Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 48

,Ljúkið því sem þið hófust handa við‘

,Ljúkið því sem þið hófust handa við‘

,Ljúkið því sem þið hófust handa við.‘ – 2. KOR. 8:11.

SÖNGUR 35 Metum rétt það sem máli skiptir

YFIRLIT *

1. Hvað leyfir Jehóva okkur að gera?

JEHÓVA leyfir okkur að velja okkur lífsstefnu. Hann kennir okkur að velja skynsamlega og hjálpar okkur að ná árangri þegar við tökum ákvarðanir sem eru honum að skapi. (Sálm. 119:173) Við tökum skynsamlegri ákvarðanir þegar við tileinkum okkur viskuna í orði Guðs. – Hebr. 5:14.

2. Hvað getum við átt erfitt með eftir að við tökum ákvörðun?

2 Þó að við tökum skynsamlega ákvörðun getum við átt í basli með að klára það sem við byrjum á. Lítum á nokkur dæmi: Ungur bróðir ákveður að lesa alla Biblíuna. Honum gengur vel í nokkrar vikur en síðan hættir hann að lesa einhverra hluta vegna. Systir ákveður að gerast brautryðjandi en dregur á langinn að byrja. Öldungaráð ákveður í sameiningu að fara í fleiri hirðisheimsóknir en hefur ekki komið því í verk eftir þó nokkra mánuði. Þó að þessi dæmi séu ólík eiga þau eitt sameiginlegt. Ákvarðanir voru teknar en þeim ekki fylgt eftir. Kristni söfnuðurinn í Korintu átti við svipaðan vanda að glíma. Skoðum hvað við getum lært af honum.

3. Hvaða ákvörðun tóku Korintumenn en hvernig fór?

3 Í kringum árið 55 tóku Korintumenn mikilvæga ákvörðun. Þeir fengu fréttir af því að bræður þeirra í Jerúsalem og Júdeu ættu erfitt og glímdu við fátækt og að aðrir söfnuðir hjálpuðu þeim með því að safna peningum handa þeim. Korintumenn voru góðviljaðir og örlátir og ákváðu að taka þátt í söfnuninni. Þeir spurðu Pál postula hvernig þeir gætu orðið að liði. Hann sendi söfnuðinum leiðbeiningar og fól Títusi að aðstoða við söfnunina. (1. Kor. 16:1; 2. Kor. 8:6) En nokkrum mánuðum síðar frétti Páll að Korintumenn hefðu ekki fylgt ákvörðun sinni eftir. Gjöf þeirra yrði því líklega ekki tilbúin í tæka tíð til að senda hana til Jerúsalem með framlögum hinna safnaðanna. – 2. Kor. 9:4, 5.

4. Hvað hvatti Páll Korintumenn til að gera eins og fram kemur í 2. Korintubréfi 8:7, 10, 11?

4 Korintumenn höfðu tekið góða ákvörðun og Páll hrósaði þeim fyrir sterka trú og einlæga löngun til að gefa. En hann þurfti líka að hvetja þá til að klára það sem þeir byrjuðu á. (Lestu 2. Korintubréf 8:7, 10, 11.) Reynsla Korintumanna kennir okkur að jafnvel trúir kristnir menn geta átt erfitt með að koma því í verk sem þeir hafa ákveðið að gera.

5. Hvaða spurningum fáum við svör við?

5 Við getum átt í basli með að koma því í verk sem við höfum ákveðið, rétt eins og Korintumenn. Okkur hættir stundum til að trassa hlutina vegna þess að við erum ófullkomin. Og tími og tilviljun geta gert okkur erfitt fyrir að klára það sem við höfum ákveðið að gera. (Préd. 9:11; Rómv. 7:18) Hvernig getum við skoðað ákvarðanir sem við tökum og metið hvort við þurfum að breyta þeim? Og hvernig getum við náð betri árangri í að klára það sem við byrjum á?

ÁÐUR EN ÞÚ TEKUR ÁKVÖRÐUN

6. Hvenær gætum við þurft að endurskoða ákvarðanir okkar?

6 Sumum mikilvægum ákvörðunum myndum við aldrei breyta. Til dæmis höldum við okkur við þá ákvörðun að þjóna Jehóva og við erum staðráðin í að vera maka okkar trú. (Matt. 16:24; 19:6) En við gætum þurft að endurskoða aðrar ákvarðanir vegna þess að aðstæður breytast. Hvað getur auðveldað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir?

7. Hvað ættum við að biðja Jehóva um og hvers vegna?

7 Biddu Jehóva um visku. Jehóva innblés Jakobi að skrifa: „Ef einhvern á meðal ykkar skortir visku ætti hann ekki að gefast upp á að biðja Guð um hana. Hann mun fá hana því að Guð gefur öllum af örlæti.“ (Jak. 1:5) Okkur skortir öll visku að einhverju leyti. Leitaðu því hjálpar Jehóva bæði þegar þú tekur ákvörðun og þegar þú þarft að breyta henni. Hann hjálpar þér að velja viturlega.

8. Hvað ættum við að gera áður en við tökum ákvarðanir?

8 Rannsakaðu málið vel. Leitaðu ráða í orði Guðs, lestu þér til í ritum safnaðarins og talaðu við fólk sem þú treystir að muni gefa þér góð ráð. (Orðskv. 20:18) Slík rannsókn er mjög mikilvæg áður en þú tekur ákvarðanir um að skipta um vinnu, flytjast eða hvaða menntun getur auðveldað þér að þjóna Jehóva.

9. Hvaða gagn höfum við af því að vera heiðarleg við sjálf okkur?

9 Hugsaðu um hvötina að baki. Hvöt okkar skiptir Jehóva máli. (Orðskv. 16:2) Hann vill að við séum heiðarleg í öllu. Þegar við tökum ákvarðanir viljum við því líka vera heiðarleg við sjálf okkur og aðra. Ef hvatir okkar eru ekki alveg réttar eigum við líklega erfitt með að halda okkur við það sem við höfum ákveðið. Til dæmis gæti ungur bróðir ákveðið að gerast brautryðjandi. En eftir dálítinn tíma á hann erfitt með að uppfylla tímakröfurnar og hefur litla gleði af boðuninni. Hann hugsar kannski að meginhvötin að baki því að vera brautryðjandi hafi verið löngun til að þóknast Jehóva. En getur verið að hvöt hans hafi fyrst og fremst verið að þóknast foreldrum sínum eða einhverjum sem hann lítur upp til?

10. Hvað er nauðsynlegt til að geta gert breytingar?

10 Hugsaðu þér biblíunemanda sem ákveður að hætta að reykja. Til að byrja með er það erfitt. Hann hættir að reykja í eina eða tvær vikur en lætur þá undan lönguninni. Að lokum tekst honum þó alveg að hætta. Kærleikur hans til Jehóva og löngunin til að þóknast honum hjálpaði honum að sigrast á fíkninni. – Kól. 1:10; 3:23.

11. Hvers vegna þarftu að setja þér skýr markmið?

11 Settu þér skýr markmið. Því skýrari markmið sem þú setur þér því líklegra er að þú náir þeim. Til dæmis gætirðu hafa sett þér það markmið að lesa oftar í Biblíunni. En ef þú hefur ekki ákveðna tímaáætlun er óvíst að þú náir markmiði þínu. * Eða kannski ákveða öldungar í söfnuðinum að fara í fleiri hirðisheimsóknir en hafa ekki komið því í verk að nokkrum tíma liðnum. Til að fylgja ákvörðuninni eftir gætu þeir spurt sig: Höfum við hugsað um hvaða bræður og systur hefðu sérstaklega gagn af að við heimsæktum þau? Höfum við ákveðið hvenær við ætlum að heimsækja þau?

12. Hvað gætum við þurft að gera og hvers vegna?

12 Vertu raunsær. Ekkert okkar hefur nægan tíma, kraft eða getu til að gera allt sem við myndum vilja gera. Vertu því raunsær og skynsamur. Þú gætir þurft að breyta ákvörðun sem reyndist þér um megn að koma í verk. (Préd. 3:6) En segjum að þú hafir endurskoðað ákvörðun þína, breytt henni eftir þörfum og teljir þig ráða við að hrinda henni í framkvæmd. Skoðum fimm skref sem geta auðveldað þér að klára það sem þú byrjar á.

HVERNIG GETURÐU KOMIÐ ÁKVÖRÐUNUM ÞÍNUM Í VERK?

13. Hvernig geturðu fengið nægan kraft til að gera það sem þú hefur ákveðið?

13 Biddu Jehóva um styrk til að framkvæma. Guð getur gefið þér „kraft til að gera“ það sem þú hefur ákveðið. (Fil. 2:13) Biddu Jehóva að gefa þér með heilögum anda sínum þann styrk sem þú þarft. Og haltu áfram að biðja þó að þér finnist þú ekki fá bænheyrslu strax. Jesús sagði: „Haldið áfram að biðja og ykkur verður gefið“ af heilögum anda. – Lúk. 11:9, 13.

14. Hvernig getur meginreglan í Orðskviðunum 21:5 hjálpað þér að koma ákvörðunum þínum í verk?

14 Gerðu áætlun. (Lestu Orðskviðina 21:5.) Þú þarft að hafa áætlun til að klára það sem þú byrjar á. Síðan þarftu að fylgja henni. Þegar þú tekur ákvörðun skaltu gera lista yfir hvað þarf til að koma henni í verk. Það er gott að skipta stærri verkefnum niður í smærri einingar. Þá er auðveldara að fylgjast með hvernig verkinu miðar. Páll hvatti Korintumenn til að setja eitthvað til hliðar fyrir framlag þeirra „fyrsta dag hverrar viku“ í stað þess að bíða með að safna í sjóð þangað til hann kæmi. (1. Kor. 16:2) Ef þú skiptir stærri verkefnum niður í smærri einingar eru þar að auki minni líkur á að þér fallist hendur.

15. Hvað geturðu gert þegar þú ert kominn með áætlun?

15 Að skrifa niður skýra áætlun getur auðveldað þér að koma ákvörðun þinni í verk. (1. Kor. 14:40) Til dæmis fá öldungaráð leiðbeiningar um að skipa einn öldung til að skrá niður ákvarðanir öldungaráðsins, þar á meðal hverjir eigi að sjá um verkefnin og áætlaða dagsetningu sem þeim ætti að vera lokið. Ef öldungar fylgja þessum leiðbeiningum er líklegra að þeim takist að klára það sem þeir ákveða að gera. (1. Kor. 9:26) Þú gætir prófað að gera eitthvað svipað með þínar áætlanir. Þú gætir til dæmis búið til verkefnalista fyrir dagleg verkefni og raðað þeim niður eftir því í hvaða röð þú ætlar að vinna þau. Það getur bæði hjálpað þér að klára það sem þú byrjar á og að koma meiru í verk á skemmri tíma.

16. Hvað er nauðsynlegt til að koma ákvörðun sinni í verk og hvaða hvatningu fáum við í Rómverjabréfinu 12:11?

16 Leggðu þig fram. Það kostar vinnu að fylgja áætlun og klára það sem maður byrjar á. (Lestu Rómverjabréfið 12:11.) Páll sagði Tímóteusi að ,leggja sig fram‘ og ,halda ótrauður áfram‘ að taka framförum sem kennari. Þetta ráð á eins vel við önnur andleg markmið. – 1. Tím. 4:13, 16.

17. Hvernig getur Efesusbréfið 5:15, 16 hjálpað okkur að koma því í verk sem við ákveðum að gera?

17 Notaðu tímann skynsamlega. (Lestu Efesusbréfið 5:15, 16.) Veldu tíma til að koma ákvörðun þinni í verk og haltu þig við þá áætlun. Ekki bíða eftir fullkomnum aðstæðum því að fullkomnar aðstæður koma líklega aldrei. (Préd. 11:4) Gættu þess að láta ekki það sem skiptir litlu máli taka tíma þinn og orku frá því sem er mikilvægt. (Fil. 1:10) Reyndu að taka frá tíma þegar þú hefur næði. Segðu öðrum að þú þurfir að fá að einbeita þér. Það getur verið gott að slökkva á símanum og bíða með að kíkja á tölvupóst eða samfélagsmiðla þar til síðar. *

18, 19. Hvað hjálpar okkur að gefast ekki upp á verkefni þó að við mætum hindrunum?

18 Hugsaðu um árangurinn. Árangrinum af að klára verkefni má líkja við að komast á áfangastað. Ef þú vilt ná þangað heldurðu áfram, jafnvel þó að þú komir að lokuðum vegi og þurfir að fara aðra leið. Eins gefumst við ekki auðveldlega upp þó að við mætum hindrunum ef við hugsum um árangurinn af að klára verkefnið. – Gal. 6:9.

19 Það getur verið erfitt að taka skynsamlegar ákvarðanir og áskorun að koma þeim í verk. En Jehóva getur gefið þér visku og styrk til að klára það sem þú byrjar á.

SÖNGUR 65 Sækjum fram

^ gr. 5 Sérðu eftir einhverjum ákvörðunum sem þú hefur tekið? Eða finnst þér stundum erfitt að taka skynsamlegar ákvarðanir og koma þeim í verk? Þessi grein getur hjálpað þér að takast á við slíkar áskoranir og klára það sem þú byrjar á.

^ gr. 11 Þú getur notað „Áætlun um biblíulestur“ á jw.org® til að auðvelda þér að skipuleggja biblíulestur þinn.

^ gr. 17 Sjá fleiri tillögur um hvernig hægt er að stjórna tímanum í greininni „20 leiðir til að skapa sér meiri tíma“ í Vaknið! júlí-september 2010.