Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Kauptu sannleika, og seldu hann ekki“

„Kauptu sannleika, og seldu hann ekki“

„Kauptu sannleika, og seldu hann ekki, visku, fræðslu og skilning.“ – ORÐSKV. 23:23.

SÖNGVAR: 94, 96

1, 2. (a) Hvað er það verðmætasta sem við eigum? (b) Hvaða sannindi eru okkur mikils virði og hvers vegna? (Sjá myndir í upphafi greinar.)

HVAÐ er það verðmætasta sem þú átt? Myndirðu láta það af hendi fyrir eitthvað sem er ekki eins verðmætt? Svörin við þessum spurningum eru ekki flókin fyrir vígða tilbiðjendur Jehóva. Sambandið við Jehóva er það verðmætasta sem við eigum og við myndum ekki skipta á því fyrir nokkuð annað. Sannleikur Biblíunnar er okkur líka afar mikils virði því að hann gerir okkur kleift að rækta sambandið við föður okkar á himnum. – Kól. 1:9, 10.

2 Hugsaðu þér allt það sem Jehóva kennir okkur í orði sínu, Biblíunni. Hann opinberar okkur sannleikann um nafn sitt og merkingu þess og hvaða aðlaðandi eiginleikum hann býr yfir. Hann upplýsir okkur um hið ómetanlega lausnargjald sem hann greiddi fyrir milligöngu sonar síns, Jesú, vegna þess hve mikið hann elskar okkur. Jehóva upplýsir okkur einnig um Messíasarríkið og veitir hinum andasmurðu von um eilíft líf á himnum og ,öðrum sauðum‘ von um eilíft líf í paradís á jörð. (Jóh. 10:16) Hann kennir okkur líka hvernig við eigum að hegða okkur. Okkur þykir ákaflega vænt um þessi sannindi þar sem þau gera okkur kleift að eiga náið samband við skapara okkar. Þau gefa lífinu gildi.

3. Hvað þýðir það ekki að kaupa sannleika?

3 Jehóva er örlátur Guð. Hann neitar sannleiksleitandi fólki ekki um nokkuð gott. Hann gaf meira að segja líf ástkærs sonar síns að gjöf. Jehóva færi aldrei fram á að við greiddum peninga fyrir sannleikann. Þegar maður að nafni Símon bauð Pétri postula peninga í skiptum fyrir vald til að gefa heilagan anda ávítaði Pétur hann og sagði: „Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé.“ (Post. 8:18-20) En hvað þýða þá innblásnu leiðbeiningarnar „kauptu sannleika“?

HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ AÐ ,KAUPA‘ SANNLEIKA?

4. Hvað lærum við um sannleikann í þessari grein?

4 Lestu Orðskviðina 23:23Við þurfum að leggja ýmislegt á okkur til að finna sannleikann í orði Guðs. Við þurfum að vera fús til að fórna hverju sem er til að hljóta hann. Og þegar við höfum ,keypt‘ eða eignast sannleika þurfum við að gæta þess að glata honum ekki, það er að segja að ,selja‘ hann, eins og vitur ritari Orðskviðanna komst að orði. Ræðum nú hvað það þýðir að ,kaupa‘ sannleika og hvaða gjald við gætum þurft að borga fyrir hann ef svo má að orði komast. Þannig getum við aukið þakklæti okkar fyrir sannleikann og orðið enn ákveðnari í að ,selja‘ hann aldrei. Við munum komast að raun um að það er vel þess virði að kaupa sannleika.

5, 6. (a) Hvernig getum við keypt sannleika án peninga? Lýstu með dæmi. (b) Hvernig er sannleikurinn okkur til góðs?

5 Þó að eitthvað sé ókeypis þýðir það ekki endilega að það kosti okkur ekki neitt. Hebreska orðið, sem þýtt er „kauptu“ í Orðskviðunum 23:23, getur einnig þýtt „eignastu“. Bæði orðin fela í sér að maður þurfi að leggja eitthvað á sig eða láta eitthvað af hendi í skiptum fyrir verðmæti. Lýsum þessu með dæmi. Segjum að búð auglýsi ókeypis banana. Birtast þeir þá á borðinu hjá okkur eins og fyrir kraftaverk? Nei. Við þurfum að hafa fyrir því að fara út í búð og sækja þá. Bananarnir eru vissulega ókeypis en við þurfum að gefa okkur tíma og gera okkur ferð út í búðina. Að sama skapi þurfum við ekki peninga til að kaupa sannleika en við þurfum að hafa fyrir því að eignast hann.

6 Lestu Jesaja 55:1-3Orð Jehóva í bók Jesaja varpa enn skýrara ljósi á hvað það þýðir að kaupa sannleika. Í þessum versum líkir Jehóva orði sínu við vatn, mjólk og vín. Orð hans eru hressandi eins og kalt og tært drykkjarvatn. Þau næra okkur og styrkja og hjálpa okkur að vaxa í trúnni rétt eins og mjólk styrkir okkur og hjálpar börnum að vaxa. Orð Jehóva eru líka eins og vín. Á hvaða hátt? Í Biblíunni er vín sett í samhengi við gleði. (Sálm. 104:15) Með því að segja okkur að ,þiggja vín‘ fullvissar Jehóva okkur um að það veiti gleði að lifa í samræmi við orð hans. (Sálm. 19:9) Þetta er falleg lýsing á því hve gott og gagnlegt það er að læra sannleiksorð hans og fara eftir þeim. Skoðum nú fimm svið þar sem við gætum þurft að láta eitthvað af hendi til að kaupa sannleika.

HVAÐ HEFURÐU LÁTIÐ AF HENDI TIL AÐ KAUPA SANNLEIKA?

7, 8. (a) Af hverju þurfum við að nota tíma til að geta keypt sannleika? (b) Hve mikið var ung kona tilbúin til að borga og með hvaða árangri?

7 Tími. Það er gjald sem allir þurfa að greiða til að geta keypt sannleika. Það tekur tíma að hlusta á boðskapinn um ríkið, lesa í Biblíunni og biblíutengdum ritum, vera iðinn við biblíunám og búa sig undir samkomur og sækja þær. Við verðum að taka tíma frá öðru sem skiptir minna máli. (Lestu Efesusbréfið 5:15, 16.) Hve mikinn tíma tekur það að afla sér nákvæmrar þekkingar á grundvallarsannindum Biblíunnar? Það fer eftir aðstæðum. Við getum endalaust lært meira um visku Jehóva, vegi hans og verk. (Rómv. 11:33) Í fyrsta tölublaði Varðturnsins var sannleikanum líkt við „látlaust, lítið blóm“. Þar stóð: „Láttu þér ekki nægja eitt sannleiksblóm. Ef eitt myndi nægja væru þau ekki fleiri. Haltu áfram að safna þeim og leitaðu að fleirum.“ Þú gætir spurt þig: Hversu stór er minn sannleiksblómvöndur? Þótt við lifðum að eilífu getum við alltaf lært eitthvað nýtt um Jehóva. Það sem máli skiptir er að við notum skynsamlega þann tíma sem við höfum núna þannig að við getum keypt eins mikinn sannleika og aðstæður okkar leyfa. Skoðum dæmi um konu gerði einmitt það.

8 Mariko, * ung kona frá Japan, fluttist til New York-borgar til að sækja skóla. Á þeim tíma tilheyrði hún trúarhreyfingu sem hóf göngu sína í Japan í lok sjötta áratugarins. Brautryðjandasystir hitti Mariko í boðuninni hús úr húsi. Mariko var svo ánægð þegar hún byrjaði að kynna sér sannleika Biblíunnar að hún bað systurina að aðstoða sig við biblíunám tvisvar í viku. Hún byrjaði strax að sækja samkomur þó að hún hefði mikið að gera í skólanum og væri að auki í hlutastarfi. Hún hætti líka að verja eins miklum tíma í félagslífið og hún var vön þannig að hún hefði meiri tíma til að kynna sér sannleikann. Slíkar fórnir stuðluðu að því að hún tók skjótum framförum í trúnni og lét skírast á innan við ári. Hálfu ári seinna, árið 2006, gerðist hún brautryðjandi og er það enn.

9, 10. (a) Hvernig breytist viðhorf okkar til efnislegra hluta þegar við kaupum sannleika? (b) Hvað sagði ung kona skilið við og hvað finnst henni um það?

9 Efnisleg þægindi. Við gætum þurft að segja skilið við vel launaða vinnu eða glæstan frama til að kaupa sannleika. Fiskimennirnir Pétur og Andrés ,yfirgáfu netin‘ þegar Jesús bauð þeim að ,veiða menn‘. (Matt. 4:18-20) Auðvitað geta fæstir þeirra sem kynnast sannleikanum nú á dögum einfaldlega hætt í vinnunni. Þeir hafa biblíulegum skyldum að gegna. (1. Tím. 5:8) Margir sem kynnast sannleikanum þurfa þó að breyta viðhorfi sínu til efnislegra hluta og forgangsraða upp á nýtt. Jesús sagði: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu ... Safnið yður heldur fjársjóðum á himni.“ (Matt. 6:19, 20) Það gerði ung kona sem heitir María.

10 María var farin að sveifla golfkylfu áður en hún var nógu gömul til að byrja í skóla. Í framhaldsskóla var hún orðin svo fær að hún hlaut styrk til að fara í háskóla. Allt líf hennar snerist um golf og hún stefndi á glæstan frama sem atvinnugolfari. En þá fór María að kynna sér Biblíuna og hún hafði yndi af því sem hún lærði. Hún sá að sannleikurinn hjálpaði henni að breyta lífi sínu til hins betra. Hún segir: „Því betur sem ég lagaði hugarfar mitt og lífsstíl að meginreglum Biblíunnar þeim mun hamingjusamari varð ég.“ María áttaði sig á að það yrði erfitt að keppast eftir bæði andlegum og efnislegum auði. (Matt. 6:24) Hún ákvað að gefa upp á bátinn markmiðið að gerast atvinnugolfari og möguleikann á að verða fræg og rík. En þar sem hún keypti sannleika er hún nú brautryðjandi og segist lifa „besta og hamingjuríkasta lífi sem hugsast getur“.

11. Hvaða áhrif gæti það haft á samband okkar við vini og ættingja að kaupa sannleika?

11 Vinir og ættingjar. Samband okkar við vini og ættingja gæti breyst þegar við veljum að lifa í samræmi við sannleika Biblíunnar. Hvers vegna? Jesús bað fyrir fylgjendum sínum: „Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.“ (Jóh. 17:17) Að „helga“ getur einnig merkt að „aðgreina“. Þegar við tökum við sannleikanum verðum við aðgreind frá heiminum þar sem við erum ekki lengur steypt í sama mót og hann. Fólk lítur öðruvísi á okkur af því að gildismat okkar hefur breyst. Við lifum eftir siðferðisreglum Biblíunnar. Við viljum auðvitað ekki valda sundrung en sumir vinir og nánir ættingjar gætu farið að forðast okkur eða jafnvel sett sig upp á móti trú okkar. Það kemur okkur þó ekki á óvart. Jesús sagði: „Heimamenn manns verða óvinir hans.“ (Matt. 10:36) En Jesús lofaði líka að umbunin fyrir að kaupa sannleika yrði langtum meiri en nokkuð það sem við þyrftum að láta af hendi. – Lestu Markús 10:28-30.

12. Hvað borgaði Gyðingur nokkur fyrir sannleikann?

12 Kaupmanninum og Gyðingnum Aroni var kennt í barnæsku að það væri rangt að segja nafn Guðs upphátt. En hann þyrsti í sannleikann. Hann varð himinlifandi þegar vottur sýndi honum að hann gæti notað nafnið „Jehóva“ með því að bæta sérhljóðum við hebresku samhljóðana í nafni Guðs. Upprifinn fór hann í samkunduna til að segja rabbínunum frá því sem hann hafði lært. En viðbrögð þeirra voru önnur en hann hafði átt von á. Í stað þess að samgleðjast honum fyrir að komast að sannleikanum um nafn Guðs hræktu þeir á hann og útskúfuðu honum. Fjölskyldan snerist líka gegn honum. En hann lét það ekki aftra sér heldur hélt hann áfram að kaupa sannleika og varð dyggur þjónn Jehóva til æviloka. Eins og saga Arons sýnir fram á þurfum við að vera undir það búin að fjölskyldan og aðrir setji sig upp á móti okkur þegar við byrjum að ganga veg sannleikans.

13, 14. Hvaða breytingar þurfum við að gera á hugarfari okkar og hegðun til að geta keypt sannleika? Nefndu dæmi.

13 Óhreinar hugsanir og verk. Þegar við kynnumst sannleikanum og förum að lifa eftir siðferðismælikvarða Biblíunnar þurfum við að vera fús til að breyta hugarfari okkar og hegðun. Pétur postuli skrifaði: „Verið eins og hlýðin börn og látið líferni ykkar ekki framar mótast af þeim girndum er þið áður létuð stjórnast af í vanvisku ykkar. Verðið heldur sjálf heilög í öllu dagfari ykkar.“ (1. Pét. 1:14, 15) Í Korintu til forna lifðu margir siðlausu lífi og þurftu að gera róttækar breytingar á lífi sínu til að geta verið hreinir í augum Jehóva. (1. Kor. 6:9-11) Margir nú á dögum hafa á svipaðan hátt snúið baki við syndugu líferni til að geta keypt sannleika. Pétur lýsti þessu þegar hann skrifaði: „Nógu lengi hafið þið samið ykkur að háttum heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.“ – 1. Pét. 4:3.

14 Devynn og Jasmine voru drykkjurútar um árabil. Devynn var fær bókhaldari en hann hélst ekki í fastri vinnu vegna drykkju. Jasmine var þekkt fyrir að vera skapstór og ofbeldisfull. Dag einn, þegar Jasmine gekk drukkin eftir veginum, hitti hún tvo votta sem voru trúboðar. Þeir buðust til að heimsækja hana viku síðar og aðstoða hana við biblíunám. En þegar þeir komu voru bæði Jasmine og Devynn drukkin. Þau bjuggust ekki við að þeir myndu koma því að þau héldu að þeim stæði á sama um þau. Næst var staðan hins vegar önnur. Jasmine og Devynn urðu kappsamir biblíunemendur frá fyrstu námsstund og fóru að fara eftir því sem þau lærðu. Þau hættu að drekka á innan við þrem mánuðum og ákváðu síðar að ganga í hjónaband. Þorpsbúar tóku eftir þessum breytingum og það varð til þess að margir vildu líka kynna sér Biblíuna.

15. Hvað getur verið eitt það erfiðasta að segja skilið við fyrir sannleikann og hvers vegna?

15 Óbiblíulegir siðir og venjur. Eitt það erfiðasta við að kaupa sannleika getur verið að segja skilið við siði og venjur sem Guði mislíkar. Fyrir suma gæti verið auðvelt að láta af slíkum siðum þegar þeir sjá biblíuleg rök fyrir því en öðrum gæti fundist það mjög erfitt vegna þess að fjölskylda þeirra, vinnufélagar og vinir beita þá þrýstingi. Það getur valdið togstreitu, ekki síst ef siðurinn felst í því að heiðra látna ástvini. (5. Mós. 14:1) En hvað getur hjálpað okkur að hafna siðvenjum sem stangast á við Biblíuna? Við getum lært af góðu fordæmi annarra sem gerðu nauðsynlegar breytingar til að þóknast Jehóva, en frumkristnir menn í Efesus eru gott dæmi um það.

16. Hvað gerðu sumir í Efesus til að geta keypt sannleika?

16 Efesus var þekkt fyrir kukl og galdra. Hvað gerðu þeir sem áður stunduðu galdra til að geta keypt sannleika og tekið kristna trú? Í Biblíunni segir: „Allmargir, er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi. Þær voru samtals virtar á fimmtíu þúsundir silfurpeninga. Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans.“ (Post. 19:19, 20) Þessir kristnu menn sýndu trúfesti með því að fórna miklum verðmætum og fyrir vikið uppskáru þeir ómetanlega blessun.

17. (a) Hvað gætum við þurft að borga fyrir sannleikann? (b) Hvaða spurningar skoðum við í næstu grein?

17 Hverju hefur þú fórnað til að geta keypt sannleika? Öll gefum við af tíma okkar til að safna sannleiksblómum. Sumir hafa líka fórnað efnislegum þægindum og aðrir hafa þurft að takast á við breytingar í samskiptum við vini og ættingja. Margir hafa gert breytingar á hugarfari sínu og hegðun og sagt skilið við óbiblíulega siði og venjur. Sama hverju við höfum kostað til erum við sannfærð um að sannleikur Biblíunnar sé vel þess virði. Hann gerir okkur kleift að eignast það verðmætasta sem til er, náið samband við Jehóva. Þegar við hugsum um blessunina sem fylgir því að þekkja sannleikann er erfitt að ímynda sér að nokkur myndi vilja ,selja‘ hann. Hvernig gæti það gerst og hvernig getum við forðast að gera þau grafalvarlegu mistök? Þessar spurningar skoðum við í næstu grein.

^ gr. 8 Sumum nöfnum í þessari grein er breytt.