuggust við að Jesús myndi endurreisa Ísraelsríkið en nú sagði hann þeim að hann myndi bráðlega þjást og deyja. Pétur postuli var fyrstur til að tjá sig. Hann sagði: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús svaraði: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ – Matt. 16:21-23; Post. 1:6.

2 Með þessum orðum gerði Jesús greinarmun á hugsunum Guðs og hugsunum heimsins sem Satan stjórnar. (1. Jóh. 5:19) Pétur endurspeglaði sérhlífni heimsins. En Jesús vissi að hugarfar föður hans væri annað. Hann vissi að Guð vildi að hann byggi sig undir þjáninguna og dauðann sem beið hans. Það er greinilegt á svari Jesú að hann hafnaði hugarfari heimsins og valdi hugarfar Jehóva.

3. Hvers vegna reynir á að hafna hugarfari heimsins og hugsa eins og Jehóva?

3 Hvað um okkur? Hugsum við eins og Guð eða eins og heimurinn? Við höfum eflaust lagað hegðun okkar að kröfum Guðs. En hvað um hugsanir okkar? Leggjum við okkur fram um að hugsa eins og Jehóva og líta málin sömu augum og hann? Að gera það kostar vissa áreynslu. Hins vegar kostar litla eða enga áreynslu að hugsa eins og heimurinn. Það er vegna þess að andi heimsins er allt í kringum okkur. (Ef. 2:2) Þar að auki getur verið freistandi að hugsa eins og heimurinn því að hann höfðar oft til eigingjarnra hvata okkar. Það er áskorun að hugsa eins og Jehóva en mjög auðvelt að hugsa eins og heimurinn.

4. (a) Hvað gerist ef við látum heiminn móta hugarfar okkar? (b) Hvernig hjálpar þessi grein okkur?

4 Ef við leyfum heiminum að móta hugarfar okkar verðum við eigingjörn og finnum til löngunar til að vera siðferðilega óháð Guði. (Mark. 7:21, 22) Það er því nauðsynlegt að við temjum okkur að hugsa um „það sem Guðs er“ en ekki „það sem manna er“. Þessi grein hjálpar okkur að gera það. Við ræðum um hvers vegna það setur okkur ekki óhóflegar skorður heldur er okkur til gagns að hugsa eins og Jehóva. Við ræðum einnig um hvernig við getum varast að láta heiminn móta hugarfar okkar. Og í næstu grein skoðum við hvernig við getum lært að hugsa eins og Jehóva um ýmis mál og tileinkað okkur hugarfar hans.

ÞAÐ ER GAGNLEGT OG EFTIRSÓKNARVERT AÐ TILEINKA SÉR HUGARFAR JEHÓVA

5. Hvers vegna vilja sumir ekki láta aðra móta sig?

5 Sumir vilja ekki að aðrir móti þá eða hafi áhrif á hugarfar þeirra. Þeir segjast geta hugsað fyrir sig sjálfa. Sennilega eiga þeir við að þeir eigi rétt á að taka eigin ákvarðanir. Þeir vilja ekki láta stjórna sér eða verða eins og allir aðrir. *

6. (a) Hvaða frelsi gefur Jehóva okkur? (b) Er þetta frelsi takmarkalaust?

6 Við getum verið viss um að við hættum ekki að hugsa sjálfstætt eða hafa eigin skoðanir þótt við tileinkum okkur hugarfar Jehóva. Í 2. Korintubréfi 3:17 segir: „Þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.“ Við höfum frelsi til að vera við sjálf. Við getum haft okkar eigin smekk og valið okkur áhugamál. Jehóva skapaði okkur þannig. En við getum ekki notað frelsi okkar takmarkalaust. (Lestu 1. Pétursbréf 2:16.) Jehóva vill að við leitum leiðsagnar í orði hans þegar við þurfum að meta hvort eitthvað sé rétt eða rangt. Setur það okkur of þröngar skorður eða er það gagnlegt?

7, 8. Hvers vegna setur það okkur ekki of þröngar skorður að líta málin sömu augum og Jehóva? Lýstu með dæmi.

7 Tökum dæmi. Foreldrar gera sitt besta til að kenna börnum sínum góð gildi. Þau kenna þeim kannski að vera heiðarleg, dugleg og taka tillit til annarra. Þetta eru ekki of þröngar skorður. Foreldrarnir eru að búa þau undir fullorðinsárin til að þeim vegni vel. Þegar börnin vaxa úr grasi og flytjast að heiman taka þau eigin ákvarðanir. Ef þau ákveða að fara eftir þeim gildum, sem foreldrar þeirra kenndu þeim, er ólíklegra að þau taki ákvarðanir sem þau sjá eftir seinna. Þannig komast þau hjá óþarfa erfiðleikum og áhyggjum.

8 Líkt og góðir foreldrar vill Jehóva að börn sín eigi innihaldsríkt líf. (Jes. 48:17, 18) Hann gefur okkur því meginreglur um siðferði og framkomu við aðra og býður okkur að líta slík mál sömu augum og hann og hafa sömu gildi. Þetta eru ekki of þröngar skorður heldur hjálpar okkur að taka skynsamlegri ákvarðanir. (Sálm. 92:6; Orðskv. 2:1-5; Jes. 55:9) Það hjálpar okkur að taka ákvarðanir sem stuðla að hamingju en gerir okkur jafnframt kleift að blómstra sem einstaklingar. (Sálm. 1:2, 3) Það er bæði gagnlegt og eftirsóknarvert að hugsa eins og Jehóva.

HUGARFAR JEHÓVA ER ÆÐRA HUGARFARI HEIMSINS

9, 10. Hvernig hefur hugarfar Jehóva reynst æðra hugarfari heimsins?

9 Önnur ástæða þess að þjónar Jehóva vilja tileinka sér hugarfar hans er að það er miklu æðra hugarfari heimsins. Heimurinn gefur ráð um siðferði, fjölskyldusambönd, velgengni í starfi og fleira. Mörg ráðanna eru ekki í samræmi við hugarfar Jehóva. Til dæmis er oft ýtt undir að upphefja sjálfan sig. Einnig er hvatt til að umbera kynferðislegt siðleysi. Stundum er mælt með að skilja við maka sinn eða slíta samvistum af litlu tilefni til að njóta meiri hamingju. Slík ráð stangast á við Biblíuna. En gæti verið að ráð heimsins séu betri en ráð Biblíunnar?

10 „Spekin sannast af verkum sínum,“ sagði Jesús. (Matt. 11:19) Þrátt fyrir miklar tækniframfarir í heiminum hefur enn ekki tekist að leysa stóru vandamálin sem koma í veg fyrir hamingju, eins og stríð, kynþáttafordóma og glæpi. Auk þess er kynferðislegt siðleysi talið viðunandi í heiminum. Margir viðurkenna að það leysi ekki vandamál heldur stuðli að sundruðum heimilum, sjúkdómum og öðrum erfiðleikum. En þeir sem tileinka sér sjónarmið Guðs njóta meiri hamingju í fjölskyldunni og friðar við trúsystkini um allan heim. Þeir eru líka siðferðilega hreinir og því við betri heilsu. (Jes. 2:4; Post. 10:34, 35; 1. Kor. 6:9-11) Sýnir þetta ekki að hugarfar Jehóva er æðra hugarfari heimsins?

11. Hver mótaði hugarfar Móse og hvað hlaust af því?

11 Sannir þjónar Jehóva á biblíutímanum gerðu sér grein fyrir að hugarfar hans væri æðra hugarfari heimsins. Móse var til dæmis menntaður „í allri speki Egypta“ en hann leitaði samt sem áður leiðsagnar Guðs til að „öðlast viturt hjarta“. (Post. 7:22; Sálm. 90:12) Hann bað einnig til Jehóva: „Skýrðu mér ... frá vegum þínum.“ (2. Mós. 33:13) Hann leyfði Jehóva að móta hugarfar sitt og átti því mikilvægan þátt í að láta hans vilja ná fram að ganga. Talað er um Móse af virðingu í Biblíunni sem mann með einstaka trú. – Hebr. 11:24-27.

12. Á hverju byggði Páll ákvarðanir sínar?

12 Páll postuli var greindur og menntaður maður og hann kunni að minnsta kosti tvö tungumál. (Post. 5:34; 21:37, 39; 22:2, 3) En hann hafnaði veraldlegri visku þegar hann þurfti að meta hvort eitthvað væri rétt eða rangt. Hann tók ákvarðanir með hliðsjón af Ritningunni. (Lestu Postulasöguna 17:2; 1. Korintubréf 2:6, 7, 13.) Páll naut þess vegna velgengni í boðuninni og vænti eilífra launa. – 2. Tím. 4:8.

13. Hver ber ábyrgð á að við tileinkum okkur hugarfar Jehóva?

13 Það er greinilegt að hugarfar Jehóva er æðra hugarfari heimsins. Ef við lifum eftir stöðlum hans verðum við sannarlega hamingjusöm og njótum velgengni. En Jehóva neyðir okkur ekki til að hugsa eins og hann. ,Trúi og hyggni þjónninn‘ ráðskast ekki með hugsanir okkar og það gera öldungarnir ekki heldur. (Matt. 24:45; 2. Kor. 1:24) Hvert og eitt okkar ber ábyrgð á að tileinka sér hugarfar Guðs. Hvernig getum við gert það?

LÁTUM HEIMINN EKKI MÓTA OKKUR

14, 15. (a) Hvað þurfum við að íhuga ef við viljum hugsa eins og Jehóva? (b) Hvers vegna ættum við að gæta þess að næra hugann ekki á hugmyndum heimsins? Lýstu með dæmi.

14 Í Rómverjabréfinu 12:2 er okkur ráðlagt: „Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ Þessi innblásnu orð sýna að við getum tileinkað okkur hugarfar Jehóva betur sama hvað mótaði hugarfar okkar áður en við kynntumst sannleikanum. Erfðir og fyrri reynsla hefur vissulega mótað huga okkar að einhverju leyti en hugur okkar getur haldið áfram að breytast. Slíkar breytingar ráðast að miklu leyti af því sem við hleypum inn í hugann og því sem við veljum að láta hugann dvelja við. Með því að hugsa um, eða hugleiða, hvernig Jehóva lítur á málin komumst við að því að sjónarmið hans eru rétt. Þá langar okkur til að tileinka okkur hugarfar hans.

15 En til að geta tileinkað okkur hugarfar Jehóva þurfum við að hætta að fylgja „háttsemi þessa heims“. Við verðum að hætta að næra hugann á hugmyndum eða sjónarmiðum sem stangast á við hugarfar Jehóva. Við getum líkt þessu við mat. Einstaklingur leitast við að bæta heilsuna með því að borða næringarríkan mat. En það sem hann leggur á sig er til einskis ef hann borðar einnig skemmdan mat. Eins hefur það takmarkað gildi að næra hugann á hugarfari Jehóva ef við óhreinkum hugann með hugmyndum heimsins.

16. Gegn hverju þurfum við að vernda okkur?

16 Getum við komist algerlega hjá hugmyndum heimsins? Nei, við getum ekki farið út úr heiminum. Einhver kynni af hugmyndum heimsins eru því óumflýjanleg. (1. Kor. 5:9, 10) Í boðuninni heyrum við fólk tala um rangar trúarkenningar. En þó að við getum ekki komist algerlega hjá röngum hugmyndum þurfum við alls ekki að hugleiða þær eða viðurkenna. Við ættum að vera fljót að hafna hugsunum sem þjóna tilgangi Satans, rétt eins og Jesús gerði. Þar að auki getum við verndað okkur gegn óþarfa áhrifum frá hugarfari heimsins. – Lestu Orðskviðina 4:23.

17. Hvernig getum við forðast óþarfa áhrif frá hugarfari heimsins?

17 Við ættum til dæmis að vanda val okkar á nánum vinum. Biblían segir okkur til viðvörunar að við smitumst af hugarfari fólks sem þjónar ekki Jehóva ef við höfum náinn félagsskap við það. (Orðskv. 13:20; 1. Kor. 15:12, 32, 33) Við ættum einnig að vanda val okkar á afþreyingu. Með því að hafna afþreyingarefni sem heldur þróunarkenningunni á lofti eða ýtir undir ofbeldi og siðleysi forðumst við að spilla hugarfari okkar með hugmyndum sem eru „gegn þekkingunni á Guði“. – 2. Kor. 10:5.

Hjálpum við börnum okkar að hafna skaðlegu afþreyingarefni? (Sjá 18. og 19. grein.)

18, 19. (a) Hvers vegna þurfum við að vera á varðbergi gagnvart hugmyndum heimsins? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur og hvers vegna?

18 Við verðum líka að átta okkur á hugarfari heimsins þegar það er sett fram á lævísan hátt, og hafna því. Til dæmis gæti frétt verið þannig sett fram að hún hygli ákveðinni stjórnmálaskoðun. Og sumar fréttir upphefja markmið og afrek sem heimurinn telur mikilvæg. Kvikmyndir og bækur ýta oft undir þá skoðun að maður eigi að láta sjálfan sig og fjölskylduna ganga fyrir öllu öðru. Þær láta það virðast sanngjarnt, aðlaðandi og jafnvel rétt. Slík sjónarmið líta fram hjá því sem Biblían segir um að fjölskyldur okkar og sjálfsálit dafni þegar við elskum Jehóva framar öllu öðru. (Matt. 22:36-39) Og sumar barnasögur geta, þó að þær séu ásættanlegar að öðru leyti, komið þeirri hugmynd inn hjá börnum að siðlaus hegðun sé í lagi.

19 Þetta þýðir ekki að það sé rangt að njóta heilnæmrar afþreyingar. En við ættum að spyrja okkur eftirfarandi spurninga: Berum við kennsl á hugmyndir heimsins, jafnvel þegar þær eru settar óbeint fram? Setjum við því takmörk hvað börnin okkar og við sjálf horfum á og lesum? Kennum við börnum okkar að líta málin sömu augum og Jehóva til að vega á móti hugmyndum heimsins sem þau sjá og heyra? Við getum forðast að ,fylgja háttsemi þessa heims‘ með því að átta okkur á muninum á hugarfari Jehóva og hugarfari heimsins.

HVER ER AÐ MÓTA ÞIG?

20. Hvað ræður því hvort við verðum fyrir áhrifum af hugarfari Jehóva eða hugarfari heimsins?

20 Mundu að upplýsingarnar koma aðeins úr tveim áttum – frá Jehóva og frá heiminum undir stjórn Satans. Hvor þeirra mótar okkur? Það er sá sem við fáum upplýsingar frá. Ef við tökum við hugmyndum heimsins mótar heimurinn okkur og þá höllumst við að viðhorfum hans og förum að hegða okkur í samræmi við þau. Þess vegna er mikilvægt að við gætum þess hvað við látum hugann dvelja við.

21. Um hvað er rætt í næstu grein?

21 Í þessari grein höfum við rætt um að við þurfum að gera meira en að halda huga okkar hreinum af spilltum áhrifum til að hugsa eins og Jehóva. Við þurfum einnig að fylla hugann af hugsunum Jehóva með það að marki að tileinka okkur hugarfar hans. Í næstu grein er rætt meira um hvernig við getum gert það.

^ gr. 5 Sannleikurinn er sá að jafnvel þeir sem eru mjög sjálfstæðir í hugsun verða fyrir áhrifum annarra. Hvort sem fólk hugsar um eitthvað djúpstætt eins og uppruna lífsins eða einfaldlega hverju það eigi að klæðast verður það fyrir einhverjum áhrifum frá öðrum. En við getum valið hvern við látum hafa áhrif á okkur.