Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Um hvaða velgjörðamenn var Jesús að tala kvöldið fyrir dauða sinn og hvers vegna fengu þeir þessa nafnbót?

Kvöldið fyrir dauða sinn áminnti Jesús postula sína um að sækjast ekki eftir virðingarstöðum meðal trúsystkina sinna. Hann sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið.“ – Lúk. 22:25, 26.

Um hvaða velgjörðamenn var Jesús að tala? Áletranir, myntir og rit sýna að það var venja að heiðra fræga menn og valdhafa með grísku nafnbótinni evergetes sem merkir velgjörðamaður. Þessum mönnum var sýndur þessi heiður vegna þess að þeir höfðu innt af hendi verðmæta þjónustu í þágu almennings.

Nokkrir konungar báru nafnbótina evergetes. Í hópi þeirra voru egypskir valdhafar eins og Ptólemeos 3. evergetes (um 247-222 f.Kr.) og Ptólemeos 8. evergetes 2. (um 147-117 f.Kr.). Rómversku valdhafarnir Júlíus Sesar (48-44 f.Kr.) og Ágústus (31 f.Kr.–14 e.Kr.) báru líka þessa nafnbót, sömuleiðis Heródes mikli, konungur í Júdeu. Heródes ávann sér sennilega nafnbótina þegar hann flutti inn hveiti til að draga úr hungursneyð meðal þjóðarinnar og útvegaði þurfandi fólki fatnað.

Að sögn þýska biblíufræðingsins Adolfs Deissmanns var nafnbótin „velgjörðamaður“ algeng. Hann segir: „Það væri auðvelt að safna saman á skömmum tíma yfir hundrað dæmum um áletranir [þar sem þessi nafnbót er notuð].“

Hvað átti Jesús þá við þegar hann sagði við lærisveinana: „En eigi sé yður svo farið“? Var Jesús að segja að þeim ætti ekki að vera umhugað um velferð fólksins í kringum þá? Nei, alls ekki. Hann virðist hafa verið að hugsa um hugarfarið sem bjó að baki örlætinu.

Ríkir einstaklingar á dögum Jesú leituðust við að afla sér góðs mannorðs með því að styrkja fjárhagslega sýningar, kappleiki í hringleikahúsunum og svipaða viðburði, gera lystigarða og reisa musteri. En þeir gerðu það til að láta klappa sér lof í lófa, öðlast vinsældir eða veiða atkvæði. Í uppsláttarriti segir: „Þótt til séu dæmi um einlægt örlæti fólks var þetta oft gert í pólitískum tilgangi eða eiginhagsmunaskyni.“ Jesús hvatti fylgjendur sína til að forðast slíkan metnað og eigingirni.

Nokkrum árum seinna lagði Páll postuli áherslu á mikilvægi þess að gefa af réttum hvötum. Hann skrifaði trúsystkinum sínum í Korintu: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ – 2. Kor. 9:7.