Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tileinkarðu þér hugarfar Jehóva?

Tileinkarðu þér hugarfar Jehóva?

„Látið ... umbreytast með hinu nýja hugarfari.“ – RÓMV. 12:2.

SÖNGVAR: 56, 123

1, 2. Hvað lærum við að gera þegar við þroskumst í trúnni? Lýstu með dæmi.

LÍTILL drengur fær gjöf og foreldrar hans segja honum að þakka fyrir sig. Drengurinn hlýðir foreldrunum og segir „takk fyrir“ þó að hann geri það frekar vélrænt. Eftir því sem hann þroskast lærir hann betur að meta hugarfar foreldranna og lærir að vera þakklátur fyrir góðsemi annarra. Þá er orðið eðlilegt fyrir hann að þakka fyrir sig. Hvers vegna? Vegna þess að hann hefur tamið sér þakklæti.

2 Á sama hátt lærðum við mikilvægi þess að hlýða helstu kröfum Jehóva þegar við kynntumst sannleikanum. En eftir því sem við þroskumst andlega kynnumst við hugarfari Jehóva nánar og skiljum betur hvað honum líkar, hvað honum líkar ekki og hvernig hann lítur á ýmis mál. Þegar við lærum að hugsa á svipaðan hátt og Jehóva og leyfum honum að hafa áhrif á breytni okkar og hvernig við tökum ákvarðanir erum við að tileinka okkur hugarfar hans.

3. Hvers vegna getur reynt á að tileinka sér hugarfar Jehóva?

3 Þó að við höfum yndi af að læra að hugsa eins og Jehóva getur það líka tekið á. Stundum getur ófullkomin rökhugsun okkar gert okkur erfitt fyrir. Það getur til dæmis reynst erfitt fyrir okkur að skilja viðhorf Jehóva til siðferðilegs hreinleika, efnishyggju, boðunarinnar, misnotkunar blóðs og fleira. Hvað getum við þá gert? Hvernig getum við haldið áfram að tileinka okkur hugarfar Jehóva? Og hvaða áhrif hefur það á breytni okkar núna og í framtíðinni?

TILEINKUM OKKUR HUGARFAR JEHÓVA

4. Hvað felst í því að „umbreytast með hinu nýja hugarfari“ eins og Páll sagði að við ættum að gera?

4 Lestu Rómverjabréfið 12:2Hér lýsir Páll postuli hvað felst í því að læra að hugsa eins og Jehóva. Við eigum að hætta að ,fylgja háttsemi þessa heims‘ eins og við lærðum um í síðustu grein. Og ef það á að takast megum við ekki leyfa heiminum að mata okkur á viðhorfum sínum. En Páll nefndi einnig að við ættum að „umbreytast með hinu nýja hugarfari“. Það felur í sér að rannsaka Biblíuna með það í huga að skilja hvernig Jehóva hugsar, íhuga það og laga hugsanagang okkar að hugarfari hans.

5. Útskýrðu muninn á lauslegum lestri og námi.

5 Nám er meira en að lesa lauslega yfir efnið og felur mun meira í sér en að strika undir svörin. Í námi okkar hugleiðum við hvað við lærum um Jehóva af efninu, hugsanir hans og verk. Við reynum að skilja hvers vegna Guð segir okkur að gera sumt en forðast annað. Við íhugum einnig hverju við þurfum að breyta í hugsun okkar og verkum. Þó að við hugleiðum kannski ekki allt þetta í hverri námsstund er gott fyrir okkur að nota tíma – til dæmis helminginn af hverri námsstund – í að íhuga með þakklátum huga það sem við lesum. – Sálm. 119:97; 1. Tím. 4:15.

6. Hvað gerist þegar við hugleiðum hvernig Jehóva hugsar?

6 Það sem gerist þegar við hugleiðum orð Guðs reglulega er einstakt. Við sannfærumst um að Jehóva hafi alltaf á réttu að standa. Við förum að sjá hlutina út frá sjónarhorni Jehóva og vera á sama máli og hann. Við höfum ,umbreyst með hinu nýja hugarfari‘ og förum að hugsa á nýjan hátt. Smátt og smátt tileinkum við okkur hugarfar Jehóva.

HUGSANIR OKKAR HAFA ÁHRIF Á ÞAÐ SEM VIÐ GERUM

7, 8. (a) Hvernig lítur Jehóva á efnislega hluti? (Sjá myndir í upphafi greinar.) (b) Hvað höfum við alltaf í fyrsta sæti ef við tileinkum okkur hugarfar Jehóva til efnislegra hluta?

7 Hugsun er annað og meira en heilaleikfimi. Hún hefur áhrif á það sem við gerum. (Mark. 7:21-23; Jak. 2:17) Skoðum nokkur dæmi því til skýringar. Guðspjöllin gefa okkur til dæmis góða mynd af því hvernig Jehóva hugsar um efnislega hluti. Hann valdi sjálfur mennska foreldra til að ala son sinn upp – hjón sem voru í litlum efnum. (3. Mós. 12:8; Lúk. 2:24) Þegar Jesús fæddist „lagði [María] hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi“. (Lúk. 2:7) Jehóva hefði getað valið úr mörgum leiðum til að sjá syni sínum fyrir betra húsnæði þegar hann fæddist. En það sem skipti hann máli var að Jesús yrði alinn upp í fjölskyldu þar sem andleg mál voru í fyrsta sæti.

8 Í frásögu Biblíunnar af fæðingu Jesú getum við séð hvernig Jehóva hugsar um efnislega hluti. Sumir foreldrar vilja að börnin þeirra fái allt það besta efnislega, jafnvel þó að það komi niður á sambandi barnanna við Jehóva. En greinilegt er að Jehóva telur sambandið við hann mikilvægast. Hefur þú tileinkað þér sama hugarfar? Hvað sýna verkin? – Lestu Hebreabréfið 13:5.

9, 10. Hvernig getum við sýnt að við lítum það að verða öðrum að falli sömu augum og Jehóva?

9 Annað dæmi sýnir hvernig Jehóva lítur á þann sem tælir aðra til falls. Jesús sagði: „Hverjum þeim sem tælir til falls einn af þessum smælingjum sem trúa væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn.“ (Mark. 9:42) Þetta lýsir sterkum tilfinningum. Jesús endurspeglaði föður sinn fullkomlega. Við megum því vera viss um að Jehóva hefur jafn sterka skoðun á hverjum þeim sem tælir einhvern af fylgjendum Jesú til falls með verkum sínum án þess að láta sig það nokkru varða. – Jóh. 14:9.

10 Erum við sama sinnis og Jehóva og Jesús? Höfum við tileinkað okkur hugarfar þeirra? Hvað gefa verkin til kynna? Segjum til dæmis að við séum hrifin af ákveðnum stíl í klæðnaði eða útliti sem gæti truflað einhverja í söfnuðinum eða vakið upp óhreinar hugsanir hjá þeim. Er umhyggja okkar fyrir trúsystkinum yfirsterkari eigin smekk? – 1. Tím. 2:9, 10.

11, 12. Hvernig er það okkur til verndar að læra að hata það sem Jehóva hatar og rækta með okkur sjálfstjórn?

11 Þriðja dæmið: Jehóva hatar ranglæti. (Jes. 61:8) Hann veit að við erum ófullkomin og höfum rangar tilhneigingar en hvetur okkur samt sem áður til að hata ranglæti eins og hann gerir. (Lestu Sálm 97:10.) Að íhuga hvers vegna Jehóva hefur óbeit á hinu illa hjálpar okkur að tileinka okkur sama hugarfar. Og það gefur okkur styrk til að varast það sem hann hatar.

12 Þegar við temjum okkur sama viðhorf og Jehóva til ranglætis eigum við auðveldara með að koma auga á það sem er rangt, jafnvel þó að ekki sé beinlínis minnst á það í Biblíunni. Til dæmis er kjöltudans lostafull hegðun sem er æ vinsælli í heiminum. Sumir myndu segja að það sé ekkert rangt við kjöltudans vegna þess að hann sé ekki það sama og að hafa kynmök. * En endurspeglar hann viðhorf Guðs sem hefur andstyggð á hinu illa í hvaða formi sem er? Höldum okkur frá hinu illa með því að rækta með okkur sjálfstjórn og hafa andstyggð á því sem Jehóva hatar. – Rómv. 12:9.

HUGLEIDDU NÚNA HVAÐA ÁKVARÐANIR ÞÚ TEKUR Í FRAMTÍÐINNI

13. Hvers vegna ættum við að hugleiða hvernig Jehóva lítur á mál sem við gætum þurft að taka afstöðu til síðar?

13 Í námi okkar ættum við að hugleiða hvernig Jehóva lítur á málin því að það getur hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir síðar. Þá verðum við tilbúin ef við lendum í aðstæðum þar sem við þurfum að taka ákvörðun tafarlaust. (Orðskv. 22:3) Skoðum nokkur dæmi úr Biblíunni.

14. Hvað lærum við af því hvernig Jósef hafnaði konu Pótífars?

14 Jósef hafnaði konu Pótífars tafarlaust þegar hún reyndi að tæla hann. Hann hafði greinilega hugsað um hvernig Jehóva lítur á tryggð í hjónabandi. (Lestu 1. Mósebók 39:8, 9.) Jósef svaraði henni: „Hvers vegna skyldi ég ... aðhafast svo illt og syndga á móti Guði?“ Svar hans sýnir að hann hafði tileinkað sér hugarfar Jehóva. Hvað með okkur? Hvað myndirðu gera ef vinnufélagi færi að daðra við þig? Eða ef þú fengir send kynferðisleg smáskilaboð? * Það er mun auðveldara að taka skýra afstöðu ef við höfum kynnt okkur huga Jehóva til slíkra mála, tileinkað okkur hugarfar hans og ákveðið fyrir fram hvað við myndum gera.

15. Hvernig getum við verið trúföst Jehóva eins og Hebrearnir þrír?

15 Skoðum nú fordæmi Hebreanna þriggja sem eru kallaðir Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Þeir neituðu einbeittir að tilbiðja gulllíkneskið sem Nebúkadnesar hafði látið reisa og gáfu konunginum mjög ákveðið svar. Það bar vott um að þeir höfðu hugleitt hvað felst í því að vera Jehóva trúr. (2. Mós. 20:4, 5; Dan. 3:4-6, 12, 16-18) Segjum að vinnuveitandi þinn bæði þig um að gefa pening í sjóð fyrir fagnað sem tengist falskri tilbeiðslu. Hvað myndirðu gera? Hugleiddu núna hvernig Jehóva lítur á slík mál í stað þess að bíða þar til svona staða kemur upp. Þá verður auðveldara fyrir þig að bregðast rétt við, alveg eins og Hebrearnir þrír.

Hefurðu rannsakað málið, gert bindandi yfirlýsingu og talað við lækninn þinn? (Sjá 16. grein.)

16. Hvers vegna er gott að þekkja vel viðhorf Jehóva ef við skyldum lenda í slysi eða öðru bráðatilfelli?

16 Að hugleiða viðhorf Jehóva núna getur líka hjálpað okkur að vera honum trú ef við lendum í slysi eða öðru bráðatilfelli. Við erum að sjálfsögðu ákveðin í að þiggja ekki heilblóð eða einhverja af blóðhlutunum fjórum. (Post. 15:28, 29) En um sumar læknismeðferðir þar sem blóð er notað þarf hver og einn þjónn Jehóva að taka ákvörðun byggða á viðhorfum Jehóva eins og þau koma fram í meginreglum Biblíunnar. Að sjálfsögðu er ekki besti tíminn til að meta slík mál þegar maður er á spítala, jafnvel kvalinn og þrýst er á mann að taka ákvörðun fljótt. Núna er rétti tíminn til að rannsaka málið, gera bindandi yfirlýsingu um vilja sinn og tala við lækninn. *

17-19. Hvers vegna er mikilvægt að kynna sér núna hvernig Jehóva lítur á málin? Gefðu dæmi um aðstæður sem við þurfum að vera búin undir.

17 Að lokum skulum við hugleiða hvernig Jesús svaraði án tafar þegar Pétur gaf honum það óskynsamlega ráð að hlífa sér. Jesús hafði augljóslega hugleitt rækilega hver vilji Guðs væri með hann og það sem ritningarnar sögðu um líf hans og dauða hér á jörð. Þekkingin gaf honum styrk til að vera trúfastur og fórnfús án þess að hika. – Lestu Matteus 16:21-23.

18 Vilji Guðs með okkur er að við eigum vináttusamband við hann og tökum eins mikinn þátt og við getum í að boða fagnaðarerindið. (Matt. 6:33; 28:19, 20; Jak. 4:8) Fólk, sem vill vel, gæti reynt að letja okkur rétt eins og gerðist með Jesú. Hvað myndirðu til dæmis gera ef vinnuveitandi þinn byði þér stöðuhækkun með töluvert hærri launum en sem myndi trufla andlegu dagskrána? Eða segjum, ef þú ert enn í skóla, að þér stæði til boða að fara að heiman til að fara í frekara nám. Myndirðu þurfa að rannsaka málið í bæn fyrst þá, ráðfæra þig við fjölskylduna og kannski við öldunga safnaðarins áður en þú tækir ákvörðun? Kynntu þér heldur núna hvernig Jehóva lítur á slík mál og tileinkaðu þér sama hugarfar og hann. Þá má vel vera að það verði tæplega nokkur freisting ef þú færð slíkt boð. Þú hefur þá þegar sett þér skýr andlega markmið og ert búinn að gera upp hug þinn. Það eina sem þú þarft að gera er að standa við ákvörðun sem þú hefur þegar tekið.

19 Sennilega geturðu séð fyrir þér fleiri aðstæður sem gætu komið upp óvænt. Við getum að sjálfsögðu ekki séð fyrir allar mögulegar aðstæður. En ef við hugleiðum í sjálfsnámi okkar hvernig Jehóva hugsar er líklegra að við munum eftir því og getum notað það í þeim aðstæðum sem upp koma. Höfum alltaf í huga hvernig Jehóva hugsar um málin og tileinkum okkur sama hugarfar og hann. Hugleiðum hvernig það hjálpar okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir núna og síðar.

HUGARFAR JEHÓVA OG FRAMTÍÐ ÞÍN

20, 21. (a) Hvers vegna njótum við frelsis í nýja heiminum? (b) Hvernig getum við notið gleðinnar að vissu marki núna?

20 Við væntum áköf nýja heimsins. Flest hlökkum við til að lifa að eilífu í paradís á jörðinni. Undir stjórn Guðsríkis verður mannkynið leyst undan sorg og þjáningum þessa heims. Við höldum að sjálfsögðu áfram að hafa frjálsan vilja. Hver og einn fær að taka ákvarðanir í samræmi við áhugasvið sitt.

21 En að sjálfsögðu verður frelsið ekki takmarkalaust. Hógværir menn munu láta leiðast af lögum Jehóva og hugarfari hans hvað varðar rétt og rangt. Það verður ánægjulegt og mun stuðla að miklum friði og hamingju. (Sálm. 37:11) Þangað til getum við notið þessarar gleði að nokkru leyti með því að tileinka okkur hugarfar Jehóva.

^ gr. 12 Kjöltudans er skilgreindur sem „athöfn þar sem einstaklingur, yfirleitt fáklæddur, dillar sér á kynferðislegan hátt í kjöltu viðskiptavinar“. Kjöltudans gæti eftir atvikum flokkast sem kynferðislegt siðleysi og kallað á meðferð dómnefndar. Kristinn einstaklingur, sem hefur tekið þátt í slíkum dansi, ætti að leita sér aðstoðar öldunga safnaðarins. – Jak. 5:14, 15.

^ gr. 14 Skipa gæti þurft dómnefnd ef bróðir eða systir sendir kynferðisleg smáskilaboð. Stundum hafa unglingar undir lögaldri jafnvel verið ákærðir af yfirvöldum fyrir kynferðisbrot af því að þeir sendu slík skilaboð. Hægt er að lesa meira um þetta efni á vefsíðunni jw.org í vefgreininni „Ungt fólk spyr – hvað ætti ég að vita um kynferðisleg smáskilaboð?“ (Sjá BIBLÍAN OG LÍFIÐ > UNGLINGAR.) Sjá einnig greinina „Að ræða við unglinginn um kynferðisleg smáskilaboð“ í Vaknið! janúar-febrúar 2014, bls. 12-13.

^ gr. 16 Meginreglur Biblíunnar um þetta mál má finna í ritum okkar. Sjá til að mynda bls. 215-218 í bókinni Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“.